Tíminn - 22.07.1989, Blaðsíða 8

Tíminn - 22.07.1989, Blaðsíða 8
8 Tíminn Laugardagur 22. júlí 1989 Steingrímur Hermannsson, forsaetisráðherra, í viðtali um árangur og horfur í stjórnun efnahagsmála: Stöndum á tímamótum Ríkisstjórnin samþykkti í vikunni umfangsmiklar aðgerðir til að ráðast gegn fyrirsjáanlegum fjárlagahalla í ár, halla sem m.a. er til kominn vegna breytinga í efnahagsumhverfi þjóðarinnar. Þær breytingar hafa ekki hvað síst markast af þrengingum í atvinnurekstri og kjarasamningum. Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra, er ábyrgur fyrir efnahags- stefnu ríkisstjórnarinnar, er hann ánægður með árangur ríkisstjórnarinnar þann tíma sem hún hefur setið við völd? „Erfiðleikarnir voru miklu meiri þeg- ar ríkisstjórnin tók við en menn gerðu sér grein fyrir. Ég er sannfærður um að forsvarsmenn atvinnuveganna gerðu sér ekki grein fyrir því hve þeir voru í rauninni djúpt sokknir í skuldir og erfiða rekstrarstöðu. Miðað við þetta þá er ég ánægður með þann árangur sem náðst hefur. Það var ráðist í björgunaraðgerðir sem má segja að séu fólgnar í nokkrum atriðum. I fyrsta lagi hefur verið staðið fyrir gífurlega mikilli skuldbreytingu hjá útflutningsatvinnuvegunum en henni er nú að ljúka. Atvinnutryggingasjóður hefur samþykkt skuldbreytingar og hagræðingarlán til um 140 fyrirtækja. Þau fyrirtæki sem eftir eru, eru fyrst og fremst fyrirtæki sem lent hafa hjá Hlutafjársjóðnum. Það eru fyrirtæki sem eru meginstoðir í viðkomandi byggðalögum og þurfa víðtækari að- stoð heldur en Atvinnutryggingasjóður getur veitt. Það hefur tekið miklu lengri tíma en ég gerði mér vonir um, að ljúka þessum málum, en staðreyndin er sú að umfang þeirra var miklu meira en menn töldu í upphafi. Talið er að til að bjarga þessum ellefu fyrirtækjum sem eftir eru þurfi að auka hlutafé þeirra sem nemur nær tveimur milljörðum, sem er meira en nokkurn óraði fyrir. Það hefur einnig tafið mjög fyrir að Fiskveiða- sjóður hefur verið mun tregari til að veita fyrirgreiðslu en við gerðum okkur vonir um. Satt að segja er ótrúlegt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi skuli standa svo gegn þessum björgunarað- gerðum eins og í ljós hefur komið, ég trúi því varla enn. Fulltrúar útgerðar- manna og sjómanna hafa til dæmis verið hörðustu andstæðingar þessara aðgerða í Fiskveiðasjóði. Samt sem áður sér fyrir endann á þessu og ég vona að öllum málum verði lokið í byrjun næsta mánaðar.“ Vissulega eru nokkur fyrirtæki sem ekki verður bjargað. Það er óhjá- kvæmileg að gjaldþrot verði í kjölfar þeirrar óráðsíu sem verið hefur á undanförnum árum. Ég er út af fyrir sig ekki að kenna neinum um, hvorki ríkisstjórninni né atvinnuvegunum sjálfum. Enda tel ég að menn eigi að reyna að leggja slíkar vangaveltur til hliðar. í öðru lagi eru þessar björgunarað- gerðir fólgnar í því að rétta smám saman af gengið og við erum nærri því markmiði að fiskvinnslan nái núlli. í þriðja lagi gerðu menn sér vonir um að ná hógværum kjarasamningum og ég held að ekki verði annað sagt en að svo hafi orðið. Þar sýndu launþegar og verkalýðshreyfingin vissulega skilning, sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að samningunum fylgir kaupmáttar- minnkun sem var óhjákvæmileg. í framhaldi af þessu get ég ekki sagt annað en að ég sé sæmilega ánægður með árangurinn þegar ég lít til baka. Þetta voru þau meginatriði sem ríkis- stjómin lagði áherslu á og vildi ljúka á fyrstu mánuðum síns starfs.“ - Hvernig líst þér á framtíðina? Erum við að fara inn í uppsveiflu á ný? „Við stöndum tvímælalaust á tíma- mótum um þessar mundir. En erfið- leikunum er ekki lokið, langt frá því. - Fiskverðshækkun erframundan, einnig verður að draga úr greiðslum til fisk- vinnslunnar úr Verðjöfnunarsjóði sjáv- arútvegsins. Það þýðir að fisícvinnslan verður á ný komin töluvert undir núllið og spurning hvernig því verður smám saman mætt. Sömuleiðis er langt frá því að við sjáum fyrir endann á hinum gífurlega fjármagnskostnaði sem atvinnuvegimir búa við. Við þurfum enn að ná vöxtun- um verulega niður. Raunvextir hafa vissulega verið að lækka en ég varð fyrir vonbrigðum með hvað bankamir lækkuðu nafnvextina lítið nú, þrátt fyrir mjög minnkandi verðbólgu. Það verður áfram eitt af okkar stóra verk- efnum að ná vöxtunum og fjármagns- kostnaðinum niður.“ - En eru þeir aðilar ekki þungir í skauti sem ekki vilja lækka vextina og það valdamiklir að erfiðlega gengur að ráða við þá? „Jú, því miður hefur það verið helsti þrándur í götu þessarar ríkisstjórnar. Það eru mjög valdamiklir menn í þessu afar sjálfstæða peningakerfi sem virðast trúa á kreppuna til að leysa vandamál- in. Þessir menn hafa sagt að það sé ekki um annað að ræða en fyrirtækin verði að fara á hausinn. Þeir hugsa þá ekki um afleiðingarnar sem því fylgja. Fyrir nokkra fékk ég bréf frá Gunn- ari Tómassyni hagfræðingi, sem er einn lærðasti hagfræðingur Islendinga og býr í Bandaríkjunum. Gunnar vitnar m.a. í Keynes sem hann telur einn merkasta hagfræðing aldarinnar. Hann gerir að umtalsefni þau fölsku verðmæti sem felast í verðtryggingu fjármagns ef ekki standa verðmæti á bakvið í fram- leiðslu þjóðarbúsins. Orðrétt segir hann: „Með aðskilnaði eignaraðildar og rekstrarábyrgðar í atvinnulífi mark- aðskerfisins opnast möguleiki fyrir vexti „pappírseigna“, eða skulda um- fram raunvirði,“ en þessi orð eru tekin beint frá Keynes. Síðan segir Gunnar: „Reglubundnar kreppur eru ráð mark- aðskerfa með slíkum umframvexti til að stinga á kýlinu og pappírseignir era afskrifaðar. Kreppa er frumstætt hag- stjórnartæki og allsendis ósamboðið siðuðu samfélagi, annar og betri kostur er bein afskrift gervieigna pappírsauð- valds“. Og það er einmitt þetta sem við erum að reyna að gera. Við erum að stinga á kýlinu. Það markmið sem ríkisstjórnin setti sér í peningamálum og vaxtamálum hefur að hluta náðst, sem er mikilvægt en alls ekki nægilegt. Framundan er að lækka fjármagnskostnaðinn og að af- nema verðtrygginguna.“ - Stóð ekki tíl ■ vetur að afnema vísitöluna? „Það stendur í málefnasáttmála ríkisstjórnarinnar að koma eigi í veg fyrir sjálfvirkja víxlverkun fjármagns og verðlags. Það verkefni er framundan og ég mun leggja áherslu á að það verði gert. Svo ég haldi áfram að fjalla um það sem framundan er þá fer verðbólgan mjög hjaðnandi. Ef okkur tekst að halda sjávarútveginum í sæmilegri rekstrarstöðu með minnkandi verð- bólgu og minnkandi fjármagnskostnaði þá er ég bjartsýnn á framtíðina. Ég held í raun og vera að ástandið í þjóðfélaginu sé orðið slíkt að við verðum að stefna að minnkun verð- bólgu í mjög vaxandi mæli. Þó ekki beita sömu aðferðum og gert var á áranum 1987-’88 á kostnað útflutnings- greinanna. Við verðum að halda jafn- vægi; rata hinn gullna meðalveg. Ég tel að framundan séu tímamót. Ríkisstjórnin á að segja, þegar telja má að útflutningsatvinnuvegimir séu í sæmilegu jafnvægi: „Nú ætlum við ekki að skipta okkur af ykkar samningum. Þið skuluð semja sj álfir. “ Ég tel mjög koma til greina að leggja niður yfir- nefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins, að minnsta kosti að oddamaður ríkisins hverfi úr þeirri nefnd. Meðan hann situr þar tekur ríkið óbeina ábyrgð á því sem þar er gert, en það er óhjá- kvæmilegt að í framtíðinni verði samið á ábyrgð atvinnurekenda og launþega. Vitanlega kemur ríkið inn í þá samn- inga með gerð samninga við sína laun- þega en ég vona að í næstu samningum verði atvinnulífið á undan. Það er heppilegra fyrir alla aðila. Með þessu er ég ekki að segja að ríkið eigi að sitja með hendur í skauti eða að við eigum að festa gengið. Gengið er hagstjómar- tæki sem ríkisvaldið verður að nota samkvæmt eigin mati á stöðu efnahags- mála. Ég er heldur ekki að segja að engar aðgerðir til hagsbóta komi til greina af hálfu ríkisins. Vitanlega verður svo áfram en þær eiga ekki að vera liður í samningsgerðinni. “ - Hvað með ríkisstjórnina sjálfa? Nú hefur Ólafur Ragnar viðrað þá hug- mynd að bjóða upp á samstarf þessara þriggja flokka tíl lengri tíma? „Eg vil ekki útiloka slíkt en tel aftur á móti of snemmt að segja til um það. Það hefur verið venja hér á landi að flokkar gangi til kosninga óbundnir og mér finnst langlíklegast að svo verði áfram. Samstarfið innan þessarar ríkis- stjórnar hefur verið gott og í raun og veru það besta sem ég hef kynnst. Vitanlega hafa verið misjafnar skoðan- ir. En við höfum hist reglulega og þá leyst úr þeim málum. Veikleiki þessarar ríkisstjórnar er fyrst og fremst veik staða hennar á Alþingi, ég neita því ekki. Ég hef vissar áhyggjur af þinginu í vetur. Ég get varla gert mér vonir um að við vinnum öll hlutkestin aftur og vitanlega verður starfið miklu erfiðara ef stjórnarand- staðan, ég tala nú ekki um ef óábyrg stjómarandstaða, fer með formennsku í ýmsum nefndum neðri deildar. Slík stjómarandstaða gæti stöðvað mörg mál. Ríkisstjórnin er að vinna að ýmsum mjög róttækum hugmyndum á sviði fjármála, sem eru tímabærar og hefði átt að skoða miklu fyrr. Við þurfum gott samstarf á Alþingi til að ná fram þessum markmiðum. Iþessu sambandi verða vissulega ýmsir sársaukafullir þættir eins og niðurskurður á ýmsum sviðum og stjórnarandstaðan á mjög auðvelt með að gera úlfalda úr mýflugu í þeim efnum ef hún af ábyrgðarleysi skoðar ekki jafnframt tekjuhlið ríkis- sjóðs. Meðal annars vegna þessa sárs- aukafulla niðurskurðar sem er fram- undan, samþykkti Framsóknarflokkur- inn síðastliðinn fimmtudag umboð til mín til að leita eftir samstarfí við Borgaraflokkinn. Jafnframt er form- lega búið að ganga frá því að Fram- sóknarflokkurinn er reiðubúinn að af- henda ráðuneyti í því skyni. Mér virðist mjög lítill málefnalegur ágreiningur vera á milli okkar og Borg- araflokksins og það yrði styrkur fyrir ríkisstjórnina ef hann kæmi til liðs við hana.“ - Hefurðu trú á því að það gangí fyrir haustið? „Ég geri mér vonir um það og held að það vanti aðeins herslumuninn þar á. Kannski strandar þessi málaleitan á stjómarflokkunum, að þeir geti ekki orðið samstíga um það hvað Borgara- flokknum verður boðið upp á. Eg er þeirrar skoðunar að hver flokkur verði að bjóða eitt ráðuneyti. Ég viðurkenni þó að þrjú ráðuneyti fyrir fimm manna þingflokk er mikið, en mér sýnist dæmið ekki ganga upp öðravísi, því miður.“ - Hvaða ráðuneyti er það sem á að bjóða Borgaraflokknum? „Auðveldast er að bjóða ráðuneyti þar sem tvö era hjá einum ráðherra, þá verður röskunin minnst. Við höfum nefnt dómsmálaráðuneyti sem er mjög mikilvægt ráðuneyti.“ - Hvað vinnst með því að fá Borgara- flokkinn inn í rfldsstjóm frekar en að hafa hlutleysi þeirra? „Það hefur ekki verið um það rætt að tryggja hlutleysi þeirra. Þeir hafa að vísu sýnt vilja til samstarfs og það höfum við einnig gert. Við létum þá til dæmis fá fulltrúa í stjórn Áburðarverk- smiðjunnar. Mér finnst mjög eðlilegt að Borgaraflokkurinn vilji hafa meiri áhrif gegnum þátttöku í ríkisstjórn. Satt að segja finnst mér staða þeirra án þess afar óljós, einhversstaðar á milli Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar- innar.“ - Hafið þið ekki sett einhver tíma- mörk á hvenær þessu máli verður lokið? „Ég hefði viljað ganga frá þessum málum fyrir löngu og hef stefnt mark- visst að því en því miður hefur það ekki tekist. Ég get ekki sagt að það séu föst tímamörk í þessari viðleitni önnur en þau, en því fyrr sem niðurstaða fæst, því betra.“ - Ertu sáttur við Framsóknarflokk- inn og telurðu að framsóknarmenn séu sáttír við sína þingmenn? „Ég skal nú ekki um það segja hvort menn eru sáttir við okkur, en ég er mjög sáttur við flokkinn. Við höfum tekið að okkur gífurlega erfitt verkefni og miklu erfiðara en ég gerði mér grein fyrir. Ég veit að mjög margir era óánægðir með að hlutimir gangi of seint. Þeir verða bara að skilja það að verkefnið var miklu stærra en við töldum. Ég hef ekki starfað í ríkisstjóm undir meiri erfiðleikum og þrýstingi heldur en nú og hef ég þó lengi átt sæti í ríkisstjórnum. Ég er sannfærður um að við munum ljúka því verkefni sem við höfum tekið að okkur ef við fáum til þess frið og þjóðarbúið mun þá eflast á ný. Þá vona ég að flokknum verði þakkaður sá þáttur sem hann hefur átt í þessu erfiða verkefni.“ Ámi Gunnarsson/Sigrún S. Hafstein

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.