Fréttablaðið - 25.03.2006, Page 42
25. mars 2006 LAUGARDAGUR42
Enginn aðgangur,“ stendur á tveimur tungumálum á hurðinni. Ég opna hana og
geng inn. Efst í stiganum stendur
dimm, kuflklædd vera þögul og
hreyfingarlaus. Ég geng upp
tröppurnar, og ábótinn býður mér
inn.
Valamo-klaustur hefur, eins og
svo margt í Finnlandi, átt sér
harmþrungna sögu. Það var á eyju
á Ladoga-vatni á landamærum
sænsku og rússnesku konungs-
ríkjanna, þar sem oft var barist,
og klaustrið jafn oft brennt. Munk-
arnir þar voru þekktir fyrir að
vera hreinni í anda og af harðara
efni en aðrir, og voru þeir því
sendir í erfiðustu verkefni orþód-
okskirkjunnar, svo sem að þramma
í gegnum alla Síberíu til að kristna
pólsvæði Norður-Ameríku. Í
kirkjugarðinum er kapella til
minnis um Heilagan Hermann,
sem snérí ínúítum í Alaska til
orþódokstrúar. Og orþódoks eru
þeir enn, þó að bandaríska heims-
veldið hafi tekið við völdum af því
rússneska þar um slóðir.
Prinsinn og íkoninn
„Fyrir hundrað árum síðan var
Valamo-klaustur eitt ríkasta
klaustur Rússlands, og þar voru
um þúsund munkar,“ segir ábót-
inn. „En svo þegar fyrri heims-
styrjöldin braust út voru allir þeir
sem ekki var búið að innvígja
sendir í herinn, og ekki sneru þeir
allir aftur. Þegar svo kommúnist-
ar tóku völdin reyndu þeir mark-
visst að gera út af við trúarbrögð,
og þegar seinni heimsstyrjöld
braust út voru bræðurnir ekki
orðnir nema 200.“ Klaustrið hafði
þá orðið hluti af Finnlandi, sem
lýsti yfir sjálfstæði árið 1917.
„Í Vetrarstríðinu milli Finn-
lands og Sovétríkjanna þegar
landsvæðið tapaðist til Rússlands
sendi finnski herinn fjörutíu vöru-
bíla til að flytja bræðurna og
helstu verðmæti til hina nýju
landamæra.“
En hvers vegna var hinu nýja
klaustri valinn staður í Valamo?
Ábótinn sýnir mér mynd af tveim-
ur dýrlingum hangandi fyrir ofan
dyrnar.
„Prins Henrik af Hollandi kom
í heimsókn í gamla klaustrið rétt
fyrir stríð og fékk þar íkona gef-
ins. En þegar hann fór í heimsókn
í sumarhús finnsks þingmanns
hinum megin við landamærin
gleymdi hann íkonanum þar. Þegar
þingmaðurinn svo bauð húsið til
sölu fannst íkoninn, og við vissum
að Guð hafði valið okkur stað
hér.“
Ísland tilheyrir Moskvu
Ábótinn kynnir sig sem Sergei, en
það er þó ekki skírnarnafn hans.
Hann er reyndar alfinnskur í
báðar ættir. „Faðir minn var
orþódoks, en móðir mín lútersk,
og flestir orþodokstrúar í Finn-
landi eru kvæntir lúterstrúar-
mönnum. Trúin er þó vaxandi,
aðallega vegna innflutnings Rússa,
en einnig Grikkja og Rúmena.“
Sergei segist hafa heyrt að á
undanförnum áratug hafi fyrsta
orþódokskirkjan verið opnuð á
Íslandi. Í Finnlandi eru um 60.000
orþódokstrúar, og þó það sé ekki
nema rúmt eitt prósent af þjóðinni
telst kirkjan þó sem þjóðkirkja
númer tvö, og prestar fá laun sín
greidd frá ríkinu. Finnland heyrir
undir patríarkann í Ístanbúl, sem
er einn elsti og virtasti patríarka-
stóllinn frá því borgin var höfuð-
borg Austrómverska heimsveldis-
ins, en Ísland heyrir undir
patríarkann í Moskvu.
Garðyrkjumaður eða guðsmaður?
En hvernig kom það til að Sergei
ákvað að gerast munkur?
„Ég kom fyrst til Valamo og hóf
að hefja sjálfboðastörf hér þegar
ég var fjórtán ára gamall. Mér
fannst þetta vera eins og himna-
ríki, afar friðsælt og fallegt. Ég hef
aldrei íhugað neitt annað alvarlega,
nema þá kannski helst að verða
garðyrkjumaður. Þegar ég kom úr
hernum árið 1989 sótti ég svo um
að gerast munkur. En ábótinn neit-
aði að blessa mig, og sagði að ég
ætti að fara í skóla og gerast orþód-
oks kennari í staðinn. Ég varð fyrir
miklum vonbrigðum og hóf fram-
haldsnám í Joensuu, en sumarið
eftir kölluðu þeir í mig frá Valamo
og báðu mig um að koma og aðstoða
við vinnu með bátinn Sergei.
Aðstoðarábótinn spurði mig þá hve-
nær ég ætlaði að koma að bjarga
sálu minni, og að af kennurum væri
margir en af munkum fáir.“
Konungur og drottning fjölskyld-
unnar
Ég spyr ekki hvers vegna fjórtán
ára strákur hafði svona mikið meiri
áhuga á guði en stelpum. Kannski
er hann aðgengilegri? Eða kannski
bliknar jafnvel sjálft kynlífið í
samanburði við heilagleikann?
„Bræður mínir skildu ekki
ákvörðun mína, og móðir mín, Lút-
erstrúarkonan, studdi mig, og sagði
að ég yrði þá að minnsta kosti
nálægt heimahögunum. Fyrstu
fimm árin í klaustrinu var ég í mót-
tökunni á gistiheimilinu. Ég þoldi
þá vinnu ekki og bað um að skipta,
en fékk ekki, svo ég reyndi að
þjóna hverjum gesti okkar sem
væri hann Kristur sjálfur, rétt eins
og þegar Abraham tók við englun-
um. Svo varð ég djákni, þá presta-
munkur og loks árið 1997, 32 ára að
aldri, varð ég ábóti.“
Sumir af siðum orþódokstrúar
koma okkur kannski spánskt (eða
öllu heldur grískt) fyrir sjónir. Ef
gengið er inn á heimili orþódoks-
fjölskyldu, til dæmis, er íkona
heimilisins fyrst heilsað með
krossmarki og síðan fjölskyldu-
meðlimum. Og þegar maður og
kona giftast bera þau kerti undir
athöfninni sem tákn um hreinleika
hjónabandsins, og eru svo krýnd
með kórónum sem konungur og
drottning fjölskyldunnar.
Góða heilsu þarf til að ganga á
guðs vegum
En hvað þarf til að gerast munkur?
„Fyrst af öllu þarf maður að
gerast orþódokstrúar. Yfirleitt eru
menn svo settir í sjálfboðavinnu í
eitt ár, og eru þá enn í borgaraleg-
um fötum. Best er að vera heilsu-
hraustur, þar sem guðsþjónustur
okkar eru fremur langar, og menn
þurfa að standa í tvo tíma í senn
kvölds og morgna, þar sem guðs-
þjónustur hér eru klukkan sex og
sex. Hjá prestum eru þær ekki
nema einu sinni í viku. Þegar menn
verða munkar fá þeir svo nafn ein-
hvers rússnesks dýrlings, og reyni
ég yfirleitt að velja mönnum nöfn
dýrlinga sem mér finnst lýsandi
fyrir þá.
Og hvernig er daglegt líf munk-
ana í Valamo?
„Við reynum helst að finna
mönnum starf í samræmi við borg-
aralegt starf þeirra, en það getur
þó verið erfitt. Bróðir Mikael var
til dæmis matvælafræðingur, og
því hefði verið eðlilegast að láta
hann brugga vín. En sá sem sér um
bruggunina hefur verið í því lengi
og vill ekki að aðrir taki við.“
Bræður munu brugga
Sergei segist hafa viljað forða
munkunum frá því að vinna í
afgreiðslunni, en af því sé tals-
verð hagræðing, og því sé það nú
þar sem hinn ólánsami bróðir
Mikael starfar. Vonandi hefur
hann sömu þjónustulund og for-
veri hans.
Bræðurnir eru nú tíu talsins, og
þar að auki eru fimmtíu aðrir
starfsmenn. Valamo er þekkt fyrir
að vera góður og kyrrlátur staður
til að slaka á, og koma um 160.000
pílagrímar og aðrir gestir þangað
á hverju ári. Meðal frægra gesta
er skáldið Pentti Saarikoski, sem
kom þangað til að jafna sig og
skrifa á milli drykkjutúra, og virð-
ist hið afbragðsgóða vín sem
bræðurnir brugga ekki hafa trufl-
að hann að ráði. ■
„Eins og í himnaríki“
Valamo-klaustur er á friðsælli eyju á Ladoga-vatni. Enginn aðgangur að klaustrinu nema fyrir innvígða.
Kona kemur til guðsþjónustu, en þær geta verið tveggja tíma langar.
Valur Gunnarsson heimsækir orþódoksklaustrið Valamo í Finnlandi og
spjallar við ábótann Sergei sem hefur verið munkur frá fjórtán ára aldri.
Rétttrúnaðarprestar í skrautlegri kapellu Valamo-klausturs. Sergei ábóti er lengst til hægri.