Samvinnan


Samvinnan - 01.08.1960, Blaðsíða 18

Samvinnan - 01.08.1960, Blaðsíða 18
KAREN BLIXEN Sagan eilífa „Vertu sæl, Virginía,“ sagði liann. „Þetta heitir þú, Virginía. Ég ætla að skýra bátinn eftir þér. Ég mun gefa honum nöfn okkar beggja — „Páll og Virginía." Hann mun sigla, merktur nöfnum okkar beggja, eftir Stóra- straumi og Kögeflóa." „Viltu muna mig?“ spurði Virginía. „Já,“ svaraði sjómaðurinn. „Alltaf, alla þína ævi“? „Ég skal hugsa til þín svo lengi senr ég lifi,“ sagði hann. „Hvernig ætti ég líka að geta komizt hjá því, þegar ég sigli bátnum mínum? Ég mun hugsa til þín þegar ég set upp segl og létti akkerum. Og einnig þegar ég varpa akkerum. Ég mun hugsa til þín á morgnana, þegar fuglarnir hefja upp söng sinn. Ég mun minnast ilmsins af þér, og hvernig þú varst viðkomu. Ég mun aldrei hugsa um nokkra aðra stúlku. Því að þú ert yndislegasta stúlkan í veröldinni.“ Hún fylgdi honum til dyranna og vafði handleggjunum um háls hans. Þar var ennþá dimmt, enda fjarlægð- in þar mest frá glugganum. Skyndi- lega heyrði hún sjálfa sig gráta. „En ég á eina mínútu eftir,“ hugsaði hún, og þau vöfðu hvort annað örmum og kysstust. „Líttu á mig,“ bað hún hann. „Líttu á nrig, Páll.“ Hann horfðist alvarlegur í augu við hana. „Mundu andlit mitt,“ sagði hún. „Horfðu á andlit mitt, og festu það þér í minni. Mundu að ég er seytján ára. Mundu, að ég hef aldrei sofið hjá nokkrum, nema þér.“ „Ég skal muna alltsaman,“ sagði hann. „Ég mun aldrei gleyma andliti |)ínu.“ Hún vafði sig að honum og lyfti tár- votu andlitinu upp á móti honum. Hún fann, að hann gerði hikandi til- raun til að losa sig. „Nú verður þú að fara,“ sagði hún og ýtti honum frá sér. XV. KUÐUNGURINN. Þennan sama morgun gekk Elíshama eftir malarlagðri brautinni heim að húsi mr. Glays, til þess að skeyta, á hóglátan hátt, eftirmála og punkti aftan við söguna. Borðbúnaðurinn var ennþá á borð- inu í matsalnum, og jafnvel vín í glösunum. Kertin voru útbrunnin, nema eitt, sem ennþá stráði daufri glætu umhverfis stikuna. Mr. Glay var hér einnig ennþá. Hann sat á púðum í hægindastól sínum og hvíldi fæturna á skemli. Hann hafði setið uppi og beðið komu morguns- ins til þess að geta fullnægt sigurfýsn sinni endanlega við sólarupprás. En þessi fýsn hafði orðið honum of sterk. Elishama stóð lengi hreyfingarlaus eins og öldungurinn, og starði á hann. Hann hafði aldrei áður séð húsbónda sinn sofa, og hafði ályktað af nöldri hans og kvörtunum, að slíkt gæti ekki komið til greina. Já, hugsaði hann, þá hefur mr. Glay haft rétt fyr- ir sér, hann hefur uppgötvað eina meðalið, sem dugði gegn sjúkdómi þeim, er þjáði hann. Þegar saga verð- ur raunveruleg, öðlast sálin ró. Augu öldungsins voru lítið eitt opin —■ mött eins og fjörusteinar — en þunnar varirnar voru klemmdar sam- an og mynduðu bros. Andlitið var grátt yfirlitum, sömuleiðis hinar beinaberu hendur, er hvíldu á hnjám hans. Sloppurinn hékk utan á honum í svo djúpum fellingum, að hægt hefði verið að láta sér detta í hug, að enginn líkami væri innan í honum, líkami, er myndaði samband milli andlitsins og handanna. Þessi stolta og óþjála persóna, er vakið hafði ótta og öfund hjá þúsundum manna, líkt- ist á þessari stundu einna helzt sprelli- karli, þegar höndin, sem hélt í snúr- una, hefur skyndilega sleppt henni. Þjónn hans og trúnaðarmaður tók sér sæti og hlustaði eftir hinum venju- legu soghljóðum frá veilu brjósti öld- ungsins. En steinhljóð var í herberg- inu. Elishama endurtók með sjálf- um sér orð spámanns síns: „Og sorgir og andvarpanir munu flýja.“ T langan tíma sat skrifarinn hjá hús- bónda sínum og hugleiddi atburði næturinnar, svo og kjör mannanna yfirleitt. Hvað hafði komið fyrir hin- ar þrjár sögupersónur mr. Glays? Hefðu þær getað forðast það sem skeði? Tæplega, hugsaði hann eins og oft áður, þegar um er að ræða fólk, sem þráir eitthvað ákveðið svo heitt, að það getur ekki án þess verið. Fái það ekki vilja sínum framgengt, kem- ur það þeim í koll, en fái það óskir sínar uppfylltar, kemur það þeim rækilega í koll. Að nokkrum tíma liðnum ákvað hann að ýta við hin- um hreyfingarlausa, samanfallna lík- ama, svo að eigandi hans gæti séð fyrir endann á hinu erfiða fyrirtæki sínu. En hann sá sig um hönd og ákvað að bíða enn um stund, og verða fyrst vitni að sögulokunum sjálfur. Hann yfirgaf þögull hið þögula her- bergi. Hann gekk að dyrum svefnherbergis ins, og á meðan hann beið fyrir utan, heyrði hann raddir tveggja mann- vera, Hvað hafði skeð á milli þeirra tveggja í húmi næturinnar? Hefðu þau ekki getað komizt hjá því? Ein- hver grét inni í herberginu, röddin náði eyrum hlustandans slitin og kæfð af tárum: Elishama hafði enn upn fyrir sér úr Jesaja: „Vötn skulu spretta upp í sandauðn- inni, og lækir á eyðimörkinni." Litlu seinna opnuðust dyrnar, tvær verur föðmuðust og vöfðu sig hvor að annarri í dyragættinni. Svo losn- uðu þær í sundur, önnur hvarf til baka, hin kom fram fyrir og lokaði dyrunum á eftir sér. Sjómaðurinn stóð um hríð þögull, en gekk svo áfram. Elishama steig eitt skref áfram, hann var húsbónda sínum trúr til dauðans og vildi fá piltinn til að vottfesta sig- ur mr. Glays. Sjómaðurinn leit á hann með alvöru- svip og sagði: „Ég fer. Ég fer til skips míns. Þú getur sagt gamla mannin- um að ég sé farinn." Elishama sá nú, að hann hafði reikn- að skakkt kvöldið áður, því að nú virtist honum pilturinn ekki eins ungur og hann hafði álitið hann vera. En það gerði engan verulegan mun — að minnsta kosti yrði langt þang- að til að hann næði aldri mr. Glays, sem nú hvíldi í hægindastól sínum. Enn mundi hann um langt skeið lifa við hættur og umbreytingar, sem leik- soppur höfuðskepnanna og sinna eig- in fýsna. 18 SAMVINNAN

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.