Heima er bezt - 01.05.1976, Side 34
verið mér óslitinn sælutími, ég hef notið hverrar stundar
með þér, og það væri ekki sársaukalaust að fara frá þér, þó
ekki væri nema um stundarsakir. Ég hef horft út á sjóinn
og séð litla báta vera að veiðum hér meðfram ströndinni,
og ég veit að margir í Ærnesi hafa sæmilega atvinnu af því
að eiga trillur og stunda handfæraveiðar. Við eigum heima
svo nærri Ærnesi, að mér væri í lófa lagið að stunda slíkar
veiðar, og fara á dráttarvélinni á milli. Þá gæti ég hagað
störfum mínum eftir því sem á stæði hverju sinni.
Sigríður nam staðar og fékk hann til að setjast hjá sér á
þúfu við veginn.
— En yrðir þú þá ekki á sjónum í vondum veðrum? Ég
verð aldrei svo gömul, að ég gleymi aprílveðrinu, og því,
sem ég varð þá að líða. Ég yrði alltaf hrædd um þig.
— Nei. Handfæri stundar maður ekki á svona litlum
bátum nema í góðu veðri, og haust og seinni hluta vetrar
er róið stutt, eða eftir því sem birta leyfir. Þú þyrftir aldrei
að óttast um mig veðurs vegna. Ég býst ekki við, að þetta
gæfi af sér stóran pening, en svona gæti ég unnið sem
aðstæður leyfðu.
— En hvar getur þú fengið bát?
— Það vill þannig til, að í Ærnesi er víst til sölu tveggja
tonna trilla. Eg ætla að fara á morgun og athuga málið. Ef
ég fæ bátinn, fer ég strax að róa. Róðrarnir verða aldrei svo
stöðugir, að mér gefist ekki tími til að sinna því, sem ég
þarf að gera hér heima fyrir. A sjónum í góðu veðri, hér
heima þegar ekki er hægt að róa, ætti að vera mjög hentugt
fyrir mig. Þú kemur með mér á morgun. Ég lít þannig á, að
konan eigi alltaf að vera í ráðum með manni sínum.
— Og mér þykir sérstaklega gaman að fylgjast með öllu,
sem þú gerir, sagði hún og stóð upp. — En ef þú fiskar
eitthvað, ætlar þú þá að leggja það inn hjá Sölva?
— Nei, alls ekki, svaraði hann. — Fiskverðið er að vísu
gott, en ég get saltað fiskinn sjálfur heima í kjallaranum,
og þá fáum við meiri peninga fyrir hann. Þegar ég var með
Einari fórum við einu sinni í útilegu og söltuðum fiskinn,
og þá lærði ég handtökin, og meðferð á saltfiski. En ég er
svo sem ekki búinn að fá bátinn, svo þetta er ekki nema
ráðagerðirnar, hins vegar er ég búinn að þaulhugsa málið,
svo ég flana ekki að neinu.
— Getur ekki komið til þess, að ég geti hjálpað þér eitt-
hvað? sagði Sigríður áköf. — Ég hef alltaf svo gaman af að
vinna með þér og eins að reyna eitthvað nýtt.
— Þú kemur til með að hafa nóg að gera, bæði utan húss
og innan, eins og hingað til, mælti hann og tók í hönd henn-
ar, og þau héldu áfram göngu sinni. En þegar þau voru
háttuð um kvöldið vöktu þau alllengi, og héldu áfram að
tala um þessar nýju framtíðaráætlanir.
Báturinn, sem Þórarinn hafði í huga, var til sölu vegna
þess, að eigandinn hafði skyndilega ákveðið að flytja frá
Æmesi, og var að losa sig við eignir sínar þar. Þórarni leist
strax vel á farið, þó eigi væri það stórt, og eftir að hafa
skoðað það gaumgæfilega og þrúkkað nokkra stund við eig-
andann, var hann orðinn bátseigandi í fyrsta skipti á ævinni.
Hann keypti ýmislegt Iauslegt með bátnum, og þegar gengið
hafði verið að fullu frá kaupunum, var komið undir kvöld,
og þau héldu heim.
Ekki var laust við að Björn og Sigrún yrðu undrandi yfir
þessum kaupum Þórarins, en þau viðurkenndu að fyrstu
árin yrði of lítið að gera fyrir hann við búskapinn, og með
því að róa á trillunni gæti hann hagað sér eins og hann
teldi best hverju sinni.
— Það er í alla staði eðlilegt, að þú kjósir að stunda
sjóinn öðrum þræði, sagði Björn eftir nokkra umhugsun.
— Þitt starf hefur verið á sjónum, síðan þú komst til þroska,
svo sveitin og sjórinn eiga bæði ítök í þér. Vegalengdin
héðan að Ærnesi er ekki sú nú á dögum, þegar vélarnar
eru annars vegar, að þú getir ekki sótt sjóinn þess vegna.
Hver veit, nema mig kunni að langa til að skjótast með
þér einstaka sinnum. Ég er ekki svo mikill landkrabbi, að
ég hafi ekki mígið í salt vatn. Ég fór iðulega á færi á yngri
árum, og dró eins og hver annar, en nú eru víst tækin breytt.
Eru ekki allir núna með einhverjar rúllur og nælonfæri á,
og eitthvert járnarusl með gervibeitu þar neðan í?
— Jú, svaraði Þórarinn hlæjandi. — Það eru víst fáir
sem nú nota blýsökkur og hneifar, en það er líka hægt að
setja öngla með síldarbeitu á nælonfærin. Það væri svo
sem ekki amalegt að hafa einhvern með sér á sjóinn, og ég
fékk þrjár færarúllur með bátnum.
— Ég leyfi engum að fara með þér í fyrsta róðurinn. Ég
krefst þess að fara með þér sjálf, sagði Sigríður áköf. — Það
er réttur minn, og þeim rétti sleppi ég ekki.
— Það er aldrei að þú ert áfjáð að komast á sjóinn, sagði
nú Sigrún og hló góðlátlega. — Þér hefur fallið vel þessi
eina sjóferð, sem þú hefur farið. Þú ert líka svo ung og næm
fyrir öllum tilbreytingum.
—• Ijyrsta sjóferðin verður stutt, aðallega reynsluferð, og
þú þarft ekki að óttast sjóveiki á trillunni, en hins vegar er
oft kaldsamt á þessum hornum, góða mín. Þórarinn klapp-
aði konu sinni á herðamar. — Líklega fer það svo að rifist
verður um að róa með mér, svo ég verð sjaldan einn á
sjónum.
Björn gekk um gólf og neri höndunum ánægjulega sam-
an. Honum var síst á móti skapi að fólk væri athafnasamt,
á hvaða sviði sem var, og honum fannst Þórarinn alltof
mikið karlmenni til þess að liggja í aðgerðarleysi. Þetta
fyrirtæki var líklega hreint ekki svo vitlaust þegar til kom.
— Og hvað á svo fleyið að heita? sagði hann og leit á
ungu hjónin.
Þórarinn brosti.
— Ja, það hefur nú ekkert verið talað um það, enda
enginn tími gefist til þess, svaraði hann og strauk sér um
hökuna. — Mér dettur í hug að láta trilluna heita Sigrúnu.
Þú hefur vonandi ekkert á móti því, tengdamóðir góð,
þangað til hægt verður að yngja þig upp á viðeigandi hátt?
— Þetta er ekki svo vitlaust hjá þér, sagði Björn. — Sig-
rún hefur reynst mér happadrjúg á lífsleiðinni, og sagt er,
að gifta fylgi nafni.
— Ekki hef ég á móti nafninu á trilluna, mælti Sigrún,
— þó ég hefði heldur viljað það á einhverju öðru, en það
bíður síns tíma. Vonandi að báturinn reynist vel, og færi
ykkur björg í bú. En mér finnst allt ykkar tal benda til
þess, að þið ætlið öll að æða á sjóinn og skilja mig, gamla
konuna, eina eftir heima.
— O, þú kemur þá bara líka, ef þig langar til, svaraði
Þórarinn hlæjandi, — ekki verður þú höfð útundan með
mínum vilja.
— Ég á sjó? Guð varðveiti mig frá því! Ég hef tvisvar
þurft að ferðast með skipi, ekki þó langa leið, og ég ætla
bara ekki að segja frá hvernig mér leið. Ég varð bókstaf-
lega fárveik, ætlaði að æla lifur og lungum, og mér fannst
allt rugga, lengi eftir að ég kom á land. Það verður ekki
hún ég, sem fer að æða út á sjó, nema ég þurfi þess nauð-
synlega.
Framhald í næsta blaði.
178 Heitna er bezt