Fréttablaðið - 25.02.2007, Blaðsíða 12
Þ
að eru tæp 30 ár síðan
Ásgeir hóf störf hjá
lögreglunni í Reykja-
vík. Hann byrjaði í
almennu deildinni, en
var síðan „lánaður“ í
níu mánuði til fíkniefnadeildarinn-
ar, eins og hann orðar það.
Sló það „lán“ ef til vill tóninn fyrir
það sem síðar varð?
„Nei, það er alls ekki hægt að segja
það, því það var ekki fyrr en all-
löngu síðar sem mér bauðst að
starfa í fíkniefnadeildinni.“
Eftir tæpt ár í fíkniefnadeild-
inni hélt Ásgeir áfram starfi sínu
hjá almennu deildinni. Þaðan lá
leiðin í slysarannsóknardeild, þá
almenna rannsóknardeild og þaðan
í útlendingaeftirlitið.
„Þar vann ég við almenn störf
sem sneru að útlendingum. Þá sá
útlendingaeftirlitið um vegabréfs-
áritanir, vegabréfaskoðun, landa-
mæraeftirlit á Reykjavíkurflug-
velli ásamt fleiru sem til féll,“
rifjar hann upp.
Eftir tíu ára starf á þeim vett-
vangi var honum boðið að starfa í
fíkniefnadeild lögreglunnar í
Reykjavík. Þar tók hann við starfi
lögreglufulltrúa og var þar dagleg-
ur stjórnandi. Árið 2000 varð hann
svo aðstoðaryfirlögregluþjónn yfir
deildinni.
Tókstu þér langan umhugsunar-
frest eða sóttu á þig einhverjar
efasemdir um hvort þú ættir að
taka við þessu annasama starfi?
„Nei. Ég þurfti ekkert að hugsa
mig um áður en ég tók boðinu,“
segir hann. „Ég leit á það sem
áskorun að taka þetta á þessum
tíma og sé ekki eftir því. Á fyrstu
mánuðunum þurfi að vísu að glíma
við ýmis fortíðarvandamál sem ég
kom ekkert að með öðrum hætti en
að taka á þeim og koma starfinu í
þann farveg sem það er í dag. Það
er óhætt að segja að átt hafi sér
stað endurskipulagning og breyt-
ing á vinnubrögðum. En ég get sagt
þér það nú, þegar ég er að hætta
eftir tæplega tíu ára starf, að mér
hefur ekki leiðst einn einasta dag í
vinnunni.“
Hafa orðið miklar breytingar á
fíkniefnaheiminum á þeim tíma
sem þú hefur starfað í fíkniefna-
deildinni?
„Já, það er óhætt að fullyrða
það. Þegar ég byrjaði var allt miklu
minna í sniðum. Menn voru þó
farnir að skipuleggja sig í innflutn-
ingi fíkniefna, en síðan hafa málin
orðið stærri og fleiri komið við
sögu. Magnið hefur aukist og
skipulagning orðið nákvæmari hjá
þeim sem standa að þessu, auk
meiri tengsla þeirra við fólk
erlendis. Þetta eru helstu breyt-
ingarnar í hnotskurn.“
Nú er það svo, eðli málsins sam-
kvæmt, að burðardýrin svokölluðu
eru alltaf nöppuð. Stundum er um
að ræða fólk sem aldrei hefur
komið við sögu lögreglu áður.
Hvaða hvatir liggja að baki því að
fólk tekur að sér að smygla fíkni-
efnum inn í landið?
„Í sumum tilvikum eru burðardýr-
in atvinnufólk sem tekur þessa
áhættu gegn greiðslu. Svo eru
dæmi þess að fólk fari nauðugt í
þessar ferðir, þá vegna þvingana
frá öðrum, eða að verið sé að greiða
einhverja skuld við þessa karla
sem stýra innflutningnum. Loks
eru þeir sem gera þetta vegna þess
að þeir búa við kröpp kjör og sjá
þarna leið til að ná sér í peninga.
Burðardýrin eru á öllum aldri, allt
frá því að vera kornungt fólk og
upp í að vera afar og ömmur.“
Segir þetta fólk ykkur frá aðstæð-
um sínum og þá hverjir stóru karl-
anir í málunum eru?
„Það er allur gangur á því. Sumir
ákveða að sitja sjálfir í súpunni.
Oft er það þannig með atvinnu-
burðardýrin að þau tjá sig ekki,
því skipulaginu er þannig fyrir
komið að þau vita hreinlega ekki
hverjir standa á bak við innflutn-
inginn. Þeir sem fara nauðugir í
ferðirnar þora ef til vill alls ekki
að upplýsa um hverjir standa að
baki smyglinu, og þá af ótta við
hefndaraðgerðir. Sumir þeirra
ákveða þá að taka sökina á sig.“
Náið þið þá ekki höfuðpaurunum,
sem sjá um fjármögnun til kaupa á
fíkniefnunum, skipulagningu,
útvegun burðardýra og annað sem
til þarf til að geta komið efnunum
til landsins og í dreifingu?
„Ekki í þeim tilvikum þar sem fólk
treystir sér ekki til að upplýsa um
þeirra þátt í málinu. Oftast nást þó
höfuðpaurarnir við rannsókn mál-
anna. En í þeim málum, sem koma
tilfallandi upp, þegar burðardýr er
stöðvað við komuna til landsins og
engin vitneskja er um málið fyrir-
fram, er oft erfitt að rekja sig til
þeirra sem standa á bak við þau.
Staðreyndin er sú að þeir gera allt
sem í þeirra valdi stendur til þess
að komast hjá því að vera gripnir.
Þeir beita öllum brögðum sem
þeim dettur í hug að nota.“
Hefur ofbeldi farið harðnandi á
þeim tíma sem þú hefur starfað í
fíkniefnadeildinni?
„Já, ég tel að það hafi farið harðn-
andi. Handrukkarar hafa verið í
auknum mæli í umræðunni. Mikill
fjöldi fólks leitar á slysadeild um
helgar eftir barsmíðar, og þess eru
jafnvel dæmi að slagsmál brjótist
út á slysadeild. Ég veit til þess að
starfsfólk á slysadeild óttast oft á
tíðum um eigið öryggi. Sum þess-
ara brota koma jafnvel aldrei til
kasta lögreglu því fólk þorir ekki
að kæra. Það er því ekki hægt að
henda reiður á hversu mikið þetta
nákvæmlega er. Mín tilfinning er
sú að ofbeldi sé að harðna og tilvik-
um að fjölga. Í öllu falli heyrist
meira af slíkum málum nú en
áður.“
Er aukinn vopnaburður samfara
þessari ofbeldisþróun?
„Já, hann hefur færst í vöxt. Við
erum að taka fólk með alls konar
vopn á sér, einkum hnífa en einnig
barefli, svo sem hafnaboltakylfur.
Þá kemur fyrir að við tökum fólk
með skammbyssur og afsagaðar
haglabyssur og það hefur aukist í
seinni tíð. Þetta er eitthvað sem
menn verða að hafa áhyggjur af.“
Hafa starfsmenn fíkniefnadeildar
einhvern tíma verið hætt komnir
af þessum sökum?
„Það má oft litlu muna. Þeir hafa
lent í átökum við menn sem hafa
borið hættuleg vopn innan klæða,
þar með talin skotvopn. Í þeim til-
vikum má oft lítið út af bregða til
þess að það verði slys. Auðvitað
tekur það á menn að hafa staðið
frammi fyrir því að vera að fljúg-
ast á við einhvern sem hefur borið
hættuleg vopn, því það er svo
skammt á milli þess að málin gangi
upp og svo hins, að slys eigi sér
stað. Menn átta sig oft ekki á því
fyrr en eftir á.“
Er það staðreynd að erlendir
glæpahópar séu að reyna að festa
sig í sessi hér með því að smygla
fíkniefnum til landsins?
„Það er ekki hægt að útiloka það.
Það er alveg ljóst að útlendingar
hafa komið í auknum mæli við
sögu í stærri fíkniefnamálum
hérna, sem gefur okkur ákveðnar
vísbendingar um að þeir séu farnir
að sýna Íslandi meiri áhuga heldur
en þeir gerðu áður. Þó að um sé að
ræða lítið land og fámenna þjóð þá
er klárt mál að það er eftir ein-
hverju að slægjast að þeirra mati.
Verðlag á fíkniefnum er hátt hér,
þannig að ágóðinn er mikill og það
er jú gróðasjónarmið sem ræður
ferðinni.“
Ástandið er ekki glæsilegt, eins og
þú lýsir því. Hvað er til ráða gegn
sívaxandi fíkniefnaneyslu?
„Það eru fyrst og fremst forvarnir.
Eftirspurnin ræður þróuninni. Sé
hún er ekki fyrir hendi þá er ekki
eftir eins miklu að slægjast fyrir
þessa glæpamenn. Einnig þarf að
halda áfram stöðugu eftirliti með
þessum málum. Það þýðir ekki að
slaka á klónni. Sé það ekki gert þá
endar þetta með ósköpum. Þótt
baráttan sé erfið þá þýðir það ekki
að menn eigi að leggja upp laupana
og gefast upp. Það er alveg út í hött
að láta sér detta það í hug. Ef ég
væri þeirrar skoðunar að þetta
þýddi ekki neitt þá ætti ég ekki að
vera í þessu starfi.
Sama lögmál gildir um önnur
brot. Menn eru alltaf að aka of
hratt, brjótast inn og misþyrma
fólki. Á að hætta að sinna þessu og
láta það lönd og leið? Ég segi nei.
Það nákvæmlega sama á við um
fíkniefnin. Það á að halda þessari
baráttu áfram og efla hana.“
Á þessi langi opnunartími skemmti-
staða einhvern þátt í þeirri þróun
mála sem þú hefur lýst hér að
framan?
„Mín persónulega skoðun er sú, að
ekki hafi verið heppilegt að gefa
opnunartímann svona frjálsan eins
og gert var. Það segir sig sjálft að
þegar fólk er búið að vera að
drekka eða dópa langt fram á
morgun getur það endað með
ósköpum. Eins og staðan er í dag
þá hefur fólk engan hvata til þess
að fara heim. Það væri hugsanlegt
að stytta opnunartíma skemmti-
staða og við tækju einhverjir næt-
urklúbbar. Þá fengi fólk svolítinn
hvata til að fara heim, í stað þess
að nú getur það setið fram á morg-
un eða þar til það lognast út af.”
Þú hefur átt mikil samskipti við
fjölmiðla á þeim tíma sem þú
hefur verið yfirmaður fíkniefna-
deildar. Hefurðu verið sáttur við
þau?
„Já, þau hafa yfirleitt verið til
mikillar fyrirmyndar og við finn-
um fyrir miklum skilningi hjá fjöl-
miðlafólki.“
„Auðvitað koma fyrir tilvik þar
sem við sjáum hið gagnstæða og
það er því miður staðreynd að jafn-
vel menn innan lögreglu eða tolls
eru tilbúnir til þess að leka við-
kvæmum upplýsingum sem getur
haft mjög skaðleg áhrif á rannsókn
mála.
Það segir sig sjálft að ótímabær
fréttaflutningur af málum getur
hreinlega eyðilagt þau fyrir okkur.
Hann gerir ekkert annað en að
vara þá við sem standa að þeim
brotum sem verið er að rannsaka,
en hafa enn ekki náðst. Það eru
nokkur tilvik þar sem slíkur frétta-
flutningur hefur skaðað mál, jafn-
vel eyðilagt þau. Þetta er mikið
áhyggjuefni og ótrúlegt að menn
skuli leka viðkvæmum upplýsing-
um af þessu tagi. Þagnarskylda
opinberra starfsmanna er mjög
rík og ef þeir brjóta hana með því
að leka upplýsingum um eitthvað
sem þeir verða áskynja í starfi þá
er það hreint og klárt lögbrot.“
Þegar þú lítur til baka eftir nær
tíu ár í starfi sem þú ert nú að láta
af, er þá eitthvað sem þú vildir
hafa gert öðruvísi?
„Við höfum alltaf verið að þróa
starfið áfram á þessum tíma og
erum miklu öflugri í dag heldur
en þegar ég byrjaði. Það hefur
verið bætt við fólki, auk þess sem
við höfum breytt vinnuaðferðum
okkar. En fyrst og síðast er það
mannskapurinn í deildinni sem er
að skila þessum góða árangri sem
raun ber vitni. Hér er valinn
maður í hverju rúmi og áhuginn
ótakmarkaður. Hópurinn er þéttur
og hér er góð liðsheild. Menn eru
að gera sitt besta, vinna vel úr
sínum málum, og þá er ekki hægt
að ætlast til meira af þeim.“
Sérðu eftir að yfirgefa þennan hóp
innan fárra daga?
„Auðvitað er alltaf eftirsjá þegar
maður yfirgefur eitthvað sem
manni hefur líkað vel og ég kem til
með að sakna þeirra félaga sem ég
er að vinna með hér í dag. En mér
bauðst starf í nýrri greiningar-
deild hjá Ríkislögreglustjóra með
skömmum fyrirvara og það var
ákveðin áskorun að takast á við
nýtt verkefni. Ég held að það geri
öllum gott að breyta til með
ákveðnu millibili. Því ákvað ég að
slá til þegar mér var boðið það.
Greiningardeildin er í mótun og
ég hef mikla trú á þessu verkefni.
Ég lít því björtum augum til fram-
tíðar.“
Baráttan verður að halda áfram
Þá kemur fyrir að við tökum fólk með skammbyssur og af-
sagaðar haglabyssur og það hefur aukist í seinni tíð. Þetta
er eitthvað sem menn verða að hafa áhyggjur af.
Um næstu mánaðamót verða kaflaskipti hjá
Ásgeiri Karlssyni yfirmanni fíkniefnadeildar lög-
reglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hann yfirgefur
þá deildina eftir tæplega tíu ára starf þar og tekur
til starfa hjá greiningardeild Ríkislögreglustjóra.
Þar mun hann sjá um daglega stjórnun nýrrar
deildar sem er í mótun og uppbyggingu. Jóhanna
S. Sigþórsdóttir blaðamaður ræddi við Ásgeir um
fortíð og framtíð.