Heima er bezt - 01.12.1960, Síða 33
HEIMA_____________
BEZT BÓKAHILLAN
Guðrún frá Lundi: 1 heimahögum. Reykjavík 1960.
Leiftur h.f.
Þetta er þriðja sagan í flokknum um Köllu frá Mýrarkoti og
fólk hennar. f henni gerist það, að söguhetjan leitar aftur heim
í æskudalinn ásamt mannsefni sínu og fjölskyldu. Sennilega er
margt eftir til frásagna áður en sagnabálkinum lýkur og höfundur
skilur við fólk sitt fyrir fullt og allt. Það þarf ekki að gefa sögum
Guðrúnar frá Lundi nokkra einkunn. Það hafa lesendurnir gert
fyrir löngu síðan með því að gera hana að einum mest lesna
höfundi þjóðarinnar, enda þótt hinir lærðu listfræðingar hristi
höfuðið. Ótaldar eru þær ánægjustundir, sem Guðrún hefur veitt
lesendum sínum, síðan hún fyrst kom fram á ritvöllinn. Slíkt
verður aldrei ofmetið. Þessi saga verður ekki eftirbátur fyrirrenn-
ara sinna í því, að hún verður lesin spjaldanna á milli af alþjóð.
En eitt verður að víta. Prófarkalestur er lélegri en skyldi, og mál-
villur koma víða fyrir. Slíkt má ekki henda í svo fjöllesinni bók.
Jónas Jónsson: Aldamótamenn II. Akureyri 1960.
Bókaforlag Odds Björnssonar.
1 bindi þessu heldur höfundur áfram því verki að bregða upp
myndum af þeim íslendingum, sem settu svip á þjóðlíf vort báð-
um megin við aldamótin síðustu, og ruddu nýjar brautir eða
lögðu hornsteina að framförum þjóðarinnar á þessari öld. Alls
eru þetta 22 þættir af fólki úr ýmsum stéttum og stöðum. Ef
einkenna ætti bók þessa með einu orði, er það, að hún er vekj-
andi. Þættir þessir vekja lesandann til umhugsunar um menn
og málefni þessa tímabils, þeir vekja löngun hans til að vita
meira og þekkja fleira af fólki og atburðum sögu vorrar, og andi
hennar allur bendir huga lesandans fram á við til dáða og þjóð-
nýtra starfa. Er hún þannig fremur öðru vel fallin til lestrar fyrir
unglinga. Hins vegar er ljóst, að ekki eru allir þættirnir jafn góðir,
sem varla er við að búast, svo ólíkar persónur sem um er fjallað,
og hafa ekki allar verið jafn hugstæðar höfundi. En eins og höf-
undur dregur fram hið stóra og minnilega í fari söguhetja sinna,
er skylt að geta þess, sem er aðall bókar hans, auk hins ágæta efnis,
en það er létt og hrífandi frásögn, sem ekki einungis laðar að
lestrinum, heldur einnig fær lesandann til þess að hugsa efnið
og skapa sér sjálfum hugmyndir um menn og málefni. Aldamóta-
menn eru ein þeirra bóka, sem sagt verður um með sanni að eigi
erindi á hvert heimili, því að fátt mun betur styrkja þjóðrækni
vora og heilbrigðan þjóðarmetnað en kynnin við þá menn, sem
ágætastir hafa verið með þjóðinni.
Theodór Gunnlaugsson: Nú brosir nóttin.
Akureyri 1960. Bókaforlag Odds Bjömssonar.
f bók þessari eru skráðar minningar Guðmundar Einarssonar
refaskyttu. En saga hans er í senn ævintýraleg og einstæð, enda
þótt hann hafi aldrei staðið í hópi þeirra manna, sem mest er
um rætt í þjóðfélaginu. En sagan er hetjusaga islenzks alþýðu-
manns, og ef þetta væri skáldsaga, þá myndu bókmenntafræð-
ingarnir spinna um það langan lopa að skáldið hefði brugðið þar
upp líkingarmynd af sögu þjóðarinnar allrar, baráttu hennar og
sigrum. En hinar látlausu minningar Guðmundar refaskyttu eru
skáldlegri nokkurri skáldsögu, eins og lífið sjálft oft er, ef vér
aðeins veitum því athygli. Hér er ekki færi á að rekja söguþráð-
inn, en sagan er skýrt dæmi þess, hversu bjargast má, þegar fer
saman karlmennska og einlægt trúartraust. Því að Guðmundi
fer sem mörgum þrekmönnum, að hann hefur einlæga trú á
handleiðslu guðs og mætti bænarinnar. Hefur hann og oftsinnis
notið merkilegrar dulrænnar reynslu. Þó mun mörgum þykja
frásagnirnar af veiðiferðum hans girnilegastar til fróðleiks og
skemmtunar. En þær frásagnir vitna um það, hversu ósvikið
náttúrubarn Guðmundur hefur verið, enda kemur í ljós, að
hann hafði numið mál náttúrunnar bæði dauðrar og lifandi og
skildi það til hlítar, en í þeim skilningi hans liggur ráðningin á
færni hans sem veiðimanns. Frásögn bókarinnar er látlaus, en
stundum er þó of fljótt yfir sögu farið, því að um marga hluti
hefði lesandinn kosið að fræðast nánar. Höfundurinn, Theodór
Gunnlaugsson, hefur unnið starf sitt af samvizkusemi og djúpum
skilningi á söguhetjunni og söguefninu. Það er trúa mín, að
þessi bók 'fái sess framarlega meðal íslenzkra ævisagna.
Einar Kristjánsson: Gott fólk. Akureyri 1960.
Bókaútgáfan Víðifell.
f bók þessari eru níu smásagnaþættir. Allir læsilegir og sumir
bráðskemmtilegir. Höfundur hefur löngu lært þá list að fella
frásagnarefni sitt inn í hinn þrönga stakk smásögunnar, og hon-
um fatast ekki tökin í því formi. í flestum sögunum er ádeila og
hún oft hörð, en höfundur beitir þar miskunnarlaust vopni kald-
hæðninnar, enda er honum háðið tiltækara en flestum öðrum,
sem nú skrifa á íslenzku. En hann á einnig kímnina í fórum
sínum, og þess er ég fullviss, að honum myndi betur takast, ef
hann beitti henni meira en raun er á. Höfundur tekur margt
fyrir í daglegu lífi samborgara sinna og hæðir það hlífðarlaust.
En sums staðar skýtur hann yfir markið, svo að úr ádeilunni
verður einungis hlægileg skrípamynd, eins og í sögunni Um sum-
ardag. En höfundur hefur þegar náð þeim tökum á skáldskapn-
um, að nýtt smásagnasafn frá hans hendi er tilhlökkunarefni
þeim, sem unna hnitmiðaðri frásögn og ádeilu í skopformi.
Sigfús M. Johnsen: Herleidda stúlkan.
Reykjavík 1960. Isafoldarprentsmiðja h f.
Fáir atburðir hafa voveiflegri gerzt með þjóð vorri en Tyrkja-
ránið, enda lifði minningin um það lengi og skapaði ugg og ótta.
Hvergi mun það þó hafa greypzt jafn fast í huga fólksins og í
Vestmannaeyjum, enda voru aðstæður þar sérstæðar og ránið
sjálft enn ógnþrungnara en á öðrum stöðum. Atburðir þessir og
örlög hins hertekna fólks eru því ærin efni í stórbrotin skáld-
verk. Sigfús M. Johnsen hefur ráðizt í það fyrstur manna að
skrifa skáldsögu um atburði þessa. Er hún geysimikið verk og
fjallar bæði um ránið sjálft og sögu ungrar stúlku, sem herleidd
var í Eyjum en síðan borgið úr þrældómi á hinn furðulegasta
hátt. Höfundurinn rekur aðdraganda ránsins og ránið sjálft með
sögulegri nákvæmni, og munu engar sannfræðilegar heimildir
undan dregnar, ef þær fá varpað nokkru ljósi á atburðina. Enda
hefur höfundur kannað þessa hluti öllum mönnum betur og
áður skrifað, merkilegt sagnarit um sögu Vestmannaeyja. En eigi
verður því neitað, að sagnfræðin ber skáldsöguna ofurliði. Annað
mál er það, að atburðir þessir eru sjálfir svo sögulegir og örlög-
þrungnir og höfundur hefur lifað sig inn í viðbrögð og hugarfar
fólksins og lýsir því af svo raunsærri nákvæmni, að það gefur
bókinni varanlegt gildi og mun áreiðanlega afla henni vinsælda.
Heima er bezt 477