Fréttablaðið - 27.04.2006, Side 36
27. apríl 2006 FIMMTUDAGUR6
Krýsinn – gullna blómið
Í GARÐINUM HEIMA
HAFSTEINN HAFLIÐASON SKRIFAR UM POTTAPLÖNTUR
Löngu fyrir Krists burð höfðu Kínverjar
uppgötvað og ræktað þá jurt sem
við köllum í daglegu tali „krýsa“ til
að stytta hið langa og framandi orð
„krýsanthema“. Og þó var það norrænn
vísindamaður, Svínn Carl von Linné,
sem gaf þessari plöntuættkvísl það
vísindaheiti, dregið af grísku orðunum
„chrysos“ fyrir gull og „anthemon“ fyrir
blóm. Linné notaði ættkvíslarheitið fyrir
margar náskyldar, norrænar tegundir
sem hann þekkti vel, eins og til dæmis
freyjubrá og reinfang. Það heiti sem
hefðbundið er að nota núorðið sem
alþjóðlegt nafn á krýsana er Chrysanth-
emum x morifolium – en nokkrir
grasafræðingar hafa viljað breyta því og
kalla tegundina fremur Dendranthema
x morifolium vegna þess að einhver
agnarmunur er á litningasamstæðum
austrænna tegunda og vestrænna.
Viðurnefnið „morifolium“ bendir til
að blöðin séu hálfgreind og minni á
sundfit og x-ið táknar að hér sé um að
ræða blendingstegund. Hinir ræktuðu
krýsar finnast hvergi villtir – nema sem
slæðingar frá görðum í hlýrri hlutum
heimsins – og grasafræðinga greinir
mjög á um hverjar séu hinar upp-
runalegu tegundir sem lögðu þessari
manngerðu tegund til erfðaefni sitt.
Enda er ekki greitt að greina hnífskarpt
hvaðan litningarnir koma í tegund sem
hefur verið í ræktun í hartnær fjögur-
þúsund ár og er jafn fjölbreytt í útliti og
eiginleikum og krýsarnir eru.
Gleði, virðing og hollusta
Kínverjar kalla krýsana „Chu“ – stutt og
laggott – og hafa haft þá í hávegum
um allar aldir sinnar skráðu sögu. Fyrst
og fremst höfðu þeir þá í dálæti vegna
blómanna, en það dró heldur ekki
úr vinsældunum að krýsarnir þóttu
mikil lækningajurt. Seyði af rótunum
dró úr höfuðverk, te af blómunum
bætti svefn. Blöð og blómhnappar
þóttu fyrirtaks grænmeti og eru enn
nýtt á þann hátt í kínverskri matar-
gerð. Af blómunum er líka hægt að
brugga ljúffengt og heilsusamlegt vín.
Til Japanseyja bárust krýsarnir um
líkt leyti og Ingólfur Arnarson lagði í
hann frá Noregi til að nema land á
Íslandi. Og eins og í Kína er krýsinn þar
eðlastur blóma. Einfalt krýsablóm með
sextán tungukrónum er í skjaldarmerki
keisarans og allar japanskar fjölskyldur,
sem eitthvað mega sín, nota krýsa-
blóm í einhverri útfærslu sem búmerki
sitt. Krýsanthemum-orðan er æðsta
tignarmerki og virðingarvottur sem
Japanskeisari veitir (það er ekki árviss
viðburður, heldur einungis þegar ein-
hver þykir hafa unnið til hennar) og þar
í landi er hinn árlegi „Dagur gleðinnar“
kenndur við krýsana.
Í harðri samkeppni við rósirnar
Evrópumenn kynntust ekki krýsum fyrr
en á átjándu öld og enda þótt mikið
þætti varið í þá sem afskurðarblóm
við margvísleg tilefni, stóðust þeir
ekki alveg samkeppni við rósirnar.
Veðurfarið í Vestur-Evrópu hentar þeim
ekki nægilega vel til að þeir geti staðið
undir blómaframleiðslu í stórum stíl
undir berum himni. Í gróðurhúsum
ganga þeir hins vegar ágætlega, en
vegna þess að eðlilegur blómgunar-
tími þeirra er fremur seint síðsumars
og fram eftir haustinu þarf nokkrar
tilfæringar til að lokka fram hjá þeim
blómin. Krýsum er skipað í þrettán
flokka eftir blómgerð og blómstærð.
Fjölbreytnin er mikil og blómin
tilkomumikil, allt frá því að vera alfyllt,
hnattlaga blóm á stærð við fótbolta
niður í það að vera nokkur einkrýnd
smáblóm á marggreindum stilk.
Blómlitirnir spanna allan litaskalann í
fjölda blæbrigða, nema blátt. Afskorin
krýsablóm geta staðið viku til hálfan
mánuð í vasa.
Pottakrýsinn
Pottakrýsinn er líklega algengastur
allra krýsa á heimilum, enda er hann á
blómamarkaðinum lungann úr árinu.
Eiginlega er pottakrýsinn í einskonar
álögum. Flestar gerðir hans verða nefni-
lega furðu hávaxnar fái þær að vaxa
eins og þeim er eiginlegt. Og hann er
langnættisplanta sem blómgast ekki
fyrr en nætur eru orðnar dimmar og
langar. En garðyrkjumenn beita hann
ýmsum brögðum til að svo verði ekki.
Fyrst og fremst með því að stjórna
daglengdinni með myrkvunaryfir-
breiðslum, þannig að hið náttúrulega
forrit ruglast og plönturnar byrja að
setja blómhnappa. Og í öðru lagi þarf
yfirleitt líka að meðhöndla plönturn-
ar með efnahvötum sem draga úr
lengdarvexti en ýta undir breiðvöxt og
blómgun. Þegar því skeiði er náð að
blómin byrja að sýna lit og opna sig
verður ekki aftur snúið og plönturnar
standa í blóma í einn til tvo mánuði.
Pottakrýsinn er úrvals blómplanta sem
hægt er að nota á marga vegu. Hann
getur staðið einn og sér í potti, það fer
líka vel að nota hann í samplantanir. En
pottakrýsinn getur líka verið utandyra
yfir hásumarið og fram á haustið.
Flestir þeirra þola nokkrar frostnætur en
það er samt ekki ráðlegt að setja þá í
garðinn fyrr en öll hætta á frostnóttum
er liðin hjá, svo geta þeir staðið kaldar
haustnætur af sér. Allir krýsar dafna vel
í frostfríum gróðurhúsum og best er að
rækta þá þar á beðum eins og aðrar
fjölærar jurtir, en þeir þurfa gott pláss,
líka pottakrýsarnir, og blómgast seint,
yfirleitt ekki fyrr en upp úr miðjum
september við venjulegar aðstæður
hér á Íslandi, en blómgunin varir svo
fram að jólum, sé hitanum haldið við
10-12°C í gróðurhúsinu á daginn en
hann má fara niður undir frostmarkið
á nóttunni. Fáir hafa samt aðstæður til
að rækta pottakrýsana áfram eftir að
þeir hafa lokið blómguninni sem fylgdi
þeim heim. Flestir henda þeim því bara
þegar þeir hafa skilað sínu.
Í stuttu máli:
Pottakrýsi - Chrysanthemum x
morifolium
Ætt: Asteraceae / Körfublómaættin
Uppruni: Kína.
Notkun: Blómplanta.
Birta: Mikil birta – milt sólskin.
Kjörhiti: Fremur svalt – 15-20°C.
Vökvun: Haldið jöfnum raka á
moldinni.
Áburður: Dauf gjöf í hverri vökvun
Umpottun: Óþörf – fleygt eftir
blómgun.
Full búð af
nýjum vörum
550 5000
AUGLÝSINGASÍMI
www.svefn.is