Fréttablaðið - 06.01.2005, Síða 38

Fréttablaðið - 06.01.2005, Síða 38
Flest okkar dreymir um þægilega vinnu, innandyra í öruggu umhverfi. Þó eru alltaf einhverjir sem bjóða þessu birginn og gera eitthvað allt annað, eitthvað sem hinn venjulegi meðal-Jón myndi ekki einu sinni láta sig dreyma um. Vilhjálm- ur Björn Sveinsson er einn þeirra, og átt- aði sig á því, eftir að hafa verið ár í Menntaskólanum í Hamrahlíð, að það ætti ekki við hann að sitja á skólabekk, hann þyrfti að gera eitthvað meira spennandi. Þegar móðir hans fluttist til Græn- lands 1986 kom hann þangað á hverju sumri í heimsókn. Einn daginn var hann að sigla með frænku sinni og manninum hennar eftir vesturströnd Grænlands þegar þau komu við á hreindýrabúi, þar sem honum var boðið að vera í mánuð og hjálpa til við göngurnar og slátrunina. Þessi mánuður breyttist síðan í ár og varð að lokum fjögur ár. Eftir dvölina þar fór Vilhjálmur til Noregs og var eitt ár í námi við Landbúnaðarháskóla Noregs. Að námi loknu var hann ekki með neina fasta vinnu. „Ég lagðist því í ferðalög og vann margvíslega vinnu.“ Þetta er brosmildur strákur sem talar íslensku með pínulítið norskum hreim, enda búinn að vera bú- settur þar í fjögur ár. „Ég var að vinna bæði í Svíþjóð og Finnlandi. Var einn vetur á Nýja-Sjálandi og Ástralíu þar sem ég vann á hjartarbúum, kúabúum og rollubúum fyrir mat og húsnæði. Ef ein- hver var að reka rollur, þá gekk ég til hans, kynnti mig og sagðist vera frá Íslandi. Síðan var manni boðið í mat og vann þar í tvær vikur. Hélt síðan af stað aftur. Þeir eiga enga peninga þarna en það var alltaf nóg af mat, góðum rúmum og yfirleitt var ísskápurinn fullur af bjór.“ Vilhjálmur var eitt vor í Pakistan að telja steingeitur. „Þetta var mjög spenn- andi og við vorum langt uppi í dal, rétt hjá Kasmír-svæðinu. Eina nóttina vöknuðum við við úlfa í grenndinni við tjöldin okkar. Þetta var ekkert hættulegt, ég stökk bara út á nærbuxunum til þess að taka myndir.“ Vilhjálmur fór þaðan til Svalbarða, og vann við að telja hreindýr og elta refi. Bærinn á Svalbarða, Longyearbyen, minnti Vilhjálm á Reykjavík.“ Þetta er svona minni útgáfa af henni, snjór, storm- ur og fjöll á bak við. Svo alveg skrýtið mikið af fólki á djamminu, eins og í Reykjavík. Ætli þetta sé ekki næst- heitasta borgin í heiminum,“ segir Vilhjálmur og hlær. Hreindýrasmölun í Suður-Noregi Eftir þessi miklu ferðalög leiddi Vilhjálmur hugann að því hvort ekki væri kominn tími til að fá sér fasta vinnu og regluleg laun. Og það gerði hann, fékk vinnu hjá hreindýrafyrirtæki þar sem hann vinnur núna sem hreindýrasmali. „Ég bý í Suður-Noregi. Einu kaldasta svæði landsins. Öll hreindýraræktun í Norður-Noregi, það er að segja fyrir norðan Þrándheim, er Samarækt. Þú getur ekki unnnið hjá þeim nema vera sjálfur Sami eða vera giftur samískri stelpu. Í kringum Jötunheim eru fjögur fyrirtæki sem eiga hreindýr. Þetta eru vel reknar og góðar hjarðir og ég vinn fyrir eitt slíkt fyrirtæki.“ Starfið segir Vilhjálmur ekkert vera neitt áhugamál með fjögur hreindýr og notalegheit. Þetta séu fjögur þúsund dýr sem dreifi sér um tvö þúsund ferkílómetra svæði. Þá framleiði fyrirtækið um fimm- tíu tonn af kjöti, velti fjörutíu milljónum íslenskra króna á ári og borgi út sinn arð til hluthafanna. „Ég reyndar vinn alltof mikið og Íslendingurinn er því ekkert alveg farinn úr mér, „ segir hann og hlær. „ Ég fæ sumarfrí en hef unnið í þeim tvö síðustu skiptin, þá aðeins austar í Noregi. Þá erum við að finna hreindýr sem hafa leitað í kuldann uppi á fjöllum.“ Annars byrjar vinnan í ágúst þegar veður fer kólnandi, því þá koma kýrnar niður í skógana. „Í lok ágúst og byrjun september erum við að smala, förum með hreindýrin upp á fjöll og niður í réttir.“ Um miðjan september komi svo fengi- tímabilið og þá segir Vilhjálmur að hjörðin róist töluvert, en í byrjun október, þegar veturinn er kominn í fjöllin og elg- veiðarnar byrjaðar, verði dýrin óróleg og vilji komast af stað. „Það er bara eitthvað sem er í eðli þeirra.“ Í nóvember er komið vélsleðafæri og þá fer Vilhjálmur ásamt félögum sínum að leita, enda hefur þeim ekki tekist að ná allri hjörðinni saman. „Í desember, þegar öll hjörðin er komin, þá förum við að flytja og setja inn í girðingu. Þegar það er komið flytjum við dýrin á vetrarbeit, um fjörutíu kílómetra, og það tekur nokkra daga.“ Þegar þetta er búið er rólegur tími hjá Vilhjálmi, og þeir vinna vaktavinnu. Dýrin eru tamin og hundarnir þjálfaðir. „Það er hins vegar mjög kalt, allt undir fjörutíu stiga gaddur. Við förum að vinna klukkan tíu þegar sólin kemur upp og heim klukkan fjögur þegar hún fer niður. Það er því mikið um sjónvarpsgláp á þessum tíma.“ Þegar komið er fram í apríl er hreindýrunum sleppt og þeim leyft að dreifa sér yfir svæðið. Af hundum og hjólandi frans- manni Vilhjálmur segir að vissulega sé einhver rómantískur og ævintýralegur blær yfir þessu starfi og hann kinkar kolli við því hvort hreindýrasmalar séu ekki hálf- gerðir kúrekar. „Það er hins vegar árið 2005, og við erum ekkert í Síberíu. Við erum með talstöðvar, farsíma, vélsleða og þyrlu. Þegar við eigum helgarfrí, þá keyrum við til Óslóar.“ Það kemur þó fyrir að ferðamenn spyrji þá hálf skrýt- inna spurninga. „Einu sinn vorum við með þýska ferðamenn sem vildu skoða hreindýrin. Þau spurðu okkur látlaust hvort við svæfum í snjónum og svoleið- is. Við jánkuðum því auðvitað, til þess að eyðileggja ekki ævintýraljómann fyrir þeim.“ Hann bætir því við að Samarnir fái til dæmis mikið af styrkjum fyrir að vera eins þjóðlegir og þeir mögulega geti. „Ég veit samt ekki um neinn sem langar jafn mikið í hamborgara og Sama,“ segir hann og hlær. Það er mjög auðvelt að heillast af þessari vinnu en eftir smá tíma segir Vilhjálmur þetta verða bara eins og hver annar hversdagsleiki. „Ævintýraljóminn fer af þessu og þetta verður bara vinna. Við hittumst inni í bílnum, fáum okkur kaffibolla og ræðum um eitthvað annað en hreindýr. Á veturna sitjum við ekkert á vélsleða og dásömum hversu heppnir við erum.“ Vissulega hafi það verið sport í byrjun, þeysast um á vélsleða en þegar hann keyri sex þúsund kílómetra á hverju ári, á hægum slóðum, þá sé þetta ekki sama skemmtunin. „Maður er bara að drepast í bakinu,“ segir hann og bros- ir. Þess má til gamans geta að þetta þýð- ir að hann keyrir tæplega fimm sinnum í kringum Ísland á ári. Eins og við má búast hefur Vilhjálm- ur lent í ýmsu. „Ég var með í verkefni, þar sem ég var að passa rollur. Þá feng- um við hunda frá þróunarlöndunum sem réðust á birni. Það var frekar rosalegt að hlusta á hundana á næturnar, þegar þeir voru að slást við birnina.“ Hann hefur líka upplifað ýmislegt á Grænlandi. „Þar var ég alltaf að lenda í einhverju veseni, aðallega út af veðri. Vélsleðar bilandi, allt of seint á kvöldin, í allt of vondu veðri. Þar sem ég er núna forðumst við hættur.“ Hann segir þó að hann hafi komist í hann krappann fyrir fjórum árum. „Þá var alveg rosalega mikið af snjó, og það féll mikið af snjóflóðum. Við misstum um hundrað dýr út af þeim og einu sinni féll snjóflóð mjög nálægt okkur, við vor- um þá á mjög hæpnum stað, enda þurf- um við að fara á slíka staði þegar við erum að ná í hreindýrin, en ef þetta er gert rétt þá er þetta hættulítið.“ Hann segir að hann hafi líka hitt fólk sem hafi ekki alveg verið með á nótunum. „Við gengum einu sinni fram á eldri hjón, sem voru á stutterma- skyrtum með sprungið á bílnum uppi á fjalli í Noregi, alveg að krókna úr kulda, enda var sumar niðri í landi, en töluvert kaldara uppi í fjalli,“ segir hann og hlær. Þá minnist hann líka Frakka sem kom til Grænlands sem hafi ekki alveg verið búinn að kynna sér vegakerfið þar. „Hann var búinn að skipuleggja hjól- reiðaferð til Norður-Grænlands í nokkra mánuði. Hann var búinn að hjóla í hálftíma þegar vegurinn var bú- inn. Þannig fór nú um sjóferð þá.“ Ævintýraþráin að dofna Vilhjálmur segir að auðvitað sé það ákveðinn draumur að verða hreindýra- bóndi sjálfur. „Það er hins vegar ekki hægt hérna í Noregi, og eini staðurinn er í raun Grænland. Maður hefur leitt hug- ann að því, en þetta er ekki heillandi.“ Ástæðurnar segir Vilhjálmur vera marg- ar. „Það er ekki hægt að vera með land- búnað fyrir norðan sextíu gráðurnar án þess að fá styrk frá ríkinu.“ Fyrirtækið sem hann vinni hjá fái styrk frá ríkinu, en borgi að sama skapi háa skatta. „Slík- ir styrkir eru ekki fyrir hendi í Græn- landi.“ Breytt veðurfar hefur einnig tölu- verð áhrif. „Það hefur hlýnað mikið und- anfarin ár, sem gerir þetta mjög erfitt. Veturnir eru orðnir hverflyndari.“ Og þrátt fyrir að hafa verið að í tólf ár er hvergi bilbug á honum að finna, þó hann viti að hann verði ekkert yngri. „Það kom alltaf reglulega upp í manni svona fiðringur, hvort ég ætti að gera eitthvað annað, en það hefur farið minna og minna fyrir honum nú til dags. Ætli ég finni mér ekki einhverja konu og pungi út börnum.“ Það er ekki heiglum hent að vinna í fjörutíu stiga gaddi, temja hreindýr og þeysast sex þúsund kílómetra á snjó- sleða. Þetta er engu að síður bara lítill hluti af vinnu Vilhjálms Björn Sveinssonar, sem vinnur sem hrein- dýrasmali í Suður- Noregi. Freyr Gígja ræddi við hann um ansi fjölbreytilegt líf hans, þó það telji ekki nema þrjá tugi. KÚREKI NORÐURSINS F2 12 6. janúar 2005 FIMMTUDAGUR Þetta eru ekki nein fjögur hreindýr og notalegheit heldur samanstendur hjörðin af fjögur þúsund dýrum sem dreifa sér um tvö þúsund ferkílómetra Stund milli stríða Vilhjálmur fær sér kaffibolla meðan hann fylgist með hreindýrunum Vilhjálmur Björn „ Íslendingurinn er ekkert alveg farinn

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.