Morgunblaðið - 05.12.2005, Qupperneq 15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. DESEMBER 2005 15
ERLENT
tekið þátt í viðbjóðnum, kaupum á
börnunum og upptökum á klámmynd-
böndum, allt frá bakaranum og leigu-
bílstjóranum til prestsins í hverfinu.
Alls voru 70 einstaklingar nefndir á
listum barnanna og 17 börn úr hverf-
inu á aldrinum 4-12 ára. Svo mikið var
umfang málsins, að haft var eftir lög-
reglustjóranum Xavier Masson, að
ákveðið kerfi hefði verið sett upp „þar
sem þeir skyldu kærðir, sem væru að
minnsta kosti nefndir af einum full-
orðnum og þremur börnum því ann-
ars væri hæglega hægt að kæra helm-
ing Outreau-hverfisins“. Að lokum
voru 17 einstaklingar færðir í gæslu-
varðhald.
Outreau-málið vakti að vonum
mikla athygli og þess var krafist, að
allt yrði gert til að koma lögum yfir
hina seku. Það var svo ekki fyrr en á
síðasta ári, þegar byrjað var að dæma
í málinu, sem aðalsakborningarnir
fjórir, foreldrar Delay-barnanna og
nágrannahjónin, fóru að draga ásak-
anir sínar á hendur nágrönnunum 13
til baka. Málið var þó flókið vegna
þess, að játningar lágu fyrir hjá sum-
um þessara 13 manna, sem einnig
tóku þátt í að sakfella aðra innan
„hringsins“. Einnig kváðust börn utan
Delay-fjölskyldunnar hafa verið mis-
notuð. Nú er vitað, að margar þessara
ásakana voru upplognar og jafnvel
hugsanlega þvingaðar fram. Daniel
Legrand, einn sakborninganna, sem
voru sýknaðir síðastliðinn fimmtudag,
sagðist meira að segja hafa orðið vitni
að því er ungri, belgískri stúlku var
nauðgað og hún barin til dauða í íbúð
Delay-hjónanna. Hefði hún síðan ver-
ið grafin í garðinum. Legrand sagði
seinna, að hann hefði logið þessu til að
sýna fram á fáránleika málsins. „Ég
hélt, að kæmi ég með eitthvað fáran-
lega ótrúlegt, myndi kannski einhver
endurskoða allar þessar ásakanir.“
Þótt engar haldbærar sannanir
lægju fyrir, voru 10 sakborninganna
dæmdir fyrir að hafa misnotað sín eig-
in börn og annarra. Voru dómarnir
byggðir á vitnisburði barnanna,
Delay-hjónanna og nágrannahjóna
þeirra. Sjö sakborninganna voru þó
sýknaðir.
Þegar málið var svo tekið upp að
nýju í nóvember 2005, kom í ljós, að
það, sem talið var vera einn óhugnan-
legasti barnaklámshringur franskrar
sögu, var sorglegur og alltof algengur
fjölskylduharmleikur, sem tekið var á
af óvenjulegri hörku og trúgirni af
dómsyfirvöldum. Rannsóknardómar-
inn Fabrice Burgaud, sem fór upp-
haflega með málið, þótti hafa beitt sér
fyrir sakfellingu af mikilli hörku og
jafnvel hunsað sönnunargögn.
Outreau-málið er einstakt og ekk-
ert dómsmál eftir síðari heimsstyrjöld
hefur vakið jafnmikla umræðu um
franskt réttarkerfi. Í fyrsta skipti
hvatti ákæruvaldið til sýknudóms yfir
ákærðu og Yves Blot ríkissaksóknari
baðst afsökunar á fyrri dómnum fyrir
hönd réttarins. Pascal Clément dóms-
málaráðherra hét ítarlegri rannsókn á
réttarkerfinu og lofaði fjárhagslegum
skaðabótum til þeirra sýknuðu. Jafn-
vel forsætisráðherra Frakklands,
Dominique de Villepin, sagðist miður
sín vegna málsins og viðurkenndi
„réttarfarslegt klúður“. Þrátt fyrir
lofaðar breytingar og skaðabætur
munu þau sýknuðu seint bíða þess
bætur að hafa verið í varðhaldi í
marga mánuði, jafnvel nokkur ár.
Málið hefur sundrað fjölskyldum,
börn hafa verið sett í fóstur og flest
hjónanna skilið. Einn mannanna
stytti sér aldur í gæsluvarðhaldi. Sak-
borningarnir fjórir, sem eftir eru,
hafa hins vegar játað sig seka um
nauðganir og misnotkun á Delay-
börnunum og voru dæmdir í 4-20 ára
fangelsi.
OUTREAU-málið svokallaða, þar
sem 17 einstaklingar úr sama hverfi
voru ákærðir fyrir grófa kynferðis-
lega misnotkun á jafnmörgum börn-
um, er talið eitt stærsta og flóknasta
mál sinnar tegundar og hefur tekið
óvænta stefnu í franska dómskerfinu.
Það, sem leit út fyrir að vera eitt
óhugnanlegasta barnaníðingsmál
franskrar sögu, reyndist vera byggt á
ófullnægjandi sönnunargögnum og
hefur hver vitnisburðurinn á fætur
öðrum verið hrakinn. Nú hafa 13 ein-
staklingar af 17 verið sýknaðir, sumir
eftir að hafa verið rúm 3 ár í varðhaldi.
Í kjölfar sýknudómsins hafa há-
værar raddir heyrst um galla franska
réttarkerfisins og keppast nú hátt-
settir embættismenn við að biðja sak-
borningana fyrrverandi afsökunar og
lofa endurbótun á réttarkerfinu.
Skuggi Dutroux-málsins
Málið hófst fyrir fimm árum þegar
fjögur systkini í bænum Outreau í
Pas-de-Calais-héraði í Norður-
Frakklandi sýndu alvarleg ummerki
kynferðislegrar misnotkunar og síðan
kom í ljós, að þau höfðu verið misnot-
uð á fimm ára tímabili af báðum for-
eldrum sínum, Thierry og Myriam
Delay, en einnig af nágrannahjónum
þeirra, David Delplanque og Aurelie
Grenon. Á þessum tíma var mál belg-
íska barnaníðingsins Mark Dutroux
ofarlega á baugi í fjölmiðlum og því
voru ásakanir barnanna teknar mjög
alvarlega. Enginn vildi endurtaka
mistökin, sem einkenndu belgíska
málið, en það tók mörg ár að klófesta
afbrotamennina vegna getuleysis lög-
reglunnar. Nokkrar stúlkur létu lífið
en þeim hefði mátt bjarga, hefði
Dutroux verið handtekinn fyrr.
Barnaklámhringur?
Börnin og sakborningarnir í Ou-
treau-málinu nefndu aðra einstak-
linga til sögunnar, sem áttu að hafa
AP
Þrír sakborninganna, Daniel Legrand, Franck Lavier og Sandrine kona hans, eftir sýknudóminn.
Óttinn við mistök hafði
skelfilegar afleiðingar
Eftir mikla rannsókn er niðurstaðan í kunnasta barnaníðingsmáli Frakklands
sú að 13 sakborningar af 17 hafi verið ranglega ákærðir að því er segir í grein
Söru Kolka. Nú er það franska réttarkerfið sem er á sakamannabekknum.
sara@mbl.is
ANNE Brit Sandø, vísindamaður við Nansen-umhverf-
isrannsóknastöðina í Björgvin í Noregi, vísar á bug
þeim niðurstöðum breskra vísindamanna, að Golf-
straumurinn sé að veikjast með þeim afleiðingum, að
búast megi við kaldari tíð í Norður-Evrópu.
„Það er ekkert, sem bendir til, að dregið hafi úr
styrk Golfstraumsins. Það er vitleysa,“ sagði Sandø í
viðtali við Aftenposten en vísindamenn við Hafrann-
sóknastofnunina í Southampton á Englandi segja í
grein, sem birtist fyrir nokkrum dögum í tímaritinu
Nature, að þær breytingar hafi átt sér stað á Golf-
straumnum, að streymið hafi snúist við að hluta og fari
nú í suðurátt. Það muni aftur leiða til kaldara veðurfars
í N-Evrópu.
„Við höfum ekki fundið merki um neinar breytingar
á yfirborðsstraumnum milli Íslands og Skotlands. Það
er hann, sem færir okkur ylinn úr suðri og á honum
hafa ekki orðið neina breytingar í 50 ár,“ sagði Sandø.
Bresku vísindamennirnir segja, að Golfstraumurinn
hafi veikst um 30% frá 1957 en Sandø segir, að sé eitt-
hvað til í því, þá muni hækkandi hitastig almennt vinna
gegn kólnandi tíð.
Kólnar ekki á næstunni