Skírnir - 01.01.1936, Page 94
92
Alexander Pópe og íslenzkar bókmenntir.
[Skírnir
í húð og hár, með göllum þeirrar tíðar og kostum. Hann
skortir jafnaðarlega ímyndunarauðlegð, tilfinningadýpt
og andríki; efnisval hans er takmarkað og formið ein-
hæft. Hann yrkir ádeilur, háðkvæði og fræðikvæði í klass-
iskum anda undir tvíhenduhætti (heroic couplet) ; því
hefir sagt verið, að hann hafi aðeins leikið á einn streng
ljóðahörpunnar. En innan sinna takmarka var hann snill-
ingur og enginn hans jafningi á þeirri tíð. Formfágun
samtíðar hans og orðsnilld ná hámarki sínu í ritum hans.
Að Shakespeare einum undanteknum^ mun eigi annað
enskt skáld hafa auðgað enska tungu jafn mikið að spak-
mælum og kjarnorðum tilvitnunum. Auk bókmenntagild-
is síns, á skáldskapur Pópes einnig mikið menningarsögu-
legt gildi, því að þar speglast svo margir fletir á lífi sam-
tíðarmanna hans: bókmenntakenningar þeirra, heimspek-
isskoðanir og samkvæmislíf.4)
II.
Ljóst er af því, sem að framan hefir verið sagt, að
bókmenntastefna og lífsskoðanir Pópes voru mjög í anda
upplýsingarinnar; kemur það þá eigi kynlega fyrir sjón-
ir, að rit hans féllu í frjóa jörð hjá íslenzkum upplýsing-
armönnum 18. aldar, enda má sjá þess mörg merki.
Sennilegt er, að Eggert Ólafsson, sem var að nokkru
leyti samtíðarmaður Pópes, hafi haft einhver kynni af
ritum hans;5) einnig er þeirra getið meðal bóka Hann-
esar biskups Finnssonar.0) Tvö íslenzk höfuðskáld 18.
aldar, Benedikt Gröndal eldri og séra Jón Þorláksson,
þýða merkisrit eftir Pópe, og áhrifamesti maður íslenzk-
ur á seinni hluta aldarinnar, Magnús Stephensen, hefir
einnig verið kunnugur ritum hans, því að hann snýr á ís-
lenzku bænarsálmi hans, „Universal Prayer“, og varð all-
mikið veður út af þeirri þýðingu, sem enn mun sagt verða.
Og fram á 19. öld verður kynna af ritum Pópes vart
hjá íslenzkum rithöfundum og skáldum. Tómas Sæmunds-
son virðir hann svo mikils, að hann vitnar í hann, og hef-
ir auðsjáanlega að sumu leyti átt samleið með honum í