Skírnir - 01.01.1936, Qupperneq 62
60
Trú og vísindi.
[Skírnir
t. d. 261 sinni, þegar einstrikað c hljómar, en tvöfalt, eða
522 sinnum, þegar tvístrikað c hljómar. Hver tónn hefir
þannig sinn ákveðna sveiflufjölda. Öll þessi öldukerfi ber-
ast frá upptökum sínum í allar áttir, hvert gegn um ann-
að, endurkastast frá veggjum, gólfi og lofti kirkjunnar,
aftur og fram, unz þau dvína að lokum og hverfa fyrir
þeim, sem á eftir fara. — Eðlisfræðingunum hefir tekizt
með athugunum, hugvitsamlegum tilgátum og tilraunum,
sem staðfestu þær, að finna lögmálin fyrir þessari hreyf-
ingu loftsins og færa þau í stærðfræðilegan búning, svo
að hægt sé að reikna hvað eina út. Þessi vísindi um hljóð-
ið hagnýta menn svo hvenær sem hljóðfæri, t. d. orgel, er
smíðað, eða söngsalur. Menn hafa fundið, hvernig ein-
kenni þeirra tóna og tónasambanda, er vér heyrum, eru
bundin við einkenni loftsveiflanna: tónhæðin við sveiflu-
fjöldann, tónblærinn við sveifluformið, tónstyrkurinn við
sveifluvíddina. Samhljómur tónanna er bundinn við
ákveðin talnahlutföll milli sveiflufjölda þeirra o. s. frv.
Loftsveiflurnar berast til eyrans og setja hljóðhimn-
una í hreyfingu. Þá taka líffærafræðin og lífeðlisfræðin
við og sýna, hvernig inneyrað er sem skapað til að leiða
þessa hreyfingu og greina hana í frumþætti sína, þar sem
hún nær að orka á heyrnartaugina, er kvíslast um hinn
svo nefnda snígil í völundarhúsi eyrans. Þaðan berast svo
áhrif eftir heyrnartauginni til heilans og þar með skynja.
áheyrendurnir tónana.
Vér sjáum þá, að frá sjónarmiði náttúruvísindanna
er kirkjusöngurinn, sem eg tók til dæmis, ekki annað en
einkennileg hreyfing. Og hér má bæta því við, að þegar
vísindin leggjast dýpst í skýringum sínum á fyrirbrigð-
um náttúrunnar, verður allt af líkt uppi á teningnum.
Nýjasta stefna eðlisfræðinnar er að skýra allt, sem hún
fæst við, eftir lögmálum hinnar svo nefndu ölduhreyf-
ingarfræði, en hún er svo stærðfræðileg, að hana skilja
ekki nema römmustu stærðfræðingar.
En lítum nú á, hvað lagið er fyrir kirkjugestina, sem
á það hlusta. Það er allt annað en þessar loftöldur, sem