Heima er bezt - 01.12.1960, Side 8
rumur mikill og ekki álitlegur. Ég hafði séð hann fyrr,
í leiknum, og áleit hann vera sjálfan Háa-Þór.
— Hvaða ferðalag er á þér, manni minn? spurði hann
og belgdi sig út.
— Er stúkan hérna? spurði ég á móti. Mér flaug í
hug að hún væri á bak við sviðið og þaðan horft gegn-
um glugga eða gat.
— Stúka, hér? hrópaði maðurinn og fórnaði höndum,
þó fannst mér einhvern veginn að hann mundi ekki
ætla að fara að biðjast fyrir.
— Ég á víst að fara í stúku, sagði ég.
— Einmitt. En hér er ekki gengið í stúku, vinur
minn! fullyrti rumurinn og skalf aliur af niðurbældum
hlátri. Hann var eins og fjall í jarðskjálfta. En þér skul-
uð bara ganga í stúku. Alveg sjálfsagt að fara í stúku
og vera góða barnð. Svona menn eiga að ganga í stúku,
— bara ekki hérna, — fyrir alla muni, ekki hérna. Hann
bandaði móti mér með báðum höndum, eins og væri
ég heilt heiðasafn af sauðkindum.
— Fram fyrir. Fram fyrir. Við förum að draga tjald-
ið frá.
— En hvar er þá stúkan? spurði ég og þráaðist við.
— Það veit ég ekki. Spyrjið alla aðra en mig, — fyrir
alla muni, ekki mig, minn elskanlegi. Og fram fyrir nú.
— En ég þarf að tala svolítið við Gunnar.
— Við hvaða andsk.......Gunnar? Nei, ekki sekúndu
lengur hér uppi, sagði hann lágt en ákveðið og bjóst
til að hjálpa mér niður með beinum aðgerðum, ef með
þyrfti. Mér féll allur ketill í eld og hörfaði undan hon-
um á hæl, en þá varð skyndilega einhver ójafna fyrir
svo ég missti jafnvægið og datt aftur yfir mig fram af
pallinum og niður á salargólfið. Um leið fór hávær
fagnaðaralda um salinn og margir æptu bókstaflega af
fögnuði. Ég skreiddist á Iappir og strauk hnakkann,
sem skall fyrst í gólfið og orsakaði mesta hávaðann.
Þá var slökkt í salnum, tjaldið var dregið frá og rumur-
inn stóri hóf hinar gáskafyllstu aðfarir á sviðinu, mér
sýndist hann meira að segja benda á mig, orðum sínum
til frekari áréttingar.
En nú beið ég ekki boðanna, heldur skundaði í átt til
útidyranna, eins hratt og myrkrið frekast leyfði.
Nokkrum sinnum rak ég mig á fætur eða bekkjarenda,
og mér var þrásinnis bölvað í hljóði, það vissi ég, en
það var þá ekki í fyrsta sinni á þessu kvöldi, — en það
skyldi vera í það síðasta.
Viti menn. Áður en ég komst alla leið að dyrunum
var beint að mér sterku kastljósi, svo mér lá við blind-
un. Þar var þá komin önnur daman í reiðtreyjunni og
rak stóreflis vasaljós fast upp að andlitinu á mér. Ég
nam undir eins staðar. Átti ég nú heldur ekki að fá að
fara út?
— Hafið þér ekki miða? spurði stúlkan og lét kast-
lósið síga lítið eitt.
— Ha? jú, — en ég er að fara héðan.
— Má ég sjá miðann yðar? bað hún.
Ég gat ekki íengið mig til að neita henni um svo lít-
inn greiða og dróg því upp miðann, en hún beindi að
honum kastljósinu og sagði síðan:
— Stúkan. Þér eruð með miða á stúkusæti. Hafið þér
ekki fundið það.
Ég þarf naumast að taka það fram að hún hvíslaði
þetta, eins og um feimnismál væri að ræða.
— Ja, jú en eiginlega....
— Ég skal athuga hvort það er ekki í lagi, sagði hún
enn. Fylgið þér mér eftir.
— Nei, ég held ég eigi ekki við það, svaraði ég og
tók nefsneiðing fram hjá henni. Ég þarf helzt að fara
núna, laug ég svo til viðbótar. Ég var staðráðinn í að
láta söguna ekki endurtaka sig í stúkunni.
— Jæja, sagði stúlkan og lét mig ráða, en ég var
fljótur til dyranna. Mér var orðalaust hlevpt út undir
bert loft og þegar þangað kom fannst mér eins og heilt
hús hryndi af herðum mínum — og ég gat andað
léttara.
Heima í sveitinni gat ég aftur á móti sagt frá því með
tilheyrandi stolti, að ég hefði farið í leikhúsið Iðnó og
séð þar hið stórbrotna leikrit: Háa-Þór.
Ollum fannst vegur minn hafa vaxið við það.
Endir.
LEIÐRÉTTING
í septemberhefti Heima er bezt, bls. 301—303, er greinin
Tvœr sjóferðir eftir Guðmund B. Arnason. Fyrir mistök féll
niður lokakafli greinarinnar, þar sem höf. skýrir frá fleiri
atburðum, er gerðust í þvi sama ofviðri, sem síðari þáttur
greinarinnar fjallar um. Þá hefur á bls. 303 11. lína að neðan
misprentazt moldarhríð fyrir malarhrið. Hér fer á eftir niður-
lag greinarinnar.
Þennan dag fórst bátur á Skjálfanda í fiskiróðri frá
Húsavík, stærri en báturinn okkar og fórust þar 4 eða
5 menn.
Guðmundur skáld Friðjónsson orti um þetta stór-
viðri, sem var eitt af fjórum mestu hvassviðrum, sem
ég hef komið út í á minni löngu ævi. Ég birti hér eitt
erindi. Það iýsir betur en ég fæ gert afli og ofsa storms-
ins, og sýnir að ekki er ofsögum af honum sagt í frá-
sögn minni.
„Aur og möl úr urð og hjalla
óveðrið um dalinn hrærir.
Allt er á lofti, ár og lækir
upp á móts við brúnir fjalla.
Yfir tjörnum strokur standa;
strá og hríslur bogna að foldu.
Grafin kot í grjót og moldu
gnötra stödd í miklum vanda.“
Sem vænta má hef ég á langri leið oft lent í hættum,
þar sem skammt hefur verið milli lífs og dauða. En
þótt einhver þeirra hefði orðið mér að aldurtila, mundi
ég aldrei hafa dáið jafn óánægður með sjálfan mig, eða
með meiri þrá til lífsins, en í róðrinum, sem greint er
frá hér að framan.
452 Heima er bezt