Fréttablaðið - 15.04.2009, Blaðsíða 20

Fréttablaðið - 15.04.2009, Blaðsíða 20
20 15. apríl 2009 MIÐVIKUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík SÍMI: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir arndis@frettabladid.is, Kristján Hjálmarsson, kristjan@frettabladid.is Trausti Hafliðason trausti@frettabladid.is og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál) hdm@frettabladid.is MENNING: Páll Baldvin Baldvinsson fulltrúi ritstjóra pbb@frettabladid.is VIÐSKIPTARITSTJÓRI: Óli Kr. Ármannsson olikr@markadurinn.is HELGAREFNI: Anna Margrét Björnsson amb@frettabladid.is og Sigríður Björg Tómasdóttir sigridur@frettabladid.is ALLT OG SÉRBLÖÐ: Emilía Örlygsdóttir emilia@frettabladid.is og Roald Eyvindsson roald@frettabladid.is ÍÞRÓTTIR: Henry Birgir Gunnarsson henry@frettabladid.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Kolbrún Ingibergsdóttir kolbrun@frettabladid.is ÚTGÁFUFÉLAG: 365 miðlar ehf. RITSTJÓRAR: Jón Kaldal jk@frettabladid.is og Þorsteinn Pálsson thorsteinn@frettabladid.is AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir steinunn@frettabladid.is. Fréttablaðið kemur út í 90.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. Issn 1670-3871 Fyrir nokkru átti ég leið í póst-hús í Latínuhverfinu í París. Þar sem eitt afgreiðsluborðið var laust aldrei þessu vant, brá ég mér beint þangað með mín bréf. En þá bar svo við að afgreiðslu- konan fór að húðskamma mig fyrir að hafa farið til hennar í stað þess að nota sjálfsala til að kaupa frímerkjagildi á bréfin. Ég reyndi af veikum mætti að verja mig með því að segja að ég væri með bréf af ýmsu tagi, sem mismunandi burðargjald þyrfti undir, og ég hefði ekki nægilega mikið af nógu fjölskrúðugri smá- mynt. En á þetta vildi konan alls ekki hlusta, og varð því illskeytt- ari sem hún lengdi ræðu sína meir. Að lokum sagði hún: „En þú verður hvort sem er að fara að venja þig á að nota sjálfsal- ana, því bráðum verður hér ekki nema eitt afgreiðsluborð,“ og svo bætti hún við með manndráps- glampa í augum: „og það verður einungis fyrir fjármál.“ Mér féll- ust hendur. Það er ekki ýkja langt síðan afgreiðsluborðunum í þessu pósthúsi var fækkað um helming. Þegar ég var svo á leiðinni út úr pósthúsinu og gat aftur farið að hugsa skýrt, flaug mér í hug að ég hefði átt að gauka því að kon- unni að ég væri blaðamaður og ætlaði að skrifa grein um niður- rif opinberrar þjónustu í Frakk- landi. Ég nefndi þetta við kunn- ingja minn sem hló: „Þú hefðir endilega átt að segja þetta.“ En það var eins gott að ég gerði það ekki, þegar ég horfði framan í konuna sá ég þar ekki neitt af þessum vinalegu andlitum sem ég var vanur þarna í pósthúsinu heldur blasti þar við áður óþekkt harka; í einu orði sagt virtist konan of nútímavædd til þess að þorandi væri að hafa einhver gamanmál frammi við hana. Í frönskum blöðum hafa menn getað lesið um nokkurt skeið að kreppan sé endanlegt rothögg fyrir frjálshyggjuna. Það sama held ég að íslensk blöð hafi sagt og margir hafa orðið til að taka undir það, stjórnmálamenn og aðrir, jafnvel Sarkozy sjálfur, enda virðist það liggja í augum uppi eftir allt sem gerst hefur. En ég held því miður, að það sé samt fullmikil bjartsýni að halda að menn séu lausir við hana að fullu og öllu, mér er nær að halda að frjálshyggjumennirnir liggi bara einhvers staðar í leyni, reiðu- búnir að skríða út úr holunum og grípa aftur í stjórnvölinn um leið og vindáttin kann eitthvað að breytast, einkum ef það tekst í millitíðinni að láta almenning borga brúsann eftir þá. Um þetta má nú sjá margvísleg merki, og er póstþjónustan hér eitt dæmi um það. Þrátt fyrir öll orðin um nauðsynlega stefnubreyt- ingu er ótrautt haldið áfram að breyta henni í „fyrirtæki“ til að búa hana undir þá einkavæðingu sem fram undan er. Almenning- ur mótmælir hástöfum, því hann veit nú af reynslunni hvað hún muni hafa í för með sér: hækkað verð, verri þjónustu og alls kyns brask með fjármunina, en það kemur fyrir ekki. En önnur merki eru enn ískyggi- legri. Þegar kreppan fór af stað fyrir alvöru, lýsti Sarkozy forseti því yfir að baráttan gegn atvinnu- leysinu ætti nú að sitja í fyrirrúmi fyrir öllu öðru. Þá var það rifjað upp að nýlega var gerð áætlun um mikinn niðurskurð í skólakerfinu, ellefu þúsund kennarastöður voru lagðar niður í byrjun þessa skóla- árs, þrettán þúsund á að leggja niður næsta haust, og þannig áfram. Þar sem afleiðingarnar geta ekki orðið aðrar en þær, beint eða óbeint, að jafnmargir menn missa vinnuna, spurðu menn því hvort ekki væri ráðlegt að hefja baráttuna gegn atvinnuleysinu með því að falla frá þessari áætl- un, sem kennarar hafa mótmælt upp til hópa. En það vildi Sarkozy ekki heyra nefnt, „umbæturnar“, þ.e.a.s. niðurskurðurinn, verður að halda áfram. Vegna reiði almennings hafði Sarkozy hins vegar við orð að setja lög til að takmarka bónusa, aukasporslur og slíkt sem yfir- menn banka og stórfyrirtækja skammta sjálfum sér og Frakk- ar kenna við „forgylltar fallhlíf- ar“. Formaður samtaka atvinnu- rekenda fékk hann ofan af því í nafni „frelsisins“, í staðinn myndu þau semja einhverjar „siðaregl- ur“. En hafi það verið gert ber ekki mikið á að eftir þeim sé farið, samkvæmt nýlegum greinum í blaðinu „Le Monde“ er ekkert lát á forstjóragræðginni, enn sem fyrr svífa þessir herrar um háloft- in hangandi neðan í gullroðnum dúkum. Kannske er ein undirrótin að þessu öllu sú, að nú er komin fram kynslóð hagfræðinga sem hefur aldrei heyrt eða lært neitt annað en hugmyndafræði frjálshyggj- unnar. Um John Maynard Key- nes vita þeir ekki annað en að það sé ekki við hæfi að lesa hann. Ef þeim er bent á að gera það, bregð- ast þeir við eins og stjarneðlis- fræðingur sem sagt væri að rann- saka hvaða áhrif Satúrnus muni hafa nú þegar hann er í ljóns- merkinu. Í pósthúsinu EINAR MÁR JÓNSSON Í DAG | Meðulin gegn kreppunni Hagfræði andskotans UMRÆÐAN Gunnar Tómasson skrifar um verðtryggingu Verðbólga rýrir raunvirði peninga og því finnst mörgum verðtrygging pen- ingaskulda vera réttlætismál. „Ef maður lánar öðrum manni tíu hesta þá vill hann fá tíu hesta til baka, en ekki sjö,“ er haft eftir Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi á vefnum. Hann er sagður vera „harður á því að ef maður fær lánaðan kaffipakka þá eigi maður að skila kaffipakka til baka. Það sé ekki hægt að koma með pakkann og segja að kíló af kaffi í gær jafngildi pundi af kaffi í dag. Þetta er laukrétt,“ bætir sá við sem segir frá. Þetta er rugl – einum hesti verður ekki umbreytt í stóð né kaffipakka í skipsfarm af kaffi með einfaldri tölvufærslu líkt og dugar til að margfalda nafnvirði peninga í hagkerfinu. Skips- farmur af framleiðsluvörum getur týnst í hafi en pappírsauður getur horfið eins og dögg fyrir sólu sbr. hlutafé í íslenzku bönkunum í byrjun októb- er 2008. Vitræn umræða um verðtryggingu krefst þess að raunverðmætum sé ekki jafnað til ávísana á verðmæti – að hestum og kaffi sé ekki jafnað til peninga/ávísana á hesta og kaffi. Í markaðshagkerfum eru peningar skuldaviðurkenning sem atvinnurek- endur láta í hendur þeim sem leggja fram vinnuafl og önnur aðföng til fram- leiðslustarfsemi. Stöðugt verðlag trygg- ir hinum síðarnefndu jafngildi slíkra aðfanga í mynd framleiddrar vöru og þjónustu. Við íslenzkar aðstæður, þar sem nýsköpun peninga utan framleiðslu- geirans hefur leitt til umframeftirspurnar á framleiðslumarkaði um árabil, rýrir verðbólgan eignarhluta þeirra sem lagt hafa fram aðföng til framleiðslunnar. Það er því hagfræði andskotans, sem svo kall- ast, að segja það vera réttlætanlegt að láta þá sem sætt hafa upptöku eigna á þennan hátt greiða verðtryggingu á útistandandi skuldum – og bera þannig tvöfaldan skaða meðan lánardrottnar þeirra bíða einungis einfaldan skaða. Höfundur er hagfræðingur. GUNNAR TÓMASSON Mogginn veltir við steinum Ætli það hafi ekki verið prestsson- urinn Ólafur Stephensen sem hélt um penna í leiðara Morgunblaðsins á laugardag? Að minnsta kosti var höfundur forystugreinar sem bar yfir- skriftina „Steinarnir hrópa“ vel að sér í Biblíufræðum. Þar var höfundinum tíðrætt um réttlætið og sann- leikann; hversu mikilvægt væri að sannleikurinn kæmi fram í dagsljósið og vitnaði í bók bókanna sér til full- tingis. „Veltum við hverjum steini – annars munu steinarnir hrópa,“ bætti hann við undir lok hugvekju sinnar. Og steinarnir hrópuðu Og sjá! Síðar sama dag barst fjölmiðl- um tilkynning frá þeim Þorsteini Jóns- syni, fyrrverandi varaformanni stjórnar FL Group, og Steinþóri Gunnarssyni, fyrrverandi forstöðumanni verðbréfa- miðlunar Landsbankans, þar sem upplýst var að þeir hefðu aflað hárra styrkja til Sjálfstæðisflokksins eftir að Guðlaugur Þór Þórð- arson alþingismaður hefði leitað til þeirra. Steinarnir hrópuðu eftir allt saman. Merkileg tilviljun Það er óneitanlega merkileg tilviljun hvernig líkingamál leiðarahöfundar Morgunblaðsins kallast á við nöfn þeirra Þorsteins og Steinþórs. Það mætti jafnvel halda að sá sem skrifaði leiðarann hafi vitað allt um það hverjir stóðu á bak við styrkveitingarnar og vildi með þessu móti gefa til kynna að ef þeir gæfu sig ekki fram yrði hul- unni svipt af þeim. En það getur varla verið. Á faglegum fjölmiðli myndi sá sem byggi yfir slíkum upplýsingum einfaldlega skrifa frétt um málið, í stað þess að brúka þær undir rós í leiðaraskrifum um „uppreisn sannleikans“. bergsteinn@frettabladid.is G erð hefur verið nokkur athugun á tengslum þingmanna við fyrirtæki og birt hér í Fréttablaðinu. Í ljós kemur að innan við helmingur þingmanna hefur einhver fyr- irtækjatengsl með setu í stjórn eða varastjórn ellegar í hlutverki stjórnanda, prókúruhafa eða endurskoð- anda. Í andrúmi dagsins kæmi ekki með öllu á óvart að tölfræði af þessu tagi yrði skipað á bekk með hneykslisfréttum. Hún sýnir þó fyrst og fremst tvennt: Annað er mikilvægi þess að opinberar upplýsingar liggi fyrir um slík tengsl. Hitt er hversu fáir forystu- menn úr röðum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar hafa valist þar til setu á seinni árum. Of margir alþingismenn virðast líta á sig sem opinbera starfs- menn eða fulltrúa ríkiskerfisins gagnvart fólkinu. Fyrir vikið hefur skilningur á raunverulegri verðmætasköpun farið þverr- andi. Hlutabréfaeign kemur ekki í stað reynslu þeirra sem eldurinn brennur heitast á í atvinnumálum. Forystumenn í verkalýðshreyfingunni hafa ekki gefið sig að stjórnmálastörfum í sama mæli og áður var. Eigendur stærstu fyrirtækja landsins hættu að nenna að sitja í stjórnum samtaka atvinnufyrirtækja eða atvinnulífsins í heild. Enn síður virtust þeir taka beinan þátt í stjórnmálastarfi. Lifandi tengsl milli Alþingis og atvinnulífsins hafa einfaldlega verið ónóg. Úrræðaleysið sem nú blasir við fólkinu í landinu á vafalítið að einhverju leyti rætur að rekja til þessarar þróunar. Frumforsenda þess að atvinnulífið gangi er að það geti notast við samkeppnishæfa mynt í viðskiptum. Eftir hrun krónunnar getur hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan lýst hugmyndum um framtíðarskipan pen- ingamála sem vonir má binda við. Ríkisstjórnin talar um að fjölga megi láglaunastörfum í ferða- þjónustu og við ullarvöruframleiðslu. Hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan vísa á veg að efnahagsumhverfi þar sem þekk- ingariðnaður og þjónusta getur blómstrað í alþjóðlegri samkeppni og boðið sambærileg laun og best þekkist í grannlöndunum. Haftakrónan er í frjálsu falli. Afkoma heimilanna fer á hvolf á ný. Ríkisstjórnin segist koma af fjöllum. Hún á engin svör önnur en að stofna til stjórnlagaþings og fjölga þannig þingmönnum. Stjórn- arandstaðan kynnir engin ráð. Samt eru kosningar eftir tíu daga. Allt ber þetta vitni um lélegt jarðsamband. Ósanngjarnt væri að skella allri sök á þingmennina. Forystumenn í félagsskap atvinnu- fyrirtækja og launafólks hafa einnig vanrækt að gæða tengsl atvinnulífs og Alþingis lífi. Meðan þingmenn líta á sig sem hluta ríkiskerfisins er hætt við að skráin yfir atvinnulausa lengist. Seint verður dregið úr gildi velferðarkerfisins, menntastefnunnar og umhverfisverndarinnar. Þessi mikilvægu opinberu stoðkerfi lifa hins vegar ekki sjálfstæðu lífi án verðmætasköpunar í atvinnufyrirtækjum. Alþingismönnum má auðveldlega fækka niður í fjörutíu og níu. Ráðherrar þurfa ekki að vera fleiri en sjö. Hitt skiptir máli að fleiri þingmenn og ráðherrar hafi virk tengsl við atvinnufyrirtækin og verkalýðshreyfinguna. Þjóðin þarf að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um tengsl þingmanna við fyrirtæki og félög í samfélaginu. Á hinn bóginn er lífsnauðsyn að jarðsambandið sé gagnvirkt og líflegt. Alþingi og atvinnulífið: Jarðsambandið ÞORSTEINN PÁLSSON SKRIFAR ... í nýjum umbúðum Sama góða CONDIS bragðið ...

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.