Tíminn - 10.10.1982, Síða 4

Tíminn - 10.10.1982, Síða 4
SUNNUDAGUR 10. OKTÓBER 1982 •, , . » ii | [ J 4 / . 4 Wmmm H Þessi teikning af sálfneðingnum Cyril Burt prýddi forsíðu enska vikuritsins The Listener í vor Cyril Burt, einn áhrifamesti fræðimaðiir Breta: SÁLFRÆÐINGURINN SEM BLEKKTI HEIMSRYGGÐINA Gögnhans um arfgengan greindarmun manna voru fölsuð ■ Cyril Burt var um áratugaskeið einhver virtasti og áhrifamesti sálfræð- ingur Breta og aðlaður fyrir rannsóknir sínar og kenningar á sviði greindarsálar- fræði. Frægastur var hann fyrir rann- sóknir sínar á eineggja tvíburum sem aldir höfðu verið upp í mjög ólíku umhverfi frá fæðingu, en þær bentu til þess að andleg hæfni manna væri að mestu leyti ásköpuð og arfgeng, en ekki áunnin eða mótuð af umhverfisaðstæð- um. Fáum árum eftir að Cyril Burt lést, en það var 1971, benti bandarískur sálfræð- ingur, Leon Kamin við Princeton háskóla, á ósamkvæmni í tölfræðilegum gögnum Burt sem skekktu allar niður- stöður hans, og árið 1976 leiddi Oliver Gillie, erfðafræðingur og blaðamaður við stórblaðið The Sunday Times, að því rök að veigamikil atriði í rannsóknar- skýrslum Burt væru fölsuð, auk þess sem hann hefði skrifað fræðiritgerðir í nafni fólks sem ekki hefði verið til og aldrei unnið að þeim rannsóknum sem stað- hæft var að hefðu verið framkvæmdar. Þetta þóttu auðvitað mikil tíðindi, og lærisveinar Burt og samherjar um þá umdeildu skoðun að erfðir fremur en umhverfi ráði sálargáfum manna, risu upp honum til varnar. Hans J. Eysenck sem nú á dögum er kunnasti sálfræðing- ur Breta kvað ásakanirnar vera fjar- stæðu eina og samsæri vinstri sinna sem ekki gætu fellt sig við staðreyndir vísinda þegar þær kæmu ekki heim og saman við eigin hleypidóma. Bandaríski sálfræð- ingurinn Arthur Jensensem í minningar- grein um Burt hafði kallað hann „heiðursmann" og „einhvern fremsta sálfræðing aldarinnar" og byggt hinar umdeildu niðurstöður sínar um greind- armun kynþátta árið 1969 að verulegu leyti á gögnum Burt, viðurkenndi á hinn bóginn að ekki væri lengur unnt að reiða sig á þau. Ásakanir staðfestar Þaö var þó ekki fyrr en 1979 að endanlega var skorið úr um þetta deilumál. Þá kom út bókin Cyril Burt, psychologist eftir L.S. Hearnshaw, sem verið hafði lærisveinn Burt og systir Burt hafði fengið til að rita ævisögu hans í því skyni að hreinsa nafn hans. Hearnshaw fékk aðgang að öllum varðveittum gögnum Burt og nákvæmri dagbók sem hann hafði haldið um einkahagi sína og fræðistörf í áratugi. Niðurstaða Hearns- haw var sú að ásakanir og aðfinnslur Leon Kamin og Oliver Gillie væru á rökum reistar, og það sem meira var, Burt hafði stundað falsanir sínar lengur og af meiri kappsemi en nokkur hafði trúað. Endanleg afhjúpun Burt sem loddara skók búðir greindarsálfræðinga, og þótti svo mikið áfall fyrir kcnningar um arfgengi sálargáfna að þær hafa ekki rétt við enn. Margvíslegar spumingar um sálarfræði og vísindalega starfsemi almennt vöknuðu: Hvernig gat Cyril Burt komist upp með falsanir sínar? Hvar var hinn „gagnrýni andi“ sem vísindi státa af? Hvernig stóð á því að tölfræðileg gögn sem allir sjá nú að gátu ekki staðist hlutu einróma lofsyrði dómbærra fræðimanna um langt árabil? Saga Cyril Burt Cyril Burt var fæddur árið 1883 og kom úr röðum millistéttar; faðir hans var heimilislæknir sem aldrei hafði of mikið fé handa á milli. Burt hlaut styrk til náms á Jesúmgarði í Oxford þar sem hann lagði stund á fommálin, heimspeki og svolitla sálarfræði. Árið 1908 varð hann lektor við háskólann í Liverpool og kenndi þar sálarfræði sem þá var að komast á legg og auka umsvif sín mjög. Burt reyndist eindæma vinnuþjarkur og hóf að semja greindarpróf og sinna greindarrannsóknum, sem varð sérgrein hans innan sálarfræði. Fjómm ámm síðar var hann ráðinn sálfræðingur á fræðsluskrifstofu Lundúna, og þar sinnti hann rannsóknum sínum á greind skólabarna sem frægar urðu. Þessum starfa gegndi Burt í tvo áratugi, og fyrir það varð hann atkvæðamesti sálfræðingur á sviði upp- eldis- og kennslumála í Bretlandi. Á þessum árum safnaði Burt gögnum sem kenningar hans um arfgengi greindar vom reistar á, og sálfræðingar um allan heim, þar á meðal á íslandi, hafa vitnað til fram á síðustu ár. Það er ekki lengur hægt að ganga úr skugga um hvort upprunaleg gögn Burt vom áreiðanleg, eða að einhverju leyti fölsuð eins og síðari rannsóknir hans, með því þau eyðilögðust í sprengjuárás Þjóðverja á Háskólagarð í Lundúnum árið 1941. Falsanir hefjast Mikilsverðustu gögnin sem týndust í sprengjuárásinni 1941 varða eineggja tvíbura sem aðskildir hafa verið frá fæðingu. í grein sém Burt birti árið 1943 um „hæfni og tekjur“ sagðist hann hafa dæmi um 15 slíka tvíbura (eða 30 einstaklinga); árið 1955 ' kvað hann fjölda þeirra vera 21, og árið 1966 voru þeir orðnir 53. Þrátt fyrir þessa aukningu, sem er sérstaklega athyglis- verð fyrir þá sök að eineggja tvíburar eru mjög fágætir, breyttust staðtölur hans um fylgni hæfni og tekna ekki neitt, nákvæmnin var hin sama upp á þrjá aukastafi, en slíkt er stærðfræðilega óhugsandi. Samt veitti því enginn athygli. Nákvæm rannsókn L.S. Heamshaw á dagbókum Burt leiðir í ljós að viðbótar- tvíburarnir frá 1955 og 1966 voru uppspuni hans. Heamshaw telur að Burt hafi engum nýjum gögnum safnað eftir 1950, og ef til vill engum eftir 1939. Dularfullir samstarfsmenn í ritgerðum sínum þakkar Burt tveimur kpnum fyrir samstarf við að afla heimilda um eineggja tvíbura, þeim Howard og Conwoy. Allt bendir til þess að þær hafi hvorugar verið til, og jafnvel þótt þær hefðu verið til, er óhugsandi að þær hefðu getað unnið þær rannsóknir sem Burt þakkaði þeim fyrir í ritgerðum sínum, eða skrifað þær ritgerðir sem birtust undir þeirra nafni í tímariti sem Burt ritstýrði. Á einum stað í dagbók sinni skrifar Burt: „Vann einkum að því í dag að skrifa svar Howard til Isaacs." Á sjöunda áratugnum lendir Burt í nokkrum vanda þegar sálfræðingar erlendis skrifuðu honum og óskuðu eftir að fá að sjá gögn hans. Nær alltaf kaus Burt þögnina fremur en að svara. Árið 1969 svaraði hann þó slíkri beiðni frá kunnum sálfræðingi við Harward há- skóla, Christopher Jencks. Dagbók hans ber vott um að hann eyddi talsverðum tíma í að endurskrifa og breyta gögnum sínum, m.ö.o. að falsa þau, áður en hann sendi þau til Jencks. Þessi tilbúnu gögn gengdu síðar veigamiklu hlutverki í röksemdarfærslu Arthur Jensen um áskapaðan greindarmun manna í frægri grein f Harward Educational Review sama ár. Jensen var að sjálfsögðu ekki kunnugt um óheilindi Burt. Þær Howard og Conway voru ekki einu samstarfsmennirnir sem skapaðir voru í huga Burt. Þegar hann ritstýrði British Journal of Psychology (Statisti- cal Section) birtust þar greinar, ritdómar og bréf frá um það bil 40 manns. Nú er Ijóst að fleiri en helmingur þeirra voru uppfinning Burt sjálfs. Hvers vegna Spyrja má hvers vegna Burt kaus að blekkja samstarfsmenn sína á þennan hátt. Ein skýringin fyrir hinum mörgu dulnefnum er að mati Heamshaw sú að Burt vildi auka orðstír sinn og svala metnaðargirni sinni. Undir dulnefnum gat hann viðrað skoðanir sem hann aðhylltist einn, og látið aðra fræðimenn þakka sér fyrir rannsóknir sem hann hafði aldrei unnið. Löngu eftir að hann lét af kennaraembætti í sálarfræði (1950) virtist sem hann sinnti umfangsmiklum rannsóknum og væri önnum kafinn kenningasmiður. Eins gat hann þakkað sjálfum sér undir dulnefnum fyrir að hafa fundið upp áhrifamikla tölfræðiaðferð í sálar- fræði, sem nefnd er þáttagreining, og var Burt mikið áhugaefni. Staðreyndin er sú að upphafsmaður þáttagreiningar í sálarfræði var lærifaðir Burt og forveri í kennarastól við Lundúnaskóla, Charles Spearman, eins og Burt hafði viður- kennt fram að því að Spearman lést. í þessu viðfangi má geta þess að margir sálfræðingar í Bretlandi og erlendis virðast hafa lagt trúnað á þessa fölsunarsögu Burt. í sálarfræðibók Símons Jóh. Ágústssonar eru Burt og Spearman t.d. báðir taldir upphafsmenn þáttagreiningar. Veikleikar Burt og óhamingja . Hearnshaw telur að fram til 1930 hafi Burt sinnt fræðistörfum af heijindum, miklum dugnaði og ósérplægni. Á fjórða áratugnum hafi hlutir hins vegar farið úr skorðum. Hjónaband hans og mun yngri konu 1932 leið undir lok, gögn hans eyðilögðust 1941, og um svipað leyti fór að gæta einkenna svokallaðs Meniére sjúkdóms, sem breytir jafnvægisskyni manna. Það er ágiskun Hearnshaw að Burt hafi þjáðst af ofsóknaræði og skýri það innhverfa hegðun hans, sjálflægni og óeðlilega afstöðu til samkeppenda á sviði greindarrannsókna. En hvort Burt blekkti sjálfan sig í raun og veru og trúði á falsanir sínar er erfiðara um að segj a. Blekkingar Burt og þau áhrif sem þær höfðu eru ekki eingöngu efni í reyfarakennda ævisögu og hugleiðingar um hugsunargang og hátterni einstakl- ings. Mikilvægast er auðvitað að menn geri sér grein fyrir því hvemig á því stóð að Burt komst upp með þetta? Af hverju höfðu grunsemdir ekki vaknað fyrr? Em kannski menn eins og Burt enn að starfi án þess að nokkur hafi vcitt því athygli? -GM

x

Tíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.