Fréttablaðið - 06.07.2007, Page 52
Síðustu ár hef ég
stöðugt verið að átta
mig betur og betur
á því hvað það eru
mikil forréttindi að
hafa fengið að alast
upp annars staðar en
í miðbæ Reykjavíkur. Reyndar var
það þar sem ég kom í heiminn og bjó
fyrstu árin en fljótlega var ég samt
flutt norður í land þar sem ég bjó
fram undir tvítugt. Eftir að ég eltist
hef ég síðan verið á stöðugu flakki
fram og til baka og þó að mér finnist
ágætt að búa í höfuðstaðnum finnst
mér alltaf mjög gott að geta skipt um
umhverfi og komist heim í sveitina.
Jólafrí og páskafrí hafa því verið
í miklu uppáhaldi hjá mér síðustu ár
þar sem ég hef getað notað þau til
þess að fara heim og slappa af. Þang-
að til nýlega tengdi ég dálæti mitt
á þessum fríum aðallega við meiri
svefn en nú er ég búin að átta mig á
að sennilega er það flóknara en svo.
Síðasti vetur var nefnilega einn
besti vetur sem ég hef átt þau ár sem
ég hef búið í Reykjavík. Ástæðan var
ekki sú að ég væri í fríi allan vetur-
inn, því það var ég alls ekki, heldur
sú að þetta árið var ég miklu dug-
legri við að fara stuttar dagsferðir
út úr bænum en fyrri ár. Skammdeg-
isletin sem ég hafði verið að pirra
mig á var því eftir allt saman ekki
bara leti heldur líka einhvers konar
hundraðogeinn innilokunarkennd.
Þrátt fyrir að vera að norðan
og þar af leiðandi viss um að allar
helstu náttúruperlur landsins sé þar
að finna er ótrúlegt hvað ég er búin
að finna marga fallega og áhuga-
verða staði sunnanlands á stuttum
tíma. Ég hef reynt að fara eitthvað
og gera eitthvað skemmtilegt flest-
ar helgar og það er alveg á hreinu
að því að keyra út í sveit fylgir ein-
hver frelsistilfinning sem finnst ekki
á miklubrautum borgarinnar.
Ég mæli því með ferð í sveitina
fyrir alla sem vilja vera almennt
ánægðari og orkumeiri, og ekki bara
á sumrin heldur líka á haustin, vorin
og veturna. Helst bara eins oft og
mögulegt er. Ég er líka alveg á því
að þó að geti verið gaman að skreppa
til London eða einhverrar annarrar
borgar jafnist það ekki á við að fara
út í íslenska sveit, ef maður hefur
ekki verið duglegur að því.