Valsblaðið - 24.12.1960, Blaðsíða 12

Valsblaðið - 24.12.1960, Blaðsíða 12
8 VALSBLAÐIÐ ÓLAFUR SIGURÐSSON Minningarorð Vinur minn og félagi, Ólafur Sigurðsson, andaðist hér í bæ aðfaranótt laugardagsins 27. okt. 1960. Engill dauðans vitjaði hans í svefni og svæfði hann svefninum langa með einum kossi. Með Ólafi er hniginn til foldar drengur góður, sér- stæður persónuleiki og hvers manns hugljúfi. Er hans sárt saknað af öllum, er hann þekktu, og mest af þeim, er þekktu hann bezt. Hjá félagi okkar, Val, er skarð fyrir skildi við hið snögglega fráfall eins þess bezta sonar. Valsmenn drúpa höfði í þögulli sorg við missi góðs vinar og félaga. Sú staðreynd fylgir efri árum hvers manns að þurfa að sjá á bak fleiri og fleiri samferðamanna sinna yfir í landið ókunna. Sumir hverfa langt um aldur fram. Þannig virtist manni Ólafur vera burtu kallaður í blóma lífsins aðeins 52 ára að aldri. Ólafur var fæddur 17. des. 1907 í Reykjavík. For- eldrar hans voru Sigurður, f. 1878, d. 1909, trésmiður Jónssonar bónda á Fjöllum í Kelduhverfi Jónssonar og kona hans Margrét, f. 1878 d. 1960, Guðmundsdóttir bónda að Urriðafossi í Flóa, síðar veitingamanns í Rvík, Ámundasonar. Eru báðar ættir Ólafs kunnar að gáfum og atgervi. Ólafur var yngstur þriggja sona Sigurðar og Mar- grétar, en bræður hans eru dr. med. Jón borgarlæknir og Ámundi verksmiðjueigandi, báðir valinkunnir sæmd- ar- og dugnaðarmenn. Ungir að árum misstu þeir bræð- ur föður sinn og kom þá í hlut móður þeirra að sjá þeim farborða í mikilli fátækt en auðugri að þreki og vilja til að koma þeim upp til þroska og manndóms og með guð og móðurást í stafni tókst hinni ungu ekkju að sigra alla erfiðleika og koma hinum ungu sonum sínum til manndóms og mennta. Að barnaskólanámi loknu settist Ólafur í 1. bekk Menntaskólans i Reykjavík og lauk gagnfræðaprófi þaðan árið 1924. Eigi var kostur á frekari menntun að sinni, því nú varð hann að fara að vinna fyrir sér og létta undir með móður sinni. Á næstu árum lagði Ólafur á margt gjörfa hönd. Fyrst gerðist hann verzlunarmaður hjá Á Einarsson & Funk og var þar nokkurn tíma. Því næst fór hann í byggingar- vinnu, bifreiðaakstur, gerðist lögregluþjónn 1933, en 1934 réðist hann til Reykjavíkurbæjar sem framfærslu- fulltrúi og starfaði þar í vandasömu starfi við góðan orðstí til ársins 1943 eða þar til hann byrjaði sjálfstæða kaupmennsku með stofnun „Kápunnar", „Tízkunnar" og síðast „Herrabúðarinnar". Rak hann þessar verzlanir um hríð, en búnaðist illa og hætti rekstri þeirra fátækur af þessa heims auði, en ríkur af dýrt keyptri reynslu. Hóf hann nú að reka vinnustofu þá er hann starfaði að til dauðadags og nefndi Listprent. Var það ný aðferð við prentun á alls konar efni, jafnt málma sem tau eða pappír. Varð hann að lesa sig til um aðferðir allar og prófa sig áfram, þar til hann hafði öðlast þá reynslu er nægði til sjálfstæðs reksturs. Varð hann hinn fyrsti hér á landi, er hóf þessa iðju, en síðar hafa nokkrir bætzt við og flestir þeirra ef ekki allir lært af Ólafi. Tel ég að hér hafi Ólafur loks verið kominn í atvinnu- grein er hentaði honum mjög vel. Hér naut sín til fulls hans mikla hugkvæmni, óvenju þroskaður listasmekkur og listrænt auga fyrir uppbyggingu mynda. Efast ég ekki um, að hann hefði náð mjög langt í þessari listiðn ef skuldir kaupmennskutímabilsins hefðu ekki verið honum fjötur um fót. Ólafur kvæntist árið 1935 Láru, f. 1910, d. 1957 Hann- esdóttur sjómanns Jónssonar og konu hans Þorbjörgu Guðlaugsdóttur, skipasmiðs Torfasonar hér í bæ. Ólst Lára upp hjá afa sínum, Guðlaugi og konu hans, Sigríði. Lára var ágætlega gefin kona, hæglát, hjartahlý og virðuleg í allri framkomu. Heimili þeirra bar svip hús- bænda. Yfir því hvíldi blær látleysis, en um leið inni- legrar alúðar og hlýju. Þangað var gott að koma og dvelja, því bæði voru þau svo gestrisin og þægileg í allri umgengni. Ólafur var mikill og góður heimilisfaðir og unni hann sinni góðu konu og börnum þeirra tveim, Sigfried og Margréti, af hjartans einlægni og föðurlegri blíðu. Lára reyndist eiginmanni sínum traustur og góður lífs-

x

Valsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Valsblaðið
https://timarit.is/publication/399

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.