Morgunblaðið - 31.03.2008, Síða 8
8 MÁNUDAGUR 31. MARS 2008 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur
steinunn@mbl.is
L
iðin eru tuttugu og fimm
ár síðan Roger Pichon,
ungur höfuðsmaður í
björgunarsveitum
franska hersins, gekk
einn síns liðs á skíðum yfir Vatna-
jökul. Hann lagði af stað úr Sauða-
kofa á Vesturöræfum norðaustan jök-
ulsins 27. mars árið 1983 og fannst illa
á sig kominn á Skeiðarársandi 6. apríl
og var komið undir læknishendur.
Sumarið eftir hélt hann til Svalbarða
og hugðist ganga yfir jökulinn á
Spitsbergen en varð úti í þeirri ferð.
Upphaf sögunnar má rekja til þess
er Anton Antonsson, eigandi ferða-
skrifstofunnar Ferðamiðstöðvar
Austurlands, hafði samband við Völ-
und Jóhannesson á Egilsstöðum með
fyrirspurn um hvort ekki væri hægt
að koma frönskum ofurhuga inn að
Vatnajökli með einhverjum ráðum.
Sá myndi borga fyrir það sem upp
yrði sett.
„Þá átti ég nú vélsleða eins og allir
aðrir og sagði Antoni að þetta væri
tveggja vélsleða leiðangur,“ segir
Völundur. „Ég vísaði Antoni á Ingi-
mar Jóhannsson heitinn á Eyrarlandi
í Fljótsdal sem þá átti nýjan vélsleða,
hann gæti áreiðanlega komið mann-
inum inn að jökli. Ingimar fer svo
ásamt Ásgeiri Jónassyni, þá bónda á
Melum og höfuðsmanninum af stað í
góðu veðri frá Melum sunnudaginn
27. mars. Ingimar hafði Pichon á aft-
anísleða þar sem hann sat á heypoka
með dótið sitt. Þeir koma í Sauðakofa
á Vesturöræfum klukkan tíu um
morguninn og sjá svo undir iljarnar á
Pichon. Hann hafði engan sleða fyrir
föggur sínar heldur bar allt á bak-
inu.“
Ég vona að Guð verði með mér
Fyrstu nóttina gisti Pichon í sælu-
húsi í Grágæsadal. Hann virðist hafa
villst daginn eftir, stefnt beint á
Kverkfjöll, sjálfsagt farið inn fyrir
hrygg í Hvannalindum og beygt svo
aftur út í Hvannalindahús. Í þetta
varði hann heilum degi.
Mánudaginn 28. mars skrifar Pic-
hon í gestabók í skálanum í Hvanna-
lindum að nú ætli hann að fara einn
yfir Vatnajökul og skíðaferð hans hafi
byrjað við Snæfell. Daginn eftir er
hann enn í Hvannalindum vegna veð-
urs. „Ég held að ég hafi gert rétt í að
leggja ekki af stað í dag vegna veð-
ursins. Á morgun býst ég við að halda
áfram í næsta sæluhús og daginn eft-
ir í Kverkfjöll. Þaðan stefni ég í
Grímsvötn og svo verður framhaldið
að ráðast. Ég vona að Guð verði með
mér,“ skrifar Pichon í Hvannalindum
og biðst afsökunar á að hafa borðað
úr tveimur súpudósum í eigu skálans
og notað svolítið gas til að hita sér
vatn á hitaflöskur. Hann býðst til að
borga þetta, eigandi skálans megi
skrifa sér en eigi hann ekki aft-
urkvæmt úr ferð sinni megi hafa sam-
band við Catherine, eiginkonu hans í
Grenoble. Í öllu falli biður hann um að
hún og sonur hans séu látin vita ef
Vatnajökulsferðin verði honum að
aldurtila. Þá geti Catherine komið á
staðinn og hugsað til hans. Hann elski
konu sína og son afar heitt.
Fimmtudag 31. mars og föstudag
1. apríl er Pichon í Sigurðarskála í
Kverkfjöllum. „Ég kem hingað
aleinn, á skíðum frá Snæfelli. Á leið-
inni hingað braut ég skíðafesting-
arnar svo ég varð að sofa í snjónum
þrjá kílómetra frá skálanum,“ skrifar
hann í gestabók skálans. Þá hefur
hann verið búinn að ganga 30 km leið
frá Hvannalindum og gista eina nótt í
tjaldi. Aftur biðst hann afsökunar á
að taka nokkuð af matarbirgðum í
skálanum, þar sem tímaáætlun hans
hafi raskast. Hann segist skilja eftir
150 krónur fyrir matnum og einnig
100 krónur til að senda mest af tjald-
búnaði sínum til Frakklands, þar sem
þungi byrða sinna sé of mikill að bera.
Aftur biður hann um að fjölskylda
hans verði látin vita finnist hann lát-
inn á jöklinum og hrósar svo aðbún-
aðinum í Sigurðarskála.
Þennan sama dag komu nokkrir
sleðamenn í skálann í Grágæsadal og
lýstu aðkomunni þannig að þar hefði
verið búið að brjóta tvo glugga út og
kofinn uppfenntur. Greinilegt væri að
síðasta gest hefði fennt inni og þurft
að brjóta sér leið út um glugga. Gler-
brotunum hafði þó verið sópað upp og
Pichon þarna á ferð í upphafi göngu
sinnar að Vatnajökli.
Ferðin var skelfileg lífsreynsla
Úr Kverkfjöllum hélt Roger Pic-
hon 1. apríl 1983, með biluð skíði og
tjaldlaus, en nokkurn matarforða. Þá
var hann búinn að ganga um 60 km
leið frá Sauðakofa í Kverkfjöll. Þrjár
nætur hefur hann sofið tjaldlaus á
Vatnajökli. Segir ekki af ferðum hans
fyrr en hann finnst á veginum á
Skeiðarársandi miðvikudaginn 6. apr-
íl. Það er Árni heitinn Aðalsteinsson,
flutningabílstjóri á Egilsstöðum sem
keyrir þá fram á Pichon á miðjum
Skeiðarársandi og tekur hann upp í.
Í Morgunblaðinu 7. apríl 1983 má
lesa frétt undir yfirskriftinni: „Gerði
mér grein fyrir því að þetta gat orðið
mitt síðasta.“ Þar kemur fram að Pic-
hon hafi komið til Reykjavíkur kvöld-
ið áður. Hann lýsir ferð sinni yfir
Vatnajökul sem skelfilegri lífsreynslu
og að hann hafi skynjað frá upphafi
ferðarinnar að hann væri að leggja
sig í lífsháska.
„Það sem kom mér mest á óvart
var veðrið. Mig hafði ekki órað fyrir
því að veðurhæðin væri svona mikil
og fínkornóttur snjórinn smaug alls
staðar inn, bráðnaði og fraus jafnvel
stundum. Ég má víst teljast heppinn
að hafa ekki kalið meira á höndum og
fótum, en ég var með smyrsl sem
varði mig fyrir því versta“ sagði Pic-
hon þá í viðtali við blaðmann. Hann
segist hafa orðið að skilja tjaldið eftir
og það hafi ekki nýst honum nema
eina nótt. Þá hafi það verið orðið
óbærilega þungt af bleytu. Skíðabind-
ingarnar hafi gefið sig hvað eftir ann-
að svo hann hafi neyðst til að fara fót-
gangandi mestan hluta leiðarinnar og
því oft á tíðum ekki komist nema
hundrað metra á klukkustund.
Geysilegt afrek að komast yfir
„Það var geysilegt afrek hjá Pichon
að komast yfir Vatnajökul,“ segir
Völundur. „Ég þekki ekki til þess að
nokkur maður annar hafi gengið einn
síns liðs yfir Vatnajökul þó að maður
geti ekki fullyrt um það. Mér varð
hugsað til Pichons núna þegar 25 ár
eru liðin frá þessu afreki. Ég tók afrit
úr gestabókinni í Kverkfjöllum og
geymi sjálfur gestabækur úr
Hvannalindum og Grágæsadal og
maður sér ákveðið hugarfar hjá Pic-
hon í því sem hann skrifar þar. Okkur
þótti merkilegt þegar við lásum skrif
hans fyrst að hann var alltaf að gera
ráðstafanir ef hann fyndist ekki lífs.
Svo gengur hann yfir 60 km áður en
lagt er á sjálfan jökulinn. Hvergi
kemur fram hvort hann komst í
Grímsvötn en þangað ætlaði hann í
skála. En hann hafði það af yfir jökul-
inn, tjaldlaus og fótgangandi. Það er
út af fyrir sig stórmerkilegt.“ Völ-
undur er enn með tjald Pichons í fór-
um sínum, hafði verið beðinn fyrir
það ef ske kynni að höfuðsmaðurinn
kæmi aftur til landsins. Þegar hann
hafi ætlað að senda tjaldið til Frakk-
lands hafi Árni bílstjóri sagt að það
skyldi hann ekki gera, því Pichon ætl-
aði að koma aftur til Íslands og þá
með konu sinni. Völundur segist ein-
mitt hafa sínar upplýsingar um
Frakkann eftir Árna.
Pichon hélt næsta árið sambandi
við Fljótsdælinga, þ.á m. Árna og
Ingimar á Eyrarlandi, sem hann
sendi tvö póstkort sem vitað er um.
Annað er með hlýjum kveðjum og
heimboði til Frakklands. Myndin á
kortinu er af Pichon þar sem hann
sýnir félögum sínum í hernum ferða-
leið sína yfir Vatnajökul á korti.
Síðasta glæfraförin á Svalbarða
Niðurlag sögunnar um Pichon er á
þá leið að sumarið eftir Vatnajök-
ulsgönguna var hann kominn til Sval-
barða. Hann sendir Ingimari póst-
kort frá Longyearbyen um það leyti
sem hann er að leggja upp í nýja
hættuför í byrjun maí 1984: „Ég ætla
einn á skíðum yfir Spitsbergen …“
segir Pichon í kortinu. Það voru síð-
ustu orðin sem hann sendi til Íslands
því þetta varð hans hinsta för.
„Maðurinn varð úti á leiðinni,“ seg-
ir Völundur. „Árni sagði mér að
franski herinn hefði farið í leiðangur
með þyrlumóðurskip til Svalbarða og
gert sér heilmikið úr að leita að Pic-
hon. En hvort þeir fundu hann veit ég
ekki. Norðmennirnir höfðu víst lítið
viljað leita. Og svo kemur póstkortið
frá Svalbarða, rétt áður en hann
ferst. Þetta er hálfævintýralegt allt
saman.“
Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir
til sýslumannsembættisins á Sval-
barða hafa ekki fengist upplýsingar
um hvort lík Pichons fannst nokkurn
tímann, né hvort það voru heima-
menn á Svalbarða eða franski herinn
sem gerðu út leitarleiðangur.
„Látið konu mína og son í Gren-
oble vita verði ég úti á jöklinum“
Fyrir réttum tuttugu og fimm árum gekk franski höfuðsmaðurinn Roger Pichon einn yfir Vatna-
jökul Afrek þótti að hann skyldi komast lífs af úr þeirri svaðilför, með biluð skíði og tjaldlaus
Ferðasagan Hér sýnir Roger Pichon félögum sínum í franska hernum leið-
ina sem hann gekk frá Sauðakofa, yfir Vatnajökul og niður sanda.
Orðsending Roger Pichon skrifar til Íslands 7. maí 1984 að nú ætli hann að
ganga einn yfir Spitsbergen. Mjög skömmu síðar verður hann þar úti.
!
! "!
"#
#
$!
%
"
Mannraun Frétt í Morgunblaðinu 7. apríl 1983 um svaðilför Pichon.