Skírnir - 01.01.1936, Blaðsíða 160
158
Handbækur.
[Skírnir
sífelld töf og jafnaðarlegt angur. Maður er að vinna að
einhverju, og einhvers staðar í útjaðri verksins ber
fyrir smáatriði, sem óhjákvæmilegt er að vita deili á og
ganga úr skugga um. Það skiptir ef til vill ekki miklu;
það verður ekki sagt að óathuguðu máli. Maður fer
að skyggnast eftir því, og niðurstaðan verður sú, að það
þarf að gera alllangvinna rannsókn til þess að komast
til botns í því, vegna þess að enginn hefir átt við það svo
áður, að þess sjái nokkurn stað, enda þótt ef til vill fjöldi
manna hafi orðið að þramma sömu leiðina. Eftir mikla
fyrirhöfn er þetta gerathugað, og niðurstaðan er sú, að
það megi liggja algerlega á milli hluta. Þessarar rann-
sóknar sér því hvergi stað. Svo líða mörg ár, og maður er
búinn að gleyma þessu atriði algerlega, en þá ber það fyr-
ir mann á ný, og eru þá ekki önnur úrræði en rannsaka
málið í annað sinn. Eins og menn sjá, má það æra óstöð-
ugan, að verða oft fyrir slíku, en það verða þeir, sem ís-
lenzk fræði stunda. Það liggur og í augum uppi, hvílíkt
tímatjón það er, ef margir hafa orðið að gera þetta án
þess að vita hver af öðrum. Af þessum ástæðum er
nauðsynlegt, að vér íslendingar komum oss upp sér-
fræðiorðabókum.
Það er ekki neinum vafa bundið, hvar fyrst eigi að
grípa niður. Það er engin þekking, sem jafn oft þarf að
þrífa til eins og þekkingin á mönnum fyrr og síðar og
störfum þeirra. Að engu verður heldur jafn erfið leit og
að slíku. Alltaf er maður að þvælast innan um nöfn, sem
maður veit lítið eða ekkert um, og oft er það ráðgáta,
hvert á að snúa sér í stað, til þess að fræðast fljótt, en þá
vill gamla sagan endurtaka sig, að það þarf að rápa skjala-
safna á milli, unz maður er búinn að fá að vita það, sem
þarf. Munurinn er ekki lítill, að þurfa ekki annað en að
grípa upp í hyllu hjá sér og þrífa niður bók, og vera þá
svo til leiddur í allan sannleik.
Það mætti segja, að til séu presta-, lögfræðinga- og
lækna- og alþingismannatöl, og síðan sýslumannaæfir
allt prentað, — loks að prestaæfir Sighvats Grímssonar