Morgunblaðið - 26.11.2007, Qupperneq 25
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. NÓVEMBER 2007 25
missir ykkar er mestur og við biðj-
um alla góða vætti að vera með ykk-
ur og leiða.
Geir og Ingibjörg.
Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur
undir himninum hefir sinn tíma, að gráta
hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma,
að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir
sinn tíma, að kasta steinum hefir sinn tíma
og að tína saman steina hefir sinn tíma, að
faðmast hefir sinn tíma og að halda sér frá
faðmlögum hefir sinn tíma, að leita hefir
sinn tíma og ófriður hefir sinn tíma, og
friður hefir sinn tíma.
(Úr prédikaranum: 3,1-8)
Þórarni, eða Tóta kynntist ég sín-
um tíma í gegnum æskuvinkonu
mína, og varð mér strax ljóst hversu
mikill og traustur fylginautur hann
myndi reynast Guðbjörgu, sem ung
tók þá ákvörðun að nema listdans á
erlendri grund, á þeim árum var það
fágæt ákvörðun að hefja listdansfer-
ill sem Guðbjörg gerði á áttunda
áratugnum.
Þórarni og Guðbjörgu, tókst að
sameina líf sitt og starf á aðdáun-
arverðan hátt. Gagnkvæmur stuðn-
ingur þeirra var einstakur og sam-
stiga.
Þau námu lönd víða um heim, en
fluttust heim á tíunda áratugnum al-
komin reynsluríkari. Þá endurnýj-
uðum við gömul kynni.
Þórarinn var ávallt stórtækur til
vinnu og framúrskarandi fram-
kvæmdamaður af guðs náð og tók
sig ekki of hátíðlega, hæglátur og
brosmildur í fasi.
En öllu er afmörkuð stund og er-
um við sjaldnast reiðubúin að því
kalli þegar hinn „dauðans óvissi
tími“ knýr dyra.
Mikill er missir ykkar, Guðbjörg,
Skúli og Kjartan og fjölskyldna.
Megi Guð styrkja, og vera með
ykkur í sorginni.
Kveðja,
Elín Edda og Sverrir.
Fráfall Þórarins Kjartanssonar er
okkur öllum sem unnum með honum
og þekktum mikil harmafregn.
Löngu áður en útrás varð tískuorð
hér á landi var Þórarinn Kjartans-
son búinn að hasla sér völl á vett-
vangi alþjóðaflugsins, búinn að
skapa sér og fyrirtækjum sínum við-
skiptasambönd og orðstír sem lifir.
Hin merka saga flugs á Íslandi er
meðal annars saga öflugra frum-
kvöðla og Þórarinn Kjartansson var
svo sannarlega einn þeirra. Hans
starfsvettvangur hefur að mestu leg-
ið utan heimalandsins og afrek hans
því kannski ekki verið í sviðsljósinu
hér, en allir í atvinnugreininni báru
mikla virðingu fyrir Þórarni og verk-
um hans. Hann var einn þeirra stóru
í fluginu, hann skilur eftir sig stórt
skarð og marga vini sem munu
sakna hans.
Bláfugl varð hluti af Icelandair
Group fyrir tveimur árum og Þór-
arinn varð þá hluti af stjórnendahópi
félagsins. Hann kom með ferska sýn
inn í félagið og aflaði sér strax virð-
ingar samstarfsmanna. Hann var
skarpgreindur og með yfirburða-
þekkingu og reynslu á sviði frakt-
flutninga og flugvélaviðskipta. En
einnig hláturmildur og hugmynda-
ríkur. Þórarinn stýrði Bláfugli með
samstarfsfólki sínu af röggsemi og
skynsemi. Þar voru teknar djarfar
ákvarðanir og þeim fylgt vel eftir.
Mér, eins og öllum öðrum sem fylgd-
ust með rekstri Bláfugls, var ljóst að
þar fór samhentur hópur starfs-
manna, sem náðu miklum árangri.
Þeirra býður nú ærið verkefni að
taka við keflinu af leiðtoga sínum.
Ég vil fyrir hönd Icelandair Group
og allra starfsmanna félagsins færa
Guðbjörgu eiginkonu hans, börnum,
fjölskyldu, aðstandendum og sam-
starfsfólki innilegar samúðarkveðj-
ur.
Jón Karl Ólafsson.
Okkur starfsmönnum Bláfugls var
mjög brugðið þegar við fengum þær
hræðilegu fréttir að Þórarinn Kjart-
ansson væri látinn. Þórarinn var
framkvæmdastjóri og einn af stofn-
endum Bláfugls. Hann var góður
leiðtogi og mikilhæfur stjórnandi.
Fráfall hans er okkur öllum mikill
missir. Það er okkar að halda verki
hans áfram og vinna áfram í þeim
anda sem hann skapaði.
Við viljum þakka fyrir þau forrétt-
indi að hafa þekkt og fengið að starfa
með Þórarni og kveðjum við hann
með miklum söknuði.
Við vottum Guðbjörgu, Kjartani
og Skúla og öllum ættingjum okkar
innilegustu samúð.
Starfsfólk Bláfugls.
Vinur minn og samherji, Þórarinn
Kjartansson, er allur. Hvernig má
það vera að líkamlega vel á sig kom-
inn maður, aðeins 55 ára, verði svona
skyndilega sláttumanninum að
bráð? Mikill útivistarmaður, unni ís-
lenskri náttúru og öllu því sem Ís-
land hafði upp á að bjóða: göngu-
garpur, veiðimaður, aðdáandi alls
milli fjalls og fjöru og hestamaður í
góðu veðri.
Við kynntumst fyrir 35 árum í
Lux, nýstúdent, í vinnuleit. Að hans
sögn hafði ég látið hann bíða í tvo
daga eftir viðtali en hann fyrirgaf
mér það því ég réð hann strax í
vinnu. Stjarna hans steig hratt innan
Cargolux. Eitt síðasta verk mitt í
Lúx. var samningur við Tóta um
flutning til USA. Honum tókst með
grettistaki að lyfta starfsemi Cargo-
lux á hærra plan og naut fyrir vikið
virðingar starfsfélaga sinna og
keppinauta. Ég fylgdist með honum,
við töluðum saman af og til en hitt-
umst sjaldnar.
Um 1990 sagði Tóti starfi sínu
lausu. Þau hjónin vildu ekki ala syn-
ina upp í Miami og fluttu heim. Hér
hazlaði hann sér nýjan völl í ráðgjöf,
vann að ýmsum verkefnum heima og
heiman, þ.m.t. í flutnings- og flug-
vélamiðlun en Tóti var í essinu sínu
við að koma slíku á koppinn.
Ég vildi koma á loftbrú milli Ís-
lands og Englands með fisk og egndi
fyrir Tóta að athuga valkosti. Hann
taldi þetta fráleitt, tímann ekki rétt-
an og við myndum aldrei hafa nóg
upp úr þessu til að geta haldið fjög-
urra manna jólagleði. En svo í jan.
’94 komum við á okkar fyrsta leigu-
flugi með fisk, en bara í öfuga átt, til
USA. Ævintýrið vatt upp á sig, oft
tvær ferðir á viku og við nokkrir fé-
lagar stofnuðum Flugflutninga.
Cargolux sannfærðist síðan um að
Ísland væri girnilegur markaður og
kom með B747. Tóti stjórnaði félag-
inu og fékk Skúla mág sinn sér til að-
stoðar. Þeir tveir, að öllum öðrum
ólöstuðum, hófu félagið til vegs og
virðingar. Þeir aðstoðuðu Íslands-
flug við að markaðssetja flutnings-
getu sína til Skotlands. En vá var
fyrir dyrum. Íslandsflug ákvað að
binda enda á samvinnuna og Cargo-
lux sýndi minni áhuga. Það var klárt
að ef við ætluðum að taka þátt í
flutningum með flugi yrðum við að
vera sjálfum okkur nógir. Á ögur-
stund var ákveðið að stofna Bláfugl,
sækja um flugrekstrarleyfi, kaupa
flugvél, leita eftir verkefnum og afla
hlutafjár til að fjármagna ævintýrið.
Margir góðir, aðallega frændur og
vinir, lögðu þar hönd á plóginn og
var það ekki síst vegna persónutöfra
Tóta.
Andvökunæturnar voru margar,
spurning um hvort við hefðum sniðið
okkur of stóran stakk. En ævintýrið
gekk upp, félagið skilaði hagnaði
strax á öðru ári, vélarnar urðu 2, 3
og 4. Félagið naut trúnaðar, sól
skein í heiði. Eftir fimm ár var Blá-
fugl selt FL Group. Tóti var áfram
forstjóri Bláfugls og Skúli Flug-
flutninga. Handbragð Tóta á Blá-
fugli sést vel enda valdi hann sér
trausta samstarfsmenn og þar er
valinn maður í hverju rúmi, starfs-
menn sem dáðu hann og virtu en
hafa nú misst mætan leiðtoga.
Guðbjörg og synirnir tveir hafa
misst mikið. Við Inga vottum þeim
og fjölskyldunni allri okkar dýpstu
samúð. Góður drengur er fallinn í
valinn, megi minning hans lifa.
Einar Ólafsson.
Sæll, gamli seigur. Blessaður
Pálsson. Svona byrjuðu flest símtöl
okkar Tóta. Á haustin voru þau
nokkuð þétt og stundum nokkur á
dag þegar við vorum að skipuleggja
veiðiferðir.
Ég var svo lánsamur að kynnast
Tóta fyrir um 15 árum eftir að hann
fluttist aftur heim til Íslands. Hann
var mágur vinar míns Skúla og við
fórum saman félagarnir þrír á skytt-
irí alloft. Strax kom í ljós hvílíkur öð-
lingur Tóti var og það voru mínar
allra bestu stundir þegar við fórum í
okkar árlegu rjúpnatúra norður í
Skarð eða lágum í sérbyggðu gæsa-
byrgi undir Eyjafjöllunum og biðum
í morgunskímunni eftir gæsum. Þó
að Tóti væri 14 árum eldri en ég náð-
um við afar vel saman og ég hlakkaði
til þess að fara með honum í skot-
veiðiferðir næstu 20 árin. Af því
verður ekki. Síðasta veiðiferð okkar
félaga var á föstudegi fyrir rúmum
hálfum mánuði. Þá fórum við saman
á tveimur fjórhjólum frá Snæbýli út
í kjarr skammt frá bænum. Við fest-
um okkur í snjó á víxl og drógum
hvor annan upp. Brosið geislaði af
okkur báðum og við vorum eins og
litlir drengir að leika okkur. Skutum
enga rjúpu en það skipti engu máli.
Félagsskapurinn var okkur báðum
svo mikils virði. Þessi dagur var okk-
ar síðasti saman í þessu jarðlífi.
Minningin er mér afar dýrmæt og
fyrir hugskotssjónum mínum er Tóti
brosandi að binda kaðalinn í fjórhjól-
ið sitt, og gera grín að gáskafullum
dreng sem festi sig í óðagoti í snjó-
skafli og gamli seigur þurfti að
draga hann upp. Söknuður minn er
afar mikill og sár. Ég hef misst minn
besta veiðifélaga og vin. Við vorum
búnir að plana margar veiðiferðir á
næstu árum, áttum eftir að gera svo
mikið saman. Mestur er þó missir
Ásdísar, Guðbjargar, strákanna og
Skúla vinar míns. Þeim votta ég
mína innilegustu samúð og megi
góður Guð styrkja þau og styðja í
sorginni. Blessuð sé minning Tóta
vinar míns.
Gísli Páll.
Mig langar að minnast í fáum orð-
um félaga sem fallinn er í valinn
langt um aldur fram. Ég mun búa
lengi að því að hafa kynnst Þórarni
Kjartanssyni, ekki eingöngu vegna
yfirburðaþekkingar hans á þeim við-
skiptum sem við stunduðum saman í
allt of stuttan tíma, heldur miklu
fremur vegna augljósra mannkosta
hans.
Hógværð og hreinskilni voru að-
alsmerki Þórarins. Þeir sem þekktu
hann vita að hann kom ávallt hreint
og beint fram í samskiptum. Í við-
skiptaheimi nútímans mætti vera
meira um þetta viðhorf – viðhlæj-
endur eru þar nægir en býsna erfitt
oft að sjá hvað sannarlega býr að
baki. Það jók enn á trúverðugleika
Þórarins að hann hrapaði ekki að
ályktunum og var ávallt vel lesinn
þegar kom að því að hann þyrfti að
taka afstöðu til mála. Þannig veittist
honum auðvelt að rökstyðja mál sitt,
jafnvel þótt viðmælendur hans væru
líkt og gengur oft á öndverðum
meiði. Á sama hátt hafði hann næmt
auga fyrir því þegar umræður sner-
ust inn á svið sem ekki voru hans
sérgrein, og dró sig þá í hlé og eft-
irlét öðrum sviðsljósið. Það er því
ekki að undra að orðspor Þórarins
skuli hafa náð slíkum hæðum sem
raun ber vitni. Við sem eftir sitjum
óskum þess að kynnin hefðu mátt
vera lengri og betri.
Ég vil fyrir hönd starfsfélaga hjá
Icelandair Group votta fjölskyldu
Þórarins okkar dýpstu samúð. Guð-
björg, Kjartan og Skúli, góður Guð
styrki ykkur í sorginni.
Sigþór Einarsson,
formaður stjórnar Bláfugls.
Það var sannarlega slæm frétt að
Þórarinn Kjartansson væri allur.
Ótrúleg frétt sem erfitt var að
trúa og skilja. Hann sem var svo vel
á sig kominn, gætti að heilsu sinni og
stundaði heilbrigt líferni.
Þórarni kynntist ég fyrst þegar
við störfuðum saman hjá Cargolux í
Lúxemborg árið 1973.
Hann tókst á við ýmis störf sem
honum voru falin. Hann leysti þau
öll vel af hendi og óx með hverju
verkefni sem honum var fengið. Í
mörg ár var hann framkvæmdastjóri
Cargolux í Norður- og Suður-Am-
eríku.
Þórarinn átti auðvelt með að
ávinna sér traust þeirra sem hann
umgekkst. Hann var orðheldinn,
fljótur að átta sig á kringumstæðum
og leysti hvers kyns vandamál fljótt
og farsællega. Hann kom einkar vel
fyrir og kom málefnum og áhuga-
málum sínum faglega á framfæri.
Árangur starfsára hans vakti víða
athygli vegna þess að hann sá oft
nýjar, snjallar hliðar á gömlum hefð-
um sem skiluðu betri og farsælli ár-
angri en áður hafði þekkst.
Sorg og söknuður fyllir hug og
hjarta mitt við ótímabært andlát
Þórarins. Minning um góðan félaga
og vin á eftir að lifa. Eftir standa
góðar minningar og ljóslifandi er
hann í huga mér brosandi, tilbúinn
að hlusta, meta og gefa holl ráð.
Hann hafði allt til að bera sem góð-
um dreng sæmir.
Hann unni útivist og veiðum. Ís-
land var honum kært en kærust var
honum fjölskyldan, þau Guðbjörg,
Kjartan og Skúli. Hugheilar samúð-
arkveðjur sendi ég fjölskyldu hans
allri. Blessuð sé minning
Þórarins Kjartanssonar.
Ásgeir M. Jónsson.
Það var samstilltur hópur veiði-
félaga sem kom saman í veiðihúsinu
í Nesi í Aðaldal í ágúst síðastliðnum.
Nú skyldi fagna því að 30 ár voru lið-
in frá því að veiðihollið kom þar
fyrst. Fyrir utan öflugri veiðigræjur
og stærri bíla hafði lítið breyst frá
því þá. Sama spennan lá í loftinu og
allir höfðu meira eða minna sömu
væntingar um góða veiði. Það sem
hafði breyst var að tilhlökkunin yfir
að hitta félagana og vera með þeim í
þrjá daga við ána var orðin mikil-
vægari en sjálf veiðin.
Þessi þrjátíu ár hafa ekki ein-
göngu gert veiðisögurnar mergjaðri
heldur einnig félagsskapinn sam-
heldnari þar sem skapast hefur náin
og góð vinátta milli veiðifélega og
maka þeirra. Samverustundunum
fjölgaði eftir því sem árin liðu og
hópurinn hittist á reglulegum nefnd-
arfundum og árshátíðum félagsins
þar sem vináttuböndin voru enn bet-
ur hnýtt. Sviplegt fráfall Þórarins
kom því sem reiðarslag.
Í huga okkar er bjart yfir minn-
ingunni um Tóta. Hann var þessi
trausti og trygglyndi félagi, sem allt-
af var áhugavert að ræða við, jafnt
um einföld sem flókin mál. Allt sem
hann hugsaði og gerði var yfirvegað
og skynsamlegt. Hann gat verið rök-
fastur og ákveðinn en kom skoðun-
um sínum þannig á framfæri að okk-
ur félögunum leið vel í nærveru
hans. Hann var farsæll í einkalífi
sem og í starfi auk þess sem hann
hafði alla þá kosti er prýtt geta sann-
an og góðan stangveiðimann sem jók
honum virðingu hópsins.
Langt fyrir aldur fram er Þórar-
inn kallaður burt úr þessum heimi
og komið að kveðjustund. Það er erf-
itt að sjá á bak góðum félaga í blóma
lífsins og sárt að geta ekki linað
þjáningu þeirra sem þyngsta sorg-
ina bera. Við minnumst Þórarins
með virðingu og þakklæti og biðjum
Guð að blessa og styrkja fjölskyldu
hans.
Veiðifélagar í Nesi í Aðaldal.
Ég var svo heppinn að kynnast
Þórarni Kjartanssyni fyrir um það
bil 11 árum þegar hann réð mig til
starfa. Þá grunaði mig ekki hversu
mikill áhrifavaldur hann ætti eftir að
verða í mínu lífi. Síðan hef ég starfað
með Þórarni að ýmsum verkefnum
og reynt að tileinka mér hæfileika
hans með misjöfnum árangri. Það
væri of langt mál að telja upp alla
hans kosti en ég mun alltaf minnast
hans fyrir greind hans, áræði, dugn-
að og það hversu úrræðagóður hann
var þegar eitthvað bjátaði á. Hann
var á margan hátt lærifaðir minn og
hafði mikil áhrif á þroska minn sem
manneskju og mótaði mig í starfi.
Hann hafði gaman af tilvitnunum og
ein af mínum uppáhaldstilvitnunum
sem frá honum komu var „Þú færð
aðeins eitt tækifæri til fyrstu
kynna“. Þetta hafði hann að leiðar-
ljósi enda lagði hann mikið upp úr
snyrtimennsku og framkomu og
heillaði jafnan fólk, sem átti við hann
erindi, með persónutöfrum sínum.
Ég er þakklátur fyrir að hafa
þekkt Þórarin, fyrir þau tækifæri
sem hann veitti mér, fyrir trúna sem
hann hafði á mér jafnvel þegar ég
hafði hana ekki sjálfur og fyrir að
hafa stutt mig og leiðbeint mér á
þessum lærdómsríka tíma sem við
unnum saman. Jafnvel þótt leiðir
hafi nú skilið og leiðsagnar Þórarins
njóti ekki lengur við mun ég búa að
kynnum okkar um ókomna tíð.
Við ótímabært fráfall hans misstu
margir mjög mikið og vil ég votta
Guðbjörgu konu hans og Kjartani og
Skúla sonum hans sem og öðrum
ættingjum og vinum mína dýpstu
samúð.
Bjarki Sigfússon,
flugrekstrarstjóri Bláfugls hf.
Þórarinn Kjartansson kom í glað-
an drengjabekk í Menntaskólanum í
Reykjavík haustið 1969. Ég kom
sjálfur úr litlum heimavistarskóla úti
á landi, og þekkti ekki nokkurn
mann í bekknum. Mér féll einstak-
lega vel við Tóta. Hann var traustur
og glaðlyndur, fljótur að hlæja, en þó
dulari og seinteknari en margir. Það
leið þó ekki langt fram á vetur áður
en við tveir ásamt Stefáni Þórarins-
syni urðum mestu mátar. Þeir báðir
voru miklir áhugamenn um íþróttir,
báðir fílsterkir og urðu fljótt harðar
handboltaskyttur í skólamótum.
Jóhannes heitinn íþróttakennari í
MR var fljótur að sjá að í Tóta
leyndist efni í alvörumann, og kippti
honum í fjórða bekk inn í meistara-
flokk Ármanns, sem hann þjálfaði á
þeim árum. Þar gerði hann garðinn
frægan um sinn. Jóhannes sagði mér
seinna að hann harmaði það að hafa
ekki náð í Tóta fyrr til að gera hann
að enn meiri afreksmanni.
Þegar leið á MR héldum við báðir
í eðlisfræðideild skólans og í hópinn
bættust nokkrar ungar konur. Þar á
meðal var glæsileg ballerína. Það
var Árný Erla sem síðan hefur þolað
súrt og sætt með mér. Ein besta vin-
kona hennar var Guðbjörg A. Skúla-
dóttir, sem ólst upp með henni í
sama stigagangi í kennarablokkinni
við Hjarðarhaga. Hún var líka ball-
erína, og átti eftir að gera garðinn
frægan erlendis áður en hún hóf að
reka ballettskóla heima á Íslandi.
Skemmtanalífið í MR var með fjör-
ugasta móti á þessum árum, og í
fimmta bekk gerðist það að þær ball-
erínur báðar mættu saman á skóla-
ball í MR.
Ég man eins og það hafi gerst í
gær þegar við Tóti fórum saman
daginn eftir ballið í Sundhöllina með
Stefáni vini okkar, og það var und-
arlegt glit í augum hans. Hann bar
ekki tilfinningar sínar á torg, en við
Stefán vorum samt snöggir að
kreista út úr honum í sturtunni að
Þórarinn Kjartansson væri orðinn
áhugamaður um ballett! Ég var þá
sjálfur orðinn nokkuð hneigður að
Árnýju minni og fylltist ugg við
þessi tíðindi. Það kom þó fljótt í ljós
að áhugi hans hafði beinst í réttan
farveg – séð af mínum sjónarhóli –
og ári síðar vorum við báðir komnir í
ballerínufélagið og vorum þar alla
tíð upp frá því.
Þórarinn var einbeittur fram-
kvæmdamaður, og strax upp úr
menntaskóla var hann kominn á för
og flaug um allan heim á vegum
Cargolux. Ég fór sjálfur út í heim,
og við hittumst miklu sjaldnar. Flug-
ið átti hug hans allan, og að því dró,
að honum bauðst staða forstjóra fé-
lagsins. En Íslendingurinn í honum
dró hann norður á bóginn, og hann
vildi að efnispiltarnir synir hans
yrðu Íslendingar. Svo hann réðst í
það stórvirki að stofna Bláfugl, sem
á skömmum tíma varð umsvifamikið
félag í fragtflugi. Hann átti enn eftir
að vinna stórvirki í fluginu þegar
engill dauðans sótti hann langt um
aldur fram. Allir, sem einhvern tíma
þekktu hann, sakna þessa stóra og
traustlega manns, sem leysti öll
vandamál af kappi og einstökum
krafti. Við Árný biðjum guð að
blessa minningu góðs drengs og
Guðbjörgu konu hans og synina
báða. Þeirra missir er sárastur.
Össur Skarphéðinsson.
Fleiri minningargreinar
um Þórarin Kjartansson bíða birt-
ingar og munu birtast í blaðinu á
næstu dögum.