Tíminn - 11.11.1986, Blaðsíða 9

Tíminn - 11.11.1986, Blaðsíða 9
■^vp .rv*- - . .4 Þriðjudagur 11. nóvember 1986 __________________________________________________________________________________________________________/Tíminn 9 Stjórnmálaályktun 19. flokksþings Framsóknarflokksins 1986: NY OLDI AUGSÝN Framsóknarflokkúrinn mun standa vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar á grundvelli lýðræðis og þingræðis. Framsóknarflokkurinn vill byggja efnahagslíf þjóðarinnar á blönduðu hagkerfi samvinnurekstrar, einkarekstrar og opinberrar þj ónustu, þar sem framtak einstaklinga og samtaka þeirra nýtur sín til fulls. Á grundvelli þessarar stefnu vill Framsóknarflokkurinn beita sér fyrir efnalegum framförum þar sem lögð er áhersla á jöfnuð milli landsmanna og samvinnu þeirra og samkennd. í samræmi við þessa grundvallarstefnu mun Framsóknarflokkurinn standa vörð um velferð þjóðarinar jafnframt því sem hann hafnar lífvana ríkisforsjá sósíalista og óheftri frjálshyggju íhaldsflokka. Árangur ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar Festa Framsóknarflokkurinn gekk til síðustu kosninga undir kjörorðinu festa, sókn, framtíð. Þá voru viðsjárverðir tímar í efnahagsmálum og verðbólga og óstöðugleiki fór vaxandi. Flokkurinn lagði þá áherslu á samræmdar efnahagsaðgerðir sem leitt gætu til hjöðnunar verðbólgu og skapað nauðsynlega festu í efnahagslífinu til að hefja sókn til betri framtíðar. í samræmi við þessa stefnu hafði Framsóknarflokkurinn við upphaf núverandi stjórnarsamstarfs forystu um lögbundnar efnahagsaðgerðir, sem strax höfðu í för með sér verulega hjöðnun verðbólgu. Sá árangur var innsiglaður á síðastliðnum vetri með víðtækum kjarasáttmála sem ríkisstjórnin hafði skapað forsendur fyrir með aðgerðum sínum. í lok þessa árs mun kaupmáttur ráðstöfunartekna að meðaltali verða hærri hér á landi en nokkru sinni fyrr. Verðbólga verður minni en hún hefur verið í 15 ár. Sparnaður verður meiri en hann hefur verið í 14 ár. Erlendar skuldir og greiðslubyrði fara lækkandi sem hundraðshluti af þjóðarframleiðslu. Atvinnuleysi er ekkert. Pessi umskipti hafa leitt til efnahagslegs stöðugleika og gert íslensku þjóðinni kleift að ganga á ný inn á braut framfara, efnahagslegs frjálsræðis og velferðar. Sókn Flokksþingið fagnar því, að á þessu kjörtímabili hefur hafist umtalsverð og nauðsynleg nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Má þar nefna í fiskeldi og loðdýrarækt, stofnun Þróunarfélags Islands og rannsóknarstyrki, sem Rannsóknarráð ríkisins hefur fengið til úthlutunar til að örva nýsköpun í atvinnulífi. Framsóknarflokkurinn hefur á þessu kjörtímabili haft forystu um róttækar skipulagsbreytingar og umbætur í sjávarútvegi og landbúnaði. Með þeim er lagður grunnur að meiri framleiðni og hagkvæmni þessara atvinnugreina. Þessar breytingar hafa ekki verið sársaukalausar. Alþjóð er þó ljóst að í þessum málum hefur Framsóknarflokkurinn af festu unnið nauðsynlegt tímamótaverk. Með sama hætti hafa verið gerðar róttækar (umbætur á húsnæðislánakerfi landsmanna sem gera ungu fólki á nýjan leik kleift að reisa þak yfir höfuð sér. Baráttumál í komandi kosningum Kosningar til Alþingis fara fram næsta vor. í ályktunum um atvinnumál, mennta- og menningarmál, félags- og heilbrigðismál svo og flokksmál er ítarleg grein gerð fyrir stefnumiðum Framsóknarflokksins í þeim kosningum. Auk þeirra ályktana telur flokksþingið að leggja beri sérstaka áherslu á eftirfarandi meginstefnumál. Á næstu árum mun ráðast, hvort tekst að nýta þann góða árangur, sem náðst hefur í efnahagsmálum til þess að styrkja stoðir þjóðarbúsins og bæta afkomu þeirra, sem lakasta afkomu hafa. í því skyni leggur flokksþingið áherslu á eftirfarandi atriði: Áfram verði markvisst stefnt að hjöðnun verðbólgu og lækkun erlendra skulda án atvinnuleysis. Góð staða þjóðarbúsins verði jafnframt nýtt til þess að treysta rekstrargrundvöll atvinnuveganna, m.a. þeirra frystihúsa sem eiga í erfiðleikum eftir óðaverðbólgu undanfarinna ára. í kjaramálum verði áhersla lögð á að draga stórlega úr launamisrétti með hækkun lægstu kauptaxta, að jafna þann mikla mun sem er á launum karla og kvenna og tryggja þann kaupmátt sem náðst hefur. Nýsköpun atvinnulífs verði fram haldið af fullum krafti. Eitt mikilvægasta verkefnið er að tryggjahallalausan rekstur ríkissjóðs. Skattalög verði endurskoðuð og einfölduð, framkvæmdin bætt og viðurlög við skattsvikum stórlega hert, m.a. verði skattsvikarar sviptir atvinnuleyfi við ítrekuð brot. í byggðamálum verði vörn snúið í sókn. Byggðastofnun verði efld, stjórnsýslustöðvum komið upp í kjördæmum landsbyggðanna og þangað færð sú opinber þjónusta sem dreifbýlinu ernauðsynleg. Verkefni, ábyrgð á þeim og tekjur til þess að framkvæma þau verði færðar til landsbyggðarinnar. Til að gera það kleift verði komið á fót öflugum lýðræðislegum stjórnsýslueiningum. Mikilvægt er að bæta eigin fjárstöðu íslenskra fyrirtækja og hvetja til virkrar þátttöku almennings í atvinnulífinu. Þegar um er að ræða atvinnurekstur sem byggir á tækninýjungum eða nýjum mörkuðum kann að vera nauðsynlegt og æskilegt að stofna fyrirtæki með þátttöku erlendra aðila. Framsóknarflokkurinn ítrekar þá stefnu að ekki eigi að heimila erlendum aðilum eignarhald í höfuðatvinnuvegum landsins. Nauðsynlegt er að endurskoða löggjöf um þátttöku erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi, þannig að íslenskir hagsmunir verði sem best tryggðir. Stjórnsýsla opinberra aðila þarfnast stöðugrar endurskoðunar til þess að tryggja skilvirkni og bestu nýtingu opinberra fjármuna. Manngildi ofar auðgildi Á tímum vaxandi efnishyggju er mjög mikilvægt að þjóðin gæti að sér svo að forn gildi í menningu og siðfræði dagi ekki uppi eða víki fyrir auðhyggju og múgmennsku. Manngildi ofar auðgildi er einn af hornsteinum stefnu Framsóknarflokksins. Mikilvægt er að hafa í heiðri það sjónarmið, að heilbrigt og menningarlegt líf skiptir meira máli en ýmis lífsþægindi sem hægt er að kaupa fyrir peninga. Leggja þarf áherslu á aðgerðir í baráttunni gegn fíkniefnaneyslu. Við þeim vanda þarf að bregðast með stórauknum áróðri og beinum aðgerðum s.s. aukinni fræðslu, hertri löggæslu og öðrum fyrirbyggjandi aðgerðum. Þá þarf að þyngja viðurlög við brotum á fíkniefnalöggjöfinni. Því fagnar flokksþingið skipan forsætisráðherra á nefnd til þess að samhæfa opinberar aðgerðir í baráttunni gegn útbreiðslu og notkun fíkniefna. Þingið leggur áherslu á nýjan lífsstíl, betra þjóðfélag, þar sem stefnt er að uppbyggingu atvinnulífs, réttlátari tekjuskiptingu og skipan kjaramála, sem miðist við að fjölskyldum sé gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi. Utanríkis- og öryggismál Flokksþingið ítrekar þá grundvallarstefnu Framsóknarflokksins í utanríkismálum, að treysta stjórnarfarslegt og efnahagslegt sjálfstæði landsins, með virkri þátttöku í starfsemi Sameinuðu þjóðanna og norrænu samstarfi, stuðla að vinsamlegum samskiptum þjóða og auðvelda þannig samninga um afvopnun og varðveislu friðar. Flokkurinn leggur áherslu á sjálfstæða utanríkisstefnu, þar sem ofangreind markmið eru lögð til grundvallar. Vegna legu landsins, menningarog sögu, er íslendingum nauðsynlegt að gæta þess að hafa sem best tengsl við þjóðir í austri og vestri. Flokkurinn vekur sérstaka athygli á þeim breytingum sem eru að gerast í Evrópu og að íslendingum er nauðsyn að fylgjast náið með þeirri þróun. Innganga í Efnahagsbandalag Evrópu kemur þó ekki til greina. Viðskiptahagsmuni þjóðarinnar ber að tryggja með víðtækum samningum. Framsóknarflokkurinn er fylgjandi aðild íslands að Atlantshafsbandalaginu, en leggur áherslu á þá megin stefnu að hér verði ekki erlendur her á friðartímum. Hvað varðar framkvæmd varnarsamningsins við Bandaríkin telur flokkurinn á það skorta að haldið hafi verið á málum af nægilegri festu og í samræmi við öryggishagsmuni íslendinga. Flokkurinn leggur áherslu á að starfsemi eða hernaðarframkvæmdir á vegum varnarliðsins eða Atlantshafsbandalagsins verði að engu leyti auknar frá því sem leyft hefur verið, hvort sem um er að ræða ratsjárstöðvar, birgðageymslur eða flugvelli. Islendingar fylgist náið með þróun öryggis og varnarmála á öllu Norður- Atlantshafi þannig að út frá hagsmunum íslendinga sjálfra sé ætíð hægt að leggja mat á stöðu mála og framtíðarhorfur og móta öryggisstefnu landsins í samræmi við það. Flokksþingið telur eðlilegt að staða og starfssvið varnarmálanefndar og varnarmáladeildar verði endurskoðað. Framsóknartlokkurinn leggur áherslu á, að ísland vinni eftir megni og m.a. í samvinnu við hin Norðurlöndin gegn ofsókum stjórvalda á hendur þegnum sínum hvar sem slíkt viðgengst og sömuleiðis gegn kynþáttamisrétti. Flokksþingið leggur áherslu á að ísland beiti sér fyrir samstarfi þjóða við Norður-Atlantshaf í sameiginlegum hagsmunamálum, er varða nýtingu auðlinda hafsins og verndun fiskistofna og hafsvæða fyrir ofveiði og mengun, þ.ám. hugsanlegri mengun vegna kjarnorkuslysa á láði og legi. Framsóknarflokkurinn fagnar því, að ísland varð vettvangur afvopnunarviðræðna stórveldanna. Með þeim hætti fékk þjóðin tækifæri til þess að leggja sitt lóð á vogarskálina til varðveislu friðar. Þegar þjóðir heims verja æ hærri fjárhæðum til vígbúnaðarog stórveldi heimsins framleiða sífellt stórvirkari gereyðingarvopn er það orðið eitt brýnasta verkefni mannkyns að bindast samtökum um útrýmingu kjarnorkuvopna. Ber að harma, ef geimvarnaráætlun Bandaríkjanna leggur stein í götu þessa markmiðs, enda óverjandiaðhimingeimurinnsé notaður í hernaðarskyni. íslendingum er skylt að taka þátt í þeirri viðleitni að eyða kjarnavopnum hvar sem því verður við komið á alþjóðavettvangi. Ný öld í augsýn íslenska þjóðin gengur senn á vit nýrrar aldar. Höfuðverkefni íslenskra stjórnmála á næstu árum verður að búa þjóðina undir tuttugustu og fyrstu öldina. Til þess þarf framsýni og víðsýni í stefnumótun. Þegar svo langt er horft er nauðsynlegt, að fyrst og fremst sé hugað að forsendum æskilegrar þróunar og grundvallaratriðum í stefnu og gildismati. Flokksþingið minnir á að virkt lýðræði byggist á víðtækri þátttöku fólks í stjórnmálum, innan stjórnmálaflokkanna og í lifandi félagslegu starfi í þjóðfélaginu. Þar sem þjóðfélagið verður sífellt flóknara og umræða um þjóðmálin æ torskildari hefur almenningur fjarlægst stjórnmálin. Þeirri öfugþróun verður að snúa við. Styrkja þarf starf stjórnmálaflokkanna og leita ætíð nýrra leiða í þróun lýðræðishefða þjóðarinnar, sem tryggi sem beinasta þátttöku fólks á flestum sviðum þjóðmála. Ljóst virðist að tuttugasta og fyrsta öldin verður öld örrar tækniþróunar, tölvu- og upplýsingabyltingar. Hún verður jafnframt öld ört minnkandi fjarlægða, vaxandi alþjóðaviðskipta og harðari samkeppni á flestum sviðum. ísland án atvinnuleysis er nú sem fyrr eitt af meginstefnumiðum Framsóknarflokksins. Aðeins með stöðugri þróun og aðlögun að breyttum aðstæðum verður samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs tryggð. Forsenda þess er, að atvinnuvegirnir fái hæft fólk til að takast á við síbreytileg viðfangsefni tækni- og upplýsingaþjóðfélagsins. Til þess að ný kynslóð fái það tækifæri og geti mætt kröfum nýrrar aldar verður strax að huga að nútímalegum breytingum í skóla og menntakerfi þjóðarinnar og stóreflingu rannsókna- og vísindastarfsemi. Fyrir því mun Framsóknarflokkurinn beita sér. Flokksþingið minnir á frumkvæði Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra, er hann skipaði nefnd til að gera athugun á þróun íslensks þjóðfélags og þróunarhorfum næsta aldarfjórðung. Með stofnun þeirrar nefndar hefur verið lagður grunnur að frekara starfi á þessu sviði. Framsóknarflokkurinn mun í krafti kjörorðs þessa flokksþings - Ný öld í augsýn - fylgja þessu starfi eftir á komandi árum.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.