Fréttablaðið - 23.08.2004, Blaðsíða 12
Sótt að Siv
Sumir hverjir framsóknarmanna hafa
lagt í baráttu gegn Siv Friðleifsdóttur
umhverfisráðherra. Það var ekki síst
þess vegna sem allir vissu að henni yrði
vikið úr ríkisstjórninni. Þar fóru fremstir
þeir sem teljast til krón-
prinsadeildar Fram-
sóknarflokksins. Einn
þeirra er varamaður
Sivjar á þingi, Páll
Magnússon, bróðir
Árna ráðherra. Siv er
fyrir framavonum Páls.
En þá er ekki öll sagan
sögð. Siv er fyrir víð-
ar. Hún er ritari
flokksins og þess
vegna í forystu-
sveit hans. Þar er hún fyrir Árna. Víst er
talið að kné verði látið fylgja kviði og
henni verði veitt fleiri högg á flokks-
þinginu í febrúar.
Hvað er að Siv?
Eitt hafa framsóknarmenn ekki opin-
berað, en það er hvers vegna Siv fær
ekki að vera lengur í ríkisstjórn. Hún
hefur meiri reynslu en sumir aðrir og
mun meira fylgi en sumir. Það er ekki
nema í einkaviðtölum sem andstæð-
ingar Sivjar og fjandmenn þora að
nefna ástæðu þess að henni er spark-
að. Það er nú þannig að fátt er verra en
að bera út söguburð um fólk en það
gera sumir flokksmanna hennar. Að því
er látið liggja að Siv hafi ekki greind til
að stýra veigameira ráðuneyti en um-
hverfisráðuneyti. Auðvitað er málflutn-
ingur sem þessi meiðandi fyrir Siv og
umhverfismál en eyðandi fyrir þá sem
tala svona.
Ræturnar
Framsóknarflokkurinn er bráðum 90
ára og rætur hans eru eflaust sterkari
en svo að krónprinsar slíti upp. Þegar
Unnur dóttir Stefáns heit-
ins Jasonarsonar í Vorsa-
bæ kemur fram og segir
forystu flokksins á villigöt-
um er hins vegar mikið
að. Þegar gegnheilt
f r a m s ó k n a r k y n
kvartar opinberlega
brenna eldar.
Óneitanlega fannst manni Bubbi
Morthens eins og Jesaja spá-
maður þegar hann þrumaði yfir
hundrað þúsund manns: Þið
munuð öll... þið munuð öll... þið
munuð öll DEYJA!!! – svo þakk-
aði hann klökkum orðum öllum
fyrir samveruna og fór að telja
niður: TÍU-NÍU-ÁTTA... Síðan
hófst sprengjugnýrinn. Himinn-
inn stóð í ljósum logum, litunum
rigndi yfir okkur, jörðin nötraði
og eitt andartak varð ég smeyk-
ur og hugsaði með sjálfum mér
að svona litu Ragnarökin út.
Lagið á undan og allt fýrverker-
íið í kjölfarið: þetta var eins og
sjóbissness-ragnarök.
Sýningin hófst með meiri
ákveðni en í fyrra. Krafturinn
var meiri nú í ár, tempóið hrað-
ara og hugkvæmari tengingar
milli stóru búkettanna – í fyrra
var sýningin framan af full nett
og fínleg fyrir barnið í mér, örl-
aði jafnvel á listrænni tilgerð.
Flugeldasýning orkar alltaf á
mig eins og ég horfi á Guð mála
með ósýnilegri hendi á strigann
sinn sem er himinninn. Er ekki
góð flugeldasýning alveg áreið-
anlega hástig allrar nútíma-
myndlistar? Að minnsta kosti
var unun að fylgjast með því
hvernig listamenn kvöldsins
léku sér að því að fylla ýmist út
í flötinn sem þeir höfðu tekið
sér til umráða eða skreyttu horn
hans hér og hvar; flugeldasýn-
ing er ekki síst tónlist, list tím-
ans og hverfuleikans; snýst um
ryþma, samspil lita og hljóða,
list sem lifir í augnablikinu og
hverfur svo. Flugeldasýning er
al-list, höfðað er til margra
skynsviða í senn og leitast við
að koma áhorfanda sífellt á
óvart með nýjum og nýjum
undrum, fylla himininn undrum
svo að við trúum því jafnvel um
stund að maðurinn megi sín ein-
hvers í alheiminum. Og samt
finnst mér fegursta augnablikið
í flugeldasýningum alltaf vera
þetta sekúndubrot milli búkett-
anna þegar maður sér ennþá
reykinn – aðeins reykurinn er
eftir, stirðnaður í fyrrum glæsi-
legri stellingu eins og teikning:
hann er eins og minning, ná-
kvæm eftirgerð á einhverju
sem var óendanlega litskært og
fallegt en er bara grár ñ og
hverfur. Þið munuð öll...
Ég heyrði barn fyrir aftan mig
segja: „Það er búið að skemma
himininn.“ Náungi við hliðina á
mér tautaði „sæmilegt,“ við vin
sinn en fór smám saman að segja
„þetta er geðveikt.“ Hann sagði
það með jöfnu millibili út sýning-
una, eins og þetta væri mantra.
Barn hinum megin við mig sagði
við mömmu sína: „Þetta var flott-
ara í Vatnaskógi í fyrra“ en spöl-
korn frá sagði ungur maður:
„Hvaðan kemur allt þetta fólk?“
eins og hann hefði verið rétt í
þessu að vakna. Fyrir framan mig
benti maður á rakettu á ferð og
sagði við vin sinn: „Sjáðu þetta er
eins og sæðisfruma...“
Það var gaman að heyra röflið
í fólkinu. Íslendingar eru yfirleitt
heldur skemmtilegir á milli ellefu
og hálf tólf á kvöldin, búnir með
nokkra bjóra, orðnir svolítið há-
værir en ekki farnir að garga,
orðnir hreifir en ekki farnir að
slefa, farnir að bulla en staðhæf-
ingarnar enn bara hæfilega frá-
leitar, skynsemin ekki algerlega
horfin úr þeim – kannski stirðnað-
ur reykurinn af henni eftir – en
áfengið ennþá frjósamt við að
rugla mátulega hugsunina og
opna mátulega hurðir í vitundinni
sem annars eru lokaðar. Sem sagt:
mátulegir. Þegar líða tekur á nótt-
ina fer svo allt í tómt þvaður og
stagl og menn lokast inni í áður-
greindum herbergjum vitundar-
innar.
En heill og heiður sé borgar-
stjórn að gefa okkur kost á því
að safnast saman í miðbænum
tugþúsundum saman til að vera
á röltinu úti undir beru lofti.
Eins og ég hef áður sagt: Menn-
ingarnóttin er Perlan hennar
Ingibjargar Sólrúnar. Og þegar
ég hugsaði mig betur um á leið-
inni til baka eftir Flugeldasýn-
inguna þá fann ég að það var vit
í spurningu mannsins: Hvaðan
kemur allt þetta fólk? Það kem-
ur úr bílum og möllum og stein-
steypuhúsum. Yfirleitt er það
hending að rekast á fótgangandi
vegfaranda sem hættir sér út
undir bert loft hér á landi –
nema með staðfestusvip í sér-
stökum göngugalla. Þennan eina
dag, þetta eina kvöld, þessa einu
nótt verður Reykjavík eins og
hún á að vera og fólkið kemur úr
bílum og möllum og stein-
steypuhúsum og horfir undr-
andi í kringum sig – og hrifið:
þetta er bara eins og í útlöndum.
Í möllunum er ekkert mannlíf
bara fólk, þar er ekkert spjall
bara húk, þar er ekkert í loftinu,
bara loftleysi – útiloftið opnar
okkur, við finnum þetta bara
þegar við opnum glugga. Og
röltið opnar okkur líka því þá
ertu ekki á sérstakri leið heldur
ert tilbúinn að mæta því sem að
höndum ber. Þennan eina dag,
þetta kvöld og þessa nótt sá
maður á röltinu örlög fólks í
einni sjónhendingu, maður sá
roskin hjón ganga niður Lauga-
veginn og manni vitraðist eitt-
hvað mikilvægt áður en fólkið
gekk hjá og var horfið út í
mannhafið, en eftir sat minning,
teikning, stirðnaður reykur. ■
Þ rátt fyrir aukinn hagvöxt, ívið meiri verðbólgu og nokkraeignaþenslu þessi misserin er augljóst að ekki dregur úratvinnuleysi fólks. Hagræðing innan fyrirtækja, sparnaðar-
aðgerðir og fækkun starfsfólks virðast vega upp áhrif af fram-
kvæmdum tengdum álverum og virkjunum. Þrátt fyrir þessar fram-
kvæmdir – sem nefndar hafa verið mestu framkvæmdir Íslands-
sögunnar – hefur atvinnuleysi aukist fremur en að dregið hafi úr því.
Í júlí voru rúmlega fimm þúsund manns án atvinnu. Það eru ekki
mörg ár síðan slíkt hefði verið talið stórkostlegt vandamál sem bregð-
ast yrði við sem allra fyrst. Þetta er hins vegar að verða sá fjöldi sem
er reglulega án atvinnu. Innan þessa hóps er fólk sem hefur verið
atvinnulaust mánuðum og jafnvel árum saman.
Aukin samkeppni meðal íslenskra fyritækja, aukin samkeppni við
vörur og þjónustu að utan og auknar kröfur hluthafa um arð af fjár-
festingu sinni hafa breytt svipmóti íslensks atvinnurekstrar á undan-
förnum árum. Fyrirtækin hafa þurft að laga sig að þessum breyting-
um með hagræðingu, aukinni framlegð og betri nýtingu mannaflans.
Þessi breyting er í sjálfu sér góð. Í einangruðu hagkerfi síðustu aldar
urðu íslensk fyrirtæki helst til of löt og feit. Flestum þeirra veitti
ekki af því að skerpa markmiðin og laga starfsemi sína að þeim.
Gamla kerfið fól í sér verðmætasóun og lélega nýtingu á starfsorku
fólks. Slíkt er léleg verkmenning. Ef við erum á annað borð að mæta
til vinnu eigum við að gera þá kröfu að sem mest verðmæti verði til
við vinnu okkar.
Í breytingum á íslenskum fyrirtækjum liggja óteljandi tækifæri.
Um leið og eitt fyrirtæki bætir framlegð starfsfólksins, og fækkar
þar af leiðandi þeim einstaklingum sem þurfa að sinna störfunum án
þess að draga úr framleiðslu sinni eða þjónustu, gefst öðrum fyrir-
tækjum tækifæri á að krækja í þetta starfsfólk og virkja það til nýrra
verka. Það má jafnvel fagna því að ónýtt fyrirtæki með lélega fram-
legð og vonda nýtingu starfsfólks og fjármagns fari á höfuðið. Það má
þá nýta orku starfsfólksins og hugmyndaflug betur á nýjum vett-
vangi.
Íslenskt atvinnulíf hefur verið að fara í gegnum svona umbreyt-
ingatíma um nokkurt skeið. Ef litið er yfir atvinnuleysistölur undan-
farinna ára virðist hins vegar sem nýsköpun atvinnulífsins hafi ekki
haldið í við umbreytinguna. Fyrirtæki hafa fækkað starfsfólki en ný
störf hafa ekki orðið til í sama mæli. Og það er langt í land að atvinnu-
lífinu takist að búa til störf fyrir reglulega fjölgun atvinnubærra
manna. Atvinnulífinu virðist þannig hafa tekist að nýta fjármagnið
betur en mannauðinn.
Íslendingar hafa aldrei þurft að búa við langvarandi atvinnuleysi
á borð við flestar Evrópuþjóðir. Það sést ekki aðeins á atvinnuleysis-
tölum heldur ekki síður á stuðningskerfi okkar við þá sem ekki njóta
atvinnu. Okkar kerfi er miðað við smávægilega aðstoð vegna mjög
tímabundins ástands. Sá sem verður atvinnulaus mánuðum saman á
Íslandi lendir í alvarlegum vanda; honum og fjölskyldu hans er í raun
varpað niður að hungurmörkum.
Ef atvinnulífinu tekst ekki að byggja upp meiri nýsköpun og fjölga
störfum verðum við að endurskoða stöðuna og fara að feta okkur að
evrópsku kerfi til stuðnings atvinnulausum. Og við skulum ekki
blekkja okkur á því að við getum séð til og vonað að bráðum rætist úr.
Þeir rúmlega fimm þúsund manns sem eru atvinnulausir – og þær
fimm þúsund fjölskyldur sem þetta atvinnuleysi snertir – hafa ekki
mikla biðlund við hungurmörkin.
Íslenskt atvinnulíf stendur því frammi fyrir tveimur kostum:
Annars vegar að auka nýbreytni og fjölga störfum og hins vegar að
bera kostnað af dýrara stuðningskerfi við atvinnulausa. ■
23. ágúst 2004 MÁNUDAGUR
MÍN SKOÐUN
GUNNAR SMÁRI EGILSSON
Of mikið atvinnuleysi hefur verið viðvarandi of lengi
til að ekki sé brugðist við.
Fleiri störf eða betri
atvinnuleysisbætur
ORÐRÉTT
Uppeldið skilar sér
Björk er kurteis. Hún tekur
hrósi af hógværð, hún heilsar
feimnislega og hún svarar
samviskusamlega öllum spurn-
ingum. Og ef henni þykja svör-
in verða helst til löng, þá af-
sakar hún það og styttir mál
sitt.
Björk Guðmundsdóttir er greinilega
óskabarn þjóðarinnar.
Tímarit Morgunblaðsins 22. ágúst.
Önnur lögmál hér?
Margir hafa orðið til að vekja at-
hygli á því að vera bandarískra
hermanna í ýmsum löndum
Vestur-Evrópu, ekki sízt í Þýzka-
landi, sé orðin atvinnumál frem-
ur en öryggismál [...] Vera
bandarísks varnarliðs á Íslandi
hefur aldrei verið atvinnumál og
á ekki að vera það, heldur hefur
hún annars vegar snúizt um að
tryggja öryggi og varnir landsins
og hins vegar um framlag Ís-
lands til sameiginlegra varna
Vesturlanda.
Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins
22. ágúst.
Drottinn í upphæðum
Ég er einnig klár á að Jesús
Kristur sneri ekki aftur til
jarðríkis í þeim tilgangi að
safna peningum í sjónvarps-
stúdíói í nafni Guðs föður. Að
vísu hafa tímarnir breyst tölu-
vert frá því Jesús var hér síð-
ast en slíkt væri algjörlega
útúr karakter hafi ég lesið
Nýja testamentið og Dauða-
hafshandritin rétt. Mig minnir
að hann hafi boðað nægju- og
hófsemi.
Glúmur Baldvinsson furðar sig á
peningasöfnun sjónvarpsstöðvarinn-
ar Omega.
DV 21. ágúst.
FRÁ DEGI TIL DAGS
Í DAG
MENNINGARNÓTT
GUÐMUNDUR
ANDRI
THORSSON
En heill og heiður sé
borgarstjórn að gefa
okkur kost á því að safnast
saman í miðbænum tugþús-
undum saman til að vera á
röltinu úti undir beru lofti.
,,
ÚTGÁFUFÉLAG: Frétt ehf. RITSTJÓRI: Gunnar Smári Egilsson FRÉTTASTJÓRI: Sigurjón M. Egilsson RITSTJÓRNARFULLTRÚAR: Steinunn Stefánsdóttir og Jón Kaldal
AUGLÝSINGASTJÓRI: Þórmundur Bergsson RITSTJÓRN, AUGLÝSINGAR OG DREIFING: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐALSÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 550 5006
NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is VEFFANG: visir.is SETNING OG UMBROT: Frétt ehf. PRENTVINNSLA: Ísafoldarprentsmiðja ehf. Fréttablað-
inu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fyrirtæki geta fengið blaðið gegn
greiðslu sendingarkostnaðar, 1.100 krónur á mánuði. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871
sme@frettabladid.is
Að flugeldasýningu lokinni