Prestafélagsritið - 01.01.1925, Qupperneq 37
Prestafélagsritið.
32 Ragnar Ófeigsson:
heilagi Frans frá Assisi bar í brjósti til hinna ómálgu guðs
barna — dýranna.
Annað boðorðið bannar að taka nokkuð það, sem ekki er
frjálslega af höndum látið — bannar með öðrum orðum að
stela. Boðorð þetta svarar þannig til 7., 9. og 10. boðorðs í
Dekalog Móse. Þessa fyrirmælis ber mönnum og að gæta í
hugsun og orðum. Lærisveinninn skal gæta þess, að láta sér
eigi til hugar koma að ágirnast það, sem öðrum heyrir til.
Sjálf ágirndarhugsunin er synd og má alls eigi birtast í orð-
um og enn síður í gjörðum. Því er haldið fram, að fullkomin
óeigingirni opni mönnum alla fjársjóðu.
Þriðja boðorðið bannar óskírlífi í hugsun, orðum og gjörð-
um. Lærisveininum ber að forðast óhreinar hugsanir og saur-
ugt léttúðarhjal. Sönnum lærisveini, sem keppir að lausn, ber
að lifa í einlífi, lifa í brahmacarya sem svo er nefnt, lifa í
helgu hreinlífi. Þetta heiti, brahmacarya, er og notað um alt
líferni lærisveinsins, sem samkvæmt hlutarins eðli hlýtur að
verða heilagt líferni, ef rétt stefna er tekin, samkvæmt fyrir-
mælum Búddha. Leikbræðrum og leiksystrum, þ. e. þeim
mönnum og konum, sem búa sig undir helgunarbrautina, er
leyft að lifa í hjúskap, en skulu aðeins forðast hórdóm og
saurlífi í venjulegum skilningi. En allir þeir, sem keppa að
lausn í þessu lífi eða næsta, hljóta að fylgja hreinlífisheitinu
til hlítar. Það er meira að segja talið höfuðskilyrði fyrir ár-
angri. Án hreinlífis getur enginn komist inn í leyndardóm hug-
leiðslunnar, öðlast æðri vizku og lausn.
Fjórða boðorðið bannar mönnum Iygar, en býður mönnum
að vera sannir í hugsun, orðum og gjörðum. Sérstaklega er
áherzla lögð á áreiðanleik í orðum. Hins vegar er varað við
kærleikslausu hlífðarleysi í orðum. Lærisveinninn á að forðast
að meiða og særa og ber því fremur að þegja en segja sann-
leikann öðrum til óheilla.
Fimta boðorðið bannar nautn áfengra drykkja. Þessu boð-
orði ber mönnum að hlýða skilyrðislaust. Fátt er talið jafn-
skaðlegt og áfengisvíman, sem svæfir þá vakandi eftirtekt, sem
lærisveinninn verður að hafa í baráttunni við sjálfan sig.