Fálkinn - 06.01.1964, Blaðsíða 10
SMÁSAGA EFTIR
GÍSLA ÁSTÞÓRSSON
FYRRI HLUTI
Albert A. Bogesen klóraði sér á hökunni. Seisei jú, sagði
hann, ég hef vasast í pólitík, væni. Það var þegar við vorum
fyrir vestan, á kreppuárunum. Ég átti ekki annars úrkostar.
Annað mál er það að pólitík passar ekki við mitt eðli. Ég
er ekki nógu séður liggur mér við að segja, eða kænn. Annars
getur ólíklegasta fólk skarað fram úr í pólitík. Hún Jóhanna
mín til dæmis. Hún verður seint sökuð um að klofvaða vitið,
og þó hefur hún einhverja þá skörpustu pólitisku sjón sem ég
hef kynnst. En ég hafði ekkert upp úr minni pólitík nema
amstrið, og ég fer ekki aftur út í pólitík þó ég verði hundrað
ára, og þó ég verði hundrað og fimmtíu ára snerti ég hana
ekki framar ótilneyddur.
Ég var (hélt hann áfram) búsettur i Þrönguvík og nýkvænt-
ur henni Jóhönnu greyinu til góðs eða ills. Hún var dóttir
Manga lummu sem svo var kallaður, og Mangi vildi fyrir
aila muni koma henni út áður en hann hrykki upp af. Þau
gómuðu mig þannig að þau buðu mér til lummuveizlu með
súkkulaði. og Jóhanna má eiga það að hún er snillingur að
baka lummur. Síðan sýndi Mangj mér húsið og sagði:
„Sjáðu, ailt þetta muntu eignast eftir minn dag ef þú villt
losa mig við hana Jóhönnu greyið.“
„Hún kann að baka lummur. því er ekki að neita,“ sagði
ég varfærnislega.
„Hefurðu tekið eftir því,“ sagði Mangi, „að þetta er eina
húsið hér um slóðir með kvisti.“
„Ég hef líka tekið eftir kvistunum á henni Jóhönnu," sagði
ég og hló kuldahlátri.
En það varð úr að ég kvæntist henni samt, enda er kreppa
kreppa og hús hús.
Skömmu seinna kom tengdapabbi að máli við mig og
spurði hvað ég hyggðist leggja fyrir mig. Ég sagði honum
sem var að ég værj búinn að ganga á milli kaupmannsins og
kaupfélagsins, það er að segja Heródesar og Pilatusar, síðan
um áramót og fengi ekki vinnu frekar en aðrir.
„Af hverju býðurðu þig ekki fram í bæjarstjórnarkosning-
unum?“ segir tengdapabbi.
„Bjóða mig fram?“ hvái ég steinhissa.
„Ef þú kemst í bæjarstjórn.“ segir tengdapabbi, „þá ertu
vís með vinnu.“
10 FÁLKINN
Pólitík er þannig löguð atvinnugrein að þeir sem gefa sig
að henni verða að gera ýmsa hluti sem þeir gætu ekki verið
þekktir fyrir sem óbreyttir borgarar. Það var fimm manna
bæjarstjórn í Þrönguvík, og samkvæmt útreikningum okkar
tengdapabba þurfti ég að fá fjörutíu og tvö atkvæði til þess
að komast að. Við tengdapabbi vorum tvö atkvæði og Jóhanna
greyið það þriðja þó gölluð væri og kerlingin hún amma
hennar var fjórða atkvæðið og systkini kerlingarinnar voru
átján atkvæði í kippu, svo að þarna höfðum við tuttugu og
tvo örugga kjósendur á hendinni. Svo átti tengdapabbi víxil
á Sigga seglasaumara og skrúfu á Þórhall í Smárakoti, því
hann vissi hvar Þórhallur geymdi bruggtækin sín. Siggi og
Þórhallur skiluðu ellefu atkvæðum með mökum og löglegum
afkvæmum, svo að þar voru komin þrjátíu og þrjú atkvæði.
Þá var að múta Jóhönnu gömlu í Bolabás, sem var vitlaus í
herta þorskhausa, og síðan hvíslaði ég að Dodda í Skuld að
ef ég næði kosningu í bæjarstjórn, þá þyrfti hann ekki framar
að hafa áhyggjur af hafnsögumannsembættinu sem hann var
búinn að sækja um stanzlaust síðan um aldamót. Doddi réði
yfir fimm atkvæðum með hyski sínu og Jóna átti tvær dætur
pipraðar á kosningaaldri, svo að þarna lágu þá fjörutíu og eitt
atkvæði alls eða aðeins einu færra en ég þarfnaðist til þess
að ná kosningu.
„Þú heldur ekki að einhver kjósi mig út á andlitið?" spurði
ég tengdapabba þegar við fórum yfir listann.
„Hvaða.andlit?" spurði hann og glotti. Það hefur sjálfsagt
setið í honum brandarinn sem ég sagði á kostnað Jóhönnu,
en auk þess var hann meinfýsinn skratti. Hvað um það; hann
sagði að í pólitík dygðu engar hugsjónir.
„Jafnskjótt og þú ferð að hafa hugsjónir,“ sagði hann,
„að ég nú ekki tali um hugsjónir um andlitið á þér, þá ertu
kolfallinn."
Nú, við byrjuðum að líta í kringum okkur hvort við eygðum
hvergi fertugasta og annað og úrslitaatkvæðið, en hvar sem
við bárum niður voru hinir frambjóðendurnir búnir að koma
okkur í forkaupið. Finna barnakona var komin með spánýtt
sjal og Kristján frá Læk var loksins búinn að eignast yfir-
frakka og það rann ekki af Steinþóri á Hvoli, svo að ekki
þurfti maður að eyða tíma í hann. Þetta leit afleitlega út.
Kosningasmalar andstæðinganna voru búnir að fínkemba
plássið, og hvar sem við renndum og hverju sem við beittum
á krókinn, þá var sama ördeyðan alls staðar. Ég virtist vera
dæmdur til að verða fallframbjóðandi út á eitt atkvæði.
Ég leyni því ekki að ég var beiskur. Mér fannst það hart
og nánast grátlegt að eiga að bíða pólitískt skipbrot vegna
annars eins smáræðis. Það er allt i lagi eins og alþjóð er kunn-
ugt að gerast strandkapteinn eftir að maður er búinn að
tryggja sér verðugan sess í pólitík. En að verða pólitísk-
ur strandkapteinn og komast yfirleitt alls ekki á flot, það er
fyrir neðan allar hellur. Það er gert grín að manni og stelp-
urnar hía á mann og strákarnir kasta í mann þorskhausum
eins og kom fyrir mig einn daginn þegar ég var að dorga.
Um kvöldið sagði ég við tengdapabba:
„Á ég að trúa því, tengdapabbi, að í allri Þrönguvík sé
ekki ein einasta ærleg sál á kosningaaldri sem ekki er búin
að selja samvizku sína?“
„Við skulum líta aftur á listann,“ sagði tengdapabbi.
„Það þýðir ekkert að liggja yfir neinum djöfuls listum,“
sagði ég. „Þetta er tapað spil.“
„Talaðirðu við hann Dóra?“ spyr tengdapabbi.
„Hékk yfir honum í allan morgun,“ segi ég.
„Bauðstu honum sorphreinsunarbitlinginn ef þú kæmist i
bæjarstjórn?" spyr tengdapabbi.
„Bauð honum meir en það,“ segi ég. „Bauð honum að auki
ókeypis kastskeyti og aðstoðarmann eftir eigin vali árið um
kring til þess að jaska út.“
„Úr því Dóri beit ekkj á þetta agn, þá er óhætt að afskrifa
hann,“ segir tengdapabbi „Enginn maður er svo sterkur á
svellinu að hann geti hafnaS sorphreinsunarbitlingnum með
kastskeyti og undirtyllu, nema honum hafi þá boðist tvenn
kastskeyti og tvennar undirtyllur. sem er annað mál.“
„Jú,“ segir Jóhanna sem kemur utan úr kálgarði rétt í
þessu másandi og blásandi.
„Hvað áttu við, skepnan mín,“ segir tengdapabbi.