Menntamál - 01.12.1961, Side 45
MENNTAMAL
231
leg. Hana mætti nota í hljóðfræði handa börnum og ung-
lingum, en kennsla í þeirri grein ætti að ganga fyrir ann-
arri málfræðikennslu. Einnig væri hún nauðsynleg í fram-
burðarorðabókum við hæfi almennings. Væri að slíkum
ritum hið mesta hagræði fyrir kennara, söngvara, upp-
lesara, leikara og marga fleiri. Ekki þarf að ræða nauð-
syn þess, að kennarar hafi hentugar bækur til stuðnings í
þeim mikilvæga þætti móðurmálskennslunnar, sem hljóð-
fræðin er. Leitt er fyrir söngvara, sem læra listir sínar á
mörgum árum í suðrænum löndum, að vera að því loknu
fákunnandi um sum frumatriði í grein sinni, svo sem
hvernig syngja beri orðin hjarta, piltur og myrkur. Upp-
lesarar og leikarar þurfa auðvitað að geta haft á valdi
sínu helztu mállýzkur landsins, þegar svo ber undir, en
um leið gætu þeir lært annað, sem er kannski ennþá tíma-
bærara, að forðast mállýzkurugling og tilgerð, sem brýt-
ur í bága við aldagamlar framburðarvenjur.
Hér skal nú gerð grein fyrir hljóðritun, sem er ekki
miklu ónákvæmari en hljóðritunin í orðabók Blöndals.
Allir bókstafir, sem hér eru notaðir, eru til á íslenzkum
ritvélum. Reynt er að víkja eins lítið frá hefðbundnum
stafsetningarreglum íslenzkunnar og mögulegt er, svo sem
um táknun á tvíhljóðum og lengd sérhljóða, aðblæstri,
fráblæstri, röddun og röddunarleysi samhljóða. Þessi skil-
yrði gera hljóðritunina að vísu flóknari en ella. Þó er
fimm bókstöfum sleppt, é, x, y, ý og z, en aðeins tveim
bætt við í staðinn, q og w. Þetta stafróf er því einfaldara
en hið hefðbundna, og má hiklaust fullyrða, að þessi hljóð-
ritun sé auðlærðari en stafsetningin er nú. Sést það glöggt
af því dæmi, að hljóðið ei hefur hér aðeins eitt tákn, en í
núgildandi stafsetningu má tákna þetta sama hljóð á tíu
vegu: ei, e, eg, egj, ey, eyj, eygj, eig, eigj, eyg.
Bókstafurinn q sem bætt er við stafrófið merkir sama
hljóð og g í orðinu dagur, en g er látið tákna sama hljóð-