Fréttablaðið - 28.09.2007, Blaðsíða 40
28. SEPTEMBER 2007 FÖSTUDAGUR4 fréttablaðið í skólanum
Í lítilli og lauslegri könnun
í tveimur framhaldsskólum
kom í ljós að meirihluti
nemendanna vinnur með
náminu.
Tuttugu voru spurðir í hvorum
skóla og hlutföllin voru eins í
báðum. Tólf að vinna en átta ekki.
Þótt könnunin væri nafnlaus
stakk blaðamaður hjá sér stöku
setningu sem nemendurnir létu
fylgja með jákvæðu svari sínu
eins og: „Það er allt svo dýrt að
við verðum að vinna,“ og „Ef
maður ætlar að eiga einhvern
pening þá er eina ráðið að vinna,“
eða „Ef maður vill vera á bíl þá
þýðir ekkert annað en afla tekna
á móti.“
Agla Sigríður Björnsdóttir
hjá vinna.is hefur lengi starfað
við ráðningar. Hún telur að þeim
fari fækkandi sem vinna með
skólanum frá því sem áður var.
„Ég er ekki með haldbærar tölur
en það er mín tilfinning að heldur
hafi dregið úr vinnu ungmenna
með skóla og þau geri æ meiri
kröfur um frítíma. Ég held líka
að ungt fólk eigi auðveldara með
að fá lán hjá bankastofnunum
en áður og geti velt skuldum
yfir á sumarið. Það hefur sitt að
segja.“
Agla segir háskólanemendur
taka frekar að sér vinnu við
ræstingar og símasölu en í
verslunum enda sé vinnutíminn
þar yfirleitt styttri.
Ægir Már Þórisson er mann-
auðsstjóri hjá Capacent. Hann
segir úthringistörf í tengslum
við kannanir vera lið í starfsemi
fyrirtækisins og þau séu að
nokkru leyti mönnuð með fram-
haldsskólafólki. „Starfsstöðin
á Akureyri er mun stærri en
á höfuðborgarsvæðinu og þar
erum við með öflugan hóp
úr Verkmenntaskólanum, og
Menntaskólanum á Akureyri í
vinnu á kvöldin. Meiri hreyfing
er á fólki í þessum störfum á
höfuðborgarsvæðinu. Það stoppar
yfirleitt styttra við en þó erum
við þar með ákveðinn kjarna,“
segir hann.
Ingólfur Hlynsson, innkaupa-
stjóri hjá 10-11, segir talsvert
um vinnu skólafólks á vegum
fyrirtækisins. „Við erum með
26 verslanir í öllum hverfum á
höfuðborgarsvæðinu og þar eru
störf sem henta skólafólki mjög vel
vegna hins langa afgreiðslutíma.
Miðað við þá umræðu sem verið
hefur undanfarið um að erfitt sé
að manna vinnustaði getum við
ekki kvartað. Þetta er besta haust
sem við höfum upplifað í mörg ár
hvað það varðar.“
Ingólfur segir 10-11 hafa farið
í markvissar aðgerðir til að halda
fólki og því hafi starfsmannavelta
farið úr áttatíu prósentum niður
í undir þrjátíu. „Við erum með
gott starfsmannafélag sem sér
um uppákomur tvisvar í mánuði,
skemmtikvöld, ferðir og fleira
þannig að alltaf er eitthvað að
hlakka til. Það skiptir miklu
máli.“ gun@frettabladid.is
Það er allt svo dýrt að við verðum að vinna
10-11 er vinsæll vinnustaður skólafólks.
FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Agla Sigríður telur að þrátt fyrir mikla
vinnu skólafólks nú hafi hún verið enn
meiri fyrir nokkrum árum.
Í lauslegri könnun Fréttablaðsins í tveimur framhaldsskólum kom í ljós að sextíu
prósent nemenda starfa með skóla.