Morgunblaðið - 19.03.2007, Side 27
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 19. MARS 2007 27
✝ RagnheiðurKristín Péturs-
dóttir fæddist í
Reykjavík 6. febr-
úar 1952. Hún lést
á heimili sínu að
Skógarseli 7 í
Reykjavík að
morgni 9. mars síð-
astliðins.
Foreldrar Ragn-
heiðar voru Pétur
Valdimarsson hafn-
arvörður og Þór-
unn Matthíasdóttir
sjúkraliði sem lést
21. júlí árið 2002.
Sonur þeirra var Valdimar
Viðar sem lést af slysförum 16.
september 1966.
Eftirlifandi eiginmaður Ragn-
heiðar er Tómas Sveinbjörnsson
klæðskeri og eru synir þeirra
tveir;
Valdimar Viðar fram-
kvæmdastjóri, k.h. Anna Karen
Kristjánsdóttir framkvæmda-
stjóri og börn
þeirra Tómas Hrói
og Ösp, dáin 2.
desember 2002.
Valdimar Viðar á
einnig soninn
Steinar;
og Sigurður
Sveinbjörn við-
skiptafræðingur.
Ragnheiður
Kristín stundaði
verslunar- og fyr-
irsætustörf að
loknu námi í
Landakots- og
Melaskóla, en vann síðan við
silfur- og gullsmíði hjá Halldóri
Sigurðssyni gullsmið á Skóla-
vörðustíg 2 í Reykjavík. Hún hóf
að því búnu eigin rekstur í list-
munasmíð og sinnti honum með-
an heilsa leyfði.
Útför hennar verður gerð frá
Seljakirkju í dag, mánudaginn
19. mars 2007, og hefst athöfnin
kl. 13:00.
Mér stendur það enn ljóslifandi
fyrir sjónum þegar Ragnheiður
Kristín kom í heimsókn til foreldra
minna og sameiginlegrar ömmu
okkar og alnöfnu hennar á Akureyri.
Hún bar með sér það nýjasta úr
Reykjavík, stefnu og strauma í
tísku, dönsum og framkomu. Það
þótti okkur ekki ónýtt bræðrunum
Haraldi Inga og mér sem vorum á
líkum aldri og hún. Ragnheiður
Kristín var stórglæsileg ung stúlka
og stundaði um tíma fyrirsætu- og
módelstörf. Hún var kjörin ungfrú
Reykjavík árið 1969 og tók í fram-
haldi af því þátt í alheimsfegurðar-
samkeppninni Miss World.
Á unglingsárunum fengum við
bræður stundum að fylgjast með
móðurömmu okkar í heimsóknir til
barna hennar í Reykjavík. Þessar
ferðir höfðu á sér ævintýraljóma því
þótt Akureyri sé höfuðborg Norður-
lands stóð höfuðborg landsins henni
framar á ýmsum sviðum.
Þar kynntumst við Pétri og Lóló á
Ránargötunni, en svo var Þórunn
móðir Ragnheiðar jafnan kölluð, og
var hún einnig glæsileg kona á sín-
um bestu árum.
Ragnheiður var ung að aldri þeg-
ar leiðir hennar og Tómasar lágu
saman. Það er erfitt að skilja þau að í
huganum því að svo lengi hef ég
þekkt þau sem par og félaga. Að leið-
arlokum þakka ég fyrir þau kynni og
samskipti sem verið hafa mikil, sér-
staklega í nábýli okkar á síðari ár-
um.
Það var bjart í kringum Ragnheiði
á yngri árum og oft mikið um að
vera, en sorgirnar sóttu einnig að.
Það var stórt áfall fyrir 14 ára stúlku
að missa bróður sinn tveimur árum
eldri í dráttarvélaslysi við Korpúlfs-
staði. Valdimar Viðar var einstak-
lega vel gerður og ljúfur drengur
sem miklar vonir voru bundnar við.
Öll fjölskyldan átti um sárt að binda
og það var eins og strengur brysti
hjá mæðgunum.
Ragnheiður Kristín var mjög list-
hneigð og kom það vel fram í störf-
um hennar hjá Halldóri Sigurðssyni
gullsmiði. Það leiddi síðan til þess að
hún setti á stofn eigin rekstur í list-
munagerð og seldi listmuni sína
víða, bæði hérlendis og erlendis,
meðan henni entist heilsa.
Móðir Ragnheiðar lést á miðju
sumri árið 2002 og í desember sama
ár andaðist Ösp sonardóttir hennar,
tveggja ára gömul. Ösp fæddist mik-
ið fötluð og hafði Ragnheiður annast
hana mikið af einstakri natni og um-
hyggju. Þegar hér var komið sögu
var eins og lífsvilji Ragnheiðar
frænku minnar fjaraði smám saman
út, og eftir þetta fór heilsu hennar
hrakandi.
Ég mun um ókomna tíð geyma
mér í huga minninguna um mína
glæsilegu frænku og sendi innilegar
samúðarkveðjur til Tómasar vinar
míns og fjölskyldu hans.
Megi guð vera með ykkur öllum!
Jakob Örn Haraldsson.
Ragnheiður Kristín Pétursdóttir
var dóttir föðursystur okkar, Þór-
unnar (Lóló) Matthíasdóttur og Pét-
urs Valdimarssonar. Hún var yngra
barn þeirra, eldri var bróðirinn
Valdimar Viðar sem lést 16 ára gam-
all af slysförum. Hann var fjölskyld-
unni mikill harmdauði, enda svo efni-
legur, yndislegur og fallegur
drengur.
Fögur var Ragnheiður líka. Hún
gerðist snemma fyrirsæta og starfaði
sem slík fyrir Módelsamtökin. Mynd-
ir af glæsilegri Ragnheiði skreyttu
m.a. bæklinga Álafoss, Rammagerð-
arinnar, Úrvals og Útsýnar.
Árið 1969 tók hún þátt í fegurð-
arsamkeppni og var kjörin ungfrú
Reykjavík. Árið 1970 tók hún þátt í
fegurðarsamkeppni í London og fékk
í kjölfar mörg atvinnutilboð erlendis
sem hún hafnaði.
Ragnheiður nam listmunasmiði
hjá Halldóri Sigurðssyni gullsmiði,
smíðaði skartgripi sem m.a. voru
seldir um borð í Loftleiðavélum og
það var hún sem smíðaði hólkana
sem bindisklúta íslenska herrabún-
ingsins.
Ragnheiður giftist Tómasi Svein-
björnssyni klæðskera og eignaðist
með honum tvo drengi: Viðar og Sig-
urð Sveinbjörn. Ragnheiður var
m.a.s. orðin amma að Steinari og
litlum Tómasi Hróa.
Elsku Ragnheiður okkar,
þú varst svo ljúf og svo bóngóð. Þú
hafðir svo fallega rödd, svo falleg
augu, fallegan líkama, svo fallega sál,
allt var fallegt við þig. Um þig eins og
ömmu okkar og alnafna þín passar
kvæðið: (Ragnheiður) Kristín var
kvenna fríðust/ kunna það menn að
sanna/ brúnin er bogadregin / brosið
er ekki frosið.
Við sáumst ekki oft. Aðallega í fjöl-
skylduveislum, eða þegar Kristin
amma tók okkur með í heimsókn til
Lólóar og þín á Meistaravelli og síð-
an á Seltjarnarnesið.
Nokkrar myndir úr endurminn-
ingunni: Við munum eftir þér fjög-
urra ára gamalli, yndislega fallegri í
tjullkjól með hringskornu, stuttu
pilsi, hvítum stuttsokkum og lakk-
skóm. Líklega saumaði Kristín
amma þennan kjól, alveg eins og hún
saumaði alltaf alla kjólana okkar. Við
munum eftir þér eftir þér í fermingu
Hönnu Kristínar, fermingu Ragnars
og fermingu Matthíasar. Við munum
eftir þér og Tomma fullum af vinnu-
orku, bjartsýni og gleði. Seinna þeg-
ar við heimsóttum þig í vinnuna fagn-
aðir þú okkur af sömu alúð og
innileika og elsku góða mamma þín
gerði í Vesturbæjarapótekinu,
mamma þin, hún fallega Lóló, föð-
ursystir okkar og yngsta stelpan
hennar Ragnheiðar Kristínar ömmu.
Æ, hvað það hefði verið gott, ef við
hefðum haft meira samband og hefð-
um þekkst betur. En oft er fjarlægð-
in í Reykjavík meiri en fjarlægðin á
milli landa. Maður ætlar jú alltaf að
bæta úr því, en allt í einu rankar
maður við sér, líf er farið og allt um
seinan.
Við sendum Tomma, sonum þín-
um, Önnu Karen, Tómasi Hróa og
ástvinum innilegar samúðarkveðjur
og biðjum guð um að huggun og
styrk þeim til handa.
Guð blessi þig, elsku Ragnheiður.
Fyrir handan eru nú miklir fagnað-
arfundir. Lóló, mamma þín, Ösp litla,
Viðar, bróðir þinn, og amma Kristín
og aðrir kærir ástvinir faðma þig,
leiða þig og gæta þín.
Fyrir hönd afkomenda Ragnheið-
ar Kristínar ömmu og Guðmundar
Matthíassonar:
Hanna Kristín Guð-
mundsdóttir og Margrét
Rún Guðmundsdóttir.
Ragnheiður Kristín
Pétursdóttir
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir,
amma og langamma,
SIGURVEIG STELLA KONRÁÐSDÓTTIR,
Þangbakka 8,
andaðist á Landspítalanum Fossvogi þriðjudaginn
13. mars.
Útför hennar fer fram frá Fossvogskirkju
þriðjudaginn 20. mars kl. 13.00.
Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeim
sem vilja minnast hennar er bent á líknarfélög.
Guðmundur Þ. Björnsson,
Sigríður Kristinsdóttir, Torfi Þorsteinsson,
Kolbrún Jónsdóttir,
Margrét Guðmundsdóttir, Ásmundur Karlsson,
Birna Guðmundsdóttir, Eyjólfur Ó. Eyjólfsson,
Konráð Guðmundsson, Rósa Björg Ólafsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang-
amma,
GUÐRÚN SIGRÍÐUR BALDVINSDÓTTIR ,
áður Klettaborg 3,
Akureyri,
lést á dvalarheimilinu Hlíð aðfaranótt laugardagsins
10. mars.
Útförin fer fram frá Akureyrarkirkju þriðjudaginn
20. mars kl. 13:30.
Innilegar þakkir til starfsfólks Birki- og Beykihlíðar fyrir frábæra umönnun.
Birgir Tryggvason,
Anna Margrét Tryggvadóttir, Hörður Guðmundsson,
Gyðný Tryggvadóttir, Ólafur G. Viktorson,
Ólöf Guðrún Ólafsdóttir, Thibaut P.M.Guilbert,
Anna Margrét Ólafsdóttir,
Júlíus Aron Thibautson Guilbert.
minningunni en þá var afi aldursfor-
seti Gromsaranna og naut sín vel inn-
anum stórfjölskylduna. Hann fór
með göngugrindina um allt og virtist
tíu árum yngri þessa helgi. Hann var
nú samt örugglega örþreyttur þegar
hann kom heim aftur eftir þetta fjör-
uga og skemmtilega ættarmót. Það
verður skrýtið að mæta næst án
hans.
Algóður Guð blessi minningu þína
afi minn.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
(V. Briem)
Dagmar Björnsdóttir.
Elsku afi, þú varst alltaf til staðar,
oftast þögull og rólegur í lund. Í dag
er ég það langt í burtu að ég næ ekki
að kveðja þig í hinsta sinn. Huggun
harmi gegn er þó að ég tel að þú hafir
nú fundið ró.
Elsku afi minn, hvert sem ég um
heiminn fer þá verður þú ætíð í huga
mér, og ég geymi þig innst inni í
hjarta mér. Vertu sæll, elsku afi, ég
trúi og treysti að þér líði vel og að við
sjáumst aftur í framtíðinni.
Þinn sonarsonur,
Guðmundur Ragnar
Rúnarsson og fjölskylda.
Hinn 12. mars sl. féll frá heiðurs-
maðurinn Guðmundur Móeses Jóns-
son, tengdafaðir minn, bridgefélagi
og vinur.
Hann hafði lifað tímana tvenna
eins og sagt er, fæddur 30. júní 1917,
en margt hefur breyst síðan þá. Fað-
ir hans var sjómaður sem sigldi með
Leifi heppna og fórst í Halaveðrinu
mikla 8. febrúar árið 1925 er Guð-
mundur var sjö ára. Fórust þá tveir
togarar með 68 manns, en aðrir tog-
arar komust við illan leik að landi,
huldir klakabrynju. Móðir hans var
þá húsmóðir og fiskvinnslukona með
3 börn.
Þrjátíu árum seinna á Ísafirði,
Guðmundur, dökkhærður, hár,
grannur, svipsterkur og alvarlegur,
var vinsæll dansherra á gömlu döns-
unum, hafði áhuga á bridge og fót-
bolta. Hann var ráðsettur eiginmað-
ur með 4 börn. Hafði verið skipstóri,
var einn af stofnendum Norðurtang-
ans. Norðurtanginn gerði út nokkra
báta, svo sem Víking II, Víking III,
Orra ÍS 20, Guðbjart ÍS 16 og fleiri
og rak mjög gott frystihús. Í frysti-
húsinu vann Guðmundur í ein 50 ár,
sem yfirverkstjóri og þótti standa sig
vel. Sérstaklega þótti hann fær í að
ákveða í hvers konar vinnslu og
pakkningar hráefnið færi svo úr yrði
sem mest verðmæti. Seinna bættist
svo eitt barn við, börnin lærðu á
hljóðfæri, eins og við var að búast í
tónlistarbænum Ísafirði. Margt
skemmtilegt var gert, til dæmis farið
til Noregs með Gullfossi og Sunnu-
kórnum.
Best kynntist ég Guðmundi eftir
að hann flutti til Reykjavíkur árið
1997 tæplega áttræður, en þá vantaði
hann bridgefélaga. Hann var áhuga-
samur og góður spilari. Við spiluðum
hátt í átta ár á föstudögum hjá
Bridgefélagi Reykjavíkur, þar sem
hann var virtur vel. Þegar ég sótti
hann á föstudögum talaði hann um
spilin frá vikunni áður sem hann
mundi flest. Tvisvar tókum við þátt í
alþjóðlegum Flugleiðamótum og stóð
hann sig vel þótt hann væri elstur.
Spilafélagar hans voru oft undrandi á
því hvernig hann spilaði, en hann
náði árangri og fékk stundum einum
slag meira en menn sem klóruðu sér í
hausnum reiknuðu með.
Hann hafði mjög gaman af fótbolta
og hélt með Man. United. Árið 2002
fórum við og synir hans til Manchest-
er, en þá var Guðmundur 85 ára. Þar
horfðum við, ásamt 70.000 öðrum,
sem við sungum með og fögnuðum,
Man. United sigra Fulham 3-0. Einn-
ig fórum við til Liverpool, en yngri
sonur Guðmundar hefur þann ósið að
halda með Liverpool. Þar unnu þeir
Leeds 3-1 og sungu mikið. Margs er
að minnast úr þeirri ferð, til dæmis
lögreglumennirnir á stóru hestunum,
sem hikuðu ekki við að þrengja sér
inn í hóp þar sem einhver óróleiki
var.
Guðmundur var í dagvist á Múla-
bæ síðustu tvö árin og var ánægður
með dvölina. Fjölskyldan er þakklát
starfsfólki Múlabæjar fyrir góða
umönnun.
Guðmundur var gæfumaður, átti
góða fjölskyldu, hvort sem var eigin
eða stjúpfjölskylda, átti góðar konur,
gat notið augnabliksins, hvort sem
það var fallegt mark hjá Man. Unit-
ed, vel spilað spil í bridge, skip á sigl-
ingu, dansandi gömlu dansana, eða
upplestur og umræða um góða bók.
Blessuð sé minning Guðmundar
Móesesar Jónssonar.
Hans Óskar Isebarn.
Þegar Mósi stóð saddur lífdaga
upp frá lífsins græna borði urðu
margvísleg þáttaskil. Genginn er
reyndasti fiskvinnslumaður landsins
og þó víðar væri leitað. Í tæpan
mannsaldur stjórnaði hann daglegri
vinnslu eins stærsta sjávarútvegsfyr-
irtækis landsins. Engin dæmi veit ég
önnur um slíka reynslu og tæpast
verður met hans slegið.
Ungur að árum stofnaði hann
ásamt föðurbróður sínum Hálfdáni í
Búð og fleiri mætum mönnum til at-
vinnureksturs á Ísafirði sem með
tímanum óx og dafnaði. Þá var hann
skipstjóri en snemma á fimmta ára-
tug síðustu aldar kom það í hans hlut
að stýra fiskvinnslu fyrirtækisins og
þann starfa hafði hann með höndum í
rúmlega hálfa öld.
Ólíkt ýmsum frændum sínum var
hann sjaldnast maður stórra orða eða
háværra yfirlýsinga. Sjaldnast fór
hann hratt yfir en komst þrátt fyrir
það oftast að settu marki eða í það
minnsta eins nálægt því og hægt var
hverju sinni.
Um áratuga skeið rak hann ásamt
félögum sínum fyrirtæki sem var
einn af burðarásum byggðar. Í þá
daga fylgdu því ýmsar óskráðar
skyldur sem menn tókust á hendur
með glöðu geði og ýmsar þessar
skyldur fundu þeir félagar upp sjálf-
ir. Samfélagið naut ávaxtanna í ríku-
legum mæli. Á seinni árum þegar
eingöngu er krafist hámarksarðsemi
fjármagns þykja slík vinnubrögð sem
áður voru tíðkuð ekki til eftirbreytni.
Afleiðingarnar má sjá víða.
Mósi var afar vel liðinn af sam-
starfsfólki sínu. Það sást best á með-
alstarfsaldri starfsmanna hans. Sem
stjórnandi eins stærsta fiskvinnslu-
fyrirtækis landsins þurfti að hafa
vakandi auga með nýjungum og það
gerði Mósi svo sannarlega. Kominn á
efri ár var hann án efa ennþá einn
framsæknasti fiskvinnslumaður
landsins. Ávallt tilbúinn til þess að
prófa nýjar leiðir ef mætti verða til
þess að auka verðmæti þess afla sem
á land barst. Aðstæður á mörkuðum
breyttust og sömu sögu var að segja
af verði, að ekki sé talað um geng-
ismálin. Alla þessa þætti þurfa menn
að hafa á hreinu þegar tekin er
ákvörðun um vinnsluleiðir. Ekki voru
tölvurnar í kringum kappann til að-
stoðar. Hvernig hann fór að því að
halda utan um allar slíkar upplýsing-
ar er hulin ráðgáta.
En lífið var ekki aðeins fiskur hjá
Mósa. Fjölskyldan var stór og á
stundum virtist manni fleiri fara
heim til hans í kaffitímum en dvöldu í
kaffisal fyrirtækisins. Hann var mik-
ill áhugamaður um íþróttir. Hann var
um langan aldur einn af okkar
fremstu bridgespilurum landsins.
Átti þar langan keppnisferil og tók
þátt í keppni á landsmóti ungmenna-
félaganna kominn á níræðisaldur.
Skákmaður var hann og góður og
annálaður var áhugi hans á knatt-
spyrnu. Naut sú íþrótt, sem og aðrar,
ríkulegs stuðnings hjá honum og fyr-
irtæki hans.
Eftir langa og gifturíka ævi er
margs að minnast og margt ber að
þakka. Þakkirnar verða í tilfelli Mósa
ekki í neinu samræmi við það sem
hann á skilið. Hann var heldur ekki í
leit að þakklæti. Verk sín vann hann
af hógværð og forðaðist sviðsljósið.
Um leið og aðstandendum er vottuð
samúð við fráfall hans er honum
þökkuð áratuga tryggð og vinátta.
Halldór Jónsson.