Sjómannablaðið Víkingur - 01.10.1941, Blaðsíða 20
Um hvað er talað?
Aska, duft og- agna grúi,
efni í bygginguna er nóg.
Innan í er feyskja og fúi,
falsað allt, sem kölkuð þró.
Stöpulgrunninn byggir blekking,
blindað ráð og dauðfædd þekking.
Varðan hleðst með stöllum, stigum,
stækkuð, hækkuð upp — með lygum.
H. Ibsen.
Samkomulagið á þjóðstjórnarheimilinu
virðist fara dag versnandi og upplausn vera í
aðsigi. Orsökina má rekja til hinnar ranglátu
kjördæmaskipunar, og þess að enginn vill
verða fyrri til að færa fórnir, svo að samvinn-
an geti haldist. Þegar forráðamennirnir reyn-
ast vel og hugsa eingöngu um almennings hag,
er alveg sama hve lítill minnihluti hefir komið
þeim á framfæri. Þeir halda þá hylli fólksins.
En noti þeir aðstöðuna til að efla sig og sinn
litla hóp og búa um sig í borgum með bitlinga
setuliði, kann það ekki góðri lukku að stýra,
og hernaðarástand hlýtur að ríkja í stjórn-
málunum.
Ennþá er mest rætt um dýrtíðina, og van-
mátt ráðandi manna að halda henni í skefj-
um. Landbúnaðarafurðirnar ganga ennþá hvað
verð snertir langt á undan öðrum vörum. Slát-
urstíð er nú að verða lokið. Hið háa verðlag á
sláturafurðum nær út fyrir allan þjófabálk.
Mörinn er nú seldur 300% hærra verði en
haustið 1939 og verðið á hinu öðru blóðvalla-
dóti fer eftir því. f einu sláturhúsinu lagði
hrútur sig á 250 krónur. Bændafulltrúarnir
hafa nú það kosningavald, er virðist leyfa
þeim allt.
Stjórnarflokkarnir þrír yfirganga hvern
annan í blekkingum um þessi efni. Framsókn-
arleiðtogarnir vilja að kaupfélögin nái í sem
mest af peningaveltunni í landinu, því þaðan
fá þeir stuðning sinn, Sjálfstæðismenn vilja
ekki enn sleppa voninni um að þeim takist að
vinna meiri hluta bænda til fylgis við sig, og
jafnaðarmenn sjá ekkert annað en beinvöl-
urnar í höndum Framsóknarmanna. Það er
víst jafnt á komið með forsprakka allra þess-
ara flokka, að þeir létu heldur kjöldraga sig,
en kveða upp úr í einlægni hvað þeim finnist
sanngjarnt verð fyrir vörur bænda. Þó eru
hvorutveggja hinna síðastnefndu fulltrúar
neytendanna. Eða vilja þeir svara þeirri spurn-
ingu, hvers vegna verkamenn eiga nú að fá
minna af landbúnaðarvöru fyrir sömu vinnu
en þeir fengu fyrir stríðið? Verði ekkert að-
VÍKINGUR
hafst, er almenningi nauðugur einn kostur að
krefjast endurskoðunar á dýrtíðaruppbótinni,
að hún verði miðuð við verðlag landbúnaðar-
afurðanna.
Svo rífast flokksblöðin um það endalaust,
hvað það muni kosta ríkissjóðinn að lækka
dýrtíðina um 1 eða 2 %. Eins og það þurfi, eða
eigi, að kosta ríkissjóðinn nokkuð, þótt ein-
hverjum verði meinað að auðga sig á annara
kostnað með óheyrilegu verði á nauðsynleg-
ustu matvörum.
Eða vilja bændur nú frábiðja sig styrkjuh-
um úr ríkissjóði, af því að afkoma þeirra er
góð í augnablikinu? Halda þeir að malarbú-
arnir séu alveg dómgreindarlausir? Því ekki
að leggja niður öll höft og einokun á landbún-
aðarafurðum, og láta neytendur sjálfráða um
að fá vöru sína milliliðalaust? Hver harmar,
aðrir en þeir sjálfir, ef nefndarmennirnir
verða aftur að hverfa til nytsamra starfa?
Hvað hefir ráðabrugg Framsóknarmanna
fært bændum, meira en fjárpestina?
Það vita allir að margur bóndinn hefir átt
við basl að búa og hagur flestra þeirra verið
tæpur, en sama hefir mátt segja um allan þorr-
ann við sjávarsíðuna, vinnuveitendur jafnt
sem vinnuþiggjendur. Bændur hafa þó meiri
staðfestu og ættu því að geta haft minni á-
hyggjur af framtíðinni en aðrir landsmenn.
Vegna stjórnmálalegrar aðstöðu sinnar hafa
bændur alveg sloppið við opinbera gagnrýni á
undanförnum árum, en margt er í fari þeirra
aðfinnslu vert. Yfirleitt hafa menn búist við
öðru af þeim, en að þeir létu nota sig sem
pólitískt verkfæri.
Sjómaður í Reykjavík kom í sumar 13 ára
syni sínum á framsóknarheimili í sveit. Vildi
hann að drengurinn ynni fyrir fæði sínu, því
það hafði þessi maður sjálfur fengið að gera
þegar hann var 10 ára, en það var áður en Tím-
inn byrjaði að leiðbeina bændunum. Þetta
þótti þessum bónda til nokkuð mikils mælst.
Það væri ekki mikið gagn að svona snáðum,
þeir væru ósköp erfiðir og þurftarfrekir, en
lét þó til leiðast. Um sumarið kom móðir
drengsins í heimsókn og þótti henni drengur-
inn heldur hafa látið á sjá. Hafði drengur-
inn haft mikið að snúast, sem hann þó ekki sá
eftir. Hafði hann meðal annars verið nokkr-
ar vikur í vegavinnu, þar sem bóndi tók fyrir
hann 10 krónur á dag, en drengurinn fengið
lítið annað að borða en graut, kaffi og kringl-
ur, og enga mjólk nema undanrennu endrum
20