Menntamál - 01.12.1961, Síða 56
242
MENNTAMÁL
Flestir unnu í sveit, eða 30%, um 15% voru í fiskvinnu
og 12% í Vinnuskóla Reykjavíkur. Allmargir piltar unnu
venjulega verkamannavinnu, eða um 7.5%, um 2.4% við
byggingar, og 2.8% fóru á sjóinn. Mikill hluti þessara ung-
linga hefur unnið allt leyfið, til dæmis flestir, sem voru í
sveit. Aðrir hafa tekið sér eitthvert sumarleyfi, en venju-
lega stutt, eina eða tvær vikur.
Ég nefndi áðan Vinnuskóla Reykjavíkur og tel rétt að
fara um hann nokkrum orðum. Vinnuskólinn tók til starfa
árið 1951, og vinna bæði piltar og stúlkur 13—15 ára á
vegum hans. Hann er rekinn af Reykjavíkurbæ með sér-
stakri forstöðunefnd. Vinnan er að mestu leyti útivinna
við skógrækt, landbúnaðarstörf, sjóvinnu, í skrúðgörðum,
íþróttasvæðum og barnaleikvöllum. Lögð er áherzla á að
kenna rétt vinnubrögð og venja unglingana á skyldurækni
í starfi og snyrtimennsku í frágangi. Vinnutíminn er
stuttur, 5—6 stundir dag hvern og kaupið lágt. Samt sem
áður er mikil aðsókn að skólanum, því að foreldrar vilja
gjarnan að unglingarnir vinni yfir sumartímann, og skól-
inn að nokkru leyti til kominn vegna þeirra óska borgar-
anna. Reyndir kennarar annast verkstjórn í skóla þessum,
sem starfar frá júníbyrjun til ágústloka.
Margt mætti ræða um þessa sumarvinnu unglinganna,
en hér verður aðeins drepið á fátt eitt. Menn eru sam-
mála um, að hin raunhæfu kynni af atvinnuvegum þjóð-
arinnar séu mjög jákvæð og þroskandi, ekki sízt dvöl
borgarbarna í sveit, svo og hæfileg líkamleg áreynsla. í
því er falin allveruleg starfsfræðsla. Einnig geta fjár-
munir þeir, sem unnið er fyrir, komið í góðar þarfir, og
atvinnuvegum þjóðarinnar er drjúgur styrkur að þess-
um vinnukrafti. Hins vegar getur kappið stundum orðið
um of, vinnan of erfið og vinnutími lengri en skyldi. Gæti
þetta ekki sízt komið hart niður á þeim, sem mikið þurfa
fyrir náminu að hafa á veturna og fá þá aldrei nægilega
hvíld.