Morgunblaðið - 05.07.2007, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. JÚLÍ 2007 31
✝ Þorkell Þorsteinsson
Snædal fæddist á
Skjöldólfsstöðum á
Jökuldal 15. janúar
1950. Hann lést af
heilablóðfalli 21.
júní síðastliðinn á
heimili sínu í Árós-
um í Danmörku.
Foreldrar hans voru
hjónin Margrét Þor-
kelsdóttir og Þor-
steinn V. Snædal á
Skjöldólfsstöðum og
eru þau bæði látin.
Systkini Þorkels eru Bergþóra,
Jóhanna, Vilhjálmur, Elín, Anna
Sigríður og Þorsteinn.
Dóttir Þorkels og Vigdísar
Sveinsdóttur er Þóra, f. 8. apríl
1983. Hún á heima í Kaupmanna-
höfn.
Þorkell ólst upp á Skjöldólfs-
stöðum, þar gekk hann í barna-
skóla og var svo tvo vetur í héraðs-
skólanum í Reykholti í
Borgarfirði. Hann stundaði prent-
nám við Iðnskólann í Reykjavík í
fjóra vetur.
Þorkell vann almenn verka-
mannastörf víðsvegar um landið
en lengst var hann
þó á sjó, fyrst sem
kokkur og sótti hann
sér síðan réttindi til
að stýra litlum
vélbátum.
Árin 1978–1981
bjó Þorkell í Árósum
í Danmörku og vann
þar. Hann kynntist
síðan Vigdísi Sveins-
dóttur og fluttist
með henni í Mosfells-
sveit. Þau eignuðust
eina dóttur, Þóru, en
Vigdís átti dóttur
fyrir, Sigríði Kalman. Fjölskyldan
fluttist til Árósa, þar sem Vigdís
lauk námi í uppeldisfræði, og bjó
þar í fjögur ár. Leiðir Þorkels og
Vigdísar skildi ári eftir heimkom-
una. Þorkell fluttist til Árósa árið
1996 og hefur búið og starfað þar
síðan.
Þorkell kynntist Karen Lund-
Sörensen og giftust þau á Þingvöll-
um að heiðnum sið sumarið 2004.
Kveðjuathöfn og bálför Þorkels
hefur farið fram.
Jarðsett verður í dag í Hofteigs-
kirkjugarði á Jökuldal, þar sem
foreldrar hans hvíla.
Brúaröræfi síðsumars árið 1980.
Löngu áður en Kárahnjúkar um-
turnuðust úr sakleysislegu nafni í
viðsjárvert hugtak. Keli á gömlum
Rússajeppa með blæjum, þeysandi
eftir fjallshryggjum, haglari og rifill
í farteskinu, ásamt vodka, Campari
og einhverri lús af „fygræs“, eins og
danskurinn kallaði það. Gangna-
mannakofi og himinninn höndum
tekinn, þótt það hefði kostað tvær
endur lífið. Eftir á að hyggja:
Hvernig á að höndla hamingjuna?
Keli var engum mönnum líkur,
sérstakur, sérlundaður, frumlegur,
frumstæður villimaður af Jökuldal.
En samt var hjarta hans fullt af við-
kvæmni og skilningi á alls kyns fólki
og það sló í takt við lífsklukkur
þeirra sem miður mega sín í sam-
félaginu. Hann var glöggskyggn á
óréttlæti heimsins og hafði til að
bera í ríkum mæli það sem kannski
skiptir mestu máli í lífinu, nefnilega
hjartagreind.
Lífshlaup Kela var ekki alltaf
dans á rósum og stundum var hann
sjálfum sér verstur. Í gamla daga í
Árósum var hann í senn íslenskast-
ur allra Íslendinga og jafnframt lag-
aði hann sig að dönsku samfélagi,
siðum og menningu, betur en flestir.
„Følg skik eller fly land“, segir fornt
danskt spakmæli. Hann bar ætíð
með sér uppruna sinn, sem einhvers
konar frumkraft, sem hann nærðist
á og gaf einnig af sér. Hann var al-
þýðlegur grallari og gjörsamlega
laus við fordild og snobb; hann gat
þrasað við fólk og verið á öndverð-
um meiði við allt og alla, en það var
líka stutt í stríðnina, galgopaháttinn
og húmorinn; það var slegið á lær og
rekinn upp hrossahlátur.
Keli safnaði ekki veraldlegum
auðæfum en hann auðgaði líf
margra samferðamanna sinna og
skilur eftir sig dýrmætar minningar
í huga þeirra. Hann féll um aldur
fram og hans er sárt saknað.
Sigurður Ólafsson.
„Hann Keli bróðir er dáinn.“
Þannig hljómaði titrandi rödd Önnu
Sigríðar, systur Kela, föstudaginn
22. júní sl. þegar hún sagði mér hin
válegu tíðindi. Heimurinn stöðvaðist
um stund og ég átti erfitt með að
meðtaka skilaboðin. Vinur minn,
sem ég var að bíða eftir að kæmi til
okkar hjóna í grill þá um kvöldið,
var látinn. Við hjón áttum því láni að
fagna að kynnast Kela sumarið
2006, Keli var reyndar frændi konu
minnar en þau voru alin upp hvort í
sínu landshorninu, Keli og Anna
Sigga austur á Jökuldal og Nanna
mín í Kópavoginum. Anna Sigga
bauð okkur hjónum til kvöldverðar í
tilefni af komu Vilhjálms bróður
þeirra systkina og konu hans til
Danmerkur, svo að Nönnu gæfist
tækifæri til að hitta frændfólk sitt.
Þannig var upphaf kynna okkar af
Kela. Um jólaleytið var Keli á milli
íbúða og tók að sér að gæta heimilis
okkar. Eftir að við komum heim
buðum við Kela að dvelja hjá okkur
þar til hann fengi íbúð sína afhenta
1. mars sl. og varð það úr. Á þessum
tíma tókst mikill vinskapur milli
okkar Kela sem hvorugan okkar ór-
aði fyrir að stæði svo stutt. Keli var
fjölgreindur og skemmtilegur, mikill
húmoristi og meistari hins svarta
húmors. Prófgráðurnar þvældust
ekki fyrir Kela en margur mennta-
maðurinn hefði ei að síður mátt
margt af honum læra, ekki síst á
sviði náttúrufræða og þjóðfélags-
mála. Keli var óvenjuhlýr maður og
skilningsríkur, tillögugóður og
greiðvikinn, og tók ávallt málstað
þeirra sem minna mega sín í lífsins
ólgusjó. Um miðjan maí sl. varð ég
fyrir því óláni að axlarbrjóta mig og
verða þar með um tíma nánast
ósjálfbjarga um flesta hluti daglegs
lífs. Þá kom mannvinurinn Keli okk-
ur hjónum til hjálpar og var mér til
aðstoðar fyrstu fimm sólarhringana
eftir óhappið, svo að kona mín kæm-
ist til sinnar vinnu. Það sýnir betur
en margt annað mannkosti Kela. Við
Keli ræddum mikið saman í síma, og
Keli vildi fylgjast vel með hvernig
mér reiddi af. Síðasta samtalið var
seint að kveldi miðvikudags, einung-
is nokkrum tímum fyrir andlát hans.
Ekki datt mér í hug að það samtal
yrði það síðasta, Keli var ánægður
og var að segja mér frá hvað hann
ætlaði að gera í fyrirhugaðri Ísland-
för sinni, en hann ætlaði að leggja af
stað til Íslands þann 25. júní til að
hitta systkini og vini. Keli hlakkaði
mikið til að geta komist austur á
Jökuldal, heim að Skjöldólfsstöðum.
En örlögin ætluðu honum annað
hlutskipti, heimferðin verður nú
jafnframt síðasta ferðin í þessum
heimi og hann jarðsettur við hlið
foreldra sinna þriðjudaginn 3. júlí.
Það er mikill harmur kveðinn að
Þóru dóttur Kela, sem nú sér á bak
ástkærum föður sínum langt um
aldur fram, sem og Karen unnustu
hans, Önnu Siggu systur hans og
systkinum og öðrum frændgarði.
Við Nanna samhryggjumst þeim öll-
um og vonum að algóður Guð styrki
þau á þessum erfiðu tímamótum.
Kæri vinur, hafðu þökk fyrir alla
þína hjálp, það eru okkur forréttindi
að hafa fengið að þekkja þig.
Far þú í friði, englar Guðs þig
blessi um aldir alda.
Guðbergur Þorvaldsson og
Nanna Arthúrsdóttir
Vinur minn Þorkell Snædal lést í
Árósum í Danmörku þann 21. júní
sl.
Keli eins og hann var jafnan kall-
aður af vinum og ættingjum hafði
búið í Danmörku um árabil.
Hann var ættaður frá Skjöldólfs-
stöðum á Jökuldal þar sem hann ólst
upp í stórum systkinahópi. Ég
kynntist fólkinu á Skjöldólfsstöðum
í gegnum Önnu Siggu systur Kela
sem er góð vinkona mín, aðallega
systkinunum Ellu, Kela og Steina og
foreldrum þeirra þeim Margréti og
Þorsteini. Það var sérstakt að kynn-
ast þessu fólki, sem allt er/var miklir
húmoristar, dugnaðarforkar og gott
fólk.
Keli var mikið ljúfmenni og vildi
leysa hvers manns vanda. Aldrei
heyrði ég hann hallmæla nokkrum
manni og ævinlega tók hann málstað
þeirra sem minna máttu sín. Hann
var alltaf mikill sveitakarl í sér, tal-
aði og hegðaði sér oft sem slíkur og
húmorinn var aldrei langt undan
frekar en hjá hinum í fjölskyldunni.
Við vorum oft samferða í gegnum
lífið við Keli. Bjuggum í vesturbæn-
um og fórum stundum saman í
Glaumbæ þegar við vorum talsvert
ung. Við vorum bæði búsett í Árós-
um á sama tíma, bjuggum þá um
tíma saman í íbúð ásamt fleira fólki,
bjuggum bæði í Mosfellssveitinni
þar sem Keli bjó með Vigdísi
frænku minni og barnsmóður hans,
en þau eignuðust saman dóttur,
mikla myndarstúlku sem heitir
Þóra. Svo var lengra á milli okkar
síðustu árin eftir að hann fór aftur
til Árósa.
Keli var vinur vina sinna. Eitt
sinn þegar hann bjó í Mosfellssveit-
inni var hann að horfa á sjónvarpið
með vini sínum. Þá kemur til tals að
þeir séu nú dálítið blankir og nú
kæmi sér vel að vinna í lottó. Keli
heitir vininum því að ef hann vinni í
lottó þá fái vinurinn helminginn.. Og
viti menn þá gerðist það að hinn
staurblanki Þorkell vann stærsta
vinning og eins og hans var von og
vísa stóð hann við orð sín og vin-
urinn fékk sinn hlut.
Greiðvikni var ríkur þáttur í skap-
gerð Kela. Þess vegna fannst honum
ekki mikið mál að sækja mig eitt
dimmt haustkvöld í grenjandi rign-
ingu til Billund á Citroen „bragg-
anum“ sínum. Þegar við vorum búin
keyra um stund fann ég að ég var
orðin blaut í fæturna. Ég hafði orð á
þessu, þá sagði Keli bara „æi já, það
eru göt í gólfinu sem ég ætla alltaf
að gera við.“ Það var ekkert verið að
stressa sig yfir smámunum.
En nú er Keli allur og ég á erfitt
með að skilja það. Ég minnist þess
þegar við hittumst síðast og Keli
kom hjólandi með innkaupapoka
með nokkrum öllurum, við sátum í
sólríkum garðinum hjá Önnu Siggu
með kaldan bjór. Keli fór að bjástra
við grillið á meðan hann sagði okkur
sögur og við Anna Sigga hlógum og
skemmtum okkur. Svoleiðis var það
svo oft en nú verður líklega einhver
bið á því að við hittumst.
Ég sendi innilegar kveðjur til
Þóru sem hefur misst hann pabba
sinn og til Önnu Siggu sem hefur
misst kæran bróður og góðan vin.
Einnig sendi ég Ellu, Steina og hin-
um systkinum Kela og fjölskyldunni
allri samúðarkveðjur.
Ingibjörg Pétursdóttir.
Við byrjuðum samanburðinn á
jökulvötnum. Ég lagði Lagarfljótið
til málanna, hann Jöklu. Mitt ró-
samt stöðuvatn með spegilmynd
landsins í sér þegar svo viðraði,
hans dularfullt reginafl sem svarf
djúpt gilið með þungum drunum
fyrir neðan bæinn. Ég hafði ekki áð-
ur heyrt talað um vatnsfall í alvöru
eins og persónu. „Lækurinn“ sem
hjalaði við „Hrísluna“ í ljóði Páls
Ólafssonar var skáldamál en Jökla
seytlaði ekki fram í ástarljóði heldur
braust raunveruleg um á milli
hamraveggjanna og var þó ekki
nema ásýndar af vatni og aur – líkt
og menn og skepnur af holdi og
blóði – heldur hið innra af anda sem
gerði nýfenginn herbergisfélaga
minn á sundnámskeiði í húsakynn-
um héraðsskóla fjórðungsins dálítið
annars heims í fyrstu. En ferða-
taska úr tré og rúmfatapokinn voru
af okkar sameiginlega heimi og það
voru ullarnærbuxurnar og ullarleist-
ar líka sem hann raðaði af natni í
hurðarbrotinn fataskápinn. Þótt
fljótin sem heimili okkar stóðu við
væru ólík virtust mæður okkar sam-
mála um að þetta yrði kalt vor.
Við vorum 11 ára og ég hafði lært
sundtökin í viku þegar Keli birtist.
Hann var alvarlegur í fasi, ívið há-
tíðlegur og hafði stóran fæðingar-
blett yfir efri vör hægra megin. En
um kvöldið þegar við lágum undir
fiðursængum frá mæðrum okkar
með höfuðið á kodda og svæfli þar á
ofan hló hann hjartanlega við ein-
hverju og við töluðum okkur heita á
vangann fram á nótt og fengum
hláturskast af tómri andagift sem
ótrúleg frásagnarsnilld þessa
drengs kallaði fram í snoðklipptum
kolli okkar á þessum heitustu dög-
um sem komið höfðu í byrjun maí
um langa hríð.
Aftur hittumst við nokkrum árum
síðar í Skógræktinni á Hallorms-
stað. Birkimaðkar ófu utan um sig
laufblöð á „Hríslunni“, vonglaðir
eins og „Lækurinn“ og það vorum
við líka, þetta sumar. Við urðum 17
ára á því ári og hættir að þiggja
klippingu af feðrum okkar. Lögðum
frá okkur bjúgskófluna í gróður-
setningunni, sveittir á enni og heitir
af vinnunni og Keli fléttaði sögu af
fágætum persónuleika af Jökuldal
inn í stjórnmálaumræðuna í síðdeg-
iskaffinu undir grónu barði. Fæð-
ingarbletturinn var horfinn en skildi
eftir sig svolítið ör sem birtist við
ljúfmannlegt bros. Glettinn og orð-
fimur með fágætum. Staldraði við
fram á skófluna og horfði yfir dags-
verkið. Þetta yrði mikill skógur.
Þær yrðu kátar, rollur á Jökuldal,
að fá slíkan skrúðgarð í morgunmat!
Hláturinn var smitandi og kátínan
laumaðist inn í sinni okkar og létti
okkur erfiðið.
Við urðum fullorðnir og hittumst
stopult en þó samferða tvö ár í Árós-
um ríflega 20 árum síðar. Dálítið
dönskuskotinn í hátt, fannst mér í
fyrstu, en brátt kom í ljós sá Keli
sem ég áður þekkti, glettinn, greið-
vikinn og ætíð tilbúinn að staldra við
og njóta þess augnabliks sem eilífðin
gaf af gæsku sinni. Staldraði full-
lengi stundum, mátti trúlega segja,
en slík augnablik urðu þó ljúfust í
safni minninga um þennan góða
dreng sem síðast þegar ég sá hann
fyrir ári var á leið austur að gljúfr-
um Jöklu að líta hana hinsta sinni í
lífi beggja.
Gunnlaugur Sigurðsson
frá Hallormsstað.
Undir lok áttunda áratugarins var
margt um að vera, jafnt á Árósum á
Jótlandi sem víða annars staðar í
heiminum. Bandaríska innrásarlið-
inu í Víetnam hafði verið stökkt á
brott, byltingar í Nicaragua og Gre-
nada, keisarinn í Íran á síðustu
dropunum. Í Danmörku var rætt um
kvenfrelsismál, hart var tekist á um
hvort reisa skyldi kjarnorkuver, lög-
regla sigaði hundum á verkafólk í
átökum og háskólar loguðu enn
vegna deilna um kennslufyrirkomu-
lag. Almennt má segja að fram hafi
farið víðfeðmar umræður um flest
milli himins og jarðar, ekkert var
sjálfgefið. Gagnrýnin og frumleg
hugsun, engin ládeyða.
Inn í þetta umhverfi kom Keli,
bróðir Önnu Siggu vinkonu okkar.
Hann var náttúrubarn og þúsund-
þjalasmiður frá Jökuldal sem bar
skynbragð á stjórnmál, listir og vís-
indi. Hann var hreinn og beinn. Það
var ekkert vont til í honum, eins og
sagt er. Góður drengur, en var
stundum andskotanum þras-
gjarnari. Í sumum mikilvægum mál-
um var erfitt að hemja strákinn. Þá
fylgdi líka hrossahlátur og enn stór-
tækari yfirlýsingar. „Gæskurinn“
var síðasta orðið, sagt af hlýju og
Keli hallaði sér áfram og horfði í
andlit manns, sló af sígarettunni. Þá
var hann ungur.
Hann var lengi ungur. Svo lengi
að við vorum steinhissa þegar okkur
var sagt að þessi miðaldra maður í
gallabuxum hefði spurt eftir okkur
heima. Þá var Keli á Íslandi í sjó-
mennsku. Hann átti dóttur að sjá
fyrir. Kokteill með sjómennsku get-
ur verið slæmur fyrir félagslynd
náttúrubörn með viðkvæma heilsu,
enda entist hún ekki. Keli flutti aft-
ur til Árósa og Elín Þóra og móð-
urfólkið hennar líka. Keli átti fjöl-
skyldu og vini á báðum stöðum, gott
fólk sem gætir hvað annars. Ísland
er yndislegt á sumrin eins og allir
vita sem hafa séð það. Karen, fallega
vinkona Kela, fór með honum hring-
inn í fimmtíuþúsundkróna bíl fyrir
nokkrum árum, sem var víst ekkert
mál að koma í gang. Þau giftust
meira að segja, svo fallegt var sum-
arið.
Vináttan við Kela var bókstaflega
„for livet“. Hann var góður vinur
vina sinna. Við erum þakklát fyrir
samfylgdina.
Gylfi Páll og Sigurlaug.
Þorkell Þ. Snædal
Ég kem úr róðri, en bind ekki
bátinn
hjá bakka fljótsins að sinni;
við kvöldmánans glóð er gott
að sofna
í gömlu kænunni minni;
og þótt hún líði frá landi með
vindum
sem létt út í húmið sveima,
að blómguðu sefi hún leggst þar
að lokum
sem líka er gott að dreyma.
(Kínverskt ljóð.)
Hann fór óvænt og svip-
lega hann Keli bróðir, nótt-
ina sem sólargangur er
lengstur.
Við minnumst alls þess
góða í fari hans, hlýr var
hann, hjálpsamur og trygg-
ur. Spaugsemi og umburð-
arlyndi við allt fólk var að-
alsmerki hans.
Við söknum nú bróður og
vinar, þökkum samfylgdina
og árnum honum fararheilla
á nýjum leiðum.
Systkini Kela.
HINSTA KVEÐJA
✝
Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og
langafi,
GUÐMUNDUR ÁRNI GUÐJÓNSSON,
Sunnubraut 17,
Akranesi,
lést á Sjúkrahúsi Akraness, þriðjudaginn 3. júlí.
Jarðarförin verður auglýst síðar.
Fyrir hönd fjölskyldunnar,
Rafnhildur Katrín Árnadóttir.
✝
Ástkær móðir okkar,
MARÍA HAUKSDÓTTIR
frá Garðshorni í Köldukinn,
lést þriðjudaginn 3. júlí á hjúkrunarheimilinu Hlíð,
Akureyri.
Fyrir hönd annarra vandamanna,
Ásta Arnþórsdóttir,
Haukur Arnþórsson,
Guðný Arnþórsdóttir,
Sigfús Arnþórsson,
Ingjaldur Arnþórsson.