Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.12.1993, Blaðsíða 22

Skinfaxi - 01.12.1993, Blaðsíða 22
Sjöfn Jóhannesdóttir sóknarprestur á Djúpavogi: JÓLAHUGVEKJA Hratt líður tímans stund. Enn er hún komin jólafastan. Þegar þú horfir til baka, finnst þér svo skammur tími liðinn frá síðustu jólum. Allir leggjast á eitt að undirbúa helga hátíð. Því hvílir einhver dul- magnaður dýrðarljómi yfir þessum undirbúningstíma jólanna. Þótt vetur gnauði og myrkrið sé í þann mund að yfirgnæfa náttúruljós, er líkt og ríki sumartíð í hug og hjarta. I myrkri ljómar lífsins sól. Ég var eitt sinn á ferði í fjarlægu landi þar sem margt var frábrugðið og ólíkt því sem ég hafði áður þekkt. Siðir og venjur, menning þjóðarinnar og trúarbrögð, allt var þetta með öðrum brag en okkar vestræni, kristni menn- ingararfur. A meðan ég dvaldi þarna vildi svo til að innfæddir héldu sína stærstu trúarhátíð. Daginn fyrir hátíð- ina skreyttu þeir bambusstöng og létu hana standa úti fyrir húsunt sínum. Ég spurði um tilefni þessarar trúar- hátíðar. Og svarið var: „Guðirnir okkar stíga niður til jarðar meðan hátíðin stend- ur“. Þetta er ekki ólíkt tilefni okkar jóla, hugsaði ég og spurði hvort þeir gæfu vinum sínum og fjölskyldu gjafir. „Við færum guðunum okkar gjaf- ir“, var svarið. Á fyrsta degi hátíðarinnar sá ég svo skrúðgöngu þar sem karlar og konur báru gjafir sínar, sem fyrst og fremst voru matur og ýmsar skreytingar til hofsins. Allt var með miklum hátíðar- brag. Þarna voru guðunum færðar fórnir, gjafir, og allir voru glaðir og fullir eftirvæntingar. Þessi þjóð hélt sína stærstu trúarhátíð og ég fann til samkenndar og skyldleika við jólin okkar kristinna manna. Margt var auð- vitað frábrugðið, - en annað líkt, eins og það að skreyta tré, gefa gjafir og gleðjast af slíku tilefni. Þannig erum við mennirnir, við eigum svo margt sameiginlegt. Við erum með mismunandi trúarbrögð, tölum hin ýmsu óskyldu tungumál, kynþættirnir og löndin eru mörg og menningin fjölbreytt. En það er einnig svo margt sem sameinar mannkynið, miklu fleira en það sem sundrar. Við eigum svo líkar gleðistundir, hvaða maður til dæmis gleðst ekki við vöggu lítils barns, sem horfir saklausum, björtum augum sínuin til þessarar ver- aldar. Hvort sem við erum hvít eða svört, búum á Indlandi eða íslandi, þá gleðjumst við. Öll eigum við okkar hátíðir sem auka lífið og hafa mikla merkingu. Við fögnum og gleðjumst á líkum stundum, við grátum og hryggj- umst af sömu reynslu, hvar sem er í heiminum. Við þráum það sama, - vonir, óskir og draumar mannkyns eru þeir sömu hvar sem við búum og við finnum til á líkan hátt. Þrátt fyrir þetta vill samt sundrungin vera fyrirferðarmeiri í daglegu lífi. Daglega heyrum við fréttir af stríði og hörmungum sem nærast á hatri og óeiningu mannsins. Jafnvel í okkar eigin þjóðfélagi er sundurþykkjan og deilurnar áberandi. Engu breytir þótt við séum flest af sama kynþætti, með sama menningarbakgrunn og eigum svo margt annað sameiginlegt. Stundum sáir hatrið og sundur- drægnin sér innan heimilisins og milli hjóna. Ekkert þráir maðurinn þó meira en frið í hjarta og að lifa í sátt við sjálfan sig og samferðamenn. Á aðventu og jólum verður eining mannlífsins svo opinber. Kærleikanum vex styrkur, umburðarlyndið eykst og mannúð gagnkvæms trausts ríkir frem- ur í daglegri umsýslan. Þú finnur vel innra með þér að eitthvað stórt og mik- ilfenglegt er í vændum. Samt er það ekki svo að aðventan leysi öll vanda- mál sem þjaka einstakling, fjölskyldu eða þjóðfélag. - En í ljósi aðventunnar, í endurvarpi jólaljóssins, kann að vera að við fáum séð viðfangsefni líðandi stundar út frá nýju sjónarhorni. Máttur kærleikans vex í öllu mannlífinu. Jesús Kristur fæddist í þennan heim, hann sagði sjálfur að hann væri sendur til að flytja fátækum gleðilegan boð- skap, boða bandingjum lausn og blind- um sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins. I krafti kærleika og vonar undirbúum við helga hátíð á jólaföstu. Þótt erill og hraði einkenni daga föstunnar umfram aðra tíma árs- ins, er einnig líklegt að fjölskyldan tali og starfi meira saman vikurnar fyrir jól en í annan tíma. Jólin eru fjölskyldu- hátíð og allir hafa verk að vinna svo hátíðin megi vera sem gleðiríkust. Gleði jólanna er samofin undirbúningi þeirra. Ekki í því hversu miklum fjár- munum er varið til gjafa og annarra hluta, heldur í því hugarfari sem fjöl- skyldan hefur ræktað nteð sér á jóla- föstunni til undirbúnings hátíðinni. Einn þáttur í þeim undirbúningi er að minnast þeirra sem Jojást. Að létta bróður böl og bæta raunir hans, að seðja, gleðja, græða mein sé gleði kristins manns. Jólin eru fagnaðarhátíð af því að við leggjum okkur fram um að gleðja hvert annað í nafni þeirrar stærstu gjafar er við höfum þegið - komu Jesú Krists í heiminn. Það er boðskapur jólanna sem allt helgar og gefur öllunt undirbúningi tilgang. Þú horfir rneð von til jóla. Guð gefi þér styrk til þess að taka á móti jólum í gleði og friði. Gleðileg jól. 22 Skinfaxi

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.