Afturelding - 01.01.1981, Blaðsíða 26

Afturelding - 01.01.1981, Blaðsíða 26
Wilhelm Busch: MERKILEG GREFTRUN Síminn hringir: „Herra prestur; eins og þér ef til vill vitið, er hringleikahús Sarrasinis á lóð safnaðar yðar. í gær dó amerísk kona, er starfaði í hring- leikahúsinu og þér verðið að taka að yður jarðar- förina." Stund og staður var ákveðin og næsta dag var ég til staðar í kapellunni. Ameríski fáninn var breiddur yfir kistuna. Starfsmaður frá jarðarfararnefndinni kom til mín og spurði: „Vitið þér að þetta er indí- ánakona, sem þér eigið að jarða? Hún bjó í tjaldi í tjaldbúðunum, en það kom upp eldur og hún dó af brunasárum.“ Indíánakona! Skyldi hún hafa verið skírð? Hversu margslungnir vegir skyldu það hafa verið, sem leiddu hana frá steppunum í Norður-Ameríku til okkar? Áður en ég gat talað nokkuð, heyrði ég hljóðfæraslátt fyrir utan. Ég fór út, undarleg sjón blasti við mér. Allir í hringleikahúsinu komu í hóp- göngu. Þrír marglitir hljóðfæraleikarar leiddu skrúðgönguna. Á eftir þeim kom forstjórinn og síð- an indíánarnir. í fararbroddi fyrir þeim gekk stór höfðingi og á eftir kom ættflokkurinn, karlar og konur með marglituðu og miklu fjaðraskrauti. Þar á eftir komu, að því er virtist, endalaus lest: kósakkar, tatarar, Kínverjar, Japanir, kabýlar, kúrekar, negrar og svo danslið leikhússins. Augu mín stönsuðu aðallega við hóp ungra reiðlistarmanna og kvenna, og voru þeir málaðir og farðaðir svo að engin tak- mörk voru sett. Þetta undarlega fylgdarlið fyllti kapelluna og þrengslin voru mjög mikil. Ég sá, að reiðlistarfólkið tók sér stöðu aftast til þess að fá betra yfirlit yfir það sem var að gerast. Ég gekk til forstjórans og indíánahöfðingjans. Þetta var í sann- leika sjaldgæf mynd. Prestur í prestsskrúða, sem heilsar indíánahöfðingja með stríðsmálningu við jarðarför. Ræðan, sem ég hafði hugsað mér að halda, lá þungt á hjarta mínu, því að slíkri jarðarför hafði ég aldrei tekið þátt í áður. Ef mér mætti aðeins heppnast að segja þeim frá hinni stuttu lífsgöngu annars vegar og svo eilífðina hins vegar. En var það yfir höfuð mögulegt? Hugsandi sneri ég mér að hringleikahússstjóranum. „Skilja allir hér þýsku?“ „Sussu nei! Fáeinir skilja aðeins ensku og flestir einungis móðurmál sitt og skilja mig einungis í gegnum túlk. Talið þér bara eitthvað. Það skilur það enginn hvort sem er.“ Ég var í laglegri klípu. Þetta virtist þýðingarlaust. Jæja, ég varð að tala til þeirra, sem skildu mig, forstjórans og þýskumælandi skrifstofufólks. Þeir höfðu augsýnilega ekki komið í kirkju í langan tíma, svo að ég vildi reyna að segja þeim frá eilífðarmál- unum. Ég las Guðs Orð og byrjaði að tala. Söfnuð- urinn var ákaflega órólegur. Stúlkurnar sátu þarna uppteknar við að púðra sig, sminka og spegla. Það hlýtur reyndar að vera ákaflega leiðinlegt, þegar skilningur á tungumálinu, sem talað er, er ekki fyrir hendi. Ég talaði til þeirra um hin erfiðu ár indíánakon- unnar, sem nú var lögð í gröf í ókunnu landi. „Einnig þið, sem komið frá hinum ýmsu löndum, eruð heimilislaus. Þess vegna vil ég gjarnan segja ykkur, að hin eilífu heimkynni eru komin til ykkar. Sál okkar er heima, þegar hún er hjá Jesú.“ Þá skeði dálítið undarlegt. í sama bili og ég nefndi nafn Jesú fór eins og bylgja eða hreyfing um allt fólkið. Þetta var orð, sem þeir skildu. Við hljóminn af nafni Jesú, hlustaði það. En ég merkti, að það var ekki aðeins, að þeir þekktu nafnið. Nei, sjálft nafnið hafði á sinn eigin hátt vald yfir þeim. Indíánarnir hneigðu sig. Austurálfufólkið, sem hafði verið mjög órólegt, varð nú kyrrlátt og Rúss- arnir litu á mig stórum augum. þarna hafði ég jarðarfararræðuna. Hún var bara þetta orð. Þetta rnikla nafn, Jesús. í hvert sinn, sem ég nefndi Jesú nafn hneigðu indíánarnir sig og allt fólkið sat graf- kyrrt. Mér varð litið til kvennanna. Allir varalitir og speglar voru horfnir; ein grét og önnur sat og draup höfði í höndum sér. Liðu hugsanir þeirra aftur í tímann til hreinna og hamingjusamra bernskuára, þar sem þær í fyrsta skipti heyrðu Jesú nafn? Ég boðaði Jesú og allt þetta mismunandi fólk, þessi misliti hópur frá hinum ýmsu stöðum á jörð okkar, var þögult fyrir honum. Það var eins og ég upplifði í smæstu atriðum það sem við öll fáum að reyna við endalokin miklu, þegar allir menn í himninum, á jörðinni og undir jörðinni, munu beygja kné sín fyrir Jesú. Þýtt Garðar Loftsson

x

Afturelding

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Afturelding
https://timarit.is/publication/406

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.