Morgunblaðið - 05.05.2007, Blaðsíða 6
Eftir Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
APPLICON og Vélfang eru Fyrirtæki ársins
2007 og Skattrannsóknarstjóri ríkisins er
Stofnun ársins 2007, samkvæmt niðurstöðum
vinnumarkaðskönnunar VR og SFR – stétt-
arfélags í almannaþjónustu.
Könnunin er stærsta vinnumarkaðskönnun
á Íslandi. VR hefur staðið fyrir könnun á
vinnuskilyrðum og Fyrirtæki ársins meðal fé-
lagsmanna sinna í áratug og SFR var nú með í
annað sinn. Könnunin var gerð í febrúar og
mars á þessu ári og fengu um 30.000 starfs-
menn á almennum og opinberum vinnumark-
aði spurningaeyðublað en svarhlutfall var um
47%.
Niðurstöðunum er skipt í átta lykilþætti;
trúverðugleika stjórnenda, launakjör, vinnu-
skilyrði, sveigjanleika vinnu, sjálfstæði í starfi,
álag og kröfur, stolt af fyrirtækinu og starfs-
anda. Allar niðurstöður eru birtar í VR-
blaðinu og SVR-blaðinu, sem komu út í gær,
en þar má meðal annars sjá hvar vinnustaðir
standa í samanburði við aðra. Á heimasíðu VR
(www.vr.is) og heimasíðu SFR (www.sfr.is) er
auk þess frekari umfjöllun um niðurstöðurnar.
Betri einkunnir
Í hópi stærri fyrirtækja á almennum vinnu-
markaði, þar sem vinna 50 starfsmenn eða
fleiri, var Applicon valið Fyrirtæki ársins en
Vélfang í hópi smærri fyrirtækja. Í öðru sæti í
hópi stærri fyrirtækja var Fjarhitun og Daníel
Ólafsson, Fyrirtæki ársins 2006, í því þriðja.
Síðan komu CCP, Icepharma, Verkfræðistofa
Sigurðar Thoroddsen, Línuhönnun hf., Ís-
lensk-ameríska verslunarfélagið ehf., VGK-
Hönnun og Fosshótel ehf.
Fastus var í öðru sæti í hópi minni fyr-
irtækja og Sensa, sigurvegarinn í hópi minni
fyrirtækja í fyrra, í því þriðja. Síðan komu
JKE Design, Hagvangur, Himnesk hollusta
ehf., Birtingahúsið, Beiersdorf ehf., Skattur og
bókhald ehf., og Föt og skór.
Sjóvá og Fálkinn bættu sig mest milli ára og
eru því hástökkvarar í hópi stærri og minni
fyrirtækja.
Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, segir að
meginmarkmið könnunarinnar sé að reyna að
bæta vinnuaðstæður í víðum skilningi og sá til-
gangur virðist vera að skila sér því einkunnir
batni jafnt og þétt. Einnig sé athyglisvert að
fólk á almennum vinnumarkaði virðist vera
ánægðara með sinn vinnustað heldur en op-
inberir starfsmenn.
Bæta þarf starfsumhverfið
Skattrannsóknarstjóri ríkisins varði titilinn
og var valinn Stofnun ársins 2007. Bisk-
upsstofa var í öðru sæti annað árið í röð og
Skattstofa Suðurlands í þriðja sæti. Í næstu
sætum voru Skattstofa Vestfjarða og Skatt-
stofa Austurlands. Hástökkvarinn meðal
stofnana ríkisins er Skrifstofa rannsókn-
arstofnana atvinnuveganna.
Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR,
segir athyglisvert að nokkrar stofnanir, sem
fengu slakar einkunnir í fyrra, fá aftur slaka
útreið í ár. Markmið SFR – stéttarfélags sé
það sama og til dæmis fjármálaráðuneytisins,
þ.e. að menn vilji byggja upp gott vinnuum-
hverfi starfsmanna þannig að starfsmenn geti
sinnt starfi sínu með stolti og ríkið veiti bestu
þjónustu á hverjum tíma. Það valdi nokkrum
áhyggjum ef innra starf stofnana gangi ekki
nógu vel því þar sem erfiðleikar bjáti á í starfs-
umhverfi starfsmanna sé erfiðara að veita
góða þjónustu.
Þórarinn bendir á að þar sem starfsandinn
sé slakastur fái stofnanirnar líka slökustu ein-
kunnirnar varðandi launakjör. Þetta verði
skoðað sérstaklega. Auk þess virðist vera sam-
bærilegar vísbendingar í þessari könnun og
könnun fjármálaráðuneytisins um starfsum-
hverfi ríkisstarfsmanna. Stofnanir á sviði heil-
brigðismála, löggæslu og fangelsismála fái í
hvorugri könnuninni nógu góða einkunn. „Ég
held að það sé skynsamlegt að skoða þessar
niðurstöður og bera saman með það fyrir aug-
um að finna leiðir til að bæta starfsumhverfi
ríkisstarfsmanna þannig að þeir geti þá sinnt
starfi sínu betur og hlutverk þessara stofnana
í almannaþjónustu verði sterkara og þær hljóti
þann virðingarsess sem þær eiga skilið,“ segir
Þórarinn.
Góður starfsandi á skattstofum
Applicon, Vélfang og Skattrannsóknarstjóri ríkisins bestu vinnustaðirnir í könnun VR og SVR
6 LAUGARDAGUR 5. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Guðna Einarsson
gudni@mbl.is
LANGSTÆRSTA gjöf sem
Krabbameinsfélagi Íslands hefur
borist var afhent í gær. Gjöfin er
að andvirði 120 milljóna króna
og er frá fimm hjónum sem vilja
stuðla að framförum í leit að
brjóstakrabbameini. Fénu verð-
ur varið til kaupa á þremur
tækjum til stafrænnar brjósta-
myndatöku og kostar hvert 40
milljónir kr.
Þau Anna Lísa Sigurjónsdóttir
og Hreiðar Már Sigurðsson og
Arndís Björnsdóttir og Sigurður
Einarsson gáfu sameiginlega eitt
tæki. Þuríður Reynisdóttir og
Ágúst Guðmundsson og Guðrún
Rut Eyjólfsdóttir og Lýður Guð-
mundsson gáfu annað tæki.
Þriðja tækið gáfu Heather Bird
Tchenguiz og Robert Tchenguiz.
Konurnar fimm afhentu gjöf-
ina og hafði Arndís Björnsdóttir
orð fyrir þeim. Hún sagði
ánægjulegt að eiga þess kost að
tengjast Krabbameinsfélaginu og
verkefnum þess á þennan hátt.
Hún sagði þær stöllur vita
mætavel, eins og flestar konur,
hve þýðingarmikið það er fyrir
líf og heilsu að eiga kost á góðri
og fullkominni krabbameinsleit.
Krabbameinsfélagið hafi unnið
ómetanlegt starf í þágu kvenna á
undanförnum áratugum.
„Það hefur sannast á Íslandi
að leit að krabbameini í leghálsi
og brjóstum er árangursrík
heilsuvernd. En tæki og aðstaða
úreldast og ný tækni og nýjar
aðferðir koma fram á sjón-
arsviðið sem hugsanlega geta
bætt sjúkdómsgreiningu og flýtt
meðferð. Þess vegna vorum við
konurnar og makar okkar sam-
mála um að það væri verðugt
verkefni að styrkja Krabba-
meinsfélagið til þess að end-
urnýja tækjabúnað Leitarstöðv-
arinnar,“ sagði Arndís. „Við
vonum innilega að framlag okkar
hér í dag verði hvatning til ís-
lenskra kvenna. Við skorum á
konur að gera átak til þess að
auka enn frekar mætinguna í
krabbameinsleit til að tryggja
betur eigin heilsu og velferð fjöl-
skyldna sinna,“ sagði Arndís.
Nýju tækin munu leiða til
gjörbreytinga hjá röntgendeild
Leitarstöðvar Krabbameins-
félagsins hvað varðar vinnslu
mynda, úrlestur, geymslu og að-
gang að þeim. Þessi tækni leiðir
einnig til byltingar í vinnuum-
hverfi röntgenlækna og geisla-
fræðinga. Þá gefur nýja tæknin
möguleika á nákvæmari grein-
ingu lítilla æxla og gagnast að-
ferðin best í brjóstum yngri
kvenna og hjá þeim sem hafa
þéttan brjóstvef. Auk þess nota
þessi tæki mun minni geisla-
skammta en áður þekkist.
Sigurður Björnsson, formaður
Krabbameinsfélagsins, Guðrún
Agnarsdóttir, forstjóri, og Krist-
ján Sigurðsson sviðsstjóri leit-
arsviðs, tóku við gjöfinni og
færðu gefendum þakkir.
Gjöfin í gær er til viðbótar
styrkjum Glitnis og Kaupþings
til kaupa á tveimur tækjum.
Leitarstöðin þarf fimm tæki og
verða þrjú í höfuðstöðvunum í
Skógarhlíð í Reykjavík, eitt tæki
á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ak-
ureyri og hið fimmta verður not-
að sem fartæki á landsbyggðinni.
Áætlað er að hug- og vélbúnaður
sem tengist tækjunum fimm
muni kosta um 130 milljónir
króna.
Gáfu Krabbameinsfélagi
Íslands 120 milljónir
Morgunblaðið/Ómar
Góð gjöf F.v.: Þuríður Reynisdóttir, Guðrún Rut Eyjólfsdóttir, Heather Bird Tchenquiz, Arndís Björnsdóttir, Anna Lísa Sigurjónsdóttir, Guð-
rún Agnarsdóttir forstjóri , Sigurður Björnsson, formaður Krabbameinsfélags Íslands, og Kristján Sigurðsson, sviðstjóri Leitarsviðs.
Keypt verða þrjú fullkomin tæki til stafrænnar brjóstamyndatöku
HEATHER Bird Tschenguiz og Robert, maður
hennar, gáfu Krabbameinsfélaginu eitt tækj-
anna þriggja. Hún var spurð hvernig á því stæði
að þau, sem búa í Bretlandi, gæfu Krabbameins-
félagi Íslands svo rausnarlega gjöf?
„Við erum mjög náin Íslendingum í London
og þetta málefni er okkur hjónum einnig mjög
hugleikið,“ sagði frú Tchenquiz. Hún er stofn-
andi og forstjóri HB Health sem m.a. vinnur að
heilsueflingu og bættum lífsgæðum fólks á öll-
um aldri. Maður hennar, Robert Tschenguiz, er
þekktur fasteignaauðjöfur í Bretlandi. Hann á
m.a. rúmlega 5% hlut í Exista og situr þar í stjórn. Lýður Guð-
mundsson er stjórnarformaður Exista.
„Markmið mitt í lífinu er að fræða um fyrirbyggjandi rann-
sóknir og mikilvægi þess að greina sjúkdóma snemma. Eins
hvernig má forðast hrörnunarsjúkdóma. Tengdamóðir mín hefur
þjáðst af krabbameini í yfir 20 ár. Það er búið að fjarlægja bæði
brjóst hennar og hún fékk einnig krabbamein í andlitið. Þetta
málefni stendur okkur því nærri. Við viljum einnig endurgjalda ís-
lensku þjóðinni því okkur finnst að Íslendingar hafi gert mikið
fyrir okkur. Þetta er frábært félag [Krabbameinsfélagið] sem
vinnur stórkostlegt starf,“ sagði Heather. Hún kvaðst vera þeirrar
skoðunar að krabbameinsvarnir hér gætu verið öðrum fyrirmynd
og að rannsóknir og reynsla héðan gæti komið öðrum þjóðum til
góða.
Við viljum endurgjalda
íslensku þjóðinni
Heather Bird
Tschenguiz
SIV Friðleifsdóttir heil-
brigðisráðherra skrifaði í
gær undir samning við
lyfjafyrirtækið GlaxoSmit-
hKline (GSK) um að fyrir-
tækið tryggi Íslendingum
300 þúsund skammta af
bóluefni gegn heimsfaraldri
inflúensu til ársins 2011. Af
hálfu GSK ritaði Hjörleifur
Þórarinsson, framkvæmda-
stjóri GSK á Íslandi, undir samninginn.
Á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins segir,
að samningurinn sé samhljóða samningi sem
dönsk stjórnvöld hafi gert við GSK og sé kostn-
aður íslenskra stjórnvalda vegna hans um 19,5
milljónir á þessu ári og 19,5 milljónir á því
næsta. Það jafngildir því að greiddar eru um
130 krónur á hvern skammt til að tryggja að
bóluefnið verði til reiðu ef á þarf að halda
næstu fimm árin.
Ráðuneytið segir, að samningurinn við GSK
sé liður í undirbúningi sem íslensk stjórnvöld
hafi unnið að síðustu ár vegna hugsanlegs
heimsfaraldurs inflúensu. Alþjóðaheilbrigðis-
málastofnunin hefur skilgreint núverandi
ástand sem viðbúnaðarstig og hvatt þjóðir
heims til að huga að viðbúnaðaráætlunum við
heimsfaraldri inflúensu. Segir ráðuneytið, að
mikilvægur liður í slíkum viðbúnaði sé að
tryggja landsmönnum bóluefni ef á þarf að
halda. Framkvæmd samningsins við GlaxoS-
mithKline verður á höndum sóttvarnalæknis.
Samið um
varnir gegn
inflúensu
Siv Friðleifsdóttir
Íslendingum tryggðir 300
þúsund bóluefnisskammtar
REYKJAVÍK er meðal 11 borga sem til-
nefndar eru í ár til verðlaunanna World Tra-
vel Awards sem besti áfangastaður fyrir
skemmtiferðaskip í Evrópu. Samkvæmt upp-
lýsingum frá Höfuðborgarstofu eru hinar
borgirnar Amsterdam, Aþena, Cannes, Kaup-
mannahöfn, Dubrovnik, Lissabon, Ósló, St.
Pétursborg, Stokkhólmur og Feneyjar.
Ferðaskrifstofur um allan heim velja besta
áfangastaðinn ásamt aðilum úr skemmti-
ferðaskipageiranum. Árið 2006 var Kaup-
mannahöfn valin besti áfangastaður fyrir
skemmtiferðaskip í Evrópu. Um það bil 80
skemmtiferðaskip eru nú þegar bókuð til
Reykjavíkur í sumar og áætlaður farþega-
fjöldi er á bilinu 60–70 þúsund. Verðlaunin
verða afhent í Newcastle, Englandi, hinn 9.
október næstkomandi.
Reykjavík
vinsæll
áfangastaður
♦♦♦