Heima er bezt - 01.05.1976, Blaðsíða 18
þeirra eftir stríðið, og heimildir votta, að þau voru
mjög hvort öðru bundin til æviloka. Hann mun um
skeið hafa íhugað að setjast að í Austurríki. En hvort
það var „hin ramma taug“ átthaganna eða annað, sem
réði, verður ekki sagt.
III.
Haustið 1914 kemur Marcello Haugen heim úr Mið-
Evrópuför sinni. Hann er nú þroskaður maður, 36 ára,
með mikla lífsreynslu að baki. Sérstaklega hafa síðustu
viðburðir, bæði á sviði heimsmála og í einkalífi hans
sjálfs, haft djúptæk áhrif á hann og veitt honum nýja
og meiri yfirsýn. Hann hverfur að vísu í bráð að sínu
fyrra starfi við járnbrautina, en fyrr en varir beinist
hugur hans allur að því að verja sérstæðum hæfileikum
sínum öðrum til líknar og liðs. Fjársterkir vinir, sem
hann hafði hjáipað, buðu honum aðstoð, og nokkuð
hafði hann sjálfur búið í haginn í þessu efni. Meðal
annars hafði hann á ferðum sínum aflað sér fágætra
jurta, er notaðar voru til lyfja, og þekkingar á gildi
þeirra. Móðir hans hafði líka fengist við grasasuðu, og
hennar ættmenn fleiri gefið sig að ýmsu, sem ekki var
allra.
Hann sendi umsókn til konungsins um leyfi til þess
að gerast opinber náttúrulæknir, en var synjað. Samt
hóf hann starf sitt ótrauður, þótt hann mætti ekki selja,
kom sér upp aðstöðu til móttöku þeirra, er til hans leit-
uðu, og varð jafnan vel til stuðnings og fjár. Hann
kallaði sig „ráðgjafa.“
Strax árið 1911 hafði hann keypt landskika og byggt
sér smáhýsi í fagurri skógarbrekku ofan við Lille-
hammer. Þangað hafði hann flutt aðsetur sitt frá Otta
og átti þar raunverulega heima síðan. Þrátt fyrir það
starfaði hann sem „ráðgjafi“ annars staðar um langt
skeið: í Stavanger og Bergen, stutt í hvorum stað, en
lengst í Oslo, þar sem móðir hans rak litla mjólkurbúð.
En árið 1940 flutti hann alfarinn heim til Lillehammer,
og þar var vegur hans mestur þau tuttugu og sjö ár,
sem hann átti ólifuð. Á gljúfurbarmi við lítinn foss
reisti hann sér smátt og smátt ævintýralegan bústað,
meðal annars lítið móttökuherbergi og biðstofu fyrir þá,
er á fund hans sóttu, og svo að lokum ofurlitla kapellu,
bæði handa sjálfum sér og þeim sjúklingum, er kusu
að leita einveru og kyrrðar. Á neðri hæð hússins var
bústaður vina hans, karls og kvenna, er önnuðust allt
það á heimilinu, sem ekki kom hinni sérstöku iðju hús-
bóndans beinlínis við. Á efri hæðinni bjó hann einn
með bækur sínar, grasaforða og lyf, krossinn sinn og
annað það, sem var honum meira og minna helgir dóm-
ar. Þangað upp tók hann sjúklinga sína og aðra gesti,
einn og einn í senn.
Haugen nefndi bústað sinn Svarga, sem á indversku
merkir friður. Og með árunum várð þetta friðheimur.
„Ora et Labora“ — bið þú og starfaðu — voru kjörorð
hans. Hann lét grafa þau á bakið á stólnum sínum. —
Löngu fyrr, meðan hann dvaldi stundum í litla húsinu
sínu, átti hann ofurlitla bjöllu, sem hann hringdi á jól-
um og öðrum stórhátíðum. Nú gáfu vinir hans honum
veglega klukku í turninn á Svarga. Hún var steypt á
Lillehammer og í hana greiptar ljóðlínur eftir Haugen
sjálfan að efni til á þessa leið:
„Ég er úr iðrum jarðar,
úr heimi málmsins.
Ég hlaut eldskírn — og lifi.
I hljómi mínum er boðskapur drottins.
Ég boða hátíð.“
Og það var hátíðlegt, þegar Öyvind Andersen, sem
var hjá Haugen í 42 ár, tók í klukkustrenginn, stund-
víslega klukkan fimm hvert aðfangadagskvöld, og
hljómurinn barst út yfir umhverfið.
Framhald í næsta blaði.
Landnemalíf og veiðiferðir . . .
Framhald af bls. ÍSS. ------------------------
turn. Þessu var lyft með gálga og talíu. Timbrin voru
20x60 cm, boltuð saman til að gera 80 feta hæð. Það
voru margir og flinkir menn þarna. Ég vann með
smáhópi manna, og var verkstjóri minn írskur mað-
ur, stór með rautt hár og skegg. Hann var hægur
mjög, það lá aldrei neitt á. Eitt sinn sagði hann mér
að klifra hátt upp og ganga frá burðartimbri, 30x20
cm x 3 metrar. Fyrst skyldi bolta timburklossa á
uppistöðurnar. Ég tók réttskeið til að merkja hæðina.
Það var illt að komast að þessu verki, og þegar ég
var búinn að lyfta timbrinu upp á klossana og við
horfðum neðan frá, þá var augljóst, að ég hafði
merkt vitlaust. Merkið var sett fyrir neðan á öðrum
enda, en fyrir ofan réttskeiðina á hinum endanum.
Ég var býsna niðurdreginn yfir þessu og sagði við
verkstjóra minn, sem hét James Wells:
„Það er líklega bezt, að ég fari heim með verkfæri
mín.“
„Ónei,“ segir hann, „sá, sem aldrei hefur gert nein
mistök, hefur aldrei gert neitt. Og þú bara lagar
þetta. Það er auðvelt.“ Þessi sami James Wells varð
einn af mínum beztu vinum, sem ég hef kynnzt.
Heimsstyrjöldin var nú komin í almætti sitt, og
allir, sem voru þýzkir, voru undir eftirliti. Og ítalir
voru ekki í miklu áliti. Gamall ítali, sem var einsetu-
maður, bjó í þessum bæ. Og nú þykist James Wells
vera óvinur þessa ítala. Hann sagði, að ítalaskömmin
hefði verið að tala og tala allt of mikið. Honum væri
betra að þegja, ítalaskömminni. Og svo einn daginn
brann litla húsið ítalans. Og það var James, sem
stofnaði til samskota og gaf rausnarlega, svo að ítal-
inn gæti byggt þak yfir höfuðið. Það sýndi innri
mann James. Framhald í næsta blaði.
162 Heirna er bezt