Morgunblaðið - 28.11.2007, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 28.11.2007, Blaðsíða 16
16 MIÐVIKUDAGUR 28. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ MENNING BÆKUR Antonys Beevors um mögnuðustu bardaga seinni heims- styrjaldarinnar hafa notið mikilla vinsælda um allan heim síðustu ár. Fall Berlínar frá 2002 kom út í ís- lenskri þýðingu í fyrra og nú kemur þekktasta verk Beevors, Stalíngrad frá 1998, einnig út á íslensku ásamt smærra verki, nokkurskonar fjöl- skyldusögu, þar sem rússnesk- þýska leikkonan Olga Tsékova (gift frænda leikskáldsins Antons Tsé- kovs og bróðurdóttir eiginkonu hans) er í aðalhlutverki. Báðar bækurnar eru læsilegar og renna ofan í lesandann eins og spennusögur. Beevor nýtti sér sov- éskar heimildir við ritun Stalíngrad sem fáir höfðu haft aðgang að áður og er því fær um að draga upp ná- kvæmari og um leið skelfilegri mynd en margir fyrri höfundar af hinni ör- lagaríku orrustu og umsátri á bökk- um Volgu, sem markar endalok sig- urgöngu Þjóðverja í stríðinu. Það sem gæðir bókina einkum lífi er frá- sagnir hans af aðstæðum og aðbún- aði hermanna og herforingja í her- búðum beggja, sem sumpart kemur til af meiri og betri heimildavinnu en hjá ýmsum fyrri höfundum um efnið, sumpart af frásagnargleði Beevors. Það er tvímælalaust kostur bók- arinnar af hve mikill natni Beevor fjallar um hernaðinn sjálfan, fram- rás Þjóðverja og bardagana sem urðu til þess að 6. herinn undir stjórn Paulusar hershöfðingja sat á endanum innilokaður í og vestan við Stalíngrad og gafst upp fyrir Rúss- um í lok janúar 1943. Hinsvegar verð ég að viðurkenna, og ég býst við að sama gildi um marga aðra les- endur bókarinnar, að útlistanir á framrás herja, staðsetningum ein- stakra bardaga og margvísleg her- fræði situr ekki lengi í kollinum. Eft- ir sem áður veit maður jafnvel og fyrr að herir Hitlers sóttu hratt fram í átt að Volgu sumarið 1942, náðu næstum Stalíngrad á vald sitt og hröktu rússneska herinn næstum yfir á eystri bakka árinnar, mættu harðri mótspyrnu, voru stöðvaðir og loks umkringdir við Stalíngrad og örlög Þjóðverja voru þar með ráðin. Bardagarnir við Stalíngrad eru meðal þeirra atburða sem sagnfræð- ingar, rithöfundar og kvikmynda- gerðarmenn halda áfram að vitja um fyrirsjáanlega framtíð. Stalíngrad vegur þungt í sögulegu minni bæði Rússa og Þjóðverja og líklega eru ófáir hillumetrar þeirra bóka sem skrifaðar hafa verið um Stalíngrad síðustu 65 árin. Bók Beevors er ekki byltingarkennd í greiningu eða túlk- un atburða. En hún sker sig úr fyrir vandvirkni og góða frásögn og er því nauðsynleg lesning þeim sem vilja gera sér sem skýrasta mynd af hryllingi heimstyrjaldarinnar síðari. Bókin um Olgu Tsékovu, sem var ein frægasta kvikmyndaleikkona Þjóðverja á fjórða áratugnum og fram yfir stríð, er allt önnur tegund af sagnfræði þó að samskipti við Þjóðverja og stríðið komi vissulega einnig við sögu. Olga Tsékova var hálfgerð goðsögn í lifanda lífi. Hún var fædd og al- in upp í Rússlandi, en fjölskylda hennar var þó þýsk. Föðursystir hennar og nafna giftist Anton Tsékov rétt fyr- ir aldamótin 1900 og sjálf var hún um skamma hríð gift bróðursyni Tsékovs, Mikhaíl. Hún fór til Berlínar í byrjun 3. áratugarins og bjó þar upp frá því, en sambandi hennar við Sovétstjórnina lauk þó ekki nema síður væri og eftir fall Berlínar naut hún fyrirgreiðslu Sovétmanna þar til hún ákvað að koma sér vestur yfir. Upp frá því bjó hún í Vestur- Þýskalandi. Fjölskyldusaga Olgu Tsékovu er vissulega heillandi og með af- brigðum leyndardómsfull og í öllum hræringum heimsstyrjaldanna, rússnesku byltingarinnar og harð- stjórnar Stalíns er hún ótrúleg saga fólks sem alltaf lendir á réttum kili sama hvernig staða mála breytist. Lev Knipper, bróðir Olgu, berst til dæmis með hvítliðum í borgarastríð- inu, en tekst fljótlega eftir að því lýkur að koma sér inn undir hjá bolsévikum og starfar síðar fyrir ör- yggislögregluna. Ættingjar hennar og venslafólk í Moskvu vissu auðvitað vel af henni og frægð hennar og einnig að hún væri talin náin sumum helstu leið- togum nasista, jafnvel Hitler sjálfum. Ætt- ingjarnir vissu hins- vegar ekki að Olga var á skrá öryggislögregl- unnar yfir njósnara í Þýskalandi og það kom þeim því mjög á óvart þegar hagur hennar virtist vænkast frekar en hitt í lok stríðsins. Það verður hinsvegar að segjast eins og er að Beevor kemst furðu- stutt með að leysa ráð- gátuna um Olgu Tsé- kovu. Þó að hann hafi haft aðgang að vissum gögnum sem sýna að Olga hafði tengsl við Lavrentí Bería og að ein- hver áform voru um að nota hana í aðgerðum sem aldrei var hrint í framkvæmd vantar enn of margt í frásögnina til að með góðu móti megi átta sig á hvert mikilvægi Olgu Tsé- kovu var eða hver tengsl hennar voru í raun í Moskvu og Berlín. Elín Guðmundsdóttir þýðir báðar bækurnar. Þýðing hennar er lipur á köflum, en þó er of algengt að sterkt þýðingarbragð sé af textanum. Einnig er hugtakanotkun stundum sérkennileg. Það vantar líka mikið upp á að nægilegrar vandvirkni sé gætt við umritun rússneskra orða, stundum virðist enskum umrit- unarreglum fylgt, stundum íslensk- um, en stundum er umritunin að því er virðist alveg heimatilbúin. Þetta þýðir ekki að þýðingin sé slæm, en forlagið hefur ekki vandað ritstjórn og yfirlestur nægilega, sem er synd. Rússar og Þjóðverjar Jón Ólafsson BÆKUR Sagnfræði Stalíngrad eftir Antony Beevor. 396 bls. Þýðandi Elín Guðmundsdóttir. Hólar, 2007. Njósnari í Þýskalandi nasista? Ráðgátan um Olgu Tsékovu eftir Antony Beevor. 255 bls. Þýðandi Elín Guðmunds- dóttir. Hólar, 2007. Antony Beevors SKÖMMU eftir að ég hóf lestur á nýjustu skáldsögu Bjarna Bjarna- sonar, Bernharður Núll, ákvað ég að færa mig um set, fara út og tylla mér á kaffihús og halda lestrinum þar áfram. Ástæðan er í sjálfu sér ekki flókin, bókin fjallar um mann, titilpersónuna, sem dvelur langdvölum á kaffihúsum og er mikill kunnáttumaður um þau. Þar situr hann með dagbók í hönd og fylgist með fólkinu í kring en fellur sjálfur svo fullkomlega inn í mynstur hversdagsins að hann verður næstum ósýnilegur. Þaðan sem hann situr gaumgæfir hann mannlífið óséður og skrifar, en fljótlega læðist að lesanda sá grunur að hann sé einmitt að lesa einhverskonar útgáfu af dagbók Bernharðs. En þótt helsta mark- mið sögumanns sé að halda sig í fjarlægð frá umheim- inum kemur í ljós að í brjósti Bernharðs býr veraldlegur draumur, að opna eigið kaffihús án þess þó að nokkur viti að hann sé eig- andinn. Þannig myndi hann ávallt eiga sér vísan samastað. Þessi draumur, sem síðar verður reyndar að veruleika, getur reyndar talist nokkuð lýsandi fyrir ýmsa þætti bókarinnar og þá vitund sem þar ræður ríkjum, hins að- kreppta og sundurslitna Bern- harðs sem skortir einmitt verustað og ráfar því um borgarlífið eins og vofa, eða þar til Cafe Demón er sett á laggirnar. Og þar kemur að eftirnafni söguhetjunnar. Orðsifja- legur stofn hugtaksins „núll“ er tómið, fjarvera efnis og merking- ar, en þarna felst einmitt vísir að drifkrafti bókarinnar sem er leyndardómurinn sem umlykur sögupersónuna. Bernharður virðist á stundum þrá tómið, ástand sem er laust við áreiti og líkist því dauða. Hér mætti reyndar benda á að „drif- kraftur“ er hugs- anlega ekki heppilegt orðaval, bókin er ekki knúin áfram á neinn beinan hátt, atburða- rásin er huglæg, henni vindur fram á táknrænu plani og í þessu er bæði kosti og galla hennar að finna. Átökin sem brátt taka að lita framrás verksins eiga sér stað á frumspekilegu og trúarlegu sviði, spurningarnar sem verkið spyr eru tilvistarlegs eðlis og reynt er að grennslast fyrir um veruleikann að baki ásýnd hlut- anna, og er þar jafnan gripið til þess sem Bernharður sjálfur kall- ar á einum stað „dulspekilegar langlokur“. Gegnumgangandi þema, til að mynda, er átökin milli andans og holdsins, en hér er þessi togstreita framsett á ansi fornfálegan hátt, kynferði er hættulegt og ógnandi og konan er hinn mikli freistari. Í raun er sjaldgæft að lesa bók sem á jafn óírónískan hátt og hér er reyndin gengur á hólm við stóru spurn- ingarnar í lífinu, og gerir sér far um að líkja eftir djúphyggni á nær hverri blaðsíðu. Persónur tala í sérkennilegum spakmælum, stór hluti seinni helmings bók- arinnar snýst um að endurleika lykilatburð úr biblíunni, en þess- um efnisþáttum er miðlað á held- ur fjarrænan og stundum handa- hófskenndan hátt, og yfir öllu vakir Bernharður, hinn tímavillti heimspekingur. Umtalsverðar endurtekningar einkenna verkið og togstreita milli þrár eftir hinu „upphafna“, sem er eitt helsta leiðarstefið, og hins jarðbundna er framsett á næsta ófrumlegan hátt. Þetta leiðir til þess að hið táknræna plan bókarinnar jaðrar við þann tómleika sem Bern- harður sjálfur ber með sér og hef- ur jafnvel yfir sér tilgerðarlegan blæ. Lesandi saknar einhvers konar glaðværðar, kímni, eða ír- óníu, einhvers sem brýtur upp mónótóníska atburðarásina og gæti jafnvel skapað örlitla fjar- lægð á hástemmdan tón bók- arinnar. Hér að ofan var að vísu minnst á að kosti væri að finna í táknþungum efnistökunum, og það er rétt. Stórlátar vangaveltur Bernharðs eiga það til að bregða kraftmiklu ljósi á hið hversdags- lega, skyndilega og oft óvænt leiftrar birta af textanum, myndir og hverfingar vekja hughrif og hrifningu hjá lesandanum og auð- velt er að tína til efnisgreinar hér og þar í bókinni sem bera færni höfundar fagurt vitni. En þessir þættir verksins eiga á hættu að týnast í þunglamalegri heild sem sviðsetur dýpt og alvöruþunga sem huglægt og að mörgu leyti gervilegt leikrit í stað þess að birta djúpsæja innsýn á áþreif- anlegan hátt. Aðkreppt kaffihúsavitund Björn Þór Vilhjálmsson Bjarni Bjarnason BÆKUR Skáldsaga Eftir Bjarna Bjarnason. Uppheimar. Akranes. 2007. 229 bls. Bernharður Núll ÞAÐ er sennilega ekki mikill tími af- lögu fyrir athafnakonu og fjögurra barna móður til að stunda skáld- skap. Ólína Þorvarðardóttir dregur upp mynd af þeirri glímu í bók sinni Vestanvindi í stuttri frásögn sem hún nefnir Tilraun til skáldskapar en þar segir hún farir sínar ósléttar í viðleitni sinni til að fá næði til skrifta. Bókin er sambland kvæða og slíkra skyndimynda úr hversdagslíf- inu. Þetta er greinilega barningur, sýsl í basli. Verk Ólínu eru nokkuð misjöfn að gæðum. En margt er vel gert. Best lætur henni að mínu mati að yrkja í hefðbundnum stíl. Hún er hagyrð- ingur hefur býsna gott vald á bundu máli. „Afhendingin er mér kærst af öllum brögum,“ sagði Sigurður Breiðfjörð. Þetta er vandmeðfarinn háttur, líkur braghendu, bara tví- kvæður. Ólína fer vel með hann og dregur upp laglegar náttúrumyndir sem hún nefnir Vor: Vorið klæðir vog og sund með vindum þýðum bliknuð vakna blóm í hlíðum. Ungar kvika, iðar líf í ársal blóma laust úr vetrar leiðum dróma. Glóey varpar gullnu trafi, glitra vogar allt í sólareldi logar. Myndvís er Ólína og henni lætur vel að leika sér með persónugerv- ingar. Á einum stað ræðir hún um að „svifaseint myrkur / seilist köldum fingrum / langt / langt inn í þögnina“ og kvæðið Kvöld er samsett úr fal- legum persónugervingum: Húmið tyllir fæti mjúkum létt á kyrran hafflöt rauðan, lygna augum dökkir hnjúkar. Prósatextar Ólínu og ljóð bera þess vott að hún hefur góð tök á mælskulist ýmiss konar en mælsku fylgja allajafna nokkrar hættur í kveðskap. Það er eins og ljóðmálið taki stundum völdin af höfundum svo að eftir stendur frasakennd myndsköpun. Þannig er t.a.m. með ljóð sem nefnist Út vil ek. Í þessu eina ljóði er að finna samsetningar á borð við „í hafdjúpum hugans“, „í logndjúpi drauma“ og „á grunnsævi vök- unnar“ og um þessi höf syndir sama vitundin og einhvers staðar í öll- um þessum sjó er mikil útþrá. Hér streyma orðin og hlið- stæðumyndirnar full- glatt. Og í kvæðinu Mæði sem fjallar raun- ar um skuggahliðar ástarinnar líkir Ólína ástinni við berfætta göngu um grýttan veg en bætir við: „Sökn- uðurinn / sárfætt hvíld / í skugga gleðinnar.“ Ég get alveg skilið að ástin geti verið berfætt ganga um grýttan veg og söknuðurinn þá sár- fætt hvíld. En að gleðin varpi skugga á sökn- uðinn finnst mér merk- ingarleysa. Alltént passar slíkt ekki inn í mitt tilfinningareg- istur. Mælikvarði skáld- skapar er aldrei ein- faldur og allra síst ann- markar hans einir. Ólína hefur marga góða kosti sem skáld. En henni lætur best sú ögun sem hefðbundnir bragarhættir veita henni. Þar er hún á heimavelli. Allt í sólareldi logar Skafti Þ. Halldórsson Bækur Ljóð Eftir Ólínu Þorvarðardóttur. Vestfirska forlagið. 2007 – 90 bls. Vestanvindur Ólína Þorvarðardóttir RITHÖFUNDARNIR Vigdís Gríms- dóttir, Pétur Blöndal, Kristín Sv. Tómasdóttir, Þráinn Bertelsson og Jón Kalman Stefánsson munu lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum á Austurlandi næstu daga. För þeirra hefst á Skriðuklaustri en þar munu þau lesa upp úr bókum sínum frá kl. 20 í kvöld. Frá Skriðu- klaustri liggur leið þeirra norður á Vopnafjörð þar sem þau munu lesa í Kaupvangi kl. 20.30 annað kvöld, en svo lesa þau á Eyrinni á Þórs- höfn á föstudagskvöldið. Síðasti viðkomustaður rithöfundanna áður en þeir snúa aftur á suðvest- urhornið er Seyðisfjörður, en þar munu þeir lesa upp úr bókum sínum í Skaftfelli kl. 20.30 á laugardags- kvöldið. Jón Kalman Stefánsson Vigdís Grímsdóttir Pétur Blöndal Þráinn Bertelsson Jólabækur á Austurlandi

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.