Vikan


Vikan - 01.11.1962, Blaðsíða 14

Vikan - 01.11.1962, Blaðsíða 14
SMÁSAGA EFTIR_ JÓRUNNIÓLAFSDÓTTUR. ÞEGAR MOLDIN Hann situr hugsi og handleikur til skiptis sendibréf og símskeyti, sem liggja á borðinu fyrir framan hann. Tvö skeyti svo ólík að efni og áhrifum, sem næturskugginn er árdagsskininu. Annað að vísu kveðja að heiman, yljað af kærleika elskaðrar móður, en rökkurrím engu að síður, sár tónn frá hörpu sorgarinnar. Hitt sönnun um sigurvinning — uppfylling heitrar óskar, fyrirheit um fyllri auðnu, — gullinn strengur á gígju gleðinnar. Svona var lífið — litbrigði Ijóss og skugga, töfrum stung- in tilbrigði tiginnar hljómkviðu. Á miða, sem vafalaust var merktur tárum, meiru en einu, skrifaði móðir hans með nettri og stílfastri rithönd sinni þessi orð: „Faðir þinn er látinn. Féll skyndilega að morgni dags................ í miðju starfi. Ég stend ein eftir með jörð og bú, þreytt kona með þraut sorgarinnar. Ég þrái þig sonur minn, sendu mér línu sem fyrst og segðu alveg ákveðið hvort þú ætlar að koma heim og setjast í sæti föður þíns, eða halda áfram námi og hefja síðan starf fjarri æskuheimili og ættbyggð. Veljirðu þann kostinn þá ertu mér glataður, en komir þú heim, þá kveikir þú hjá mér það ljós, sem mun lýsa mér og ylja til ævi- loka. Mundu að þú ert það eina, sem ég á eftir — allt annað hefir verið frá mér tekið. En komdu samt ekki, ef það stríðir á móti heitustu löng- un þinni og sannfæringu. Ég vil enga fórn þiggja, ekki einu sinni af þér. Lífið hefur kennt mér að taka ósigrum — líka þeim, sem valda þeim undum, sem alltaf standa opnar. Gjörðu upp við sál þína og sannfæringu og segðu 14 VIKAN mér síðan sannleikann allan. Það eitt sem er heilt, tek ég gilt. Blessaðu minningu föður þíns, hvar sem þú ferð. Mundu hann hverja stund. Guð blessi þig, drengurinn minn ... Ungi maðurinn kyssir bréfið, sem skelfur líkt og laufblað í hendi hans, svo brýtur hann það saman og leggur það á borðið. Augu hans eru hulin móðu og það er sem köld hönd grípi um hjartans innstu rót. Þetta er í fyrsta sinn, sem sorgin sækir hann heim og kveðja hennar er svo köld, að sá heimur sem augnabliki áður brosti við honum, fullur af birtu og blæ, yl og yndi, virðist honum nú sem klakabrynjað hverfanda hvel. Ungi maðurinn réttir höndina eftir símskeytinu, flettir því sund- ur enn á ný og les: — Hlauzt hæsta námsstyrkinn. Framtíðin tryggð. Til hamingju .. - Þetta var það, sem hann hafði þráð lengi, að fá þennan styrk, svo að hann gæti lokið lærdómnum, numið við þann háskóla er- lendan, sem hann var nú innritaður í og sem hafði verið óska- draumur hans frá ævinnar morgni — og geta síðan helgað sig þeim hugðarefnum, sem þrýstu á eins og heitur straumur. Á öllum augnablikum öðrum hefðu þessi tíðindi geislað gleði- stöfum inn í sál hans og lyft honum í hærra veldi, en nú gjörðu þau aðeins að rugla hann, þau voru eins og falskur tónn í fáguðu verki, sem örlagagyðjan skóp. Nú sá hann ekki lengur æfintýraljómann um lærimeistarann, sem átti æðsta heiðurssætið í háreistum sal, hann sá ekki lengur skjalaskápa og þiljur þaktar dýrmætum bókum — skrifborðið var ekki lengur neinn brennidepill bjartra örlaga. Hann sér aðra sýn: Hann sér heim að lágreistum bæ á lyng-

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.