Fréttablaðið - 03.12.2004, Qupperneq 18
18 3. desember 2004 FÖSTUDAGUR
Uppgjör Tryggingastofnunar:
Um 24 þúsund manns fá endurgreitt
LÍFEYRISMÁL Tæplega 24 þúsund
lífeyrisþegar fá eingreiðslu frá
Tryggingastofnun fyrir jólin,
eða rúmlega helmingur allra
lífeyrisþega, samkvæmt
upplýsingum frá stofnuninni.
Við endurreikning bótaréttar
ársins 2003 kom í ljós að 23.578
lífeyrisþegar eiga inneign hjá
TR sem greidd verður út í
desember. 10.773 lífeyrisþegar
hafa fengið ofgreitt á árinu og
þær fjárhæðir verða innheimtar
eftir áramót. Heildarfjárhæð
inneigna nemur rúmum
milljarði króna og kröfurnar
nema svipaðri fjárhæð.
Inneignir eru í flestum
tilvikum innan við 50 þúsund
krónur en tæplega 8 þúsund
lífeyrisþegar eiga minna en 10
þúsund krónur hjá TR. Skuldir
eru flestar undir 50 þúsundum
króna. Kröfur sem eru 3 þúsund
krónur eða lægri verða felldar
niður. Í þeim hópi eru 1.175
lífeyrisþegar og fjárhæðin
nemur samtals rúmri hálfri
annarri milljón króna. Hjá um 6
þúsund lífeyrisþegum þarf ekki
að gera neinar leiðréttingar.
Alls voru 41.724 bætur
lífeyrisþega endurreiknaðar, en
þær námu um 27 milljörðum
króna á árinu 2003.
-jss
Borgaði 90 þúsund
fyrir íþróttagalla
Íslenskur ferðamaður á Kanaríeyjum borgaði 90 þúsund krónur fyrir níu
þúsund króna íþróttagalla. Kvittaði undir reikninginn og því ekkert hægt
að gera. Sviðsstjóri hjá Visa brýnir fyrir fólki að hafa augun vel opin.
VIÐSKIPTI Nokkur dæmi eru um að
svindlað hafi verið á íslenskum
ferðamönnum á Kanaríeyjum. Mar-
ía Guðmundsdóttir, verslunarkona á
Kirkjubæjarklaustri, keypti
íþróttagalla í verslun á Ensku
ströndinni fyrr á þessu ári sem átti
að kosta um níu þúsund krónur. Hún
endaði með að borga 90 þúsund.
„Þetta var í Yumbo-verslunar-
miðstöðinni sem er nálægt Klöru-
bar,“ segir María. „Ég var að kaupa
íþróttagalla á dóttursyni mína tvo.
Þeir áttu að kosta 101 evru en þegar
ég kom heim og opnaði Visa-reikn-
inginn sá ég að ég hafði borgað 1001
evru fyrir gallana.“
María segist hafa hringt í Visa á
Íslandi og spurt hvort það væri ekki
hægt að bakfæra þetta en
henni hafi verið sagt
að það væri ekki hægt
þar sem hún hefði
kvittað undir reikning-
inn. María segist vita af
öðrum Íslendingi sem
hafi lent í sömu reynslu
og fengið sömu svör.
„Mér var reyndar líka sagt að
hafa samband við verslunina úti og
biðja um að þetta yrði leiðrétt. Ég
gerði það en þá fékk ég bara þau
svör að ég hefði verslað fyrir þessa
upphæð, sem er náttúrlega bara
della. Auðvitað þykir mér þetta ansi
hart. Það var augljóslega verið að
svindla á mér með því að bæta ein-
um aukastaf við töluna. Ég áttaði
mig bara ekki á því þegar ég kvitt-
aði.“
Þórður Jónsson, sviðsstjóri kort-
hafasviðs, segir vissulega dæmi um
að svona lagað gerist þó það sé ekki
algengt.
„Auðvitað eru alltaf einhverjir
óprúttnir menn einhvers staðar í
heiminum sem gera
svona,“ segir Þórður.
„Þetta er algengast á
stórum ferðamanna-
stöðum. Það er mjög
erfitt fyrir okkur að
bregðast við þessu
því gögnin sem
liggja fyrir bera það
ekki með sér að um eitthvert
svindl sé að ræða. Hins vegar er
fylgst með því hvort svona mistök
eða svindl séu alltaf að koma upp
hjá sömu versluninni. Ef sú er raun-
in getur viðkomandi átt von því að
missa samninginn við Visa. Ég held
að besta lausnin til varnar þessu sé
að brýna fyrir fólki að hafa augun
vel opin þegar það kvittar.“
trausti@frettabladid.is
IBM, Sony og Toshiba taka höndum saman:
Ný byltingarkennd
tækni fyrir heimili
JAPAN, AP Nýr byltingarkenndur
tölvukubbur og örgjörvi verður
notaður í nýja heimilismiðlara
fyrir breiðbandstengingar og há-
gæðasjónvarpssendingar sem
Sony ætlar að bjóða til sölu árið
2006. Kubbinn, sem kallaður er
Sellan eða Cell, segir Sony einnig
verða notaðan í næstu kynslóð
leikjatölva sem er í smíðum.
IBM, Sony og Toshiba hafa
unnið saman að þróun kubbsins
síðustu þrjú ár. Í tilkynningu
fyrirtækjanna í gær kom fram að
örflagan geri tölvum og heimilis-
tækjum kleift að vinna gífurlegt
magn vídeóstreymis og annarra
stafrænna gagna á miklum hraða.
Tæknileg útfærsla Sellunnar
verður kynnt á ráðstefnu ör-
gjörvaframleiðenda í San
Francisco í Bandaríkjunum í
febrúar, en í kjarnann er búnað-
urinn búinn 64 bita örgjörva, auk
hliðarörgjörva sem sjá eiga um
gagnasendingar til breiðbands-
tækja, svo sem tölvuleikja-
streymi, kvikmyndir og annað
stafrænt efni. IBM hefur frum-
framleiðslu kubbsins á fyrri
helmingi næsta árs fyrir tölvu
sem Sony er að búa til. Toshiba
ætlar að hefja framleiðslu á há-
gæðasjónvarpi (high-definition
TV) sem byggir á nýju tækninni
árið 2006. - óká
UM HELMINGUR LÍFEYRISÞEGA FÁ
EINGREIÐSLU FYRIR JÓLIN
Heildarfjárhæð inneigna bótaþega nemur
rúmum milljarði króna og kröfurnar nema
svipaðri fjárhæð.
FERÐAMENN Á KANARÍEYJUM
Þórður Jónsson, sviðsstjóri hjá Visa, segir
algengast að óprúttnir verslunarmenn á
stórum ferðamannastöðum reyni að
svindla á ferðamönnum.
Smáauglýsingasíminn er 550 5000
auglysingar@frettabladid.is
FORSTJÓRI TOSHIBA
Yoshihide Fujii, forseti og aðalforstjóri Tokyoba Digital Media Network, kynnti á blaða-
mannafundi í Tókýó í Japan í gær að Toshiba hefði stuðning fjögurra stjóra kvikmynda-
framleiðenda í Hollywood í Bandaríkjunum, Paramount Pictures, Universal Studios, Warn-
er Bros. og New Line Cinema, við næstu kynslóð DVD-tækni fyrirtækisins.
M
YN
D
/AP
18-19 fréttir 2.12.2004 18:35 Page 2