Heima er bezt


Heima er bezt - 01.12.2000, Blaðsíða 7

Heima er bezt - 01.12.2000, Blaðsíða 7
Þegar við feðgar vorum að stússa við þetta kom Dóri í Tungukoti til okkar. Hann var í sláturvinnunni og hafði þann starfa að salta gærurnar. Dóri var dálítið glettnis- legur á svipinn og sagðist hafa verið að tala við þá rauðu, en það voru í hans munni þeir sem aðhylltust kenningar kommúnista. „Þeir sögðu að ég væri að taka vinnu frá fátækum þorpsbúum, sem þyrftu á öllu sínu að halda. Og raunar væri það ekkert verra athæfi þó þeir færu út í Tungukot og tækju eittvað af rollunum mínum og hefðu sér til matar. Þeir bættu því líka við að það væri algjörlega í samræmi við kenningu frelsarans um jöfnuð milli manna. Eg sagði nú svona, að aldrei fyrr hefði ég heyrt Krist bendlaðan við sauðaþjófnað. Þeir vildu þá ekki tala meira um þetta og fóru." Eitthvað á þessa leið var ræðan hans Dóra að þessu sinni. Svo kastaði hann á okkur kveðju og hélt áfram að salta gærurnar. Við feðgar vorum nokkuð lengi að hlaða öllu á kerruna. Fleira þurfti að taka en slátrin. Þar létum við líka tvo mjölpoka og kolapoka aftur við kerrugaflinn. Ofan á þessu öllu lá svo blóðbelgurinn, en blóðið var flutt í gæru sem flegin var í heilu lagi af kindinni og bundið fyrir aftan og framan. Pabbi hafði orð á að nokkuð mikið væri komið á kerruna en taldi þó að Bleikur yrði ekki í vandræðum með þetta æki. Hann minnti mig á að hvíla hestinn nokkrum sinnum á leið- inni upp á ásinn, en úr því var nokkuð jafnlent. Ég lagði nú af stað upp úr þorpinu en stoppaði við skúrinn hans fóa Davíðs til að láta hestinn blása mæð- inni. Nú var Jói þar ekki en bíllinn hans stóð þar vest- anundir skúrnum. Ég skoðaði bílinn í krók og kring. Mikið var þetta nú dásamlegt farartæki, þessi Ford vöru- bíll sem líklega hefur borið eitt og hálft til tvö tonn. Ég minntist þess hve Jói var stoltur af bílnum þegar hann kom á honum út að Ánastöðum og sagðist ekki hafa veriö nema hálftíma þessa níu kílómetra. Mikill var sá munur, en ég yrði líklega fulla tvo tíma með kerruhest- inn. Við Bleikur lögðum nú í ásinn. Hesturinn spyrnti fast við götunni og fór nokkuð hratt svo ég varð að hlaupa við fót. Nú sá ég að stúlka kom sunnan frá ánni og gekk svo upp veginn spölkorn á undan mér. Eg þekkti þessa stúlku, það var hún Ásta, fermingarsystir mín. Við höfðum verið fermd í Kirkjuhvammskirkju um vor- ið. Ásta gekk ekki hratt svo ég náði henni norðan við Melland. Við heilsuðumst. Mikið var hún Ásta falleg með þennan blíða, brosmilda svip. Og svo var hún svo vel klædd, í þessari fínu kápu. Allt í einu vissi ég ekkert hvað ég átti að segja og var ég þó ekki vanur að verða orðlaus. Mér fannst ég verða svo óskaplega lítilfjörlegur í hálfgerðum görmum og auk þess ataöur blóði og óhreinindum. Jói Davíðs, fyrsti bílstjóri á Hvammstanga, við bíl sinn. (Mynd: Húnaþing, I. hefti, 1975.) Við stóðum þarna þegjandi á veginum og ég man að Ásta var fyrri til að rjúfa þögnina. En mér er ómögulegt að muna hvað hún sagði og hef ég þó oft hugsað um þennan fund okkar þarna á veginum. Við fylgdumst að þennan stutta spöl upp á ásinn. Þá köstuðum við kveðju hvort á annað. Hún fór götuna sem lá upp að Kirkjuhvammi en ég’stautaði áfram norður veginn. Síð- an hef ég aldrei, svo ég muni, séð þessa fallegu stúlku. En það átti fyrir Ástu að liggja að verða móðir einnar frægustu fegurðardrottningar okkar, Hólmfríðar Karls- dóttur. Bleikur var heimfús og dró kerruna rösklega, okkur miðaði því sæmilega. Nú mætti ég engum, en þegar kom út á Grafarmelana kom kona á móti mér. Það var Lóa á Kárastöðum. Hún heilsaði mér glaðlega. „Sæll, Óli minn." Ég tók undir kveðjuna. „Þú ert að koma innanað." „Já," sagði ég. „Var búið að slátra lömbunum hans Jóns?" Ég hélt það. „Heyrðirðu nokkuð talað um að það ætti að vera ball á laugardagskvöldið?" Ég hafði ekki heyrt það. Svo fór Lóa að segja mér frá því þegar hún var að fara á böllin fyrr á árum. Þá var hún enn ung og ólofuð og herrarnir kepptu um að leiða hana og bera yfir ár, sem allar voru þá óbrúaðar. „Þá var nú gaman að lifa," sagði Lóa og lifnaði öll við meðan hún var ab segja frá þessu. Mér þótti líka gaman að hlusta á Lóu segja frá. En Bleikur var að verða órólegur svo ég kvaddi Lóu í flýti og hélt áfram. Þegar ég kom út að Kárastöðum var Bensi að gera við girðingu rétt við veginn. „Sæll, karlinn," sagði Bensi. „Þú ert að flytja heim slátrin." Heima er bezt 439

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.