Samvinnan


Samvinnan - 01.03.1944, Blaðsíða 20

Samvinnan - 01.03.1944, Blaðsíða 20
SAMVINNAN 3. HEFTI Zcorðabl (5rtcg falltnrt fajii LaJJc f-i7\ CjjtíLtA/VKsSkaý. ((AjcjZ/h-f 'íA' c> 23./. * 3 Þegar fundum okkar Nordahls Grieg bar saman í fyrsta skipti í Reykjavík, sumarið 1942, fannst mér þegar í stað sem hann bæri í svipmóti sínu og fasi allt hið djarfasta, knálegasta og glæsilegasta, sem ég hefði kynnst í fari norsku þjóðarinnar — og Noregs. Hann var maður hár vexti, fríður sýnum, fagur- eygður, frjálsmannlegur og þýður í viðmóti. Virðuleg rósemi hins fertuga, víðförla manns og vökul, viðkvæm æskulund, var sameinað í svipmót hans. Nú er hann falinn — horfinn í hinn mikla þoku- heim. Þannig hafa Norðmenn misst fleiri hinna glæsi- legustu sona sinna. Ólafur Tryggvason hvarf við Svoldur, Roald Amundsen í íshafinu, Nordahl Grieg þar, sem orrustað var hörðust. Hann hvarf í loftárás á Berlínarborg í byrjun desembermánaðar sl. Lát hans var gert kunnugt í byrjun febrúarmánaðar. Hann var einn þeirra manna, er norska þjóðin mátti sízt missa meðan hún berst fyrir lífi sínu og frelsi. Johan Nordahl Brun Grieg var fæddur í Björgvin 1. nóv. 1902. Að loknu stúdentsprófi sigldi hann sem háseti til Afríku og Ástralíu, hóf háskólanám í mál- fræði í Osló og lauk prófi 1925. Á þessum námsár- um tók hann sér þó næsta margt fyrir hendur. Hann fór m. a. fótgangandi frá Hamborg til Rómaborgar, sat uppi á Finnmörk og skrifaði fyrstu skáldsögu sína: Skipid siglir áfram, og segir þar frá kynnum sínum af norskum sjómönnum í langferðum, skapferli þeirra og aðbúnaði, dvaldist um hríð í Oxford, ferðaðist suður í Grikkland og ritaði þá fyrsta leikrit sitt: Ástir ungs manns. Eftir heimkomuna stundaði hann blaða- mennsku og hélt síðan til Kína sem fréttaritari árið 1927. Þar skrifaði hann leikritið Barrábas. Setur hann þar fram þá skoðun, byggða á reynslu, að ótaminn kraftur og harðsnúið vald orki sterkar á huga ungu kynslóðarinnar en góðmennska, mildi og réttlæti. Þess vegna er það Barrabas, — ekki Jesús —, sem æsku- lýðurinn girnist sér til handa. Eftir heimkomuna dvaldist hann enn um hríð norður á Finnmörk og gaf þá út ljóðasafnið Noregur í hjörtum vorum. Þá ritaði hann og leikritið Atlantshafið. — Hin upprennandi kynslóð vill lifa áhættusömu lífi. Það eru áhrif frá heimsstyrjöldinni. Lífið er eins konar íþróttakeppni. Dáð og dauði er nátengt. Þess vegna hætta menn líf- inu meðal annars til að fljúga yfir Atiantshafið. Árið 1933 hélt N. G. til Rússlands. Hann þóttist ekki mega án þess vera að kynnast byltingarþjóðinni til að skilja viðhorf líðandi stundar. En hann tileinkaði sér aldrei neinar kennisetningar um mannlífið og menn- ina. „Nordahl Grieg var ekki gefinn fyrir kennisetn- ingar, og hann varð í þeim skilningi aldrei kommún- ist“, segir Olav Ryttir, skólabróðir hans og aldavinur. Hin þjóðfélagslega ólga og undirstraumur í Rússlandi hafði áhrif á skáldskap hans og mótaði skoðun hans á manngildi og lífsgildi. Kemur þetta fram í leikritum hans Vor œre og vor makt, Nederlaget og í skáldsög- unni Ung má verden ennu vœre, sem fjallar um lífið í Rússlandi og að nokkru leyti um Spánarstyrjöldina. Svo skall styrjöldin yfir. Grieg fór í herinn norska og gegndi herþjónustu norður á Finnmörk. Hinn 9. apríl var hann staddur í Osló. Greip hann þegar til vopna og lenti í miklum svaðilförum, er hann skyldi bjarga gullforða Noregsbanka undan Þjóðverjum. Hélt hann síðan til Englands, er vörnin var á þrotum heima. Sumarið 1940 kvæntist hann leikkonunni Gerd Egede Nissen, sem orðin er íslendingum að góðu kunn. Nordahl Grieg lagði fram alla krafta sína til að kveða kjark og dug í landa sína heima og erlendis. Fyrir stríðið var hann í hópi fremstu rithöfunda Nor- egs, elskaði þjóð sína og agaði, var sjálfur elskaður og um deildur. Stríðið gerði hann að þjóðskáldi og and- legum leiðtoga Norðmanna. En hann lét sér ekki nægja að berjast í orði. Hann vildi vera þar, sem hríð- in var hörðust, deila kosti og kjörum með þeim, sem lögðu lífið að veði í baráttunni. Hann féll í þeirri bar- áttu, — e_n andi hans lifir og heldur velli. Okkur íslendingum rennur blóð til skyldunnar. Við söknum Nordahls Grieg sem mikils skálds og sóma Norðurlanda. Við samhryggjumst Norðmönnum yfir missi hins glæsilega sonar. 88

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.