Lesbók Morgunblaðsins - 04.02.2006, Síða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. febrúar 2006
F
yrir fimm árum hófust kynni mín af íslensku
samfélagi; heillandi kynni sem hafa auðgað líf
mitt. Ég kom hingað frá Ítalíu og fékk strax
starf sem arkitekt. Þegar ég hafði unnið hér í
hálft annað ár ákvað ég að fara í frekara nám
og fór því til London á enskum námsstyrk til
að ljúka framhaldsnámi í þéttbýlis- og borgarfræðum og borg-
arhönnun í arkitektaskóla Architectural Association. Ég hef
sem sagt sérstakan áhuga á borgum.
Þegar ég kom til baka frá London langaði mig að gera eitt-
hvað fyrir Ísland og nýta þekkingu mína í verki. En þá komst
ég að því og þótti það kaldhæðnislegt að hér á
landi er lítið skeytt um grundvallarrannsóknir
varðandi þéttbýlismyndun og því er litlum
fjármunum varið til þess málaflokks.
Að vísu var til stofnun sem nefndist Borgarfræðasetur sem
var undir stjórn Stefáns Ólafssonar prófessors en hún starfaði
aðeins í um fimm ár, þá fékkst ekki meira fé til starfseminnar.
Að sjálfsögðu er svo Skipulags- og byggingarsvið Reykjavík-
urborgar en sú stofnun er yfirhlaðin af verkefnum, ekki síst
með tilliti til þess að Reykjavík vex hraðast allra borga á
Norðurlöndum.
Hvernig má það vera að höfuðborg Íslands, sem töl-
fræðilega telst meðal ríkustu landa heims og í þriðja sæti í
Evrópu þegar mælt er hve miklum hluta þjóðartekna er varið
til rannsókna og þróunar, skuli ekki verja meiri fjármunum til
rannsókna í borgarfræðum?
Í slíkri rannnsóknarvinnu felst að orða spurningar, gagn-
rýna okkar eigin ákvarðanir og aðgerðir sem varða samtíð
okkar og hugsanlega framþróun; í henni felst að meta gildi og
kosti og búa til margvíslegar spár um atburðarás. Í slíkri
vinnu felst einnig að gera sér betri grein fyrir sjálfsmynd okk-
ar og hvert við stefnum og að sjálfsögðu að líta upp frá okkar
eigin heimabæ yfir til nágranna okkar og sjá hvernig þeir
leysa sín vandamál.
En þegar við lítum til nágranna okkar finnst mér að við velj-
um sjaldnast réttar borgir til samanburðar. Við lítum til Lond-
on eða Kaupmannahafnar, af því að þær eru höfuðborgir, en
við berum okkur eiginlega aldrei saman við borgir á stærð við
Reykjavík: Þrándheim, Óðinsvé, Turku, Delft o.s.frv. Okkur
finnst að smæðin sé eitthvað til að fyrirverða sig fyrir og það
veldur tvíbentri afstöðu: Okkur finnst við vera stórborg, sem
við erum þó ekki, og um leið trúum við því að stórborginni
fylgi ekki endilega mikil vandamál. Það séu þá einna helst um-
ferðarvandamál og á þeim megi finna „auðveldar lausnir“ með
því að setja upp ný umferðarljós og bæta við akreinum. Lýs-
andi dæmi um það eru framkvæmdirnar við Hringbraut og
einnig við Hlemm; þar glataðist kjörið tækifæri til að búa til
raunverulegt torg eða „piazza“ í stað umferðarrýmis.
Við höldum stöðugt áfram að koma með bráðabirgðalausnir
í stað þess að horfast í augu við þá staðreynd að sá háttur sem
við höfum á við að byggja borgina veldur sífellt meiri umferð;
því í rauninni erum við ekki að byggja borg, við byggjum ný
hús og leggjum nýja vegi: það er skipulagslítil útþensla. Slík
borg er misskilningur.
Við ættum hreinlega að vera stolt af því að vera við sjálf. Á
fimmtándu öld hafði Flórens jafnmarga íbúa og Reykjavík
núna og þar stóð þó vagga endurreisnarinnar.
Hér í borginni búa 113.388 íbúar, 181.917 með nágranna-
byggðum (tölur frá 2004).
Hver ákveður í raun framtíð okkar, hver ákveður hvar við
eigum að búa, versla og skemmta okkur og samkvæmt hvaða
grundvallarreglum er það ákveðið?
Hvernig má það vera að í Groningen, sem telur 180.000
íbúa, tekur það 15 mínútur að hjóla gegnum þvera borgina en
hér tekur 15 mínútur að aka það í bíl?
Ég vona og trúi því að Reykjavík geti orðið fyrirmynd ann-
arra borga um víða veröld. Satt að segja búum við á stórkost-
legum stað sem á engan sinn líka. Ég hvet borgaryfirvöld til
að fjárfesta í fegurð og virkja hinn mikla fjölda hæfileikafólks
sem býr á Íslandi: listmálara, myndhöggvara, tískuhönnuði,
vistfræðinga o.s.frv. Og að sjálfsögðu að fá fólk sem hefur eytt
mörgum árum ævi sinnar í að fræðast um borgir, arkitekta,
borgarfræðinga og félagsfræðinga, til að auðga líf okkar.
Við kjósum stjórnmálamenn til að vinna fyrir okkur en mér
þykir fráleitt að þeir gangi í störf sérfræðinga. Mikilvægast er
að þeir hugsi til þess hvað okkur borgurunum komi best þegar
til lengdar lætur. Góð byggingar- eða skipulagsáform ber ein-
faldlega að virða og styðja hvort sem þau koma fram á valda-
skeiði hægri eða vinstri manna. Tíminn eyðir slíkum þröng-
sýnisdeilum. Enginn spyr hvort Markúsartorgið í Feneyjum
teljist verk vinstri eða hægri manna, eða pýramídarnir, Lund-
únaaugað og Tate-safnið, svo ekki sé fleira nefnt.
Að fjárfesta í fegurð og hagkvæmni er ekki lausn sem hress-
ir bara upp á útlitið. Í því felst ekki aðeins að setja upp nýjar
höggmyndir eða prýða götur með trjám, þótt það sé auðvitað
líka mikilvægt. Slík fjárfesting merkir öllu heldur að ákveða
hvers konar lífsstíl við kjósum. Viljum við vera háð bílum um
alla framtíð? Viljum við búa í afmörkuðum hverfum án nokk-
urra tengsla við aðra borgarhluta nema í verslunarmið-
stöðvum eða á miðbæjarbörum? Fjárfesting í fegurð, hag-
kvæmni og skilvirkni er það magnaðasta og besta sem við
getum gert. Þannig látum við eftir okkur arfleifð sem tapar
aldrei gildi sínu.
Að þessu leyti lít ég á nýja Tónlistarhúsið sem gullið tæki-
færi til að endurlífga miðbæinn og sem afreksverk sem miðar
að því að koma aftur upp miðlægum kjarna fyrir borgina í
heild.
Lykillinn að slíkri borgarfegurð felst að mínu mati í tveimur
orðum: fjölbreytni og þéttleika. Fjölbreytni, eða „mixité“ eins
og Frakkar segja, merkir að tengja, samþætta, blanda saman
ólíkum hlutum. Út úr því kemur ávallt meira en summa ein-
stakra þátta. Þannig má hugsa sér góða blöndu af íbúðabyggð,
verslunum, skrifstofum, þjónustufyrirtækjum og skólum;
byggð sem er virk og stendur ekki mannlaus tímunum saman
að degi til. Í því felst einnig félagslegt öryggi og eftirlit.
Þá má nefna tækifærið sem glataðist í Skuggahverfi. Þar
risu vel hannaðar og vandaðar byggingar en heildarstefnan er
svo takmörkuð að þær bæta engu við borgina; þar eru bara
nýjar íbúðir, jarðhæðin nýtist ekki, bara gluggalaus, dökkur
veggur allt í kring.
Það hefur margoft sannast víðsvegar í heiminum að það sé
ekki vænlegt að byggja aðeins fyrir eina tegund fólks, eða með
öðrum orðum að setja öll eggin í eina körfu. Fjölbreytni, eða
„mixité“, býður upp á margþættar lausnir, jafnt varðandi lífs-
stíl, atvinnu og samgöngur – ekki aðeins bílaumferð. Blönduð
hverfi, þ.e. með íbúðum af mismunandi gerð, laða að sér fólk
með ólíkan efnahag og þjóðfélagsstöðu, af ýmsum kynþáttum
og öllum aldursflokkum. Slík hverfi eru einfaldlega betri til
búsetu. Þau eru athyglisverðari, fjölbreyttari, meira spenn-
andi og manneskjulegri.
Hitt orðið er þéttleiki. Það hlýtur að vera ókunnuglegt orð
hér á Íslandi því nemandi á þriðja ári í listaháskólanum spurði
mig: Hvað merkir það? Svar mitt var á þessa leið:
Þéttleiki er magn einhvers á hverja mælieiningu, til dæmis
fjöldi fólks á hvern ferkílómetra. En málið snýst ekki bara um
hve margir búi á hverjum ferkílómetra heldur hve þétt hlut-
irnir gerast. Þétt borg er hagkvæm borg; þar er hægt að
blanda mörgu saman, vonandi af sem mestri fjölbreytni, og
það á tiltölulega litlu svæði. Það er bráðnauðsynlegt því ann-
ars verður borgin óskilvirk og við það tapast hreinlega fé.
Minna má á að götur og bílastæði ná yfir næstum 50% alls
lands í Reykjavík. Þétt borg er líka virk borg, þar er landið
nýtt á skilvirkan hátt í margþættum tilgangi. Þétt borg er auð-
ug borg því margt fólk getur styrkt hana og stuðlað að betri
hag. Ég bendi á hve víðfeðmt gatnakerfi Reykjavíkur er og
hve kostnaðarsamt er að halda því við; hvað bílar eru mikið
notaðir, hvað almenningssamgöngur eru vanþróaðar og hvað
við eyðum miklu fé í snjómokstur af götunum á hverjum vetri.
Þéttleiki Reykjavíkur er aðeins 3.600 manns á ferkílómetra en
þéttleiki Kaupmannahafnar er 5.885 manns á ferkílómetra.
Með öðrum orðum: ef Kaupmannahöfn hefði sama þéttleika og
Reykjavík næði hún yfir 60% stærra svæði en nú. Látum stór-
borgir liggja milli hluta og tökum Groningen í Hollandi sem
dæmi. Þar er þéttleikinn 6.100 manns á ferkílómetra. Hefði
Reykjavík sama þéttleika væri hún næstum helmingi minni að
flatarmáli.
Mér þótti fyndið að eftir þessa ræðu mína spurði nemandinn
í mesta sakleysi: Er þéttleiki þá til bóta? Ég svaraði: Hann
skiptir öllu máli.
Íslensk þýðing Veturliði Guðnason.
Fjárfestum í fegurð
Í þessari grein er því haldið fram að í rauninni séum við ekki
að byggja borg í Reykjavík, „við byggjum ný hús og leggjum
nýja vegi: það er skipulagslítil útþensla. Slík borg er misskiln-
ingur“. Greinarhöfundur telur að það þurfi að leggja áherslu
á fjölbreytni og þéttleika við skipulag borgarinnar.
Morgunblaðið/Ómar
Hlemmur „... þar glataðist kjörið tækifæri til að búa til raunverulegt torg eða „piazza“ í stað umferðarrýmis.“
Eftir Massimo
Santanicchia
massimo@lhi.is
Höfundur er arkitekt sem starfar sjálfstætt og
kennir við Listaháskóla Íslands.