Fálkinn


Fálkinn - 11.04.1962, Blaðsíða 23

Fálkinn - 11.04.1962, Blaðsíða 23
* í) öm MORGUNLEIKFIMI Síðan á piparsveinsárunum hef ég litla rækt lagt við líkamsæfingar og allt sprell, sem þeim fylgir. Vitanlega hef ég fengið talsverða æfingu við að iðka þau störf, sem hver vanalegur heimilis- faðir er skikkaður til, eins og teppabar- smíðar, garðyrkjustörf og tilfæringar á húsgögnum. En þar fyrir utan hef ég forðazt alla óþarfa líkamsáreynslu. Aftur á móti tilheyrði það piparsveina- standinu, að fara í gufuböð og stunda badminton. Þá var líka svo lítið við tímann að gera, og meðan var verið að leita sér að lífsförunaut, varð að kanna markaðinn mjög vel. Enginn vissi, hvar sú útvalda kynni að finnast. Þótt ég gæti varla búizt við að finna konu- efni mitt í gufubaðinu, voru nokkrir möguleikar á að hún yrði uppgötvuð í badminton, í svitabaði á eftir bolt- anum. En svo fór nú, að ég fann konuefnið ekki í líkamsræktarstofnunum, svo ég leit á það sem vísbendingu frá almætt- inu, að ég skyldi segja skilið við íþrótt- ir, sem sviti fylgdi, og snúa mér að öðr- um þarfari viðfangsefnum. Eftir nokkurra ára íþróttalausa tilveru upplukust samt augu mín fyrir því, að líklega gæti nú hófleg hreyfing hjálpað til með að jafna viðbótarlíkamsþunga betur um allan kroppinn, og þannig komið í veg fyrir, að hann safnaðist allur á þann stað, sem mest er áber- andi. Líka varð ég fyrir miklum áróðri frá íþróttasinnuðum kunningja, sem kennir hreyfingarleysi um alla kvilla, meira að segja garnaflækju. Ég tók því að íhuga með sjálfum mér, hvaða grein íþróttanna ég skyldi helga krafta mína. Eftir mikla íhugun valdi ég leikfimina, því hún fannst mér óláta- minnst og líklega rólegust af íþróttum. Greip ég því feginshendi morgunleik- fimi útvarpsins og ákvað að byrja rétt undir eins að taka tilsögn hins ágæta kennara á morgni hverjum. í sambandi við morgunleikfimi dettur mér ávallt í hug sagan af hinum fræga leikara, Bob Hope. Hann var að því spurður, hvort hann iðkaði ekki morg- unleikfimi. Hann svaraði því játandi, og þegar spurt var, hvaða æfingar hann gerði, sagðist hann byrja á því að fara fram á gólf og opna gluggana upp á gátt. Því næst sagðist hann stilla sér upp á miðju gólfinu ogdraga inn magannþrisv- ar sinnum. Spyrjandanum fannst þetta heldur lítilfjörleg leikfimisæfing. Ekki var þó Bob á sama máli, því hann sagð- ist þurfa að beygja sig niður eftir hvern magainndrátt og hysja upp um sig nátt- buxurnar! Nú-jæja, ég var að segja ykkur frá mínum eigin tilraunum til morgunleik- fimi. Morguninn eftir hina miklu ákvörð- un, spratt ég eins og stálfjöður upp úr rúminu um leið og hinir fögru hljóm- ar vekjaraklukkunnar bárust út um svefnherbergið. Skundaði ég strax fram í stofu og færði þar til húsgögnin, til þess þau ekki yrðu fyrir skaða, þá er ég gæfi útlimunum lausan tauminn. Svo mikill var áhuginn og þrótturinn, að ég byrjaði að gera ósjálfráðar þokkafullar hreyfingar strax undir sálminum á eftir morgunbæninni. Síðan byrjaði hin eiginlega æfing, þá er Valdemar var byrjaður að segja til með píanóundir- leiknum. Ég reyndi eftir beztu getu að fylgjast með, en það reyndist ekki svo auðvelt, því þetta voru flóknar og strembnar æf- ingar. Stellingarnar voru hinar margvís- legustu og sjaldnast veitti kennarinn leyfi til að standa á fótunum. Það varð að liggja á baki og maga og á báðum hliðum. Ég sá, að ég myndi hafa lent í framhaldsflokki. Ég var því ekki mjög ánægður með árangurinn af morgun- leikfiminni, og í tvo daga á eftir var ég með slæma strengi. Á þriðja degi sá ég í Alþýðublaðinu prýðisgóðar leiðbeiningar fyrir þá, sem áhuga vilja leggja á yoga. Sagði í blað- inu, að yogaæfingarnar gæfu alhliða þjálfun á öllum vöðvum líkamans. Þetta reyndi ég því strax næsta morgun, en svo illa vildi til, þá er ég ætlaði að vinda mér upp í hina frægu æfingu að slanda á haus, sem oft sést á mynd- um frá Indlandi, að ég hrapaði niður og felldi um koll einn af uppáhalds blómavösum frúarinnar. Ég hef sjaldan séð hana spretta svo rösklega úr rúmi sem þennan morgun, en ekki þarf að taka það fram, að þetta var endirinn á yogaiðkunum mínum. Ég er því enn æfingalaus og hef jafn- vel hugsað um að taka upp aðferðina hans Bob Hope, sem segir frá að fram- an. En þetta get ég víst ekki heldur, því að það er teygja í strengnum á nátt- buxunum mínum. Dagur Anns. FÁl.KINN 23

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.