Tíminn - 18.05.1989, Blaðsíða 16

Tíminn - 18.05.1989, Blaðsíða 16
16 Tíminn ÁRNAÐ HEILLA Áttræöur: Aðalsteinn Jóhannsson á Skjaldfönn Vinur minn Aðalsteinn á Skjald- fönn varð áttræður þann 16. maí. Ég minnist Aðalsteins fyrst þegar hann kom á hverju hausti út á ísafjörð með féð til slátrunar og amma mín eyddi mörgum dögum í að undirbúa komu hans, en hjá henni gisti Aðal- steinn jafnan. Það var heilmikill viðburður þegar Steini á Skjaldfönn kom í bæinn og lét maður sig ekki vanta á bryggjuna. Þarna birtist hann stór og stæðilegur með arnar- nef og hafði hátt. Það var einna líkast því að þarna væri afi á Knerri Ijóslifandi kominn. Þegar að því kom að reynt yrði að koma mér til manns var ég sendur í sveit eins og flest ungmenni af minni kynslóð. Ég var svo gæfusamur að komast á Skjaldfönn og hófst þá vinátta okkar Aðalsteins. Ég man enn þegar hann tók á móti mér á bryggjunni á Melgraseyri kaldan vordag í byrjun maí. Ég var vel klæddur að mér fannst, en Steini spurði mig hvort ég væri ekki með neina úlpu. „Jú ég er í henni“ svaraði ég. „Það er ekkert skjól í þessu“ svaraði hann. „Hann blæs köldu hérna af jöklinum á leiðinni frameftir" bætti hann við og pakkaði mér síðan inní stóru gæruúlpuna sína og setti mig aftast í kerrukass- ann. Að því ioknu settist hann uppá dráttarvélina og við mjökuðumst í áttina heim að Skjaldfönn. Síðan hefur mér alltaf fundist ég kominn heim er ég kem að Skjaldfönn. Á sínum yngri árum var Aðal- steinn annálað hraustmenni og eimir enn eftir af hreysti hans, þó hann sé orðinn slitinn eftir erfiði dagsins. Margan ferðamanninn hefur hann borið yfir Selá, vatnsmesta fljót Vestfjarðakjálkans. Heyrt hef ég sögur af því að hann hafí borið tvo fullorðna í einu yfir ána í vexti og sjálfur varð ég vitni að því að hann bar þrjá stálpaða stráka í einu yfir, þá kominn á sjötugsaldur. Glöggur og athugull er Aðalsteinn með afbrigðum og hafa vísindamenn oft notið góðs af því við rannsóknir sínar. Til dæmis man ég að dr. Finnur Guðmundsson fékk upplýs- ingar hjá Aðalsteini við rannsóknir sínar á rjúpnastofninum, en sá síðar- nefndi hafði fylgst sérstaklega með Grænlandsrjúpu og tekið sýni fyrir dr. Finn. Einnig stundaði Aðal- steinn mælingar fyrir Jöklarann- sóknarfélagið á skriðjökli Dranga- jökuls í Kaldalóni í áratugi. Fyrir stuttu birtist í Morgunblaðinu frétt um að brúna á Mórillu í Kaldalóni hefði tekið af í snjóflóði og var meginuppistaðan í þeirri frétt grein- argerð frá Aðalsteini á Skjaldfönn, sem hann sendi Jöklarannsóknarfé- laginu fyrir 21 ári, þegar sömu brú tók af í snjóflóði. Þar kom greinilega fram hvernig snjóflóðið hefði fallið og benti Aðalsteinn einnig á að með því að færa brúna um nokkra tugi metra mætti koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig. Ekki þótti ráða- mönnum ástæða til að fara eftir þeim ráðleggingum, enda hefur komið á daginn að það hefði verið betur gert. Á tímabili komu breskir háskóla- stúdentar ásamt kennurum sínum árlega til rannsókna við rætur Drangajökuls. Aðalsteinn veitti þeim ýmsar upplýsingar og fræddi þá þrátt fyrir að hann kunni ekki stakt orð f ensku og þeir ekki í íslensku. Gaman var að fylgjast með þeirri sýnikennslu sem þá fór fram og held ég að stúdentarnir hafi ekkert síður lært af þessum íslenska bónda en af prófessorum sínum. Eitt stærsta safn örnefna fyrir eina jörð, sem til er á ömefnastofnun er örnefnaskrá Aðalsteins á Skjaldfönn. Enda furðuðum við strákarnir okkur á því hvernig mað- urinn gæti þekkt nöfn á nánast hverjum steini og hverri laut í land- areigninni, en það kemur trúlega til af því að sama ættin hefur setið Skjaldfönn í marga ættliði. Snyrtimennska hefur ætíð setið í fyrirrúmi við búskapinn hjá Aðal- steini og er fagurt heim að líta á Skjaldfönn. Hann veit líka nákvæm- lega hvar í staflanum er hægt að finna girðingarstaur, sem passar í tiltekna holu. Þótt manni hafi stund- um þótt sérviskan keyra um þverbak held ég að Steini hafi oftast haft rétt Fimmtudagur 18. maí 1989 fyrir sér og með fyrirhyggju sparað erfiði og tvíverknað. Búskapur á Skjaldfönn hefur oft verið erfiður, því eins og nafnið bendir til er snjóþungt í dalnum og oftast lítið um vetrarbeit. En með elju og dugnaði hefur þeim feðgum Aðal- steini og Indriða syni hans tekist að rækta góðan fjárstofn og ná ein- hverjum bestu afurðum sem þekkj- ast hér á landi. Alltaf hefur verið kappkostað að búa vel að skepnum og gefa þeim nóg. Á kalárunum í lok sjöunda áratugarins var brugðist við minnkandi heyfeng og hey- og fóður- bætiskaupum og stórfenglegri rækt- un og er túnið á Skjaldfönn nú eitt hið stærsta á Vestfjörðum. Fjárhúsin á Skjaldfönn eru byggð eftir fyrirsögn Aðalsteins og er ég þess fullviss að starfsmenn Teikni- stofu landbúnaðarins hafa haft mikið gagn af samstarfi viðhann. Fjárhúsin þóttu nýstárleg á sínum tíma og var fyrst og fremst haft í huga að vel færi um féð í þeim og nóg pláss væri um sauðburðinn. Þetta kemur sér vel á köldu vori eins og nú, þegar útlit er fyrir að hver ær muni bera á húsi. Aðalsteinn hefur verið gæfumað- ur í sínu einkalífi. Hann er kvæntur Hólmfríði Indriðadóttur frá Ytra- Fjalli í Aðaldal og eiga þau þrjú böm og átta bamaböm. Ég og fjölskylda mín sendum Aðalsteini bestu kveðjur á þessum tímamótum og ég veit að ég mæli fyrir munn allra sem hafa verið í sveit hjá þeim hjónum að við vomm ríkari eftir. Guðmundur Kr. Eydal lllllllllllllllllllllllllll DAGBÓK Hafdís Árnadóttir er meðal kennara á námskeiðinu. Kennaranámskeið í Kramhúsinu Kramhúsið heldur námskeið 1.-6. júní nk. og er það þriðja árið í röð sem það heldur slíkt námskeið, ætlað íþróttakenn- urum, tónmenntakennurum svo og öðr- um þeim kennurum sem nota hreyfingu og tónlist við kennslu. Markmið nám- skeiðsins er að kynna kennurum aðferðir til að auka fjölbreytni og nýjungar í skólastarfi. Aðalkennari námskeiðsins verður Maggie Semple, sem vinnur í anda Ru- dolfs Labans og er ein af aðalkennurum á Laban Intemational Summer Course. Aðrir kennarar á námskeiðinu verða: Anna Richardsdóttir íþróttafræðingur um dansformið, „Elementarer Tanz“, byggt á hugmyndum Maju Lex; Christien Polos dansari um karabíska dansa og jassdans; Hafdís Árnadóttir íþróttakenn- ari um upphitunar-, teygju- og öndunar- æfingar ásamt slökun; Joao DaSilva dans- ari um dansspuna byggðan á suður-am- erískri og afríkanskri tónlist; Sigríður Eyþórsdóttir leikari og leiklistarkennari um leiklistarspuna: Hvernig er hægt að nýta leikrænar æfingar í kennslu með það markmið að auka tengsl og skilning milli nemenda innbyrðis svo og nemenda og kennara?, Soffía Vagnsdóttir tónlistar- kennari um notkun tónlistar sem áhrifa- gjafa á ímyndunaraflið, áhersla lögð á mikilvægi umhverfts. Einnig flytja fyrir- lestra Páll Skúlason prófessor í heimspeki um uppeldi - list - kennslu, skólinn sem samfélag; og Örn Jónsson náttúruráðgjafi um áhrif jákvæðs og neikvæðs hugarfars á líkamsstarfsemina og áhrif djúpslökun- ar á tilfinningalífið. Þess skal getið að menntamálaráðu- neytið metur námskeiðið til punkta. Félag eldri borgara Farin verður hringferð um landið og til Færeyja, 12 daga ferð, 30. maí nk. Upplýsingar og pantanir hjá Félagi eldri borgara. Opið hús í dag, fimmtudag, f Goðheim- um, Sigtúni 3. Kl. 14: Frjáls spila- mennska. Kl. 19.30: Félagsvist. Kl. 21: Dansað. Dagsferðir Ferðaf élags íslands: Sunnudaginn 21. maí: Skarðsheiði (1053 m). Kl. 9.00. Ekið inn Svínadal og gengið þaðan. Verð kr. 1.000,- Kl. 13.00 ÚlfarsfeU (295 m). Létt ganga, ótrúlegt útsýni. Verð kr. 500.00. Ath. Breytt ferðatilhögun frá prentaðri áætlun 1989. Brottför frá Umferðarmiðstöðinni, austanmegin. Farmiðar við bíl. Frítt fyrir börn í fylgd fullorðinna. Helgarferð 16.-18. júní: Mýrdalur- Heið- ardalur-Dyrhólaey-Reynishverfi. Ferðafélag fslands Helgarferð ÚTIVIST Þórsmörk 19.-21. maí. Nú hefjast helgar- ferðir í Þórsmörk og verða um hverja helgi fram í október. 1 sumar verða dagsferðir á sunnudögum og einnig er boðið upp á orlofsdvöl. Góð gisting í Útivistarskálunum Básum. Upplýsingar og farmiðar á skrifstofunni Grófinni 1, símar 1 46 06 og 2 37 32. Útivist ÚTIVIST Myndakvöld - Feröakynning Síðasta myndakvöld vetrarins verður í Fóstbræðraheimilinu Langholtsvegi 109 fimmtudagskvöldið 18, maí kl. 20.30. Dagskrá: 1. Myndir úr ferðum síðari hluta vetrar og í vor m.a. frá Þórsmörk, Skaftafelli og jöklaferðum ásamt mynd- um frá síðustu hvítasunnuferð í Öræfa- sveit. 2. Ferðakynning. Kynntar verða margar spennandi helgar- og sumarleyfis- ferðir sem eru á ferðaáætlun Útivistar. Af þeim má nefna Vestfirska sólstöðuferð 21.-25. júnf; 8 Hornstrandaferðir í júlí og ágúst; Nýr hálendishringur 22.-29. júlí: Gönguferðir frá Eldgjá í Þórsmörk; Norðausturlandsferð 10.-15. ágúst o.fl. Einnig verður minnt á ferðasyrpur í styttri ferðunum. Allir eru velkomnir meðan húsrými leyfir. Góðar kaffiveitingar kvennanefnd- ar f hléi. Útivist, ferðafélag Lislasafn fslands; ÍSLENSKT LANDSLAG 1 Listasafni lslands stendur yfir sýning á úrvali fslenskra landslagsverka í eigu safnsins. Sýningin spannar þessa öld, allt frá verkum frumherjanna til yngstu lista- manna okkar og er sýningin afar fjöl- breytileg, bæði að myndefni og tækni. Leiðsögn um sýninguna fer fram í fylgd sérfræðings á sunnudögum kl. 15:00. Leiðsögnin „Mynd mánaðarins" fer fram á fimmtudögum kl. 13:30-13:45. Mynd mafmánaðar er Bátur á heimleið eftir Gunnlaug Ó. Scheving. Listasafn lslands er opið alla daga nema mánudaga kl. 11:00-17:00 og er veitingastofa safnsins opin á sama tíma. Aðgangur að safninu er ókeypis svo og auglýstar leiðsagnir. Lögfræðiaðstoð Orators Orator, félag laganema veitir ókeypis lögfræðiaðstoð á fimmtudögum frá kl. 19.30-22.00, í síma 1 10 12. The King’s Singers. Tónlistarfélagið: Tónleikar „The King’s Singers11 Hinn frægi, breski sönghópur, The King’s Singers mun halda tónleika í íslensku óperunni á vegum Tónlistarfé- lagsins fimmtudaginn 18. maf kl. 20:30. 1 fyrra héldu The King’s Singers upp á 20 ára afmæli ferils síns, og eins og nafnið gefur til kynna eiga þeir rætur að rekja til kórsins í King’s College í Cambridge. Upphaflega nefndu þeir sig „Schola Can- torum Pro Musica Profana in Cantabridg- iense“ Alastair Hume kontra-tenor og Simon Carrington bariton, hafa verið með frá upphafi. Aðrir söngvarar eru Jeremy Jackman kontra-tenor, Bob Chilcott tenor, Bruce Russell bariton og Stephen Connolly bassi. Undanfarin 20 ár hefur sönghópurinn haldið mörg þúsund tón- leika, gefið út 40 hljómplötur með tónlist frá 16. öld til nútímans á fjölda tungumála og komið ótal sinnum fram í útvarpi og sjónvarpi. The King’s Singers koma hing- að á leið sinni heim úr tónleikaferð um Bandaríkin. The British Council hefur styrkt komu þeirra. Á efnisskránni á fimmtudagskvöld eru fimm þekkt bandarísk þjóðlög, útsett af Robert Chilcott, tvö spönsk verk frá 16. öld, og verk eftir Gordon Crosse, sem var frumflutt f fyrra við hátíðahöld í tilefni af því að 400 ár voru liðin síðan Francis Drake sigraði flota Spánverja. í næsta verki, Sjómennimir frá Kermor, halda þeir sig enn við hafið, og efnisskránni lýkur með velþekktum lögum af léttara taginu. Miðasala er f Islensku óperunni. Myndlistarsýning í Hafnarborg 1 Hafnarborg, menningar- og listastofn- un Hafnarfjarðar að Strandgötu 34 í Hafnarfirði, stendur nú yfir myndlistar- sýning Gunnlaugs Stefáns Gíslasonar. Á sýningunni eru um fjömtíu vatnslita- myndir og nokkrar grafíkmyndir. Mikil aðsókn hefur verið að sýningunni og fjöldi mynda selst. Sýningin er opin kl. 14-19 alla daga nema þriðjudaga og stendur til 28. maí nk. Skaftfellingar syngja Söngfélag Skaftfellinga f Reykjavík efnir til vortónleika í Skaftfellingabúð, Laugavegi 178, sunnudaginn 21. maí kl. 17:00. Stjómandi er Violetta Smid. Norræna húsið: Barnadagskrá: lion Wikland teiknar 1 dag kl. 16 verður dagskrá fyrir börn í sýningarsal Norræna hússins f tengslum við sýningu á teikningum og vatnslita- myndum eftir sænsku listakonuna llon Wikland í Norræna húsinu. Þar ætlar Ilon Wikland að teikna fyrir bömin og Silja Aðalsteinsdóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Sigrún Hallbeck lesa úr bókum eftir Astrid Lindgren. Sigrún les á sænsku og Vilborg les úr nýrri bók sem hún er að þýða og kemur væntanlega út í haust hjá Máli og menningu. Á sýningunni í Norræna húsinu em 55 myndir gerðar við sögur sem allir þekkja m.a. Bróður minn ljónshjarta, Ronju ræningjadóttur, Jól í Olátagarði, Madditt o.fl. Samstarf Ilonar og Astridar hófst 1954 og þær hafa nú unnið mjög náið saman í þrjátíu ár. Ilon Wikland er fædd 1930 í Tartu í Eistlandi en kom 1944 sem flóttamaður til Svíþjóðar. Hún stundaði nám við Skolan för bok och reklamkonst í Stokkhólmi og síðan við Konstfackskol- an og málaraskóla Signe Barths. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir myndir sínar m.a. Bamabókaverðlaun Expressen 1986. Fyrirmyndimar að persónum sínum finnur Ilon oftast í næsta nágrenni. Þannig var yngsta dóttir hennar, Anna, fyrir- mynd að Lottu í Víst kann Lotta að hjóla, og fyrirmyndina að Kalla á þakinu fann hún í París. Sýningin er hingað komin fyrir tilstuðl- an Svenska institutet. Áður hefur hún verið sýnd í Júgóslavíu og héðan fer hún til Eistlands. Sýningin stendur fram til 11. júnf og verður opin daglega kl. 14-19. Mosfellingar - Kjalnesingar - Kjósverjar Fundur verður haldinn í Hlégarði, miðvikudaginn 24. maí kl. 20:30. Gestur fundarins verður Steingrímur Hermannsson, forsætisráð- herra. Allir velkomnir. Framsóknarfélag Kjósarsýslu. Hjartans þakkir til allra sem heimsóttu mig á áttræðis afmælinu þann 21. apríl. Ég þakka innilega fyrir ógleymanlegan dag, sólskin úti og inni. Ég þakka innilega fyrir öll skeytin og kortin og hlýjar kveðjur og gjafir, svo þakka ég fjölskyldu minni fyrir veisluna og allar gjafirnar og bið góðan guð að varðveita ykkur öll. Kristín Eysteinsdóttir, Snóksdal.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.