Vikan


Vikan - 20.08.1998, Page 18

Vikan - 20.08.1998, Page 18
másagnakeppni ekkert upp úr glasinu. Ég læt sem ekkert hafi í skorist og sest í sófa á móti Astu. A milli okkar er glerborð þar sem listaverkabókum hefur verið raðað á ásamt fáeinum kaffi- blettum sem virðist hafa verið komið fyrir af handahófi. Það hlýtur að vera þreytandi að halda glerborði skínandi hreinu. Þeirri fáránlegu hugmynd skýtur upp í kollinum á mér að svona gæti heimili Arnold Stocks hugsanlega litið út. Þá myndi ég lenda í því að þrífa glerborðið. Verð að muna eftir að henda auglýsingunni. “Jæja, hvert er tilefni veisl- unnar?” spyr ég hátíðleg eins og hæstaréttardómari og dreg upp blokk og blýant. Ég á erfitt með að tala fyrir verkj- um í kinninni. “Ég er að fara að halda upp á 30 ára afmeyjunarafmælið mittsegir konan. Ég get ekki neitað því að þetta setur mig aðeins út af laginu en glósa það samt skilmerkilega hjá mér. “Hvernig snittur viltu?” “Ég vil að þær séu með grænmetisáleggi. Ég er grænmetisæta. Ég var ung gefin káli.” "Myndu agúrkur hæfa?” spyr ég varfærnislega. “Já, já, mér er alveg sama. Bara að það sé grænmeti á þeim. Nei, guð! Hvað kom fyrir andlitið á þér? Þú ert stokkbólgin.” “Ég var lamin á leiðinni hingað.” Það er ekki að sjá að konan kippi sér neitt sérstaklega upp við það að gestir hennar lendi í barsmíðum við útidyrnar hjá henni. “Frænka mín var einu sinni alltaf að láta lemja sig. Hún sagðist samt alltaf bara hafa rekist á skáp. Allir trúðu því, enda vann hún í IKEA. Fólk komst ekki að hinu sanna fyrr en konan hætti að vinna þar og ekkert lát varð á bólgnum augum.” Ásta hallar sér fram í stólnum og réttir mér höndina út úr laufþykkninu. Eitt andartak held ég að hún ætli að pota fingrunum í augun á mér til að auka vanlíðan mína en þess í stað strýkur hún kinnina á mér: “Það er eitt sem hægt er að telja konunum í minni fjölskyldu til tekna. Við vitum hvað glóðaraugu eru lengi að hverfa. Ég gef þínu ekki meira en þrjár vikur.” “Á maður ekki alltaf að leggja hrátt kjöt á glóðar- augu?” spyr ég. “Hér er ekki til neitt kjöt. Og þó. Kannski eru til bjúgu frá 1944 sem sonur minn kaupir stundum. Þú ferð samt ekki að stinga þeirn í augað á þér.” Við þegjum í dálitla stund þar til rifjast upp fyrir mér af hverju ég kom hingað. “Vildirðu snittur og brauð- tertur fyrir fimmtíu manns?” “Ó já, fimmtíu manns. Fjöl- skyldan nrín plús allir þeir sem ég hef sofið hjá.” "Heldurðu að þeir komi allir?” “Ég sendi boðskort og þar af meira að segja eitt til Ibiza og eitt til London. Ég vona að þeir komist.” “Þú hefur ekki haft nein náin kynni við einhvern frá Pensacola?” Ásta hugsar sig um. “Nei,” svarar hún svo. “Ég held bara ekki.” Ég get ekki látið hjá líða að spyrja hvað manninum hennar finnist urn veisluna. “Hvaða manni?” spyr Ásta hvumsa og ég skammast mín fyrir hvað ég er smáborgara- leg að hafa ósjálfrátt gert ráð fyrir að það væri húsbóndi á heimilinu. “Ég átti einu sinni mann en eftir að hann fékk horn- himnur úr ungri stelpu breyttist hann. Varð bara allt annar, allur eitthvað svo væm- inn og kellingarlegur. Hann sagðist sjá lífið með allt öðrum augum. Einn daginn þegar ég kom heim var hann að taka saman draslið sitt. Hann flutti inn til mannsins í næsta húsi. Það er ekki lítið hallærislegt að hitta þá úti í búð. Ég bauð þeim samt í veisluna.” Ég þakka fyrir mig, stend upp og kveð. Frammi á gangi reima ég á mig þvala skóna. “Þig vantar ekki túlk í veisluna, er það nokkuð?” spyr ég Ástu og um leið og ég opna útidyrnar. “Hvernig túlk?” “Ég tala dönsku.” “Dönsku? Nei, ég man ekki eftir því að hafa sent neinum Dana boðskort. Þakka þér samt fyrir.” Ég er nærri því komin út að torginu þegar Ásta kallar á eftir mér: “Heyrðu, ertu ekki örugglega á lausu?” “A lausu?” spyr ég og held til baka til að þurfa ekki að gala persónulegar upplýsingar um mig yfir hverfið. “Já, á föstudagskvöldið.” “Já, þannig. Jú, jú.” “Gætirðu ekki uppvartað?” Ég kinka kolli. “Áttu einhverja skemmti- lega vinkonu sem getur komið með þér?” “Nóg af þeim. Viltu að ég taki eina með?” Ásta réttir upp annan þumal- inn til samþykkis, hverfur inn og lokar á eftir sér. Kjóllinn hennar verður eftir á milli stafs og hurðar. Ég horfi á rauðan bútinn nokkra stund, nógu lengi til að sannfæra sjálfa mig um að Ásta hljóti að hafa rifið kjólinn um leið og hún sneri sér við en sitji ekki föst. Gangstéttin liggur marflöt og ekkert gefur til kynna að þar bíði lúmskt og dúandi dý. I fyrstu ætla ég að taka á mig krók fram hjá henni en sé mig um hönd. Ég sest á miðja stéttina og set á mig hettuna áður en ég leggst út af. Síðan geri ég engil, blaka hand- leggjunum upp og niður og færi fæturna sundur og saman. Fyrst þarf dálitla áreynslu til að koma róti á harðnandi steypuna, síðan verður þetta leikur einn. Blak, blak, blak. Það hlakkar í mér. Verka- mönnunum á svei mér eftir að bregða þegar þeir mæta til vinnu á morgun og þurfa að byrja daginn á því að fylla upp í engilinn minn. Ég heyri fólk nálgast og hætti að blaka mér. Held niðri í mér andanum á meðan tvær menntaskólastelpur labba fram- hjá mér með skólatöskur. Þær taka sem betur fer ekkert eftir mér. Helst ætti ég auðvitað að gefa mig fram og ráðleggja þeim að velja sér annað framhaldsnám en dönsku. Aldrei að vita nema stúlkurnar hafi nú þegar hug á að leggja hana fyrir sig. Það er bara ekki mikil eftirspum eftir fólki með dönskukunnáttu. Húsin mynda skjólborg yfir mér og í gluggunum kviknar hvert ljósið á fætur öðru. Fólk er greinilega komið heim úr vinnu. Kvöldfréttirnar berast út um eldhúsgluggann á næsta húsi. Fréttaþulurinn talar um Vædderen með íslenskum framburði. Ég hlæ smá innra með mér. Norðurljósin hafa breitt úr sér yfir himinhvolfið. Að hugsa sér að enginn hafi fengið einkaleyfi á þeim til að geta selt að þeim áskrift. Nema við séum áskrif- endur að norðurljósunum án þess að vita af því. Kannski gaf Guð okkur þau í sárabætur fyrir kuldann og kallana á þingi. Þegar illa gengur ætlast Hann til þess að við hugsum: “Hei, við höfum þó að minnsta kosti norðurljósin!” Ég verð að muna eftir að teikna norðurljósin í glósubókina mína. Það er kominn tími til að skunda heim í mat. Þegar ég ætla að standa upp kemst ég hvergi. Ég sit föst hvemig sem ég rykki og róta mér. Ég er eins og pipar- kökukerling í deigi. Fyrst hvarflar að mér að hrópa á hjálp en hætti við það. Ég get alveg eins legið hér eins og heima hjá mér. Bara að hann frysti ekki í nótt. 18

x

Vikan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.