Menntamál - 01.12.1961, Qupperneq 93
MENNTAMAL
279
um. Nokkrir gegna öðrum störfum, eða hafa náð hámarks-
aldri til opinberra starfa. Enn aðrir eru alveg horfnir
sjónum okkar, — komnir undir græna torfu.
Hinn síðasti þeirra var Bjarni Bjarnason, sem andaðist
25. maí s. 1. — Hann hóf störf við Austurbæjarskólann
strax og skólinn byrjaði, árið 1930, og starfaði þar óslitið
til hinztu stundar.
Ég varð kennari við Austurbæjarskólann haustið 1931.
Við Bjarni vorum því samstarfsmenn við skólann til
haustsins 1960, er ég lét þar af störfum. Fimmtán síðustu
árin, er ég var yfirkennari við skólann, hafði ég nokkra
aðstöðu til þess að þekkja til starfa kennaranna á ýmsan
hátt. Ég tel, að Bjarni hafi verið í allra fremstu röð
þeirra, bæði fyrr og síðar, og þá sérstaklega er við kom
kennslu byrjenda.
Margt ber til þess, að ég leyfi mér að gefa svona yfirlýs-
ingu, og ég trúi ekki öðru en okkar gömlu félagar séu mér
sammála í þessu efni.
Bjarni var allra manna prúðastur í framgöngu og öll-
um háttum sínum, utan skóla og innan. Ég heyrði hann
aldrei mæla styggðaryrði til nokkurs manns, þó að mein-
ingamunur væri um málefni, sem bar á góma. Rósemi
hugans ríkti ávallt í fari hans og verður það jafnan tal-
in góður kostur á kennara, hvar sem hann kennir, en al-
veg sérstaklega á það vel við yngstu og óþroskuðustu nem-
endurna. Þá var reglusemin framúrskarandi, eins og auð-
vitað hjá flestum kennurum, sem ég þekki til. Undir
reglusemi heyrir stundvísi. Hún er stór þáttur í vellíðan
yngri nemenda í skóla. Ég man aldrei eftir því að ég
heyrði þess getið, að Bjarni kæmi of seint í tíma, venju-
legast var hann við sínar stofudyr, þá er klukkan kallaði.
Áhuginn og samvizkusemin knúðu hann ætíð til þess að
fórna sér af alhug fyrir starf sitt, hvert sem það var.
Þannig var þessi gáfaði og hlédrægi maður.
Ef við hefðum litið inn í kennslustund hjá Bjarna