Tíminn - 13.07.1996, Blaðsíða 5

Tíminn - 13.07.1996, Blaðsíða 5
Laugardagur 13. júlí 1996 5 ísólfur Gylfi Pálmason: / Islenska sumarið Sumariö er tími tilbreytingar, ræktunarstarfs, heyverkunar, ferðalaga, mannfagnaðar og útivistar, svo eitthvað sé nefnt. Það þarf ekki að kvarta yfir því að mannlíf í landinu hafi verið með deyfð og doða um síðustu helgi. Fyrsta helgin í júlí er orðin ein mesta ferða- mannahelgi sumarsins. Þegar hefur dregið úr vangaveltum manna á milli um nýafstaðnar forsetakosningar, sem settu svo mjög mark sitt á atburði síðasta mánaðar. Kosningabaráttan einkenndist mjög af aug- lýsingum og tæknilega faglegri útfærslu. Bar- áttan og kynningin minnti talsvert á það sem gerist í Bandaríkjunum. Ólafur Ragnar Gríms- son vann glæstan sigur, sigur sem í raun kom landsmönnum ekki á óvart, þar sem skoðana- kannanir höfðu ávallt sýnt meira fylgi við framboð hans en annarra frambjóðenda. Vigdís á krossgötum Um síðustu helgi gafst landsmönnum kost- ur á að fylgjast með afar fróðlegum umræðu- þætti í sjónvarpinu þar sem Ólöf Rún Skúla- dóttir ræddi við Vigdísi Finnbogadóttur, frá- farandi forseta. Þátturinn nefndist „Vigdís á krossgötum". Enn kom Vigdís okkur á óvart í þættinum með fágaðri en einarðri framkomu sinni. Vigdís hefur verið einkar farsæll, dug- legur og vinsæll forseti. Hún hefur lagt gjörva hönd á fjölmörg málefni. Fáir íslendingar hafa borið gæfu til að kynna land og þjóð á jafn jákvæðan hátt á erlendri grundu. Á hin- um fjölmörgu ferðum hennar um landið hef- ur framkoma Vigdísar einkennst af ljúfu við- móti, góðum ráðum og áhuga fyrir mönnum óg málefnum. Hún hefur lagt sig í líma við að kynnast æsku landsins og sjónarmiðum hennar. Enda hefur hún svo sannarlega verið sameiningartákn okkar. Kjör Vigdísar var stórt skref í jafnréttisbaráttu kynjanna og hún breytti forsetaembættinu á mjög jákvæðan hátt. Þá hafa áherslur Vigdísar á mannrækt, skógrækt og málrækt haft ómetanleg áhrif. „Land, þjóö og tunga, þrenning sönn og ein," sagði forsetinn eitt sinn í ræðu og vitnaði þar í samnefnt ljóð eftir Snorra Hjartarson skáld. í viðtalinu vakti sérstaka athygli hreinskilni Vigdísar, að hún skyldi deila með okkur vangaveltum sínum vegna EES-málsins og að hún hefði alvarlega íhugað afsögn vegna þess máls árið 1993. Hún sagði að tækifæri til menntunar á EES-svæðinu hafi haft afgerandi áhrif á ákvarðanatöku sína. Nú eru að koma í ljós ýmsir möguleikar sem sköpuðust með EES-samningnum, m.a. hvað varðar nem- endaskipti t.d. í framhaldsskólum. Þá kom Vigdís inn á túlkun fjölmiðla vegna ummæla hennar um mannréttindi í heimsókninni til Kína, hvernig orð hennar voru tekin úr sam- hengi og túlkuð á frjálslegan hátt. Ferill Vigdísar sem forseta er einstakur og vonandi ber nýkjörinn forseti gæfu til að halda áfram á svipaðri braut og fyrrverandi forsetar hafa varðað, braut samheldni og sam- einingar þjóðarinnar. Störf Vigdísar fyrir ís- lensku þjóðina hafa verið farsæl og er vert að þakka fyrir þau af alhug. Hveragerbi 50 ára S.l. laugardag var haldið uppá 50 ára af- mæli Hveragerðisbæjar. Heiðursgestur afmæl- isins var Vigdís Finnbogadóttir forseti. Hún opnaði m.a. glæsilega blómasýningu í íþróttahúsinu í Hveragerði. Þar mátti líta mjög fjölbreyttan og fagran gróður í öllum regnbogans litum, sem allur var ræktaður hér á landi. Fjölbreytnin kom vissulega á óvart, en vekur okkur um leið til umhugsunar um hve mikla möguleika við eigum á sviði yl- og blómaræktar. Hveragerði er svo sannarlega blómabær, enda hefur þar verið miðstöð yl- ræktar í landinu. Garð- yrkjuskóli ríkisins er í Hveragerði, þar njótum við framsýni Jónasar Jóns- sonar frá Hriflu, sem var einn af frumkvöðlum að stofnun þess skóla. Á afmælinu var form- lega opnað hverasvæði þar sem rannsóknir á örverum fara fram. Rannsóknir á örverum og lífríki á hverasvæðum hefur löng- um verið áhugamál íslendinga og ýmislegt verið ritað um þessi efni. í framtíðinni er gert ráð fyrir að Hveragerði verði heilsubær og eru möguleikar bæjarins mjög miklir á því sviði. Ekki er úr vegi að vekja athygli á því, að Jónas Kristjánsson læknir lagði grunninn að heilsu- bænum í Hveragerði fyrir rúmlega 40 árum, þegar hann reisti og hóf starfsemi heilsuhælis Náttúrulækningafélags íslands. Nýjar hug- myndir um heilsuskóla á vegum NLFÍ í Hveragerði eru framsæknar og mjög athyglis- verðar og hluti að hugmyndafræðinni orðinn að veruleika. Það eru hin svokölluðu afreyk- inganámskeið, sem eru til aðstoðar fólki sem vill hætta að reykja. Alla tíð hefur Hveragerði verið mikill ferða- mannabær. Þar hafa menn ekki alltaf farið troðnar slóðir, t.d. er framtak Braga Einars- sonar í Eden mjög merkilegt. Hann kom auga á hvernig hægt var að tengja atvinnulíf stað- arins við ferðamennsku og skapaði þannig fleiri störf í bænum. Talið er að yfir 95% er- lendra ferðamanna eigi viðdvöl í Hveragerði. Um leið og ég óska Hveragerðisbúum hjart- anlega til hamingju með afmælið, el ég þá von í brjósti að áform þeirra um hreinan og umhverfisvænan heilsubæ megi takast, því að tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi. Framtak sem þetta er auðvitað atvinnuskap- andi og markaðssetning heilsubæjar er al- þjóðleg og myndi skapa bænum sérstöðu. Fjórðungsmót hestamanna á Gaddstaðaflötum Enn einn stóratburöurinn átti sér stað um helgina á Suðurlandi, en það var fjórðungs- mót hestamanna á Gaddstaðaflötum við Hellu. Talið er að um fimm þúsund gestir hafi sótt mótið. Þetta er síðasta fjórðungsmótið sem haldið verður hér á Suðurlandi, því að í framtíðinni verða haldin landsmót annað hvert ár og fjórðungsmótin verða lögð niður. Ótrúlegar framfarir hafa átt sér stað í hrossarækt á íslandi. Þar hafa verið í farar- broddi menn eins og Þorkell Bjamason á Laugarvatni og Sigurður Haraldsson á Kirkju- bæ, svo einhverjir séu nefndir. Um tíma gætti nokkurrar tortryggni út í hrossaræktina, sem nú hefur hlotið viðurkenningu. Það var ein- mitt fjöldi kynbótahrossa sem vakti hvað mesta at- hygli á mótinu. Öll aðstaða Hesta- mannafélagsins Geysis í Rangárvallasýslu á Gadd- staðaflötum er til algerrar fyrirmyndar. Þar hafa margar hendur unnið létt verk og er vitnisburður um hvað hægt er að gera þegar menn vinna saman að heildarlausnum. Mót sem þessi hafa mikið að segja fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi. Landsmótin eru ekki síður sótt af erlendum hestaáhugamönn- um en innlendum. Hestamennskan er í senn listgrein um leið og hún er skemmtileg íþrótt sem sameinar fjölskyldur, því hestaíþróttin er fyrir fólk á öll- um aldri. Um leið og hestamennskan samein- ar kynslóðir byggir hún einnig brú á milli þeirra sem búa í þéttbýli og dreifbýlinga. Hestamennskan er fyrir löngu viðurkennd at- vinnugrein, þó menn greini stundum á um uppgefið verð á seldum hrossum. í Rangárvallasýslu eru flest hross á íslandi. Um nokkurra ára skeið hefur veriö rekin Stóð- hestastöð ríkisins í Gunnarsholti. Mjög marg- ir telja að starfsemi Stóðhestastöðvarinnar eigi stóran þátt í þeim miklu framförum sem átt hafa sér stað í kynbótum hrossa. Rekstur stöövarinnar hefur verið í nokkru uppnámi að undanförnu, en við Sunnlendingar meg- um ekki fyrir nokkurn mun glutra niður þeim tækifærum sem Stóðhestastöðin gefur okkur. Við verðum að tryggja henni rekstrargrund- völl og nú er einmitt unnið að lausn þess máls. Sýningar stöðvarinnar á vorin eru enn eitt dæmi þess hve áhugi almennings er mikil fyr- ir hrossarækt. Mikill fjöldi feröafólks í Þórsmörk Fyrsta helgin í júlí er helgi unga fólksins í Þórsmörk. Þórsmörkin hefur seiðmagnað að- dráttarafl. Framan af heimsóttu menn Mörk- ina á hestum, síðar á trukkum, rútum og jepp- um. Nú er nokkuð algengt að menn komi gangandi í Mörkina. Framtakssamir aöilar hafa skapað fjöl- breytta aðstöðu fyrir ferðafólk í Mörkinni. Þar má nefna forsvarsmenn Austurleiðar, Ferðafé- lags íslands og Útivistar. Um nokkurra ára skeið hafa verið daglegar áætlunarferöir í Mörkina yfir sumartímann og því auðvelt fyr- ir almenning að heimsækja þessa einstöku náttúruperlu. Þórsmörk er miðstöð göngu- garpa, því möguleikar á gönguferðum úr og í Þórsmörk eru miklir og óneitanlega dásam- legt að geta komist í gufubað og sturtu eftir gönguferðir á þessum slóðum. Það er í raun eilítið sérkennilegt að velta því fyrir sér að annars vegar er Þórsmörkin miðstöð þeirra sem skoða og njóta náttúr- unnar og síðan hinna sem „fíla það í botn" að veltast þar um blindfullir. Ekki að það sé ein- hver ný bóla að sjá fólk undir áhrifum áfeng- is í Mörkinni, því mér er sagt að fyrsti vísirinn að hinum miklu verslunarmannahelgarhátíð- um megi m.a. rekja til Merkurferða. Gaman væri ef hægt væri að breyta sukkhá- tíðunum í Þórsmörk í náttúruverndarhátíðir þar sem unga fólkið ynni að gerð göngustíga, gróöursetningu og grisjun á skóginum. Nátt- úran í Þórsmörk er afar viökvæm og þar er mikið verk óunnið, þó þegar hafi mörg krafta- verk verið unnin á sviði landgræðslu. Sækjum vetrarforða í sumarið Viðburðir helgarinnar eru dæmi um þá fjöl- breytni sem boðið er uppá yfir sumartímann. Ég nefndi aðeins fá dæmi, t.d. nefndi ég ekki alla bændurna sem voru í óðaönn að ná sam- an skrjáfþurri og vellyktandi töðunni í þerrin- um, eða garð- og sumarbústaðaeigendur sem kepptust við að snyrta í kringum sig. Islenska sumarið er einstakt. Björtu sumar- næturnar í fallega landinu okkar eru óviðjafn- anlegar. Davíð Stefánsson orti svo myndrænt um þær, þegar hann segir: Nú sefur jörðiti sumargrcen. Nú sér hún rœtast hverja bœn og dregur andann djúpt og rótt um draumafagra júlínótt. Hið íslenska sumar er ómetanlegur orku- brunnur fyrir langa og dimma vetrardaga. Ég vona að landsmenn fái notið útiveru og gangi vel um landið okkar, sem er einstakt í allri sinni dýrð. ■

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.