Vikan


Vikan - 13.07.1939, Blaðsíða 4

Vikan - 13.07.1939, Blaðsíða 4
4 VIK A N Nr. 28, 1939 og mjög blendin í skapi. Cládíus unni henni sem augunum í höfði sér og tortryggði hana í engu, enda neytti hún þess óspart og vafði honum um fingur sér. Messalína ól manni sínum dóttur, er nefnd var Octavía, og seinna son, sem nefndur var Britannicus. Nú var svo komið, að flestir þeir, sem eitthvað höfðu að missa, voru orðnir iöngu þreyttir á féflettingum og morðum Caligúla, en lýðurinn og herinn klöppuðu honum lof í lófa, því að hann sparaði hvorki brauð né leiki, er hann lét skrílnum í té, og hermennirnir voru ánægð- ir, ef þeir fengu mála sinn greiddann á réttum tíma. En nú var fjárhirzla ríkis- ins tóm, eftir 4 ára stjórn, og hann hafði tekið stórlán. Allir bjuggust nú við, að hinn bandóði keisari myndi byrja á nýjan leik að drepa ríka menn og gera eignir þeirra upptækar, og leggja nýja og þunga skatta á almenning. Lífvarðarforingi hans og nokkrir aðalsmenn gerðu því samsæri á móti honum og drápu hann, konu hans og unga dóttur. En þegar Caligúla var dauður, fóru morðingjarnir í hár saman, því að þeir vildu hver um sig rífa til sín völdin, og öldungaráðið varð ekki sam- mála um, hvort það ætti heldur að kjósa nýjan keisara, eða endurreisa lýðveldið. En allir höfðu gleymt, að ennþá lifði einn maður af keisaraættinni, sem að réttu lagi átti að taka við völdum. Samsæris- mennirnir mundu ekki eftir Cládíusi „frænda“, hirðfífli Caligúla. Þegar fregnin barst út, að búið væri að drepa keisarann, og allt var í uppnámi, neytti lífvörðurinn tækifærisins og tók að ræna og rupla í keisarahöllinni á Palatín- hæðinni. Hermaður einn tók eftir því, að í einu herberginu sást á mannsfætur fram- undan veggtjaldi einu. Þreif hann all- óþyrmilega í lappir þessar og dró þar fram Cládíus „frænda“, skjálfandi af hræðslu. Hann hafði falið sig þarna, er hann heyrði að Caligúla væri dauður. Hermaðurinn þekkti frænda keisarans og féll á kné fyrir honum og heilsaði hon- um með keisaranafni. Lífvörðurinn greip Cládíus og lyfti honum á skjöld og hyllti hann sem keisara yfir öllu Rómaveldi. Vinur Cládíusar, Heródes Agrippa Gyð- ingakonungur, var nærstaddur og lofaði hann fyrir hönd hins nýja keisara, að líf- vörðurinn skyldi fá stórfé að launum, ef þeir styddi dyggilega málstað Cládíusar. Öldungaráðinu féll allur ketill í eld og flýtti sér að hylla Cládíus. Nokkrir morðingj- anna fyrirfóru sér, sumir voru dæmdir af lífi, en aðrir reknir í útlegð. Cládíus gaf þó mörgum upp allar sakir og reyndist mjög vægur og mildur óvinum sínum. Ótt- uðust margir, að hann myndi hefna gam- alla mótgerða, en Cládíus lét menn halda embættum sínum, og fólk sá brátt, að hinn nýi keisari var ólíkur fyrirrennara sínum. Þetta gerðist árið 41 og Cládíus var nú 51 árs gamall. Hann hafði að heita mátti aldrei starfað við stjórnmál, en hafði kynnt sér þjóðmál og stjórnarhætti, og sennilega hefir hann erft eitthvað af stjórnkænsku forfeðra sinna: Júlíusar Cæsars, Antóníusar og Ágústusar. Að minnsta kosti hafði hann einlægan vilja og fullan hug á að feta í fótspor Ágúst- usar keisara, og má því segja, að hann setti ekki markið lágt, því að frændi hans, Ágústus, var sennilega sá mesti stjórn- vitringur, sem nokkru sinni hefir uppi verið. Það var risaverk, sem beið þessa aldr- aða og óreynda manns. Fjárhagur ríkis- ins var í kalda koli, og óreiða mikil á ýms- um sviðum. Cládíus tók til starfa með óvæntum dugnaði. Hann sýndi hina mestu sparsemi á öllum sviðum og afnam mikið af hinum skaðsamlegu hátíðisdögum, sem Caligúla, keisari 12—41 e. Kr. á ríkisstjórnarárum Caligúla voru orðnir meira en helmingur af dögum ársins og höfðu stórskaðað allt atvinnulif. Ennfrem-, ur lét hann bæta mjög slökkvilið Róma-1 borgar, og jók lögregluna að miklum mun, • útrýmdi þjófum og ránsmönnum og gekk I ríkt eftir að lögum og rétti væri ekki mis- J beitt. Beztu hjálparmenn hans við þetta viðreisnarstarf voru leysingjar hans tveir, 3 Narcissus og Pallas, sem hann gerði að' ráðgjöfum sínum. Voru þeir dugandi menn og trúir og tryggir Cládíusi. Öllum sagnfræðingum kemur saman um það, að ríkisstjórnarár Cládíusar hafi ver- ið hagsælli fyrir Rómaveldi en nokkurs annars keisara. Margir eigna leysingjum hans allt umbótastarfið, en það virðist eng- inn efi á því, að í flestum tilfellum var það keisarinn, sem var hvatamaðurinn, en Narcissus og Pallas framkvæmdu verkin. Cládíus var maður hógvær og yfirlætis- laus. Er Alexandrínumenn báðust þess, að þeir mættu reisa honum musteri, neitaði hann því, og sagðist ekki vilja verða að athlægi fyrir slíkt. — Ég hefi líka alltaf haldið, að musteri hæfðu guðunum’ einum, en ekki oss, dauðlegum mönnum, bætti hann við. Keisarinn lét reisa margar og fagrar byggingar í Róm, en aðallega vann hann að þeim framkvæmdum, sem voru til al- þjóðarheilla. Hann lét byggja nýja höfn í Ostia, hafnarborg Rómaborgar, með vold- ugum öldubrjótum og stórum vita. Áður hafði það verið alvanalegt, að komskipin frá Egyptalandi urðu að liggja vikum sam- an úti fyrir, ef stormur stóð af hafi, því að gamla höfnin var svo slæm. Hann kom líka á reglubundnum skipagöngum frá Afríku og Sýrlandi til Ostia, vetur og sum- ur, svo að matvæli voru næg í borginni og hungursneyð, sem áður var alvanaleg, var þar með úr sögunni. Hann lét ræsta fram Fucinusvatnið, og fékk þannig geysi- stórt landflæmi af ræktanlegri jörð, þar sem þúsundir bændabýla voru reist. Að framræslunni unnu að sögn 30 þúsundir manna óslitið í 11 ár. Einnig byggði hann tvær heljarmiklar vatnsleiðslur, sem bættu úr neyzluvatnsskorti Rómaborgar. En merkilegust var þó umhyggja hans fyrir skattlöndunum. Hann hafði strangt eftirlit með landstjórum og embættismönn- um, svo að þeim gafst ekki tækifæri til að féfletta þegnana eins og áður var al- gengt. Má vera, að þessu hafi valdið, að hann var sjálfur fæddur í einu skattland- inu, nefnilega í Lyon í Gallíu. (Frakklandi), og honum hafi því runnið blóðið til skyld- unnar. Hann fékkst mikið við að endurbæta löggjöf og réttarfar, og útrýma mútuþæg- um dómurum. Hann tók oft persónulega þátt í starfi dómstólanna, og vakti það mikla eftirtekt og var illa séð af mörgum, sem gjarna vildu koma við hrekkjum og lagakrókum. Hógværð og góðlyndi keis- arans espaði oft frekjudólga og ofsamenn upp á móti honum í dómarastarfi hans. Fara af því margar sögur. Eitt sinn hafði Cládíus stefnt vitni til að mæta í réttin- um, en annar kom til þess að tilkynna and- lát vitnisins. Keisarinn þráspurði manninn um orsakirnar til fjarveru hins stefnda. Maðurinn varðist lengi allra frétta. Að lok- um gall hann við: „Hann er nú dauður. Það getur víst enginn meinað honum að hrökkva upp af.“ Eitt sinn kallaði sökudólgur einn keis- arann „gamlan asna“, og annar varð svo tvitlaus af reiði, að hann tók rittöflur sín- ar og griffil og grýtti í höfuðið á Cládíusi svo blóðið fossaði úr honum. Stundum mis- notaði fólk sér svo mjög góðmennsku og umburðarlyndi keisarans að það reyndi að halda honum föstum, eftir að hann hafði slitið réttinum og neyða liann til að halda áfram, svo að hann varð að rífa sig lausan. Hann gleymdi heldur ekki, að lýðurinn vill skemmta sér, og hélt stórfenglega skilmingaleiki í hringleikahúsinu, og kapp- akstur í paðreim hinum mikla. Varð hann því mjög vinsæll meðal alþýðu. Eitt sinn var Cládíus í Ostía, og flaug þá skyndilega sú fregn um borgina, eins og eldur í sinu, að búið væri að myrða keisarann. Hóf þá lýðurinn upp óp og kveinstafi og ásakaði öldungaráðið fyrir morð á velgerðamanni og föður Rómalýðs. Lá við að öldungarnir væru allir drepnir, áður sannað varð, að þetta var flugufregn ein. Cládíus sendi Aulus Plautius hershöfð- ingja sinn með her manns til að vinna Eng- land. Keisarinn kom sjálfur á vígvöllinn Framh. á bls. 18.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.