Heima er bezt - 01.05.1976, Page 20
róður og mönnum hlýnaði um hjartarætur yfir þessum
vænu fiskum og þótti vænt um að þeir höfðu róið,
meðan flestir hinna voru í landi. Undir myrkur var
snúið heim. Vindur var enn talsverður og nokkur sjór,
en svo sem ekkert verra en stundum áður.
En þá gerðist það óvænt og skyndilega að vél báts-
ins stöðvaðist, þar sem þeir voru staddir skammt austur
af Háhömrum. Bátinn tók óðar að reka fyrir sjó og
veðri í áttina að ókleifu bjargþilinu. Vélamaðurinn
reyndi allt hvað af tók og tvisvar eða þrisvar kom
hann rokknum í gang. Menn önduðu léttar í hvert skipti
og keyrðu frá bjarginu. En það voru aðeins stundar-
grið og brátt stansaði vélin fyrir fullt og allt. Það
gafst heldur ekki mikið ráðrúm til athugana, því að
þeir voru staddir örskammt undan hömrunum og bar
hratt að þeim. Hvítfextar öldurnar brotnuðu allt um-
hverfis bátskelina og kolsvartur hamraveggurinn grúfði
yfir þeim. Þeir stóðu saman framan við stýrishúsið og
skimuðu umhverfis sig. Menn voru svo sem ekkert að
æðrast, enda naumur tími til þess. Formaðurinn tók í
nefið hinn rólegasti um leið og hann sagði: „Þetta er
þá búið, piltar“. Rétt í sömu andrá skall báturinn á
klettana af heljarafli, brotnaði í spón og sökk. Ekkert
var líklegra en að þeir allir fjórir hefðu farið þarna nið-
ur með brakinu, en svo var þó ekki. Þeir stóðu sem sagt
allir á dekkinu, þegar báturinn rakst á hamarinn. Síð-
asta aldan lyfti honum hátt upp og þá gerðist það
óvænta. Ámundi og ungur piltur, sem stóð við hlið
hans, tóku undir sig stökk um leið og báturinn brotn-
aði og höfnuðu á lítilli klettasillu allhátt uppi í berginu.
Allt gerðist þetta í svo skjótri svipan, að vart mátti auga
á festa. Þeir sátu þarna um stund og horfðu niður í haf-
rótið. En þar sem báturinn var horfinn og ekkert sást
til félaga þeirra, fóru þeir brátt að huga að aðstæðum.
Þær gátu varla verri verið, því að yfir þeim gnæfði fert-
ugt standbergið.
En Ámundi smiður hafði aldrei verið fyrir það að
gefast upp að óreyndu og fór því brátt að þreifa fyrir
sér um uppkomuleið. Pilturinn, sem hafði bjargast með
honum, var líka hugdjarfur og lipur klettamaður. Með
einhverjum óskiljanlegum hætti tókst þeim félögum að
þoka sér af einni sillu á aðra og sífellt hærra upp berg-
ið, þar til þeir um síðir náðu upp á brún.
Menn voru að vonum harla fegnir, er þeir björguð-
ust, því að sést hafði til bátsins úr landi og var talið full-
víst að þeir hefðu allir farist, þegar báturinn brotnaði.
Margir fóru að kanna aðstæður, þar sem slysið varð,
og enginn þóttist geta komið auga á uppkomuleið í því
hengiflugi, sem þar er. Pilturinn ungi sagðist lítið hafa
tekið eftir því, hvar þeir fóru, því að hann hefði að-
eins gætt þess vandlega að fylgja Ámunda eftir. Þegar
svo Ámundi var spurður um þetta, gerði hann að vanda
lítið úr öllu saman og kvað þetta hafa verið það eina,
sem þeir gátu gert, og því hefðu þeir gert það og væri
ekki meira um það að segja. — Stundum hef ég reynt
nú á seinni árum að fá Ámunda til að rifja upp eitt-
hvað frá þessum einstæða atburði, en hann eyðir því
jafnan og snýr talinu að öðru. „Ég man þetta ekki vel“,
segir hann þá gjama, „enda var það ekki annað en hver
maður hefði gert í mínum sporum“. Ég hafði því ekki
erindi sem erfiði í þessari viðleitni.
En nú er Ámundi smiður sestur í helgan stein og fer
ekki lengur á vertíð eða í eftirleitir til fjalla. Hann er
kominn hátt á níræðisaldur og heldur sig oftast heima
við. Þó er hann sístarfandi og þá einkum við smíðar.
Bregður hann sér næstum daglega í smiðju sína, kyndir
aflinn og hamrar rauðglóandi skeifnatein á steðja, svo
að undir tekur vítt um kring. Hann hfir mjög heilbrigðu
lífi, drekkur vænan sopa af þorskalýsi á hverjum morgni
og kyngir honum með öðrum ekki minni af brennivíni.
Önnur er óreglan ekki, nema þá fáein neftóbakskorn
öðru hverju, sem varla tekur að hafa orð á.
Það var því ekki líklegt að Ámundi ætti eftir að
standa í stórræðum og drýgja dáðir í líkingu við það,
sem hann gerði á yngri árum, enda varla við því að bú-
ast með mann kominn fast að níræðu. Samt fór það svo,
að hann lenti í ævintýri og því ekki svo litlu. Hefði það
getað orðið nokkuð alvarlegt og leit illa út um skeið,
en allt fór þó vel að lokum.
Kunningi Ámunda, jarðýtustjóri hér í nágrenninu,
maður á besta aldri, stór og sterkur og vænsti drengur,
en nokkuð óreglusamur á köflum, bauð honum með sér
í ökuferð á fögrum sumardegi. Var þetta fallega gert
og ekkert við það að athuga, nema hvað jarðýtustjórinn
var alldrukkinn og gekk flaskan milli þeirra um stund í
bílnum. Þeir óku sem leið hggur yfir sanda og austur í
næstu sveit. En hjá því fer ekki að brennivín hafi ein-
hver áhrif, þegar þess er neytt að marki, og varð endir-
inn sá að kunningi Ámunda gerðist ærið syfjaður, enda
sólfar og heitt í veðri. Gáði hann samt ekki að því, að
stansa farartækið í tíma, heldur ók áfram sem ekkert
væri. Er þeir voru komnir um það bil tíu kílómetra hér
austur fyrir, sigraði svefninn jarðýtumanninn, og ók
hann út af veginum á allmikilli ferð og hvolfdi þar bíln-
um. Ámundi vissi varla, hvaðan á sig stóð veðrið, því
að þetta gerðist í skjótri svipan, en von bráðar tókst
honum að brjótast út úr jeppaflakinu og fannst hann
vera ómeiddur. Tók hann því næst að skyggnast eftir
ökumanni, en fann hann ekki nálægt því strax. Loks
kom hann þó auga á hann, þar sem hann lá krepptur og
skorðaður undir stýrinu og virtist meðvitundarlaus.
Reyndi Ámundi að vekja hann til lífsins, en það bar
engan árangur, svo að hann áleit að maðurinn væri rot-
aður og kannski dauður. Það var því ekki um annað að
ræða en leita hjálpar. Beið hann þarna um stund, ef
svo kynni að vera að einhverjir ættu leið um veginn,
en aldrei þessu vant kom engin bíll í sjónmál. Ámundi
lagði því af stað heim og varð að ganga alla leiðina og
fór greitt.
Hann hafði lent með höfuðið í framrúðu bílsins og
var talsvert skorinn og blæddi úr. Heimamönnum brá
ekki lítið, þegar þessi næstum níræði öldungur kom
heim alblóðugur og sagði að jarðýtustjórinn lægi rot-
aður undir bíl sínum austur á söndum. Var hann spurð-
ur, hvort hann sjálfur væri ekki slasaður, en hann gerði
Framhald á bls. 166.
164 Heima er bezt