Morgunblaðið - 30.10.2005, Síða 16
16 SUNNUDAGUR 30. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
Kaflinn sem hér er fyrst gripið niður í
fjallar um hugarró, enda rósemd hjartans
nokkuð sem hamingjusamur maður leitar
eftir. Á eftir fylgja m.a. kaflar um þakklæti
og hamingju.
Hugarró
Hamingja er sennilega það besta í lífinu
og samkvæmt því þarf að leggja þónokkuð á
sig til að öðlast hana. Nokkrir þættir ein-
kenna hamingjuna, meðal annars kúnstin að
kunna að gefa og þiggja. Gjöf sem færir
gæfu og þakklæti sem veitir gleði eru meðal
leyndardóma lífsins og hafa áhrif sem oft
eru vanmetin. Í mannlegum samskiptum
hefur náðin ekki heldur notið fullrar athygli
í leit mannsins að hamingju og er hún þó
heillavænleg. En hvað skiptir máli þegar
farsæld er markmið? Hamingjusamur mað-
ur tekur fullan þátt í lífinu, hann leggur
rækt við vináttuna og leitar rósemdar hjart-
ans. Hamingjuna getur hann þó fundið á
öðrum stöðum en oftast er bent á. Aðal-
atriðið er að gefast ekki upp heldur halda
áfram að leita hamingjunnar. Fullyrða má
að sá sem mótar hugsun sína í samræmi við
kraft lífsins og setur sér markmið safni í
hamingjusarpinn.
Þakklæti
Manneskjan hefur allt að þakka og skort-
ir aldrei þakkarefnin. Þau eru alltumlykj-
andi og ef til vill flest ósýnileg eða of hvers-
dagsleg til að tekið sé eftir þeim. Þakklæti
er afar mikilvægt í mannlegum samskiptum
og felur í sér jákvæðan hug gagnvart þægi-
legum og vel þegnum gjöfum. Allt sem þarf
er að segja orðin „takk fyrir“, það er að
minnsta kosti ágæt byrjun.
Það er gæfulegt að finna til þakklætis
fyrir það sem við höfum, heppni okkar og
góðsemi annarra, og kunna að þakka. Þakk-
læti beinist að þeim sem gefur en gjöfin
getur verið hvaðeina: fé, vináttuvottur, sam-
úð, orð, aðstoð, samvera, virðing og svo ótal
margt annað.
Þakklæti er innri upplifun og ytri tjáning.
Innra þakklæti lýtur að því sem við erum,
eigum, höfum og því sem við verðum ekki
fyrir. Þetta felst í því að kunna að bera
kennsl á það sem virðist sjálfsagt og læra
að meta það mikils: lífið, heilsuna, æskuna,
ellina, frelsið, makann, börnin og vinnuna –
jafnvel heita vatnið. Þakklæti er nefnilega
nátengt hamingjunni. Sá sem kemur auga á
gildi þess sem hann hefur nú þegar kemst
ekki hjá því að nema hamingjuna og þakka
lífið. Ytra þakklæti lýtur hins vegar að því
sem aðrir láta okkur í té. Hér er um að
ræða viðleitni annarra til að uppfylla það
sem okkur skortir. Þetta eru gjafir af til-
teknu magni og gerð, greiðar, þjónusta, við-
urkenningar, góð orð, samúð og leiðsögn,
svo fátt eitt sé talið.
Þakklæti öðlast aukið gildi þegar það er
sýnt. Við getum tjáð þökk okkar, flutt hana
eða fært þeim sem hefur sýnt vildarhug
sinn í anda eða verki, þeim sem gerir greiða
af fúsum og frjálsum vilja. Þakklæti hefur
nefnilega ekki gildi nema það sé flutt af
heilum hug, ástsamlega og hjartanlega.
Okkur þarf að finnast til um það sem gefið
er og við þurfum að láta það í ljós – líta gef-
andann að minnsta kosti þakkarauga.
Þakklæti má samt sýna í einrúmi því að
við getum þakkað ýmislegt sem dynur ekki
á okkur. Það má hrósa happi og fyllast
fögnuði yfir að sleppa vel frá einhverju.
Slíkt þakklæti beinist oft að æðri mátt-
arvöldum. Það er þá tengt lánsemi eða fögn-
uði yfir að hafa til dæmis ekki slasast eða
að heilsan skuli enn vera ágæt þrátt fyrir
allt.
Því miður hafa ekki allir lært að þakka.
Sumum finnst svo eðlilegt að hafa það sem
þeir búa við og að þiggja af öðrum að það
hvarflar ekki að þeim að þakka. Þeir finna
hvorki til innra þakklætis né færa öðrum
þakkir fyrir góðviljann. Það er líka mjög
ólíklegt að þeir geti fundið til hamingju. At-
hugasemd heimspekingsins Schopenhauers
á við um þetta fólk og eftirfarandi yfirsjón
manna: „Við komum ekki auga á það besta í
lífinu, heilsuna, fyrr en við erum orðin
heilsulaus, æskuna fyrr en á gamals aldri og
frelsið fyrr en í ánauð.“
Sumum er tamara að gefa en að þiggja.
Það veitir þeim gleði að gefa þeim sem
skortir og taka við þakklætisorðum en þeir
kunna ekki sjálfir að þiggja vegna þess að
þeir hafa aldrei lært það. Þeir vilja fremur
líða skort en þiggja aðstoð, og leyfa ekki
öðrum að hjálpa sér en með því eru þeir í
raun að svipta aðra ánægjunni sem fylgir
því að veita aðstoð og gefa. Þetta er óþarft
stolt og jafnvel eigingirni sem hefur haml-
andi áhrif á hamingjusamt líferni.
Aðrir kunna einungis að þiggja en ekki að
gefa. Þeir taka við og eru ánægðir með
náungakærleik annarra en koma ekki auga
á skort samborgara sinna sem þeir gætu
hjálpað til við að bæta úr. Ef þeir geta ekki
veitt öðrum hamingju þá verður líf þeirra
sjálfra snauðara því fáir hugsa til þeirra.
Þökkin geymir leyndardóm ekki síður en
gjöfin og í henni felst máttur. Þakklætið
veitir gleði þeim sem finnur til þess og þeim
sem þiggur það. Þakklætið fullgerir verkið
með þeirri gleði sem það kallar fram. Ekk-
ert er þó sjálfgefið í lífinu; enginn dagur,
engin vegsemd, enginn dauði. Til eru menn
sem þakka allt, bæði það sem þeir fá og það
sem þeir missa, jafnt gæfu sem ógæfu. Þeir
þakka fyrir að hafa fengið að eiga það áður
en þeir misstu það og þeir þakka jafnvel
kvölina því hún veitti þeim innsýn og dýpk-
aði lífsskilning þeirra og gerði þá auðmjúka.
Krafan er andstæða þakkarinnar: krafan
um að fá, krafan um að aðrir geri þetta eða
hitt. Krafan um að njóta virðingar, krafan
um hvernig aðrir eigi að vera og hvernig til-
finningar þeir eigi að sýna. Krafan sundrar
samböndum og fjölskyldum. Þakklætið er
aftur á móti eftirsóknarvert, jafnvel ham-
ingjan er háð þakklætinu, því sá sem kann
að þakka fyrir það sem hann hefur, fyrir
það sem aðrir gefa honum og fyrir lánsemi
sína í lífinu, er líklegur til að skynja gæfu
sína. Þakklæti má læra og rækta; að þakka
lífið eða að minnsta kosti allt það góða sem
það hefur upp á að bjóða.
Hamingja
Allir stefna leynt eða ljóst að hamingju,
en hvernig nálgumst við hamingjuna? Ham-
ingjan krefst ekki framandi ævintýra, hún
getur falist í venjulegu lífi. Hún getur falist
í góðu heimili og glaðri fjölskyldu. Ástin er
hluti hamingjunnar, maki og börn ef þau
gefast. Vinir eru nauðsynlegur hluti af ham-
ingju sérhvers manns, og vinnan! Starfið er
mjög mikilvægt og við ættum að starfa við
það sem við sinnum af alúð en ekki við það
sem okkur leiðist eða við höfum ekki metn-
að til að vinna vel. Starfið má þó ekki loka
fólk inni í fílabeinsturnum, manninum er
nauðsynlegt að geta slitið sig frá vinnunni
og lyft sér upp á góðum stundum.
Hamingjan er meira en hugarástand, hún
er spunnin úr mörgum þáttum tilverunnar
og tengd innri þáttum, eins og viðhorfi, og
ytri þáttum eins og stöðu. Hinn hamingju-
sami er ekki óhamingjusamur fyrir hádegi
og hamingjusamur eftir hádegi en hann get-
ur á hinn bóginn orðið óánægður um stund-
arsakir. Ef hamingjan er langtímaverkefni
þá geta börn ekki beinlínis verið ham-
ingjusöm, þau geta miklu frekar verið
ánægð eða óánægð. Þau geta verið ánægð
klukkan þrjú og óánægð klukkan fjögur.
Hamingjan kemur með árunum.
Líkja má hamingjunni við „spik“ sálar-
innar í jákvæðri merkingu þess orðs. Lík-
amlegu spiki þarf að eyða en andlegu
„spiki“ að safna. Segja má að sálin geti orð-
ið feit af heillavænlegri hegðun eða hugsun.
Hver einstaklingur getur með tímanum
safnað þokkalegum forða sem hann tapar
ekki á einum degi. Alveg eins og feitlaginn
maður yrði hann lengi að grenna sig. Þessu
„spiki“ sálarinnar þarf að safna með því að
leggja rækt við tilfinningar sínar, tileinka
sér farsæl viðhorf og ígrunda ákvarðanir
sínar. Hamingjuspik sálarinnar er vörn og
forði þess sem verður ekki auðveldlega
óhamingjusamur. Hann verður dapur um
stundarsakir, leiður og óánægður, en hann
ætti að standa áfram í fæturna. Sál hans
tapar þá spiki en verður ekki berskjölduð.
Líkja má hamingjunni við ham því hún er
ekki óviss tilfinning sem kemur og fer, held-
ur er hún hamur sem fólk íklæðist. Ham-
ingja er í fornnorrænni merkingu hamur
eða himna sem umlykur manneskju til
heilla. Hamstola eða hamslaus maður hefur
á hinn bóginn verið rændur ham sínum,
hann er án verndar.
Verkefni lífsins er því að öðlast andlega
himnu til að vernda sálina og styrkja og það
er verkefni sem sérhver persóna þarf að
leysa uppá eigin spýtur. Mannleg hamingja
felst ekki í því að draga sig út úr mannlífinu
á einhvern hátt heldur því að lifa hvers-
dagslífinu á sjálfstæðan hátt.
„Ranglátt líferni getur aldrei orðið mönn-
um til framdráttar,“ sagði Sókrates og átti
við að ekki liggi allar leiðir til hamingj-
unnar. Vegur hamingjunnar er hins vegar
langur og felst hann að minnsta kosti í því
að leggja stund á dyggðir og rækta tilfinn-
ingar sínar, auk þess að efla skynsemina. Sá
sem gerir þetta þarf ekkert að fela. Sá sem
byggir líf sitt á svikum getur aðeins öðlast
stundargleði því þótt hann verði ríkur og
valdamikill þarf hann að lifa á lygum og
blekkingum og getur alltaf átt von á því að
verða ber að svikum, afhjúpaður og steypt
af stóli. Staðreyndin er sú að gull gerir
menn ekki göfuga og glæpaverk hefja þá
ekki til sæmdar. Orðið hamingja er senni-
lega ofnotað í daglegu tali því sú stemmning
sem stundum er kölluð hamingja getur horf-
ið eins og dögg fyrir sólu. Hamingja er
fremur fólgin í farsæld eða því að byggja
upp fullnægjandi líf.
Vinna þarf fyrir hamingjunni og það
verða ekki allir hamingjusamir, ekki þeir
sem stefna í aðrar áttir. Menn eru einnig
misjafnlega heppnir og óheppnir og tilvilj-
anir mannlífsins setja oft strik í reikninginn.
Aðalatriðið er að lifa í samræmi við lífið,
það sem veitir vöxt og viðgang. Hamingju
fylgir rósemd hjartans og hún er nátengd
gleðinni sem sprettur af verkunum. Hún er
safn markmiða sem hefur verið náð, og ekki
náð, því við erum líka það sem við glötum.
Hamingjan felst einnig í viðhorfi okkar til
lífsins. Viðhorf manna ræður líðan þeirra.
Ef ótti eða hatur taka sér bólfestu í huga
manns þá líður honum illa. Breyti hann við-
horfi sínu þá getur honum liðið betur. Mót-
byr er ekki skelfilegur nema í huga manns,
hann getur verið ögrandi verkefni. „Skelfi-
leg er einungis sú skoðun að dauðinn sé
skelfilegur,“ sagði stóuspekingurinn
Epiktetus forðum. Hamingjusamur maður
hefur lært að hann getur að einhverju leyti
stjórnað líðan sinni með því viðhorfi sem
hann tileinkar sér gagnvart hlutunum.
Hámark hamingjunnar getur falist í því
að sitja í ruggustól og líta í rólegheitum yfir
farinn veg. Sálin er þá orðin þétt eins og
selur og hann er íklæddur þeim ham sem
hann hefur valið sér. Hamingjusamur mað-
ur getur einnig staðið á tindi eigin lífs og
notið útsýnisins. Manneskjan sér líf sitt sem
sögu og flestar sögur hafa söguþráð, upp-
haf, miðju og endi. Þannig skilur mann-
eskjan tilgang eigin lífs því hana grunar
hvernig saga lífs hennar endar og fullnægð
lifir hún ævilokin.
Hamingjan er ekki annars staðar. Hún er
spunnin úr aðstæðum sérhvers manns og
kjarki hans til að taka ákvarðanir um líf
sitt. Hamingjan fæst með því að öðlast
þekkingu á möguleikum og næmi á þá, setja
sér höndlanleg markmið og ná árangri.
Mannkostir og tilfinningar
Bókarkafli Í Gæfusporum fjallar Gunnar Hersveinn um mannkosti og tilfinningar, stríð og frið og hamingju og rósemd af hugkvæmni og varpar oft
óvæntu ljósi á rótgróin hugtök. Markmið bókarinnar er m.a. að sýna hve mikilvægt er að rækta tilfinningar sínar, það sé forsenda fyrir velferð hverrar
persónu og árangri í lífi og starfi. Fjallað er á skýran hátt um tæplega 50 hugtök sem brenna á fólki á lífsleiðinni. Tilfinningar eins og ást, einmana-
kennd, afbrýðisemi, þakklæti og fyrirgefning. Dyggðir eins og hugrekki, virðing, sjálfsagi og heiðarleiki. Lesti eins og hroki, leti og þrjóska.
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
„Allir stefna leynt eða ljóst að hamingju, en hvernig nálgumst við hamingjuna? Hamingjan krefst ekki
framandi ævintýra, hún getur falist í venjulegu lífi,“ segir m.a. í nýútkominni bók Gunnars Hersveins.
Gæfuspor – gildin í lífinu eftir Gunnar Hersvein er
176 bls. og kemur út hjá JPV-útgáfu.