Skírnir - 01.01.1936, Blaðsíða 7
Satt, fagurt, gott.
Eftir Guðm. Finnbogason.
Fá orð koma oftar fyrir í málinu en þessi þrjú: satt,
fagurt, gott, og svo andstæður þeirra: ósatt, Ijótt, illt.
Þau eru svo tíð og hversdagsleg, að fæstir finna þörf á
því að gera sér ljóst, hvað þau í rauninni merkja. Þó er
um ekkert meira deilt í daglegu lífi en notkun þeirra, enda
fer það að vonum, því að vér höfum þessi orð til þess að
skipa hlutunum í flokka, eftir gildi þeirra. Þau eru eins
konar vörumerki, er vér setjum á hlutina, sjálfum oss og
öðrum til leiðbeiningar í viðskiptum hvers við annan og
við tilveruna. Er þá auðsætt, að mikið veltur á því, að
rétt sé merkt, að merki hins sanna sé ekki sett á hið
ósanna, hins fagra á hið ljóta eða hins góða á hið illa, því
að með þeim hætti mundu menn verða fyrir sífelldum
vonbrigðum og viðskiptin svik ein.
Vér skulum nú reyna að skýra merkingu þessara
orða nokkuð með því að taka einföld dæmi. Tökum t. d.
setninguna: 5 sinnum 8 eru 40. Allir segja, að hún sé
sönn. Hvernig fara þeir að því að ganga úr skugga um
það? Með því að taka 5 hópa, hvern 8 einingar, og telja
saman einingar þeirra allra. Þær verða 40. Hver maður
með heilbrigðri skynsemi, sem veit hvað eining er og
kann að telja til 40, sér undir eins, að þetta getur ekki
öðru vísi verið. Hann neyðist til að viðurkenna, að 5 sinn-
um 8 eru 40. Og hann finnur ósjálfrátt, að setningin gild-
ir jafnt fyrir því, þó að hann neiti henni. Það, sem hún
segir, er veruleiki, og það er ekki ómerkilegt, að málfræð-