Morgunblaðið - 05.08.2005, Page 31
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. ÁGÚST 2005 31
MINNINGAR
✝ Matthías Andr-ésson fæddist í
Berjaneskoti í Aust-
ur-Eyjafjallahreppi
22. ágúst 1931.
Hann lést á deild B2
á LSH í Fossvogi
fimmtudaginn 28.
júlí síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Andrés Andrésson
bóndi í Berjanesi, f.
3. ágúst 1901, d. 14.
maí 1984, og Marta
Guðjónsdóttir hús-
freyja, f. 3. ágúst
1912, d. 9. október 1993. Matthías
var elstur af níu systkinum en hin
eru Guðjón, Klara, Páll, Hilmar,
Grétar (látinn), Vigfús, Kristín
Hlíf og Katrín.
Árið 1955 kvæntist Matthías
eftirlifandi eiginkonu sinni Krist-
ínu Eggertsdóttur frá Möðruvöll-
um í Hörgárdal, f. 1. október
1936. Foreldrar hennar voru Egg-
ert Davíðsson bóndi, f. 1909, d.
1979, og Ásrún Þórhallsdóttir, f.
1914, d. 1986. Börn Matthíasar og
Kristínar eru: 1) Ásrún, f. 1956,
gift Jóni Friðriki Sigurðsyni, f.
1951. Börn þeirra eru Ari, f. 1984,
og Ásrún, f. 1986. 2) Marta, f.
1958, var gift Jóni Karli Helga-
syni, f. 1955, þau skildu. Börn
þeirra eru Kristín Helga, f. 1981,
og Matthías Karl, f. 1993. 3) Egg-
ert, f. 1964, kvæntur Nönnu Páls-
dóttur, f. 1968. Börn þeirra eru
Kristín, f. 1990, og Nanna, f. 2002.
4) Þórhallur, f. 1971, kvæntur
Elsu Maríu Davíðs-
dóttur, f. 1971. Börn
þeirra eru Elma
Jenný, f. 1998, og
Matthías Davíð, f.
2004.
Matthías lauk
gagnfræðaprófi
1952 frá Héraðs-
skólanum á Skógum
og stundaði síðan
nám við Handíða- og
myndlistaskólann í
Reykjavík þar sem
hann lauk teikni-
kennaraprófi. Hann
var tollvörður frá 1957–1998,
fyrst í Reykjavík en síðan í Hafn-
arfirði. Hann tók um tíma virkan
þátt í félagsstörfum í Tollvarða-
félaginu. Matthías stundaði út-
skurð í tré, bein og horn með sinni
aðalvinnu frá unga aldri og
kenndi útskurð víða, m.a. hjá
Heimilisiðnaðarfélaginu, Kvöld-
skóla Kópavogs, Bændaskólanum
á Hvanneyri og síðustu árin á
vinnustofu sinni í Kópavogi. Hann
tók virkan þátt í félagsstörfum
hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og
öðrum félögum áhugafólks um
handverk. Matthías var sæmdur
riddarakrossi hinnar íslensku
fálkaorðu fyrir framlag sitt til ís-
lensks handverks árið 2002. Hann
bjó síðustu fjóra áratugina í Kópa-
vogi og lengst af á Þinghólsbraut
78.
Útför Matthíasar verður gerð
frá Kópavogskirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 13.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum í trú
á að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni
veki þig með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Þakka þér samfylgdina síðastliðin
tuttugu ár. Þú hefur alla tíð reynst
mér einstaklega vel. Við gátum talað
saman um heima og geima, oft um
ættfræði og ekki síst um veiði og
veiðisögur, þá varst þú í essinu þínu.
Eftirminnilegar eru veiðiferðir fjöl-
skyldunnar, fiskinn varstu öðrum
fremur, þekktir hvern hyl í hverri á.
Það var yndislegt að sjá í þessu langa
veikindastríði þínu, hve lifnaði yfir
þér þegar við Eggert fórum að tala
um veiðiferðir, þú ljómaðir og komst
manni sífellt á óvart. Þú hafðir ótrú-
lega beittan og lúmskan húmor sem
ég kunni að meta og á eftir að minn-
ast. Þakka þér enn og aftur Matti
hversu vel þú hefur reynst mér, verið
stúlkunum mínum góður afi og viljað
allt fyrir okkur gera.
Þín tengdadóttir
Nanna.
Sólu særinn skýlir,
síðust rönd er byrgð,
hýrt á öllu hvílir
heiðrík aftankyrrð.
Ský með skrúða ljósum
skreyta vesturátt,
glitra gulli og rósum,
glampar hafið blátt.
Stillt með ströndum öllum
stafar vog og sund,
friður er á fjöllum,
friður er á grund;
heyrist fuglkvak hinsta,
hljótt er allt og rótt,
hvíl þú hug minn innsta,
himnesk sumarnótt.
(Steingrímur Thorsteinsson.)
Okkur langar til að kveðja hann afa
Matta með nokkrum orðum. Hann
reyndist okkur vel og var alltaf til
staðar fyrir okkur. Það var alltaf
ánægjulegt að vera í kringum hann.
Þótt hann talaði ekki alltaf mikið í
seinni tíð þá var hann fyndinn og hafði
gott skopskyn. Hann var alltaf mjög
hraustur og ótrúlega vinnusamur.
Hann var alltaf að og eiginlega öllum
stundum á vinnustofu sinni í Kópa-
vogi og ef hann var ekki að skera út
þá sat hann við tölvuna og var að
grúska í ættfræði. Hann var ótrúlega
flinkur við útskurðinn og reyndi líka
að kenna okkur handbragðið en það
gekk nú svona og svona. Það er ekki
öllum gefið að skera út eins og afi
Matti gerði. Hann var líka ótrúlega
fiskinn og þær voru ófáar veiðiferð-
irnar þar sem enginn nema afi veiddi.
Einu sinni var fjölskyldan í sinni ár-
legu veiðiferð í Víðidalsá. Við börðum
ána allan daginn en enginn varð var.
Afi Matti hvarf snemma dags og eng-
inn vissi hvert hann fór, en þegar leið
að kvöldi kom hann labbandi með sex
væna silunga í kippu á öxlinni. Sumir
urðu grænir af öfund og uppástóðu að
hann hefði komið við á næsta bæ.
Frá því að Ari var 5 ára fóru þeir
árlega saman í skötuveislu á Gaflinum
á Þorláksmessu þar sem þeir snæddu
kæsta skötu af bestu lyst og var síð-
asta ferðin farin síðustu Þorláks-
messu. Amma Kristín bauð Ásrúnu
og hinum barnabörnunum upp á nú-
tímalegri veitingar í höfuðstaðnum í
stað skötunnar.
Við söknum afa Matta en eigum
ótal góðar minningar um hann sem
munu lifa um ókomna tíð.
Ari og Ásrún.
Góðar minningar verma hjartað. Á
kveðjustund leitar hugurinn til baka,
efst í huga er þakklæti. Minningar um
mág minn, Matthías Andrésson, ein-
kennast af þeirri hlýju, væntumþykju
og vináttu sem hann sýndi mér alla tíð
og fjölskylda mín síðar fékk notið í
ríkum mæli. Mér er sérstaklega hug-
leikin sú ræktarsemi og umhyggja
sem hann og Kristín systir sýndu
okkur öll árin sem við bjuggum vest-
anhafs. Á þessum árum var ekki sjálf-
gefið að taka upp símtólið og hringja
og tölvupóstur var óþekkt fyrirbæri.
Alltaf hringdi Matti reglulega og hélt
uppi fréttaflutningi af fjölskyldunni
og þjóðmálum og til að fullvissa sig
um að allt væri í lagi hjá okkur.
Matti var einn þeirra manna sem
sinnti störfum sínum, bæði skyldu-
störfum og áhugamálum, af alúð og
vandvirkni. Hann starfaði lengst af
sem tollvörður en átti sér margvísleg
áhugamál, flest tengd þjóðlegum
fróðleik, handverki og ættfræði. Út-
skurður var hans listgrein. Þar þróaði
hann sinn persónulega stíl sem
byggði á rannsóknum hans á fornum
munum, rúnum og höfðaletri. Flestar
frístundir notaði hann til að skera út
margs konar gripi, bæði stóra og
smáa, og hélt því áfram eins lengi og
kraftar leyfðu. Verk hans bera vitni
hagleik og listfengi. Minningin lifir í
verkum hans.
Sálin fleyg og höndin hög
hlýða sama dómi.
Eilíf ráða listar lög
litum, svip og hljómi.
Jafnt í hnífs og meitils mynd,
máli, söng og kvæði:
ívaf stíls á efnis grind
yfir hugar þræði.
Með þessum orðum Einars Bene-
diktssonar kveð ég mág minn, þennan
mikla hagleiksmann, og þakka honum
samfylgdina og ljúfar samverustund-
ir.
Þórhalla Eggertsdóttir.
Fyrir um það bil 10 árum var ég svo
heppinn að kynnast Matthíasi Andr-
éssyni útskurðarmanni og hef síðan
verið í tímum hjá honum, með nokkr-
um hléum þó.
Matthías var góður og hjálpsamur
við nemendur sína, hann var hug-
myndaríkur, fjölhæfur og afkasta-
mikill. Það var heldur engin logn-
molla í tímunum, mikið skrafað,
sagðar sögur og stundum lesið eitt-
hvað skemmtilegt eða fræðandi og
voru það þá líka nemendur sem lásu.
Matthías var greindur vel og haf-
sjór af fróðleik, t.d. held ég að það sé
ekki til sú ætt á landinu sem hann
vissi ekki deili á. Þegar konan mín
kom í heimsókn á verkstæðið náðu
þau vel saman að tala um ættir.
Eftir hann liggja mörg verk í
kirkjum landsins, t.d. skírnarfontar.
Hann hafði mikið dálæti á öllu sem ís-
lenskt er í verkum sínum og hann
vildi að íslenska höfðaletrið væri
meira notað í útskurðarverkum.
Hann var sæmdur riddarakrossi
hinnar ísl. fálkaorðu fyrir handverk
sitt.
Fyrir tveimur árum var ég að vinna
stórt verk hjá Matthíasi og var næst-
um daglega á Kársnesbrautinni. Við
vorum oft bara tveir og það mynd-
aðist með okkur einlæg vinátta og
traust. Við töluðum oft um að gaman
væri að gera útskurðarverk um
Njálsbrennu. – En það verða ekki all-
ir draumar að veruleika. – Ég sakna
þess sárt að geta ekki oftar sótt tíma
hjá mínum góða vini.
Við hjónin vottum Kristínu og
börnum þeirra innilega samúð.
Við minnumst góðs drengs með
þakklæti fyrir samfylgdina og biðjum
honum blessunar á nýjum leiðum.
Bent Bjarni Jörgensen.
Þá fann ég, hvað jörðin er fögur og mild
þá fann ég, að sólin er moldinni skyld,
fannst guð hafa letrað sín lög og sinn dóm
með logandi geislum á strá og blóm.
Allt bergði af loftsins blikandi skál.
Allt blessaði lífið af hjarta og sál.
Jafnvel moldin fékk mál.
(Davíð Stefánsson.)
Það var ekki mikið umleikis í að-
keyptum eða fjöldaframleiddum af-
þreyingarmálum unglinga, svona
hvunndags, á heimilum í lágreistum
sveitabæjunum undir Eyjafjöllum á
dimmum þorradögum veturinn 1950.
Þetta var á þeim árum sem eftir-
stríðsskömmtunum var að ljúka, hætt
að brenna og mala hænsnabygg sam-
an við kaffið, exportið að hverfa og
sykurinn ekki lengur skammtaður.
Epli og appelsínur voru þó aðeins fá-
anleg um jólin. Skólinn var sóttur
aðra hvora viku í baðstofunni á einum
bænum og stóð lungann úr deginum,
en lesið var heima hina vikuna. Sagan
af honum Hjalta litla var helsta af-
þreyingin þegar nóg var á batteríum
útvarpsins og barnatími einu sinni í
viku, á sunnudagskvöldum.
Ævintýrið var þó handan Drangs-
hlíðarhnjúks. Skógaskóli hóf starf-
semi sína haustið 1949. Í dag geta fá-
ir, sem ekki þekkja til fyrri tíðar, gert
sér í hugalund hvaða hlutverki hér-
aðsskólarnir gegndu á þessum árum í
fábreyttu félags- og menningalífi ná-
lægra sveita. Mér er það minnistætt,
eins og það hafi gerst í gær, þegar
Berjanesjeppinn rann í hlað á bænum
mínum einn dag um dimmumótin og
úr honum snaraðist Matthías Andr-
ésson. Ég var með fjárhúsmeisinn á
bakinu, 12 ára peyi í stuttbuxum og
prjónuðum hásokkum með sokka-
bönd og að sjálfsögðu í heimalímdum
gúmmískóm. Matthías, sem var 6 ár-
um eldri en ég, vatt sér glerfínn í
skólaklæðnaði sínum að mér og sagði.
„Siggi, ég býð þér á árshátíðina hjá
okkur í Skógum og sæki þig“. Ekkert
meira um það, svo ók hann úr hlaði.
Æðsti draumur minn hafði ræst og
svo hratt hljóp ég heim í bæ að ég
sleit bæði sokkaböndin í ákafanum við
að boða tíðindin. Svona var Matthías
Andrésson. Hann sinnti þeim af hlýju
og velvild sem hann gerði að vinum
sínum. Matthías var gæddur ríku
skopskyni og var frábær sögumaður.
Hann var fyrirmynd okkar hinna
yngri sökum dugnaðar og reglusemi.
Leiðir okkar lágu oft saman eftir
þetta. Matthías nam við Myndlista-
skólann í Reykjavík og til hans lá leið
mín ævinlega ef til stóð að gleðja vini
á stórafmælum með útskornum aski
eða gestabók. Hann sinnti listsköpun
sinni og kennslu í útskurðarlist af
mikilli elju eftir að hann lét af störfum
vegna aldurs sem fulltrúi Tollstjóra-
embættisins. Það var mér mikið
ánægjuefni þegar hann svo sannar-
lega verðugur var sæmdur heiðurs-
merki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir
störf sín í þágu útskurðarlistarinnar.
Ég er þakklátur fyrir að hafa átt hann
að vini gegnum árin og að hafa átt
þess kost að kynnast frábærri fjöl-
skyldu hans, sem ég votta mína
dýpstu samúð.
Sigurður Óskarsson.
Skein yfir landi sól á sumarvegi,
og silfurbláan Eyjafjallatind.
(Jónas Hallgrímsson.)
Það var Matthíasi líkt að kjósa sér
slíkan árstíma til sinnar hinstu farar,
því rík var ást hans á átthagaslóðum,
þar sem Oddaverjar bjuggu til forna.
Og djúpur var skilningur hans á hug-
arrenningum Gunnars á Hlíðarenda
er hann háði sína innri baráttu og
hvarf til heimaslóða og hopaði hvergi.
Matthías barðist við erfiðan sjúkdóm
sem þjáði hann, hann vann að list-
grein sinni útskurðinum þó að hann
væri sárveikur. Hans trúfasta eigin-
kona vék ekki frá honum í hans þungu
raun.
Við hjónin áttum margar ánægju-
stundir með Kristínu og Matta. Þau
buðu okkur oft í sumarbústað sinn við
Þingvallavatn og þá kepptum við
Matti um hvort okkar kynni Gunn-
arshólma betur, það var hin besta
skemmtun. Einnig er ógleymanlegt
ferðalagið sem við fórum með þeim
um Rangárvelli, þar hann þekkti
hvern bæ og sögustað, þar var hann á
heimavelli á söguslóðum Njálu.
Vinátta þeirra hjóna hefur verið
okkur ómetanleg. Við vottum Krist-
ínu, börnum þeirra og öðrum syrgj-
endum okkar innilegustu samúð.
Stefanía og Sverrir.
Matthías Andrésson vinur okkar er
horfinn af sjónarsviðinu, en minning-
arnar um hann geymum við í hjart-
anu og gleðjumst yfir því að hafa átt
svo góðan vin í hartnær fjóra áratugi.
Vinátta er eins og gönguleið sem
verður að feta til þess að hún grói ekki
upp og týnist. Stígurinn milli okkar
hefur aldrei týnst og með árunum
dýpkað og orðið ennþá fjölfarnari eft-
ir því sem fjölskyldurnar okkar
stækkuðu. Þær stækkuðu hvor í sínu
lagi og áður en við vissum áttum við
stórfjölskyldu þar sem allt hefur sinn
tíma: fæðingar, skírnir, fermingar,
giftingar og jarðarfarir. Sorg og gleði
skiptast á í lífinu.
Vinur okkar, Matthías Andrésson,
var afkastamikill og dverghagur lista-
maður á sviði útskurðar, auk sinnar
föstu vinnu sem tollvörður. Allur efni-
viður lifnaði og lék í höndum hans,
horn, bein, tré, enda prýða verk hans
fjölmörg heimili og getur að líta í op-
inberum byggingum, s.s. húsi Hæsta-
réttar. Húsið sem Matthías byggði yf-
ir fjölskyldu sína að Þinghólsbraut 78
í Kópavogi ber smekk hans og vand-
virkni gott vitni. Hann var sannkall-
aður þúsundþjalasmiður.
Þessi hægláti vinur fór sínar eigin
leiðir og var ekki alltaf sammála öllu
samferðafólki um alla hluti. Hann
stóð fast á sínu og hafði gaman af að
takast á um málefni sem voru honum
hugleikin. Hann var traustur og
trygglyndur. Matthías kunni líka að
lesa á bók náttúrunnar. Hann var
veiðimaður góður og ákaflega fiskinn.
Ættfræði var áhugamál og einnig var
hann góður ljósmyndari og mjög
drátthagur. Hugur hans á unga aldri
stóð til þess að verða myndlistarmað-
ur, en systkinahópurinn var stór og
ekki efni til að kosta hann til náms.
Síðustu æviárin gat hann þó helgað
sig myndlistinni og stundaði útskurð
og sló hvergi af kröfum þótt hann
berðist einnig við erfiðan sjúkdóm.
Viljastyrkurinn var mikill og hann fór
daglega á vinnustofu sína til að skera
út og sinna öðrum hugðarefnum sín-
um, auk þess sem hann vildi deila
kunnáttu sinni með öðrum og kenndi
fjölmennum hópum hina fornu tré-
skurðarlist.
Kæri vinur, við þökkum þér sam-
fylgdina. Vertu kært kvaddur.
Þar sem góðir menn ganga eru
Guðs vegir.
Sólveig Eggertsdóttir,
Þráinn Bertelsson.
Mig langar í örfáum orðum að
minnast Matthíasar Andréssonar eða
Matta eins og ég þekkti hann.
Nú fæ ég samviskubit að hafa ekki
drifið mig til Kristínar og Matta, var
alltaf á leiðinni en alltaf svo mikið að
gera, afsökun sem virkar eitthvað svo
fátækleg núna þegar það er orðið of
seint að hitta þennan öðlings mann
sem reyndist mér svo vel þegar ég var
í daglegum samskiptum við hann og
þessa yndislegu fjölskyldu sem bjó á
Þinghólsbrautinni.
Margt kemur upp í hugann og
margar skemmtilegar minningar sem
hægt væri að minnast á eins og þegar
Matti hrósaði okkur Eggerti fyrir
eldamennsku þó svo að við höfðum al-
gjörlega klúðrað fiskinum sem við
áttum að steikja eða þegar ég litaði
allar nærbuxurnar hans bleikar
Kristínu til mikillar armæðu en Matti
brosti bara og sagði að þær væru sér-
deilis fínar svona bleikar. Matti stóð
mér líka við hlið í þeim erfiðleikum
sem ég þurfti að takast á við, þá ung-
lingur, og var ásamt Kristínu boðinn
og búinn að rétta hjálparhönd hvort
sem var á nóttu sem degi. Hann var
mér sem besti faðir á tímabili í lífi
mínu þegar ég þurfti á honum að
halda.
Elsku Matti, takk fyrir allt það
góða sem þú hefur gert fyrir mig og
mína, takk fyrir allar góðu minning-
arnar og að hafa hjálpað mér til
þroska. Þú varst einstakur maður og
mun ég alltaf hugsa til þín með mikl-
um hlýhug. Kristínu, Ásu, Mörtu,
Eggerti, Þórhalli og fjölskyldum
þeirra, sendi ég samúðarkveðjur og
megi Guð vera með ykkur á þessari
sorgarstund.
Kristín Ásgeirsdóttir (Tiddý).
MATTHÍAS
ANDRÉSSON
Morgunblaðið birtir minningargreinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is
(smellt á reitinn Morgunblaðið í fliparöndinni – þá birtist valkosturinn „Senda
inn minningar/afmæli“ ásamt frekari upplýsingum).
Skilafrestur Ef birta á minningargrein á útfarardegi verður hún að berast fyrir
hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða
þriðjudegi). Ef útför hefur farið fram eða grein berst ekki innan tiltekins skila-
frests er ekki unnt að lofa ákveðnum birtingardegi. Þar sem pláss er takmarkað
getur birting dregist, enda þótt grein berist áður en skilafrestur rennur út.
Lengd Minningargreinar séu ekki lengri en 2.000 slög (stafir með bilum - mælt í
Tools/Word Count).
Formáli Minningargreinum fylgir formáli, sem nánustu aðstandendur senda
inn. Þar koma fram upplýsingar um hvar og hvenær sá, sem fjallað er um, fædd-
ist, hvar og hvenær hann lést, um foreldra hans, systkini, maka og börn og hvað-
an útförin fer fram og klukkan hvað athöfnin hefst.
Myndir Ef mynd hefur birst í tilkynningu er hún sjálfkrafa notuð með minning-
argrein nema beðið sé um annað. Ef nota á nýja mynd er ráðlegt að senda hana
á myndamóttöku: pix@mbl.is og láta umsjónarmenn minningargreina vita.
Minningargreinar