Fréttablaðið - 15.01.2009, Page 36
28 15. janúar 2009 FIMMTUDAGUR
VELJUM
ÍSLENSKT
UMRÆÐAN
Ólafur Sigurðsson
skrifar um vinnubrögð
fréttamanna
Menn muna nú þegar Ríkissjónvarpið var
hér eitt á markaðnum og
ráðherrar sömdu spurn-
ingar fyrir fréttamenn-
ina.“ Þetta sagði Sigurður
Kári Kristjánsson alþingismaður
í úrvarpsþættinum Í bítið á Bylgj-
unni, 17. desember síðastliðinn.
Þessi orð lét hann falla þegar hann
skýrði frá því að hann væri að fjalla
um það í menntamálanefnd Alþing-
is að takmarka auglýsingar í Sjón-
varpinu.
Ég tel ástæðu til að hrekja þessa
staðhæfingu, vegna þess að hún
er árás á starfsheiður allra þeirra
fréttamanna, sem störfuðu hjá Sjón-
varpinu frá því að það var stofnað
1966, þar til Stöð 2 var stofnuð 1986
og Sjónvarpið ekki lengur „eitt á
markaðnum“.
Þessi staðhæfing Sigurðar Kára
felur í sér að allir þessir fréttamann
hafi verið þær undirlægjur að láta
stjórnmálamenn ráða því um hvað
þeir væru spurðir. Þetta gefur í skyn
að við höfum ekki haft kjark til að
standa í fæturna frammi fyrir vald-
höfum landsins og spyrja þá þeirra
spurninga, sem við töldum þurfa, þó
óþægilegar kynnu að vera.
Þessar ásakanir í garð okkar
fréttamanna voru einnig settar
fram í hátíðardagskrá í tilefni af
40 ára afmæli sjónvarpsins 2006.
Þá var það Ólafur Ragnar Gríms-
son, forseti Íslands. Eiður Guðna-
son sendiherra bar þennan áburð
til baka í grein í tímaritinu Þjóðlífi,
þar sem hann fjallaði um fyrstu ár
Sjónvarpsins.
Það er einkennilegt að þeir Sig-
urður Kári og Ólafur Ragnar skuli
segja þetta, því að það hittir þá
sjálfa fyrir sem stjórnmálamenn.
Með þessu saka þeir sína líka um
að hafa vitandi vits komið í veg
fyrir opna lýðræðislega umræðu í
þjóðfélaginu.
Strax eftir að Sjónvarpið hóf
göngu sína varð það einn helsti
vettvangur stjórnmálaumræðu og
er það enn. Stjórnmálamenn voru
fljótir að tileinka sér þennan nýjan
miðil og samskipti fréttamanna við
þá urðu mikil, bæði í fréttum og
umræðuþáttum. Í ljósi þess verð-
ur það að teljast bæði athyglisvert
og lofsvert, að stjórnmálamenn létu
okkur fréttamenn í friði með frétta-
flutning. Ég var aldrei
beittur þrýstingi eða hót-
unum eða boðum um ein-
hver gæði af stjórnmála-
manni, til að hafa áhrif á
minn fréttaflutning. Ég
veit að samstarfsmenn
mínir hafa sömu sögu að
segja. Ég tel að stjórn-
málamenn eigi að njóta
sannmælis í þessu máli.
Stjórnmálamenn höfðu
hins vegar oft afskipti af
fjármálum og annarri stjórn stofn-
unarinnar. Til að ganga úr skugga
um að þessi áburður þeirra Ólafs
Ragnars og Sigurðar Kára sé
rangur hafði ég samband við alla
þá fréttamenn, sem til náðist og
störfuðu hjá Sjónvarpinu frá stofn-
un, „þegar Ríkissjónvarpið var hér
eitt á markaðnum“.
Fyrst talaði ég við þá Magn-
ús Bjarnfreðsson og Markús Örn
Antonsson, fyrstu fréttamennina,
og hvorugur kannaðist við að hafa
tekið við spurningum eða öðrum
fyrirmælum frá stjórnmálamönn-
um. Enginn hinna kannast heldur
við þetta og hér eru nöfnin í staf-
rófsröð:
Bogi Ágústsson, Eiður Guðna-
son, Guðjón Einarsson, Helgi E.
Helgason, Ingvi Hrafn Jónsson,
Jón Hákon Magnússon, Magnús
Bjarnfreðsson, Markús Örn Ant-
onsson, Ólafur Sigurðsson, Ómar
Ragnarsson, Sigrún Stefánsdóttir,
Sigurveig Jónsdóttir, Sonja Diego,
Svala Thorlacius og Ögmundur Jón-
asson.
Allir þessir menn segja einum
rómi að þeir Ólafur Ragnar og Sig-
urður Kári fari með rangt mál. Þeir
hafa báðir aðgang að símaskrá og
hefðu getað hringt í hvert okkar
sem er og komist að hinu sanna,
en gerðu það ekki. Við sem í hlut
eigum viljum hafa það sem sann-
ara reynist. Ekki þætti mér óeðli-
legt að þeir stjórnmálamenn, sem
þeir félagar hafa fyrir rangri sök,
svöruðu fyrir sig sjálfir.
Að lokum er það umhugsunarefni
hvernig Sigurður Kári og sex aðrir
þingmenn í menntamálanefnd eyða
sínum tíma, þegar menntakerf-
ið er að hruni komið vegna fjár-
málakreppu. Sigurður Kári sagði
í sama útvarpsþætti: „Við ætlum
að sitja núna frá hálf níu til tólf og
fjalla einmitt um þetta auglýsinga-
mál...“, sem sé hvernig draga megi
úr auglýsingatekjum Sjónvarps-
ins til ágóða fyrir aðrar sjónvarps-
stöðvar.
Höfundur er fyrrverandi vara-
fréttastjóri Sjónvarps.
„Ráðherrar sömdu
spurningar“
UMRÆÐAN
Jón Kalman Stefánsson skrifar
um íslenskt samfélag
Líf okkar er í eðli sínu sáraeinfalt; við stefnum að hamingju. Við
viljum eignast skjól í heiminum, vilj-
um elska og vera elskuð, og viljum
eignast heimili, um þetta snýst allt
saman, þarna er kjarninn. Og flest
eigum við það sameiginlegt að vilja
búa í réttlátu þjóðfélagi, viljum gæsku frem-
ur en græðgi, öryggi framyfir gróða, traust
umfram hagsmuni. Viljum ekki samfélag þar
sem fáir ráða en fjöldinn hefur engin áhrif -
og á heldur ekki að hafa. En þannig er Ísland
samt í dag. Örfáir ráðamenn ráða því sem
þeir vilja ráða, Alþingið lítið annað en áhrifa-
laus afgreiðslustaður, þingmenn kontóristar
sem greiða atkvæði eftir flokkslínum.
Ég hef verið vondaufur undanfarnar vikur,
lesið greinar, fylgst með umræðum, mætt á
Austurvöll, glaðst yfir nýjum röddum, nýju
afli, kraftinum sem hrunið leysti úr læðingi.
En nú hefur almenningur hrópað árangurs-
laust á breytingar í fjóra mánuði. Þið eruð
ekki þjóðin, segir Ingibjörg Sólrún, bylting-
arkonan sem valdið virðist hafa eyðilagt,
og Geir H. Haarde hlustar ekki einfaldlega
vegna þess að hann kann ekki að hlusta. Geir
er afsprengi þess flokksræðis sem við höfum
búið við, líklega allar götur frá stofnun lýð-
veldis. Geir er sjálfsagt vænsti maður, en
stjórnmálamaðurinn Geir H. Haarde stendur
í vegi fyrir okkur, hann stendur í vegi fyrir
breytingunum, hinu nýja afli sem
er að rísa upp úr þjóðardjúpinu. Og
strangt til tekið er rangt af mér að
kalla Geir stjórnmálamann; hann
er valdsmaður. Ófáir stjórnmála-
menn á Íslandi, og einkum þeir sem
hafa komist til umtalsverða áhrifa,
hafa ósjálfrátt farið að líta á sig sem
valdsmenn, menn valdsins; vald-
ið tilheyrir þeim, ekki fólkinu. Hér
stjórna ráðherrar, ekki Alþingi. Og
við, hinn almenni maður, höfum
ekkert um ákvarðanir þeirra að segja. Þeir
ákveða að styðja innrás í Írak, þeir ákveða að
gefa útvöldum aðilum auðlindir hafsins, og
síðan bankana, þeir ákveða að leggja niður
spítala, og gæla við að einkavæða þá. Við
stöndum niðrá Austurvelli, sitjum á borgara-
fundi í Háskólabíói, hrópum og öskrum og
mótmælum en það hefur nákvæmlega ekkert
að segja. „Sjálfstæðismenn hafa ekki áhuga
á pólitík“, sagði Hannes Hómsteinn Gissura-
son, stjórnmálafræðingur; „Sjálfstæðismenn
eru menn sem vilja græða á daginn og grilla
á kvöldin.“
Og þannig vill Geir H. Haarde hafa okkur.
Geir og valdafélagar hans. Ingibjörg og
Björn, Össur og Guðlaugur, Valgerður og Siv.
Þau vilja að við séum þæg. Þau vilja að við
vinnum á daginn, förum síðan heim að borða,
og séum áhugalaus um pólitík. Láti þau um
sviðið. Og völdin. Þau kæra sig ekki um trufl-
un. Rísi þjóðin upp, eins og hún hefur verið
að gera, slá þau skjaldborg um valdið. Ég hef
mætt niður á Austurvöll, lesið greinar, horft
eða hlustað á umræðuþætti, talað við fólk og
alls staðar fundið fyrir þessu nýja, mikla afli
sem hrópar á breytingar, á nýja tíma. Ég hef
glaðst yfir þessu, hrifist en síðan litið á fyr-
irstöðuna, Geir, Ingibjörgu og allt sem þau
skýla: Davíð Oddssyni, siðspilltum peninga-
mönnum, vanhæfum stjórnmálamönnum -
og fyllst vonleysi. Stjórnvöld reyna að halda
þjóðarkraftinum niðri og þess vegna þurfum
við að koma þeim frá, með öllum tiltækum
ráðum. Friðsamlega – ef hægt er.
Að undanförnu hafa nokkrir einstakling-
ar bent okkur á þá einföldu staðreynd að
ein af stóru ástæðunum fyrir hruninu, vax-
andi atvinnuleysi, gjaldþroti fyrirtækja og
einstaklinga og stigvaxandi vonleysi, sé sú
að lýðræðið hafi gengið sér til húðar, kerf-
ið virkar ekki, það er ónýtt; þar liggi mein-
semdin. Hér sé flokksræði, ekki lýðræði,
ráðherravald og áhrifalaust Alþingi. Sífellt
fleiri tala nú um að á árunum 1944 - 2009
hafi Fyrsta lýðræði Íslands verið við lýði; en
á þessu ári verði Annað lýðveldi Íslands að
hefjast. Að eina leiðin út úr ógöngunum sé
að endurskoða stjórnarskrána frá grunni,
umbylta henni, auka áhrif Alþingis, auka
áhrif fólksins. Þetta virðast í fyrsta augna-
kasti róttækar tillögur, en þær eru ekki rót-
tækar, bara lífsnauðsynlegar. Ef við ætlum
að rísa sem sjálfstæð sterk þjóð upp úr rúst-
unum, þá verðum við að byggja upp á nýtt.
Og frumskilyrðið er að koma fyrirstöðunni
frá, stjórnvöldum sem vilja svo gjarnan að
við höldum kjafti og látum þau alfarið um
björgunaraðgerðir. Höldum kjafti og kjósum
framboðslistana þeirra á fjögurra ára fresti.
Það er þeirra hugmynd um lýðræðið, og
þannig er Fyrsta lýðræði Íslands. Nú þarf að
breyta því. Allir verða að taka afstöðu. Það
má enginn standa til hliðar. Þetta eru hvörf-
in. Hver manneskja verður að gera upp við
sig hvernig þjóðfélagi hún kýs að búa í, og
skapa niðjum sínum. Sækist hún eftir þjóðfé-
lagi klíkuskapar, ójafnaðar, flokksræðis og
ráðherravalds, þá tekur hún ekki þátt í neinu.
Hún mætir ekki á Austurvöll, fer aldrei á
borgarafund, hún styður ríkjandi ástand með
því að sitja heima. Hún sættir sig við að fjár-
glæframenn komist undan með milljarða
sína, sumarhallir, lúxusíbúðir í útlöndum,
snekkjur og einkaþotur. Lýsir því yfir að hún
treysti þeim stjórnvöldum, og því lýðræðis-
kerfi sem keyrðu okkur í kaf, fyrir fram-
tíð sinni. Hún lýsir því yfir að ekkert eigi að
breytast. En þeir sem vilja breytingar verða
hins vegar að sýna það í verki, það er ekki
lengur hægt að víkja sér undan, ekki í þetta
sinn, ekki núna. Það er borgaraleg skylda
okkar að rísa upp. Og það er hægt að gera
það með ýmsum hætti. Skrifa í blöðin. Mæta
á borgarafundi, á mótmælafundina á Austur-
velli. Grýta eggjum. Hver manneskja velur
sína leið. En hún verður að velja. Hún verður
að gera eitthvað. Það er eina mögulega leið-
in að þrýsta á breytingar. Það er eina leiðin
að réttlætinu. Við verðum að rísa upp, í tug-
þúsundatali; þrjátíu, fjörutíu þúsund manns
verða að mæta á Austurvöll og hrópa á nýtt
Ísland. Ekki uppstokkun ráðherra, ekki neinn
fjandans kattarþvott heldur umbyltingu.
Nýtt lýðveldi – Annað lýðveldi Íslands.
Höfundur er rithöfundur.
Nýtt Ísland; nýtt lýðveldi
ÓLAFUR
SIGURÐSSON
JÓN KALMAN
STEFÁNSSON